Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 10:46:22 (6246)

1998-05-06 10:46:22# 122. lþ. 119.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvG
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[10:46]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það var fróðlegt að heyra í samhengi við það mál sem hér er á dagskrá þau orðaskipti sem urðu hér síðast. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur vakið athygli á því að mikilvægir þættir náttúruverndarlaga hljóta ekki umræðu í þinginu og ekki í umhvn. af því að verið er að endurskoða þau uppi í ráðuneyti. Það er eins og venjulega að það má aldrei taka við neinu frá neinum þingmanni. Það er algerlega bannað. Menn búa við þessar aldagömlu fornaldaraðferðir í umhvrn. sem er þó nýjasta ráðuneytið. Þar haga menn sér svipað gerst hefur í ráðuneytunum og kansellíinu fyrr á öldum. Það má aldrei taka við hinu lýðræðislega frumkvæði utan úr þjóðfélaginu, ekki heldur frá þingmönnum sem þekkja betur til en margir aðrir og leggja það á sig að sinna málum eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hefur sýnt sig að gera í gegnum tíðina og allir viðurkenna að hefur gert, allir viðurkenna að hann þekkir málin í þaula. En það má samt ekki taka mark á því sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson segir af því að hann er í stjórnarandstöðu.

Þessi gamaldagsviðhorf í Stjórnarráði Íslands eru náttúrlega óskaplega ómerkileg og sérstaklega eru þau alvarleg í nýju ráðuneyti eins og umhvrn. þar sem maður hefði átt að geta vænst þess að þar væru önnur vinnubrögð en í öðrum ráðuneytum. Það segir kannski sína sögu um hinn mikla riddara sem við þéttbýlismenn höfum nýlega eignast í umhverfismálum, hv. formann umhvn., að hann skuli ekki hafa haft fyrir því að taka mál af þessum toga fyrir í umhvn. af því að þau eru komin frá stjórnarandstæðingi, af því að þau eru komin frá Hjörleifi Guttormssyni, af því að ýtt hefur verið við þeim af öðrum en hæstv. ráðherra. Þessi dónaskapur og lítilsvirðing við þingræðið sem enn þá er við lýði er náttúrlega óþolandi.

Ég vil einnig nota þetta tækifæri, herra forseti, til að óska hæstv. félmrh. til hamingju með þann mikla árangur sem hann hefur náð í því að taka mál fyrir í þinginu og tryggja að umræður um þau eru ítarlegar. Það er alveg ótrúlegt afrek hjá hæstv. félmrh. og ríkisstjórninni og réttast væri að kalla hingað inn hæstv. forsrh. Ég spyr að því, herra forseti, hvort hæstv. forsrh. sé í húsinu.

(Forseti (GÁS): Forseti getur upplýst að hann er í húsinu.)

Það væri ágætt ef hann gæti látið svo lítið að láta sjá sig einu sinni í þessum sal því að þessar umræður eru ekki búnar að standa í nema 40--50 klukkutíma og hann hefur ekki verið svo mikið hér við. Það er alveg sérstök ástæða til að óska honum til hamingju með það að umræðan hefur orðið þetta löng, óska honum til hamingju með það mikla pólitíska afrek og það mikla og djúpa pólitíska innsæi að fella það að taka á dagskrá stjfrv. um daginn. Þar sýndi ríkisstjórnin alveg hámark hins pólitíska hroka gagnvart stjórnarandstöðunni og við alþýðubandalagsmenn höfum verið svo, mér liggur við að segja, vitlausir að láta okkur detta í hug að hægt væri að gera samninga við stjórnarmeirihlutann um eitthvað, m.a. um það að skipulagsmálin á hálendinu sem ég mun fara yfir á eftir sættu tiltekinni meðferð.

Við vorum í þessu máli og erum af mikilli einlægni vegna þess að við teljum að hér sé á ferðinni alvarlegt mál. Við tókum þátt í því að reyna að lenda þessu máli og okkar fulltrúi, hv. 17. þm. Reykv., Ögmundur Jónasson skrifaði undir nefndarálit með fyrirvara. En þá eru það stjórnarleiðtogarnir í þinginu, hv. formenn þingflokka stjórnarflokkanna og hæstv. forsrh., hæstv. félmrh. og hæstv. umhvrh. sem beita sér fyrir því að málið kemst ekki á dagskrá. --- Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að hann skuli líta við í salnum, sérstaklega með hliðsjón af því að nú er að hefjast hinn fimmti tugur í tímum talið í umræðum um þetta mikilvæga mál. (KHG: Hvar er staðgengill hans?) Hæstv. varaforsrh. leit hér við rétt áðan líka og hefur samkvæmt tilkynningu forseta tekið sæti á Alþingi og er nú allt annað líf eftir að það gerðist, verð ég að segja, herra forseti. Sá sem gegnir í viðlögum hlutverki varaformanns Sjálfstfl. er núna tekinn til við löggjafarstörf að nýju og má það heita mikil framför og mikil tíðindi og góð fyrir okkur hina minni spámenn í þessum sölum.

Herra forseti. Ég tel að þessi niðurstaða hæstv. forsrh., því það hlýtur að vera niðurstaða hans, að hafna því að stjfrv. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum sé tekið fyrir, hafi borið þann árangur að menn hafa talið óhjákvæmilegt að ræða þessi mál nokkuð ítarlega. Það segir að það er til lítils fyrir stjórnarandstöðuna að reyna að gera samninga við þennan ríkisstjórnarmeirihluta, a.m.k. fyrir þingflokk Alþb. og óháðra vegna þess að ekkert er gert með það. Í rauninni má segja að þinghaldið síðan hafi borið merki þess að stjórnarflokkarnir vilji í raun og veru ekkert gera með samkomulag sem gert er, mikilvægt samkomulag sem gert er um þetta stóra mál sem hér er á ferðinni. Það er satt að segja dálítið erfitt. Og ég spyr hæstv. forsrh. og hæstv. umhvrh. sem eru báðir í salnum: Hvernig sjá þeir fyrir sér hið lýðræðislega þingstarf í framtíðinni, skoðanaskipti og samspil stjórnar og stjórnarandstöðu, ef það er svo að samningar sem gerðir eru um einstök mál eru meðhöndlaðir þannig að ekki má taka málið á dagskrá eins og gerðist hér um daginn? Ég vil nota þetta tækifæri og auglýsa eftir því að hæstv. forsrh. flytji rök fyrir hinu djúpa pólitíska innsæi sem hann sýndi með því að hafna því að málið væri tekið á dagskrá vegna þess að ég verð að játa að þrátt fyrir nokkra þingreynslu skynja ég ekki alveg rökin fyrir því í hverju skynsemin var fólgin í því að berja frá sér hugsanlega stuðningsmenn málsins eins og gert var.

Ég vil einnig nota tækifærið, herra forseti, í þessum inngangskafla ræðu minnar að óska Framsfl. sérstaklega til hamingju með stöðu málsins og sakna ég nú vinar í stað þar sem er hæstv. iðnrh., en fulltrúaráð framsóknarfélaganna í Reykjavík hefur hafnað honum. Það er mjög athyglisvert að á fundi sem haldinn var í fyrrakvöld á Hótel Borg á vegum útivistarsamtaka var lesið sérstakt skeyti frá Valdimar K. Jónssyni sem er prófessor í verkfræðideild Háskóla Íslands en er í viðlögum formaður fulltrúaráðs framsóknarfélaganna í Reykjavík. Í þessu skeyti var sérstök hylling á hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni fyrir hetjulega framgöngu hans í umhverfismálum. En þess var ekki getið í leiðinni að hinn þingmaður Framsfl. í Reykjavík heitir Finnur Ingólfsson og er hæstv. iðn.- og viðskrh. og er eiginlega að verða aðalráðherra Íslands því hann ræður öllu, enda eru vinnubrögð hans fumlaus eins og hæstv. forsrh. hefur bent á. Hæstv. iðnrh. er einkar fumlaus maður, ótrúlega fumlaus einstaklingur í alla staði. (Gripið fram í.) Hann sagði fumlaus, ekki frumlaus, hv. 7. þm. Reykv.

En nú er svo komið að Framsfl. í Reykjavík, fyrir atbeina hæstv. félmrh., er búinn að samþykkja að hylla hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson og hafna Finni Ingólfssyni og það má segja að séu mikil tíðindi í Reykjavík vegna þess að Framsfl. í Reykjavík hefur verið nokkuð samstæður flokkur. (Gripið fram í: Finnst þér þetta ekki ...?) En nú er hæstv. félmrh., sá sem síst skyldi --- heggur sá er hlífa skyldi --- búinn að kljúfa Framsfl. í Reykjavík með því að knýja fram mál sem Framsfl. í Reykjavík er á móti. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. sem hefur forræði þessa máls: Veit hann um afstöðu hæstv. iðnrh. í málinu? Ég óska eftir því að hæstv. félmrh. upplýsi hvort Framsfl. í Reykjavík sé klofinn í þessu máli því að ef hæstv. iðnrh. styður málið, þá er Framsfl. í Reykjavík klofinn í rót í þessu máli. Það er áhyggjuefni fyrir okkur sem vinnum með Framsfl. að góðum og þörfum verkum, m.a. því að halda íhaldinu frá stjórninni í Reykjavík og ég þakka framsóknarmönnum í Reykjavík fyrir ánægjulegt samstarf í þeim efnum og vona að það tryggi okkur árangur nú sem fyrr. (KHG: Nú er að biðja fyrir iðnrh.) Vandinn er sá að hæstv. iðnrh. virðist vera þarna á köldum klaka þannig að hin mikla hylling á hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson á fundinum sem birtist á Hótel Borg um kvöldið var náttúrlega ákveðin pólitísk skilaboð.

