Frumvarp til laga um náttúruvernd

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 10:43:25 (6245)

1998-05-06 10:43:25# 122. lþ. 119.94 fundur 350#B frumvarp til laga um náttúruvernd# (aths. um störf þingsins), HG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[10:43]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Maður óttast að athugasemdum eins og þeim sem hér falla af minni hálfu sé tekið svona sem einhvers konar kvabbi þingmanns sem ekki telji að málið sitt fái afgreiðslu út úr nefnd. Svo er ekki. Ég gæti haft uppi lestur annan hvern dag ef ég ætti að hafa uppi kvartanir yfir afgreiðslu þingnefnda á málum sem ég hef átt hlut að.

Það frv. sem hér er um að ræða varðar geysilega víðtækt, mikilvægt og alvarlegt mál sem er efnistökumál í landinu og er hluti af náttúruverndarmálum. Sama gildir um almannaréttinn. Menn ættu að fara yfir umsagnir á liðnum þingum og þessu þingi um þessi mál. Þetta mál sem var reynt að vinna mjög vel í samvinnu við opinberar stofnanir undir umhvrn., Skipulag ríkisins og þáverandi Náttúruverndarráð m.a., er stöðvað. Það hefur ekki fengið neina efnislega umfjöllun í umhvn. En sú nefnd hefur ekki haft ýkjamikið fyrir stafni seinni hluta vetrar, síðustu mánuðina. En það má ekki taka þetta mál til efnislegrar umfjöllunar, þetta brýna mál sem allir viðurkenna að það er, vegna þess að nefnd er að störfum hjá hæstv. umhvrh. að ljúka heildarendurskoðun.

Nú heyrum við það hjá hæstv. ráðherra að það er alveg ljóst að ekki verður farið yfir þetta mál, endurskoðun náttúruverndarlaga, á þessu kjörtímabili. Það kemur kannski til umræðu á vorþinginu 1999. Mig minnir að það eigi að kjósa þá um vorið. Halda menn að eitthvað slíkt verði afgreitt?

Nákvæmlega það sama er upp á teningnum varðandi breyting á lögum um landgræðslu. Lögin eru frá 1965 og hafa ekki verið endurskoðuð síðan í heild sinni og raunar mjög lítið. Hæstv. landbrh. sagði árið 1995 um það, með leyfi forseta:

,,Hér er í ákvæði til bráðabirgða nr. II í þessu frv. lagt til að landgræðslulögin verði endurskoðuð og mig langar þá að upplýsa það við þessa umræðu að það er þegar hafin undirbúningsvinna í landbrn. við heildarendurskoðun bæði landgræðslulaga og skógræktarlaga, ...``

Ég flyt hér frumvarp þing eftir þing um endurskoðun brýnna ákvæða. Það má ekki af því að það er verið að endurskoða uppi í landbrn.