Á þessum fundi útivistarsamtakanna á Hótel Borg um kvöldið kom fram (Gripið fram í: Ólafur er ekki útivistarmaður.) að miklar tilfinningar voru í mönnum, hiti í mönnum sem eðlilegt er og það kom fram að margir þar á fundinum sáu litla von í samtíð sinni og sérstaklega kannski á þessu horni á Austurvellinum. En þó grillti í von. Það grillti í ljós í myrkrinu, í þessari svörtu þoku vonleysisins. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson er eins og lýsandi viti í þessu kolbikasvarta myrkri sem leggur út úr þessu húsi, lýsandi viti (Gripið fram í: Þér tekst vel upp.) og hjálpræði (Gripið fram í: Meira, meira.) í vonleysinu.

Herra forseti. Því miður er hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson fjarri, sjálfsagt að gegna mikilvægum skyldustörfum sem formaður umhvn. En staðreyndin er sú að þetta getur ekki þýtt neitt annað en það að Framsfl. í Reykjavík sé klofinn í herðar niður og ég beini aftur þeirri spurningu til hæstv. félmrh. hvernig hann metur þessa stöðu og þennan klofning í framsóknarfélaginu í Reykjavík, hvort hann telji þetta ekki alvarleg tíðindi. Og ég óska eftir því að hann svari því í andsvörum vegna þess að það er mikilvægt að fá um þetta upplýsingar því að þær eru hluti af þessu máli.

Þetta er nauðsynlegt að skoða í tengslum við hið almenna pólitíska umhverfi þessa máls, herra forseti, bæði það að hæstv. forsrh. geri grein fyrir því hvaða rök lágu að baki því að hann neitaði að taka málið fyrir og að hæstv. félmrh. geri grein fyrir því hvort hann telji þetta svo mikilvægt mál að það séu rök fyrir því að hafa klofið Framsfl. í Reykjavík. En það er hann sem er að því, hæstv. félmrh. Það er bersýnilegt. Hann hefur forustu um það að kljúfa í herðar niður Framsfl. í Reykjavík.

Ég vil síðan, herra forseti, víkja aðeins að þeim þætti þessa máls sem einkum hefur verið ræddur hér að undanförnu og gengur undir nafninu hálendismálið. Samkvæmt frv. sem upphaflega var lagt fyrir af félmrh. og er til umræðu er gert ráð fyrir því, verði málið að lögum, að félmrh. skuli beita sér fyrir því að þeim svæðum sem ekki er með skýrum hætti skipað innan staðarmarka sveitarfélaga verði skipað innan staðarmarka sveitarfélaga fyrir 31. desember 1998. Þetta er 1. gr. frv. Þetta mál hefur vakið miklar umræður. --- Ég vek athygli á því, herra forseti, að hv. formaður umhvn. er genginn í salinn, lýsandi von framsóknarmanna í Reykjavík, meiri hluti Framsfl. í Reykjavík því að það er bersýnilegt að hann hefur fylgið með sér þar sem hinn fumlausi hæstv. iðnrh. er hins vegar á köldum klaka í málinu ef ég les rétt í þau spil sem Valdimar K. Jónsson sendi á útivistarfundinn á Hótel Borg í fyrrakvöld.

[11:00]

Verði frv. sem hér liggur fyrir samþykkt þá verða dregnar línur fyrir staðarmörk sveitarfélaga inn á hálendið. Menn hafa sagt sem svo: Þetta er hættulegt vegna þess að það verður ókyrrð á hálendinu við þessar aðstæður. Af þeim ástæðum var það sem flutt var samhliða eða lagt fram samhliða frv. frá hæstv. umhvrh. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum og ég verð að segja alveg eins og er að ég tel það mjög mikilvægt í þessu máli. Ég geri ekki lítið úr því frv. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt vegna þess að í þessu frv. sem ekki mátti taka á dagskrá er talað um það að miðhálendið markist af línu sem dregin er milli heimalanda og afrétta. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh. um þessa línu. Hvaða línu er hann að miða við? Er það sú lína sem svæðisskipulagsnefndin, sem hefur verið að störfum nú um nokkurt skeið, miðar við í sínu áliti og sínum tillögum að skipulagi miðhálendisins sem birtar voru í maí 1997 og sendar hafa verið út til umsagnar? Ég vil ekki aðeins staldra við þetta heldur líka spyrja hæstv. umhvrh.: Hvaða lögformlega stöðu hefur þessi lína? Vegna þess að það verður að vera alveg skýrt. Á hvaða forsendum er þessi lína dregin? Hvaða stöðu hefur þessi lína gagnvart t.d. sveitarfélagamörkum? Vegna þess að það er gagnslaust að draga línu á korti nema hún hafi formlega stöðu, formlega þýðingu. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh. að því hvað hann á við með því í þessu frv.

Í öðru lagi er í frv. gert ráð fyrir því að það sem kallað er miðhálendi verði svæðisskipulagt sem ein heild, að ráðherrann skipi samvinnunefnd um skipulag miðhálendisins til fjögurra ára í senn að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Ég vil þá í öðru lagi spyrja hæstv. umhvrh.: Segjum að þetta frv. hefði orðið að lögum núna, hefði hann þá ekki óttast um að sú vinna sem unnin hefur verið af svæðisskipulagsnefndinni hefði verið í uppnámi vegna þess að þá hefðu verið tvær nefndir hlið við hlið? Ég sé ekki alveg hvernig hæstv. ráðherra hefði hugsað sér sambúð þessara tveggja skipulagsnefnda hálendisins sem hefðu verið til á sama tíma ef frv. hefði orðið að lögum núna.

Í frv. er gert ráð fyrir því að í nefndinni verði 12 menn sem sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu tilnefna. Nú hefur það komið fram frá hæstv. umhvrh. og hæstv. félmrh., ef ég man rétt, að þeir gera ráð fyrir því að þetta verði héraðsnefndir eins og í gildandi lögum vegna þess að hin leiðin er ekki fær.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir fjóra fulltrúa og skulu tveir þeirra eiga búsetu í Reykjavík, einn á Reykjanesi og einn á Vestfjörðum, félagsmálaráðherra tilnefnir einn og umhverfisráðherra skipar einn án tilnefningar og skal hann vera formaður.``

Um þetta ætla ég að segja, herra forseti: Ég hef hlustað með athygli á umræður um þessi mál nú í nokkra daga og mér finnst satt að segja að ekki sé hægt að setja þetta upp sem lýðræðislegt hneyksli eins og mér finnst að menn hafi stundum gert. Ég lít þannig á að þetta sé samráðsnefnd og að hún eigi ekki endilega að endurspegla íbúafjöldann í landinu heldur sé hún fyrst og fremst sett saman til að tryggja að íbúar sem flestra svæða eigi aðgang að nefndinni til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum. Það er mjög erfitt að sjá það fyrir sér að þessi nefnd starfi þannig að hún skiptist mikið í meiri hluta og minni hluta vegna þess að ef hún gerir það þá er hún orðin marklaus. Nefnd af þessu tagi hlýtur að byggjast á þeirri forsendu að í henni sé ,,consensus``, í henni sé samstaða, annars er hún ónýt. Segjum að nefndin væri að störfum og þeir sem væru taldir fulltrúar Reykvíkinga eða Reyknesinga eða Vestfirðinga teldu sig gjörsamlega ofurliði borna í nefndinni, þá mundu þeir segja sig frá nefndinni og ekki starfa með henni. Þar með er nefndin ónýt. Ég tel í sjálfu sér að ekki sé hægt að setja þessi mál upp sem sannindamerki þess að menn vilji ekki virða þann mikla fjölda fólks, Íslendinga, sem býr á þéttbýlissvæðinu.

Ég viðurkenni líka að það er mjög flókið að setja saman svona nefnd. Ég hef ekki nokkurn tíma séð svona nefnd setta saman á neinn burðugan hátt. Þegar miðhálendismálið var til umræðu árið 1990 og var stöðvað af nokkrum bændahöfðingjum hér í þinginu þá ræddu menn þann möguleika að það mál hefði kannski ekki verið stöðvað ef ákveðið hefði verið að Alþingi kysi þessa stjórn en hún yrði ekki skipuð eins og þar var gert ráð fyrir. Ég velti því upp. Ég hef velt því fyrir mér hvort þetta sé rétt. Kannski er það ekki rétt. En ég velti því fyrir mér hvort nokkur önnur leið sé fær, þegar um er að ræða svona heildarhagsmuni sem á að tryggja fulltrúa fyrir, en sú að Alþingi komi að málinu. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh. að því hvort hann hafi velt því fyrir sér að nefnd af því tagi sem hér er um að ræða yrði beinlínis kosin á Alþingi en henni gert samkvæmt pósitívum lagaákvæðum að gæta almennra hagsmuna m.a. með hliðsjón af öðrum ákvæðum frv.

Ég tók eftir því um daginn að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson lýsti því yfir að hann teldi þetta frv. ófullnægjandi. Ég geri ráð fyrir því að það hafi verið þetta ákvæði aðallega um samvinnunefndina sem velti hans hugsanlega stuðningi við málið frá. Ég vildi þá, ef hann hefur tök á því að tala síðar í þessari umræðu, spyrja hann að því hvernig hann gæti séð það fyrir sér að svona nefnd yrði skipuð. (HG: Til að bændur komist að málinu.) Að bændur komist að málinu. Út af fyrir sig er það alveg hárrétt að bændur eiga að komast að málinu (Félmrh.: Þar stendur nú hnífurinn í kúnni.) og það er engin andstaða við það, alla vega ekki af minni hálfu. Og ég vísa því á bug sem sagt hefur verið af einum og einum talsmanni, eins og hv. þm. Guðna Ágústssyni, að við þingmenn þéttbýlisins höfum verið að sýna þessu máli einhvern sérstakan fjandskap vegna þess að við séum á móti dreifbýlinu. Það er einhver ómerkilegasti málflutningur sem ég hef heyrt úr þessum ræðustól.

Ég spyr sem sagt hæstv. umhvrh. að því hvort ekki mætti hugsa sér að þetta mál yrði sett í hendurnar á þingkjörinni stjórn sem lyti tilteknum lögmálum.

Í frv. er gert ráð fyrir því að nefndin fjalli um svæðisskipulag miðhálendisins. Það er ekki mjög sterkt til orða tekið, Ég viðurkenni það. Og nefndin gefur Skipulagsstofnun umsögn um tillögu að aðalskipulagi sveitarfélaga á svæðinu og breytingar á þeim tillögum. Nefndin metur að loknum sveitarstjórnarkosningum hvort ástæða sé til að endurskoða svæðisskipulagið og síðan segir sem er lykilsetning í þessu frv., með leyfi forseta:

,,Auk þess skal sú stefna, sem fram kemur í svæðisskipulagi miðhálendisins, færð inn í aðalskipulag hlutaðeigandi sveitarfélaga og staðfest sem slík.``

Þá spyr ég hæstv. umhvrh.: Hvað þýðir þetta nákvæmlega? Þýðir þetta að sveitarfélögunum sé skylt að taka þessa niðurstöðu inn í aðalskipulag sitt? Er þeim skylt að taka þetta inn í aðalskipulagið? Vegna þess að ef þeim er ekki skylt að taka þetta inn í aðalskipulagið, þá er þetta gagnslítið. Eða er það þannig, herra forseti, að sveitarfélögin geti hvert fyrir sig neitað að taka þessa niðurstöðu inn í aðalskipulagið? Ég mundi vilja spyrja hæstv. umhvrh. að því því að ef svo er þá er þetta til lítils unnið. Þá gæti hæstv. umhvrh. væntanlega svarað því: ,,Já, en aðalskipulag kemur til staðfestingar og meðferðar Skipulagsstofnunar og umhvrh. og þessir aðilar eiga að tryggja samræminguna á skipulaginu á hálendinu og í aðalskipulagi viðkomandi sveitarfélaga.`` Ég tel það betra en ekkert. Ég segi það alveg eins og er. Ég tel það betra en ekkert vegna þess að þá er samræmingarskyldan í höndunum á umhvrn. og Skipulagsstofnun ríkisins en eftir sem áður hlýtur það að vera þannig að sveitarfélagið ráði. Það er því dálítið erfitt að sjá, og það getur vel verið að hæstv. umhvrh. hafi þegar útlistað þetta rækilega, hvernig það má vera að það væri gengið yfir sjálfstæði sveitarfélaganna í þessu máli. Þetta er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir í sambandi við þessi mál. Ég vil inna hæstv. umhvrh. eftir því hvernig hann sér þetta fyrir sér.

Í tillögu ríkisstjórnarinnar sem ekki mátti ræða hér en er rædd engu að síður segir, með leyfir forseta:

,,Tillaga að deiliskipulagi eða breytingar á því skal auglýst á áberandi hátt.``

Ég man ekki betur en að þetta sé annars staðar í skipulagslögunum og ég spyr hæstv. umhvrh. að því af hverju þetta sé hér líka. Ég næ því satt að segja ekki alveg hvaða erindi þetta ákvæði um deiliskipulagið á inn í frv. á þessum stað. Vel getur verið að fullnægjandi rök séu fyrir því en ég sé þau ekki og ekki í greinargerð frv. heldur.

Við meðferð málsins í hv. félmn. urðu mikil átök um málið en hæstv. félmrh. hafði lagt til upphaflega að það yrði sett niður sérstök úrskurðarnefnd til að fjalla um málið og úrskurða endanlega um sveitarfélagamörkin. Úrskurðarnefndin er fimm manna með tveimur tilnefndum af Sambandi ísl. sveitarfélaga og þremur skipuðum af félmrh. án tilnefningar eins og það var orðað í upphaflegu frv. Ég tel að þessi aðferð sé ekki góð með úrskurðarnefndina. Ég vil láta það koma fram. Ég tel að hún sé ekki góð og ekki skynsamleg og mun koma að því síðar í tengslum við málið vegna þess að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir sem er minni hluti félmn. lagði til í raun og veru að miðhálendið yrði undanþegið almennu skiptingunni í sveitarfélögum.

Þá vil ég segja að fyrir fáeinum árum beittum við alþýðubandalagsmenn okkur fyrir því að þetta væri stefnan, þ.e. að miðhálendið yrði undanþegið hinni almennu skiptingu landsins í sveitarfélög. Það kom t.d. fram í nefndaráliti miðhálendisnefndarinnar árið 1990 sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson átti aðild að og það studdum við af mikilli einlægni. En því miður var það svo að einhverjir hagsmunir hér í þinginu stöðvuðu það að þetta mál yrði að lögum. Það hefur lengi verið svo, herra forseti, að í Framsfl. og í Sjálfstfl. hafa verið mjög sterkir landeigendahagsmunir sem hefur verið vonlaust að komast yfir. Það hefur verið vonlaus hindrun í þessari stofnun og þeir hafa ráðið það miklu, svo að ég segi hlutina eins og þeir eru, í þessum tveimur stóru flokkum. Þessir flokkar hafa ýmist hvor í sínu lagi eða saman síðan ráðið mjög miklu um landsins gagn og nauðsynjar og líka þessa hluti þannig að þegar hæstv. umhvrh. Eiður Guðnason stóð frammi fyrir þessum veruleika, annars vegar andstöðunni við málið í Sjálfstfl., samstarfsflokki sínum, og hins vegar andstöðunni við málið í Framsfl. sem kom fram af mikilli hörku í þessu máli, þá vék hann af leið, hæstv. umhvrh. Og ég segi alveg eins og er að ég á fjarska auðvelt með að skilja þá niðurstöðu hans vegna þess að annars var hætta á því að málið yrði í verulegu uppnámi áfram. Það eru það mikil dýrmæti í húfi að menn verða að semja sig í gegnum málið, menn verða að leysa það. Það er ekki við hæfi að láta þetta mál vera óleyst og í uppnámi um árabil áfram eins og það hefur verið. Þess vegna varð það niðurstaða hæstv. umhvrh. Eiðs Guðnasonar að knýja fram breytingu á skipulagslögum sem hefði það í för með sér að það væri hægt að taka á þessum málum heildstætt þrátt fyrir sveitarfélagaskiptingu landsins sem þá var í rauninni óljós. En hann beitti sér fyrir þessu og síðan var það ítrekað í skipulagslögum sl. vor.

[11:15]

Ég segi alveg eins og er að ég áfellist ekki alþýðuflokksmennina, vini mína fyrir að fara þessa leið vegna þess að þeir töldu að það væri í raun ekkert annað að gera miðað við aðstæður. Ég held að veruleikinn sé svona enn þá. Þó að ég gæti út af fyrir sig mjög vel séð fyrir mér að miðhálendið væri ein heild þá sé ég ekki að það næðist í gegnum þingið eins og staðan er og þá er betra að gera eitthvað en ekkert í þessu máli af því að það eru svo miklir hagsmunir í húfi.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir lagði til að miðhálendið yrði undanþegið almennri skiptingu í sveitarfélög. Ég hef rakið það að ég teldi það skynsamlegt ef hægt væri að gera það. Ef samstaða næðist um mörkin, ef samstaða næðist um stjórnina þá gæti það verið skynsamlegt. Síðan segir hv. þm. í tillögu sinni að miðhálendið þurfi að verða sjálfstæð stjórnsýslueining sem lúti sérstakri stjórn. Þá bið ég hv. þm. kannski að hugleiða það með mér að eitt er stjórnsýslueining og annað er skipulagseining, þannig að þó að menn væru þeirrar skoðunar að miðhálendið ætti að vera stjórnsýslueining, þá þurfa menn að athuga hvað það þýðir í raun og veru. Stjórnsýslueining er eining sem er með löggæslu, hollustuhætti, skipulagsmál og öll önnur mál sem tilheyra því að vera stjórnsýslueining. Ég held í rauninni að eins og staðan er í dag séu flestir búnir að gefast upp á þeim möguleika að þetta verði stjórnsýslueining þó að menn séu sammála um að æskilegt væri að það væri skipulagseining. En út af fyrir sig má vel hugsa sér að þetta væri stjórnsýslueining en þá þýðir það allsherjarstjórn á svæðinu sem getur þá í raun og veru, eins og hv. þm. Gísli Einarsson bendir á, ekki verið í höndunum á neinum öðrum en almannavaldinu, sem væri þá ríkisvaldið og ríkisstjórnin, eða sérstakri stjórn.

Ég tel t.d. að niðurstaðan af þjóðlendumálinu þar sem allt málið er sett í hendurnar á forsrh., ég mundi ekki vilja vera aðili að slíkri yfirstjórn á stjórnsýslueiningunni á hálendinu.

Síðan gerir hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir ráð fyrir því að skipuð verði níu manna nefnd sem stjórn miðhálendis til fjögurra ára í senn að fengnum tilnefningum nokkurra ráðherra og síðan komi Samband ísl. sveitarfélaga. Þarna kæmi að fulltrúi samgrh. og fulltrúi iðnrh. Ég verð að segja eins og er að ég er ekki hrifinn af þessu. Fulltrúar fyrir hvað eru þessir ráðherrar? Hættan er sú þegar þeir tilnefna sína menn, þó þarna séu mjög oft góðir menn í ráðuneytunum, ég geri ekkert lítið úr því og séu það líka núna --- hættan er sú að menn tilnefni hagsmunaaðilana. Ég vil ekki fara að láta orkugeirann og ferðamálahagsmunina slást í svona stjórn. Ég mundi vilja að þetta væru menn sem væru óháðir hagsmunaaðilum eins og mögulegt er. Ég verð því að segja það, herra forseti, að ég sé ekki að þessi lausn sé fullnægjandi sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir benti á þó að hún sé góð sem umræðugrundvöllur málsins sem við erum að reyna að tala okkur í gegnum og ég vil þakka henni fyrir það.

Síðan gerðist það, herra forseti, eins og þekkt er að meiri hluti félmn. ákvað að hætta við hina svokölluðu úrskurðarnefnd og taka í staðinn upp þessa svokölluðu óbyggðanefnd.

Þá kem ég að því, herra forseti, sem er kannski aðalspurningin í máli mínu. Þegar þetta liggur svona fyrir, þegar búið er að vinna í mörg ár að svæðisskipulagi til ársins 2015 á miðhálendi landsins, hvaða rök eru þá fyrir því að flytja núna frv. um að draga sveitarfélagalínurnar inn í jökla? Hefði ekki verið skynsamlegra, og ég spyr hæstv. umhvrh., að bíða eftir niðurstöðu svæðisskipulagsnefndar miðhálendisins sem á að starfa til ársins 2015, frekar en að í miðjum klíðum séu menn að draga mörkin inn í jökla? Þessa spurningu vil ég líka bera fyrir hæstv. félmrh. Pál Pétursson. Hvaða rök eru fyrir því hjá honum núna þegar svæðisskipulagsnefndin er í miðjum klíðum að draga sveitarfélagamörkin inn í jökla? Það hljóta að vera einhver rök fyrir því en ég hef ekki heyrt þau. Í fljótu bragði hefði ég talið að skynsamlegra væri, líka frá hans bæjardyrum séð sem skipulagsmálaráðherra, sem sveitarfélagaráðherra og ráðherra þessa málaflokks að fresta því að draga sveitarfélagamörkin inn í jökla þar til til svæðisskipulagsnefndin væri búin að skila af sér. Eða ætlast hæstv. félmrh. til þess að það að draga staðarmörk sveitarfélaga inn í jökla hafi áhrif á niðurstöður svæðisskipulagsnefndarinnar? Mér þætti mjög vænt um ef hæstv. félmrh. treysti sér til hér á eftir að gera grein fyrir því af hverju hann telur nauðsyn á því núna að draga þessi mörk inn í jökla á sama tíma og svæðisskipulagsnefndin er að störfum? Ég næ ekki rökunum, ég hef ekki heyrt þau heldur, vegna þess að þau eru lykilatriðið. Það getur vel verið að þá átti maður sig betur á málinu ef maður heyrir þau rök.

Ég tel að mjög mikilvægt sé í þessu sambandi einmitt að átta sig á því að unnið hefur verið mjög myndarlegt starf að skipulagi miðhálendis Íslands af nefnd sem var sett á laggirnar og í eiga sæti margir ágætir menn, fulltrúar héraðsnefnda undir forustu Snæbjörns Jónassonar. Ég hef stundum heyrt talað með lítilli virðingu um þessa nefnd, ég hef heyrt það. Ég held að menn eigi ekki að gera lítið úr þessari nefnd. Ég var svo heppinn að ég gat orðið mér úti um skjöl nefndarinnar, þ.e. greinargerð um skipulag miðhálendisins ásamt fylgiskjölum í tveimur jafnþykkum bókum og síðan umsagnir, en nefndin auglýsti eftir umsögnum. Hér eru umsagnir frá 95 aðilum af landinu öllu, stórmerkilegt rit í raun og veru, þar sem farið er yfir þessi mál.

Ég vil nota þetta tækifæri til að biðja hæstv. umhvrh. um að flytja þessari nefnd a.m.k. mínar þakkir fyrir þau gögn sem liggja fyrir vegna þess að mér finnst myndarlega að hlutum staðið. Þar er út af fyrir sig margt ófullkomið eins og gengur. En í þessari bók, herra forseti, sést við hvað nefndin á að glíma. Það hefur verið talað eins og aðalvandi miðhálendisins á Íslandi væru sveitahreppar. Ég geri ekki lítið úr hagsmunaárekstrum þar. Ég tel að aðalvandi miðhálendisins sé virkjanagræðgi framtíðarinnar og það kemur mjög vel fram í umsögnum Landsvirkjunar, Orkustofnunar og iðnrn. um þetta skipulag sem ég mun lesa aðeins upp úr síðar í máli mínu.

Ég held að nauðsynlegt sé að hv. þingmenn átti sig á því að þessi nefnd hefur lokið störfum. Hún hefur auglýst eftir umsögnum, umsagnarfrestur var til 10. desember sl. ef ég man rétt. Núna er verið að vinna úr þeim umsögnum og er gert ráð fyrir að nefndin og ráðuneytið birti niðurstöður sínar í haust, 1. desember. Það verður gaman að sjá hvort nefndin stendur af sér þá hagsmunahópa sem sækja núna að umhvrn. Það verður fróðlegt að sjá það.

Ég vil áður en ég kem að því, herra forseti, víkja aðeins að frumkvæði þessarar nefndar um svæðisskipulag miðhálendisins. Í árslok 1995 var skipuð nefnd á vegum dómsmrn., félmrn. og umhvrn. til að gera tillögur um lausn ágreiningsmála vegna stjórnsýslumarka á miðhálendinu. Í nefndinni sitja sex manns, þrír fulltrúar ráðuneytanna og níu fulltrúar úr samvinnunefndinni. Nefndin hefur skilað tillögum sínum að stjórnsýslumörkum á öllu miðhálendinu og á uppdrætti sem er dags. 16. apríl 1997 birtast stjórnsýslumarkalínur þar með talið á jöklum á miðhálendi Íslands eins og það er afmarkað vegna skipulagsvinnunnar.

Þessar stjórnsýslumarkalínur eru ýmist byggðar á fyrirliggjandi gögnum frá Landmælingum Íslands, tillögum starfshóps þriggja ráðuneyta eða samkomulagi viðkomandi sveitarstjórna. Í ýmsum tilfellum hafa viðkomandi sveitarstjórnir ekki afgreitt stjórnsýslumarkalínurnar en félmrn. mun leita slíkra staðfestinga verði sveitarstjórnarlögum breytt í samræmi við frv. sem liggur fyrir vorþingi 1997. Um þetta vil ég spyrja hæstv. félmrh. ef hann má heyra mál mitt. Er hann einhvers staðar hér í húsinu, herra forseti?

(Forseti (GÁS): Jú, hann er í húsinu og forseti mun hafa uppi á honum.)

Ég vildi spyrja hvort hann gæti komið í salinn.

Herra forseti. Ég hafði hugsað mér að spyrja hæstv. félmrh. um þessar stjórnsýslumarkalínur sem gert er ráð fyrir í áliti nefndar um stjórnsýslumörk en það er svo að skilja á greinargerð um miðhálendi Íslands að hæstv. félmrh. hafi neitað að vinna í málinu nema þetta frv. yrði að lögum. Hann hafi með öðrum orðum brugðið fæti fyrir skipulagsvinnuna og ég ætlaði að spyrja hæstv. ráðherra að því ef hann væri ekki óralangt í burtu. Kannski er hann að sætta í Framsóknarfélagi Reykjavíkur ágreininginn á milli hæstv. iðnrh. og hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar því að sáttastörf í vinnudeilum heyra undir þennan ráðherra líka. En mér er ekkert að vanbúnaði að bíða stundarkorn, herra forseti.

Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir að líta við í salnum en ástæðan fyrir því að ég vildi heyra í honum er sú að í greinargerð nefndar um miðhálendi Íslands segir að nefnd um stjórnsýslumörk hafi skilað af sér tillögum að stjórnsýslumörkum á öllu miðhálendinu og síðan segir svo orðrétt, með leyfi forseta:

,,Stjórnsýslumarkalínurnar eru ýmist byggðar á fyrirliggjandi gögnum frá Landmælingum Íslands, tillögum starfshóps þriggja ráðuneyta eða samkomulagi viðkomandi sveitarstjórna. Í ýmsum tilfellum hafa viðkomandi sveitarstjórnir ekki afgreitt stjórnsýslumarkalínurnar en félagsmálaráðuneytið mun leita slíkra staðfestinga verði sveitarstjórnarlögum breytt í samræmi við frumvarp sem liggur fyrir vorþingi 1997.``

Ég skil þetta með öðrum orðum þannig að hæstv. félmrh. hafi neitað að vinna í verkinu og sett það skilyrði að sveitarstjórnarlögunum yrði breytt. Brá hæstv. félmrh. fæti fyrir þessa vinnu? Ég held að það sé nauðsynlegt að fá það svar. Neitaði hann að láta ljúka málinu öðruvísi en þetta frv. yrði að lögum? Það er dálítið hart fyrir Alþingi að láta stilla sér upp við vegg með þeim hætti ef það er tilfellið. Ég vil einnig spyrja hæstv. umhvrh. að því hvernig hann skilur þessi skilyrði félmrn. Það er dálítið alvarlegur hlutur ef félmrn. er að setja skilyrði af þeim toga sem hér er uppi fyrir skipulagsvinnu. Félmrn. hafi neitað að vinna í verkinu nema á þeim forsendum að áður væri búið að draga sveitarfélagamörkin í jökla þó að það gæti truflað vinnu svæðisskipulagsnefndarinnar. Ég verð því að játa, herra forseti, að ég sé ekki samhengi þessa máls og mér sýnist að klúðurslega sé haldið á málinu af ráðuneytunum en þó getur vel verið að mig vanti rök í málinu sem ég hef ekki séð og hæstv. ráðherra gæti upplýst mig um.

[11:30]

Þessi svæðisskipulagsnefnd hefur, eins og ég sagði áðan, verið að störfum og er væntanlega núna að fara yfir hinar fjölmörgu umsagnir sínar. Ég var svo heppinn að fá þessi gögn í hendur en ég ætla ekkert að þreyta þingheim á að lesa þetta upp. Ég sé að menn eru skelfingu lostnir yfir þessum þykka bunka, en það stendur ekki til að gera það. En það er eitt atriði sem ég ætlaði að vekja athygli þingheims aðallega á með ræðu minni í þessu sambandi og það er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir með miðhálendið vegna virkjanagræðginnar og blindunnar sem er í þessum virkjanafyrirtækjum í landinu.

Athugasemdir stjórnar Landsvirkjunar við tillögu að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands eru dagsettar 25. júlí í fyrra. Það var haft svo mikið við að stjórn Landsvirkjunar var látin samþykkja umsögnina. Það er oft þannig að starfsmenn Landsvirkjunar senda umsagnir um mál af þessum toga án þess að bera það endilega undir stjórnina, kannski bara formanninn, en í þessu tilviki þótti liggja svo mikið við að stjórn fyrirtækisins var látin samþykkja þessa umsögn.

Í stuttu máli er það þannig að stjórn Landsvirkjunar hakkar í sig tillögur um skipulag miðhálendisins, hún tætir þær í tætlur. Það segir t.d. svo, með leyfi forseta:

,,Þá hefur nefndin [þ.e. skipulagsnefndin] haft samráð við ýmsa hagsmunaaðila, þar á meðal Landsvirkjun, án þess þó að hafa tekið nægilegt tillit til ábendinga fyrirtækisins. Þá hefur ekki verið tekið fullt tillit til hlutverks Landsvirkjunar lögum samkvæmt að því er varðar ábyrgð fyrirtækisins á að hafa á öllum tímum tiltæka nægilega raforku til almennra þarfa iðnaðar samkvæmt mati sínu á orkuþörf í framtíðinni og hlutaðeigandi áætlun um orkuöflun. Að áliti Landsvirkjunar er aðferðafræði nefndarinnar ... að þessu leyti áfátt og í bága við þau meginsjónarmið sem Landsvirkjun telur að leggja eigi til grundvallar í þessu efni ...

Í fyrsta lagi er það álit Landsvirkjunar að svæðisskipulag miðhálendisins eigi ekki`` --- ég vek athygli á þessum orðum sem hér fara á eftir --- ,,eigi ekki að felast í tilraun til samræmingar á mismunandi stefnu og sjónarmiðum ólíkra hagsmunahópa.``

Það væri fróðlegt að vita hvort hæstv. ráðherrar eru sammála þessu að svæðisskipulag miðhálendisins eigi ekki að leita að samnefnara fyrir sameiginleg viðhorf inni á hálendinu. Og það er greinilegt af þessum orðum Landsvirkjunar að hún vill helst að þessir hlutir séu óskipulagðir og í vitleysu, hún vill það helst því að síðar segir Landsvirkjun:

,,Í öðru lagi lítur Landsvirkjun svo á að svæðisskipulag miðhálendisins eigi að gera ráð fyrir svigrúmi fyrir ýmsa nýtingarmöguleika en ekki útiloka slíkan sveigjanleika í framtíðinni eða takmarka hann.``

Í þessu felst að skipulagstillagan á að vera almenn en ekki sértæk ...

Í þriðja lagi getur Landsvirkjun ekki fallist á að það sé í verkahring samvinnunefndarinnar`` --- ánægjulegt að sjá hér hv. 2. þm. Suðurl. sem aftur og aftur hefur fyrir hönd dreifbýlisins boðið okkur þéttbýlisbúa velkomna í dreifbýlið í tilefni af þessari umræðu og vissi ég ekki fyrr að hann væri sérstakur gestgjafi dreifbýlisins gagnvart okkur þingmönnum þéttbýlisins. (GÁ: Hv. þm. er velkominn.) Hv. þm. hefur ítrekað að við séum velkomnir út fyrir Reykjavík, við þingmenn þéttbýlisins, og það er einkar ánægjulegt að hv. þm. skuli láta sjá sig í þéttbýlinu, leyfi ég mér að segja þó ég gegni ekki þessu sérstaka gestgjafahlutverki hér sem hann hefur tekið að sér fyrir dreifbýlið (GÁ: Kærar þakkir.) Þó ég muni seint aka þann veg upp á Heklu sem hv. þm. ætlar að leggja né heldur stimpla póst ofan í gígum Heklu. (GÁ: Þinn er skaðinn.)

,,Í þriðja lagi getur Landsvirkjun ekki fallist á að það sé í verkahring samvinnunefndarinnar að gera tillögur um breytingar á hönnun virkjunarmannvirkja sem þegar hefur verið veitt virkjunarleyfi fyrir og/eða lagaheimildir eru þegar fyrir.``

Því er sem sagt sérstaklega mótmælt að þessi nefnd hæstv. umhvrh. sé að skipta sér af virkjunaráformum sem tekin hefur verið ákvörðun um á fyrri tíð, því er sérstaklega mótmælt. Síðan er farið yfir málin mjög rækilega í þessu bréfi og eins og ég sagði þá ætla ég ekki að rekja það í einstökum atriðum en Landsvirkjun gengur svo langt í umsögn sinni að hún segir t.d. ég nefni bara sem dæmi:

,,Því er fyrirvara nefndarinnar um hæð Norðlingaöldulóns mótmælt en nefndin hefur án rökstuðnings lagt til að miðað verði við vatnsborðshæð 579 m yfir sjávarmál þó að í samkomulagi vegna friðlýsingar Þjórsárvera sé gert ráð fyrir 581 m yfir sjávarmál.``

Ég held að ég verði líka að inna hæstv. umhvrh. eftir því hvernig hann hugsar sér að samvinnunefndin geti meðhöndlað þessar athugasemdir sem eru eru í alveg lóðréttri andstöðu við allt sem samvinnunefndin í raun og veru leggur til sem er þessi ótrúlega blinda Landsvirkjunar á öll önnur verðmæti en þau sem heita virkjanir. Í greinargerð Landsvirkjunar segir síðan svo, með leyfi forseta, að lokum:

,,Til að stuðla að slíkum efnahagslegum framförum þjóðarinnar hefur Landsvirkjun nú nýverið hafið umfangsmiklar virkjunarframkvæmdir, ekki aðeins til að sinna hinum almenna markaði heldur einnig til að sjá þriðja kerskála álversins í Straumsvík fyrir nægri raforku þegar á þessu ári svo og nýju álveri Norðuráls á Grundartanga er tekur til starfa í júní 1998 og þriðja ofni Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga sem verður gangsettur haustið 1999. Í ár er áætlað að raforkueftirspurnin á öllu landinu verði alls rúmlega 5.000 gígavattstundir og um aldamótin 7.000 gígavattstundir á ári, en samkvæmt orkuspá mun almenni markaðurinn síðan aukast um tæpar 900 gígavattstundir til ársins 2015.

Rætt hefur verið um ýmsa framtíðariðjukosti sem ásamt útflutningi raforku gætu komið til framkvæmda á skipulagstímabilinu og nota alls um 1.760 megavött og 15.000 gígavattstundir á ári. Til samanburðar eru virkjanir á miðhálendinu sem nefndin telur koma til greina á skipulagstímabilinu til 2015 með framleiðslugetu sem nemur um 8.600 gígavattstundum á ári.``

Með öðrum orðum, herra forseti. Veruleikinn er sá að Landsvirkjun reiknar með einum fjórum stórum virkjunum umfram það sem samvinnunefndin telur í raun og veru við hæfi. Það verður fróðlegt að sjá þegar þessum hagsmunum lýstur saman hvernig menn hyggjast sjá fram úr þeim hlutum í umhvrn. Ég vil spyrja hæstv. umhvrh. um það.

Í þessari þykku bók með athugasemdum um svæðisskipulag miðhálendisins er margt fleira mjög gagnlegt og fróðlegt að finna sem ég ætla ekki út af fyrir sig að fara út í hér í einstökum atriðum þó full ástæða væri til. Hér eru umsagnir einstakra byggðarlaga og fleiri aðila, en Landsvirkjun, sem vitnað var til áðan, lætur ekki hér við sitja með áðurnefndri umsögn. Hún leggur líka til, herra forseti, að þessu skipulagsverki verði hætt og ég vil spyrja hæstv. umhvrh. hvað hann segir um þessa skoðun Landsvirkjunar og ég vildi auðvitað gjarnan hafa fyrir framan mig hæstv. orkumálaráðherra því að Landsvirkjun segir:

,,Samvinnunefndina skortir umboð og vald til slíkra skipulagsverka. Ýmislegt bendir til þess að stjórnmálamenn séu að vakna til vitundar um hlutverk sitt í þessu efni. Má í því sambandi benda á umræður á Alþingi að undanförnu en eðlilegt er að bíða eftir nýju fyrirkomulagi um þjóðlendur áður en tekin verða frekari skref í vinnslu og meðferð tillögunnar um gerð svæðisskipulags fyrir miðhálendið.``

Hver er skoðun hæstv. umhvrh. á þessu og hvernig ætlar hann og ríkisstjórnin að samræma þau sjónarmið sem annars vegar er um að ræða hjá virkjanasektornum og hins vegar umhverfisþáttum stjórnsýslunnar í landinu? Ég held að nauðsynlegt sé, herra forseti, að fá svör við því. Af hverju er ég að tala um þetta, herra forseti? Það er vegna þess að ég tel að vandi hálendisins sé ekki litlir hreppar heldur sé vandi hálendisins til frambúðar fyrst og fremst sá veruleiki sem blasir við í áformum orkufyrirtækjanna á næstu ártugum. Ég tel að það sé hættan fyrir hálendið.

Herra forseti. Af því að ég sé hér út undan mér hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur, þá man ég eftir tillögu að umsögn sem ég komst í einu sinni varðandi tillögu hennar um ósnortin víðerni, umsögn frá einu mikilvægu virkjanafyrirtæki hér í landi. Þar örlaði ekki mikið á djúpum skilningi á því að ósnortin víðerni geti verið verðmæti. Ég held að þarna liggi í raun og veru hinn stóri vandi og líka í því að nú er gert ráð fyrir að kljúfa Landsvirkjun upp í mörg smærri fyrirtæki og efna til samkeppni eins og það heitir um raforkuframleiðslu sem mundi þýða það að mörg fyrirtæki í framtíðinni, jafnvel í einkaeign, gætu annast raforkuframleiðslu. Það er talað um það í fullri alvöru af einum þingmanni að til yrði fyrirtæki sem héti t.d. Blanda hf. eða eitthvað því um líkt. Ég segi það eins og er, herra forseti, að þá held ég að hálendinu yrði veruleg hætta búin ef búið væri að koma á þessari margrómuðu samkeppni milli raforkuframleiðslufyrirtækja í landinu og þau væru að fljúgast öll á um það hver fengi besta vatnsaflið til að virkja. Ég óttast að ósnortin víðerni sem eru frekar verðlítil á verðbréfamörkuðum enn þá hvað sem síðar verður gætu goldið fyrir þessa samkeppni. Þetta er framtíðin sem verið er að teikna upp fyrir okkur og mér finnst einhvern veginn að í þessari umræðu sem hér hefur farið fram, þó að hún hafi verið löng, ítarleg og góð, hafi þessi sjónarmið kannski dálítið vantað að hættan liggur þarna. Hún liggur í því að hagsmunir augnabliksins taki völdin af okkur í máli af þessu tagi, þeir hagsmunir sem hægt er að mæla á venjulegan verðbréfamælikvarða kaupþinganna í heiminum, þeir hagsmunir beri langtímahagsmuni ofurliði. Það er mál sem ástæða er til að óttast og hafa áhyggjur af, herra forseti.

Umsögn Orkustofnunar um tillögu að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands til ársins 2015 er því miður alveg sama marki brennd og umsögn Landsvirkjunar. Það er satt að segja dálítið ískyggilegt að Orkustofnun skuli ganga eins langt að ekki sé meira sagt og orkuframleiðslufyrirtækin sjálf vegna þess að Orkustofnun er náttúrlega rannsóknarstofnun. Í umsögn Orkustofnunar um tillögu að svæðisskipulagi miðhálendis Íslands til ársins 2015 er rækilega farið yfir þessa hluti og Orkustofnun hafnar í raun þeirri vinnu sem þarna er um að ræða þannig að það er ekki bara Landsvirkjun. Það er líka stofnun í stjórnkerfinu eins og Orkustofnun. Hún segir hér, með leyfi forseta:

,,Kjarninn í umsögn Orkustofnunar er því sá að heildartillaga um skipulag miðhálendisins sé ótímabær þar sem enn skorti verulega forvinnu áður en unnt er að ganga jafnlangt í endurskipulagningu hálendisins og nefndin leggur nú til.``

Sá alvarlegi hlutur blasir við í þessum efnum, herra forseti, að Orkustofnun gengur þarna í lið með Landsvirkjun. Orkustofnun er opinber ríkisstofnun rekin fyrir framlög úr ríkissjóði í gegnum fjárlög. Orkustofnun segir líka síðar í umsögn sinni, með leyfi forseta:

,,En hver er þá orkuþörfin talin vera á skipulagstímanum til ársins 2015? Því getur enginn svarað nú. Í fylgiskjali A með greinargerð samvinnunefndarinnar segir að samkvæmt ,,úttekt iðnrn., Landsvirkjunar og fleiri gæti raforkuþörfin orðið allt að 19,5 teravattstundir á ári í lok skipulagstímans árið 2015``. Ekki sést á heimildaskrá hvaða ,,úttektar`` hér er verið að vísa til. Þvert á móti verður að draga í efa að þessir aðilar hafi haft uppi slíka spá. Orkustofnun er a.m.k. ekki kunnugt um að hún liggi fyrir. Ef tekið er mið af þeirri aukningu sem verið hefur í eftirspurn á orku til stóriðju undanfarin missiri stefnir allt í að æskilegt geti talist að afla mun meiri raforku á skipulagstímanum.``

[11:45]

Það sem Orkustofnun er með öðrum orðum að segja hér er að allar forsendur þessara tillagna um skipulag miðhálendisins séu tóm vitleysa vegna þess að miklu meira verði virkjað á næstu árum en hér er gert ráð fyrir. Það getur út af fyrir sig verið. En það finnst mér vera kannski hið alvarlegasta umhugsunarefni í þessu máli.

Ég er, herra forseti og hæstv. umhvrh. að lesa upp úr umsögn Orkustofnunar. Mér finnst dálítið sérkennilegt að Orkustofnun er farin að tala eins og virkjanafyrirtæki í þessum umsögnum sínum. En niðurlagið í umsögn Orkustofnunar er síðan á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Í umsögn þessari hefur verið tekið á nokkrum meginatriðum í tillögum samvinnunefndarinnar um svæðisskipulag fyrir miðhálendi Íslands. Ekki hefur að neinu marki verið farið í sparðatíning, enda þótt ærið tilefni sé til slíks.`` --- Þetta segir Orkustofnun. Þetta voru ekki mín orð. --- ,,Kjarninn í þessari umsögn eru tilmæli um að málinu verði skotið á frest, óumdeild atriði þó færð inn á skipulagsuppdrátt, lýst hugsanlegum landnotum, þrýst á með stefnumörkun stjórnvalda svo sem með rammaáætlun um orkuvinnslu og náttúruvernd, en að því fengnu verði skipulagsvinnan tekin upp aftur jafnframt því sem meiri háttar framkvæmdir verði ekki heimilaðar nema að fengnu skipulagi á viðkomandi svæðum.

Enda þótt það sé ekki efni sem beina beri til samvinnunefndarinnar, verður að nota þetta tækifæri til að lýsa efasemdum um framhald skipulagsmála miðhálendisins, ef svo fer sem horfir að stjórnsýsla og þar með talin skipulagsmál verður í umsjá þeirra 50 hreppa sem eru taldir liggja að miðhálendinu (enda þótt þeim kunni að fækka eitthvað vegna sameiningar sveitarfélaga).``

Ég er að lesa, herra forseti, upp úr áliti Orkustofnunar en Orkustofnun hefur allt í einu skoðun á því hve hrepparnir eiga að vera margir í landinu og hvernig eigi að draga mörk þeirra inn á hálendið. Það er fróðlegt. Ég vissi ekki til þess að Orkustofnun hefði sérstaklega með sveitarstjórnarmál að gera en það virðist vera svo. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Þá er við búið að sama virkjanamannvirkið tilheyri mismunandi hreppum; stöðvarhús í einum hrepp, stíflur og lón í öðrum og línulagnir og aðkomuvegir í enn öðrum hreppum. Hagsmunir þessara sveitarfélaga munu rekast á, m.a. þar sem opinber gjöld, einkum fasteignaskattar, miðast við hrepp þann þar sem stöðvarhúsið liggur. Það býður því þeirri hættu heim að virkjunaraðili hljóti mjög misjafnar undirtektir í viðkomandi hreppum, með tilheyrandi deilum og tilkostnaði við sættir, eins og dæmin reyndar sanna.``

Þetta segir Orkustofnun. Rannsóknastofnun Íslands í orkumálum varar við þessu sveitarstjórnarskipulagi sem hæstv. félmrh. er að leggja hér til þó að maður hafi ekki áður áttað sig á því að Orkustofnun hefði sérstaklega með þessa hluti að gera.

Ég sé ekki, herra forseti, hvort þetta sé nokkuð nýtt. Ég held að þetta sé alls staðar svona þar sem sveitarstjórnir eða sveitahreppar eru með mörk jafnvel inni á framkvæmdasvæðum. Nýjasta dæmi um það sem ég man eftir er Norðurál. Ég man ekki betur en það séu hreppamörk í gegnum lóðina hjá Norðuráli á milli Skilmannahrepps og Hvalfjarðarstrandarhrepps þannig að út af fyrir sig er þetta mál sem þarf að taka á. En ég er að vekja athygli á þessu hérna, herra forseti, vegna þess að ég sé ekki alveg af hverju menn setja þetta nákvæmlega svona upp í þessari umsögn Orkustofnunar. En greinilegt er að bæði Orkustofnun og Landsvirkjun eru á móti þessari skipulagsvinnu á miðhálendinu. Það er eiginlega nokkuð skuggalegur hlutur, herra forseti, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Látum það vera, herra forseti, þó að svona skjal komi frá Landsvirkjun og Orkustofnun. En það kemur líka frá iðnrn. Hvar er talsmaður minni hluta framsóknarfélaganna í Reykjavík? Er hann í húsinu? Er hæstv. iðnrh. í húsinu, herra forseti?

(Forseti (GÁS): Nei. Iðnrh. er ekki í húsinu.)

Það er mikill skaði. Þá verður að ræða við hann við 3. umr. þessa máls. Iðnrn. sendi bréf 10. desember 1997 sem gagnrýnir harðlega þessa skipulagsvinnu á miðhálendinu, mjög harðlega. Það er dálítið skrýtið að hugsa um þessa þrjá ráðherra Framsfl. Einn situr hér sem er hæstv. félmrh. og flytur þetta frv. og hann ætlar að draga hreppamörkin inn í jökla og það er verið að gagnrýna hann fyrir það. Annar heitir umhvrh. og hann er að láta skipuleggja þetta svæði og hann ætlar að láta ljúka því fyrir lok þessa árs. Þriðji heitir iðnrh. og hann vill ekki láta skipuleggja neitt vegna þess að hann vill láta virkja. Svo höfum við auðvitað þann trausta samnefnara Framsfl. í þessum málum sem kom hér við sögu í gærkvöldi í fleygu svari hæstv. forseta Alþingis sem var þetta: ,,Hér er engin miskunn hjá Magnúsi.`` Það átti bersýnilega við hv. þm. Magnús Stefánsson. Í umsögn iðnrn. segir svo, með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið vekur athygli á því að ekkert samráð hefur verið haft við það varðandi vinnu skipulagsnefndarinnar. Það vekur raunar athygli ráðuneytisins að ekki hafi heldur verið haft samband við landbúnaðar- og samgönguráðuneytin, en bæði þessi ráðuneyti fara einnig með málaflokka er tengjast nýtingu hálendisins.``

Ég staldra við þetta og ætla að spyrja hæstv. umhvrh. hvort það sé rétt að hann hafi ekki haft samband við landbrh., en það stendur hér í þessu skjali. Hæstv. ráðherra er fjarri, því miður, þannig að ég varpa þessu orði á hann síðar.

,,Það vekur raunar einnig athygli að meðal ,,stofnana`` sem samráð hefur verið haft við er umhverfisnefnd Alþingis ...``

En ekki hefur verið haft samráð við iðnaðarnefnd Alþingis, segir svo og það er gagnrýnt. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Ráðuneytið telur sömuleiðis að í tillögunni sé ekki nægilegt mið tekið af lögum um mat á umhverfisáhrifum og þess hlutverks sem þeim lögum er ætlað þegar framkvæmdir eru undirbúnar eða ákvarðanir teknar um þær. Ef svo væri þyrfti að rýmka verulega þann ramma sem ætlaður er til orkuvinnslu í tillögunni. Í því sambandi telur ráðuneytið nauðsynlegt að ítreka að ekkert samráð var haft við það meðan unnið var að tillögunni. Eigi að síður segir á blaðsíðu 107 í fylgiriti A; Almennar forsendur: ,,Samkvæmt úttekt iðnaðarráðuneytisins, Landsvirkjunar o.fl. gæti raforkuþörfin orðið allt að 19,5 teravattstundir á ári í lok skipulagstímans árið 2015.`` Ráðuneytið kannast ekki við að hafa veitt slíkar upplýsingar. ... Ráðuneytið telur að þessi orkuþörf sé vanmetin og telur eðlilegt að miða við að orkuþörfin verði orðin allt að 24 teravattstundir á ári árið 2015, þar af er almenn orkuþörf og stóriðja sem þegar er á framkvæmdastigi eða lokastigi undirbúnings rúmlega 10 teravattstundir á ári. Ef jafnframt er miðað við orkuþörf stóriðjufyrirtækja sem eru á viðræðustigi má ætla að orkuþörfin árið 2015 gæti verið um 19 teravattstundir á ári og miðað við að lagður verði 600 megavatta sæstrengur um eða eftir árið 2010 gæti orkuþörfin verið um 24 teravattstundir á ári eins og áður segir. Ráðuneytið telur nauðsynlegt að skipulag miðhálendisins taki mið af þessu.``

Ráðuneytið telur nauðsynlegt að skipulag miðhálendisins taki mið af þessu, að orkuþörfin verði 24 teravattstundir á ári árið 2010 og þá verði ekki bara búið að byggja allar þær verksmiðjur sem nú eru í undirbúningi og á undirbúningsstigi eins og t.d. magnesíumverksmiðjuna og 200--300 þúsund tonna álver á Austurlandi, heldur verði líka búið að byggja orkuver til þess að unnt verði að leggja 600 megavatta sæstreng til útlanda og selja eftir honum raforku, en þessi 600 megavatta sæstrengur kostar eins og kunnugt er um 150 milljarða kr. og iðnrn., herra forseti, iðnrn. sem er hluti framkvæmdarvaldsins og iðnrn. sem er ríkisstjórnin í þessum málum segir: ,,Allar forsendur umhvrn. í þessu máli eru tóm vitleysa.``

Við alþýðubandalagsmenn höfum í þessum umræðum og eins í hv. félmn. gengist fyrir því númer eitt, tvö og þrjú í þessu máli að séð væri fyrir því að ekki væri gengið á umhverfið og að fylgt væri sjálfbærri stefnu í umhverfismálum, einnig á miðhálendinu. En þessar hugmyndir sem hér eru uppi um nokkur ný álver í viðbót, eina magnesíumverksmiðju og 600 megavatta streng sem flytur raforku utan eru auðvitað slíkar að greinilegt er að iðnrn. er að segja: ,,Það er tómt kjaftæði sem umhvrn. er að gera.``

Af hverju er ég, herra forseti, að rekja þetta hér? Það er vegna þess að ég tel að þessi sjónarmið hafi ekki skilað sér nægilega skýrt inn í þessa umræðu, vegna þess að ég tel að hættan fyrir miðhálendið liggi ekki síst þarna, auðvitað í stjórnsýsluþáttunum líka sem hér hafa verið ræddir, en hún liggur ekki síst þarna vegna þess að þarna verða það hinir hinir miskunnarlausu hagsmunir fjármagnsins sem ráða frá degi til dags en ekki langtímasjónarmið í umhverfismálum sem ekki er hægt að meta til fjár í augnablikinu eins og allir hv. þm. þekkja. Síðan segir í umsögn iðnrn., með leyfi forseta:

,,Sá stakkur sem orkumálum er ætlaður í tillögunni er því allt of þröngur og sá listi yfir virkjanir sem birtur er á blaðsíðu 65 ekki nægilega langur.``

Hver er hann, þessi listi sem birtur er á bls. 65? Hann er þessi, með leyfi forseta:

,,Virkjanir sem geta komið til framkvæmda á fyrri hluta skipulagstímans, þ.e. til ársins 2005: Orkuver, miðlunarlón, ganga- og skurðarleiðir og háspennulínur:

1. Jökulsá á Brú. Kárahnjúkavirkjun, hugsanlega tengd Fljótsdalsvirkjun I 3.200 gígavattstundir á ári.

2. Tungnaár-Búðarhálsvirkjun 750 gígavattstundir á ári.

3. Vatnsfellsvirkjun 700 gígavattstundir á ári.

4. Efri-Þjórsá, Norðlingaölduveita með fyrirvara um stífluhæð við Norðlingaöldu 700 gígavattstundir á ári.

5. Jökulsá í Fljótsdal, Fljótsdalsvirkjun I, hugsanlega tengd Kárahnjúkavirkjun, alls 1.100 gígavattstundir á ári.``

Samtals er hér um að ræða 6.450 gígavattstundir á ári.

Iðnrn. hefur það eitt um þetta að segja: ,,Listinn er ekki nógu langur.`` Ég hefði viljað spyrja hæstv. iðnrh.: Hvað á listinn að vera langur? En samkvæmt því sem hann er hér með gerir hann ráð fyrir því að hann þurfi að vera miklu lengri vegna þess að til viðbótar við 2--3 álver og magnesíumverksmiðju ætlar hann að leggja 600 megavatta sæstreng til Evrópu.

Þarna tel ég vera aðalvanda miðhálendisins og reyndar er hæstv. iðnrh. aðalvandi umhvrn. eins og bersýnilega hefur komið fram í þessu máli aftur og aftur og reyndar fleiri málum á undanförnum mánuðum, m.a. í samandi við Kyoto-ráðstefnuna.

Í þessum athugasemdum, herra forseti, frá ýmsum aðilum er ítarleg athugasemd frá Verkfræðistofnun Háskóla Íslands en forustumaður hennar er sami Valdimar K. Jónsson og hyllti hv. þm. Ólaf Örn Haraldsson á hyllingarhátíðinni á Hótel Borg í fyrrakvöld. En hérna kveður við nokkuð annan tón hjá Valdimar K. Jónssyni vini mínum en á hyllingarfundinum því hérna vill hann virkja meira og telur að allt of lítið sé framkvæmt inni á hálendinu. Virðist því sannast á honum eins og mörgum góðum manninum það sem kveðið var um forðum að á ferli eru úlfur og refur í einum og sama manninum þegar allt kemur til alls.

Herra forseti. Hér birtast líka umsagnir fjöldamargra hagsmunaaðila sem mér finnst afar fróðlegt að lesa. Ég nefni þar t.d. ferðaklúbbinn 4x4. Ég nefni Fuglaverndarfélag Íslands og ég nefni Ferðafélag Íslands sem er með afskaplega fróðlega umsögn um þessi mál. Ég nefni sérstaklega til sögunnar Náttúruvernd ríkisins sem er greinilega mjög áhyggjufull og horfir á málið hinum megin frá en er þó mun nær því að vera sátt við þetta skjal en iðnrn. sem vill bara, með leyfi forseta, andskotast í að virkja hverja einustu lækjarsprænu sem finnst inni á miðhálendinu.

[12:00]

Umsögn Ferðamálaráðs er einnig fróðleg og Náttúruverndarsamtaka Íslands. Ég ætla síðan að lesa og vekja athygli á því að meðal þessara umsagna er fjöldinn allur af umsögnum frá einstaklingum sem eru mjög fróðlegar, t.d. athugasemdir sem birtast frá Guðmundi P. Ólafssyni og fleirum þar sem farið er yfir þessi mál og segir, með leyfi forseta, m.a.:

,,Óásættanlegur er yfirgangur orkugeirans á Íslandi í skipulagi 2015`` þannig að hér er talið að orkugeirinn fái of mikið en ekki of lítið.

Náttúrufræðistofnun sendir ítarlega umsögn og segir þar m.a., með leyfi forseta:

,,Náttúrufræðistofnun telur mikilvægt að miðhálendið verði sett undir eina stjórn sem taki stjórnsýsluákvarðanir um svæðið í heild sinni. Miðhálendinu ætti ekki að skipta upp í aðskilda reiti eftir framlengdum mörkum þeirra 40 sýslu- og sveitarfélaga sem land eiga að miðhálendinu. Stofnunin telur mikilvægt að tekin verði upp samræmd vinnubrögð við söfnun gagna um náttúrufar og einnig við töku ákvarðana um þætti sem haft geta áhrif á náttúrufar.``

Það var einn þingmaður, herra forseti, sem sendi umsögn um þetta. Hann heitir Hjörleifur Guttormsson, hv. 4. þm. Austurl., og sendi umsögn upp á tíu síður, mjög ítarlega umsögn sem hann hefur þegar gert grein fyrir í þessum umræðum. Satt að segja er mjög margt sem hér kemur fram sem væri samt sem áður ástæða til að vekja athygli á. Ég vek sérstaka athygli á því sem fram kemur í umsögn þingmannsins varðandi þjóðgarðana á miðhálendinu með jöklana sem kjarna en þessa tillögu hefur hv. þm. þegar flutt, till. til þál. um þjóðgarða á miðhálendinu með jöklana sem kjarna. Hann kallar þetta Vatnajökulsþjóðgarð, Hofsjökulsþjóðgarð, Langjökulsþjóðgarð og Mýrdalsjökulsþjóðgarð og Friðland að fjallabaki. Ef ég hefði hér hv. formann umhvn. þá mundi ég spyrja hann að því hvort búið væri að taka þessa tillögu fyrir um þjóðgarða á miðhálendinu. Það er gríðarlega mikið mál. Ef það er þannig að umhverfisnefndarmenn hafi mikinn áhuga á þessum miðhálendismálum, sem ég held að þeir hafi, þá hlýtur þessi tillaga að hafa verið tekin fyrir og kannski er þess að vænta að hún verði afgreidd alveg á næstunni. Það er spurning hvort hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson er í húsinu. Er það svo, herra forseti?

(Forseti (GÁS): Hv. þm. er í húsinu.)

Það væri gott ef honum væri gert viðvart, ég vildi leggja fyrir hann eina litla spurningu.

Síðan gerir hv. þm. Hjörleifur Guttormsson ítarlegar athugasemdir við einstök atriði í miðhálendisskipulaginu sem mér fyndist út af fyrir sig ástæða til að vekja athygli þingheims á en ég ætla ekki að taka allt of langan tíma þannig að ég ætla ekki að lesa það upp í einstökum atriðum.

Náttúruverndarráð og Náttúrufræðistofnun gera þó nokkrar athugasemdir en eru þó miklu jákvæðari en iðnrn. og orkustofnanirnar. Ég verð því að segja eins og er að mér finnst að þessi nefnd sé á réttri leið. Ég upplifi það þannig og vonandi stendur hún af sér þá orrahríð orkusektorsins sem núna er greinilega fram undan samkvæmt þeim umsögnum sem liggja fyrir. En það er hins vegar erfitt að átta sig á því hvernig hæstv. umhvrh. og hæstv. félmrh. sjá fyrir sér sambúð þessa skipulags og þessara nýju laga. Ég mundi óttast, herra forseti, að ef þetta frv. verður að lögum með þeim sveitarfélagamörkum sem gert er ráð fyrir að verði, þá rækjust viðhorf þarna á og samþykkt frv. yrði til að tefja þetta mál og spilla því í raun og veru, spilla því stórkostlega. Kannski er það misskilningur hjá mér og þá verður það leiðrétt í umræðunni.

Í greinargerð hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem send var samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendis Íslands er farið yfir hugmyndafræðina að baki þessa skipulags sem hann telur óskýra og ég tel út af fyrir sig nokkuð til í. Lausnin á því máli er einfaldlega sú að reyna að skrifa það saman í einn kafla, inngangskafla, hver hin hugmyndalegu markmið eru, hverjar eru hinar hugmyndalegu forsendur sem nefndin byggir á. Því að mér sýnist að hún sé að reyna að tengja saman náttúruvernd og nýtingu eins og kostur er. Hins vegar er það rétt sem fram hefur komið bæði hér og annars staðar að leggja mætti meiri áherslu á að sinna því sem kallað er sjálfbær þróun í þessu skjali.

Herra forseti. Ég bað um að hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni yrði gert viðvart vegna þess að ég er að fara yfir umsagnir um svæðisskipulag miðhálendisins. Í einni umsögninni er vikið að hugmyndum um þjóðgarða á miðhálendinu með jöklana sem kjarna og mér skilst að fyrir hv. umhvn. liggi till. til þál. um það mál. Það er alveg bersýnilegt að ef sú tillaga yrði samþykkt mundi það styrkja mjög þá samvinnuhugsun á miðhálendinu sem ýmsir, m.a. hv. þm. hafa talað fyrir. Ég vil því spyrja hv. þm. hvenær þessi tillaga komi frá umhvn., hvort það verði á morgun eða hinn þannig að hægt verði að ræða þessa tillögu saman eða hvenær hann hugsar sér að afgreiða þetta frá umhvn. Ég tel nefnilega að það yrði til þess að styrkja málið.

Ég ætla einnig að spyrja hv. þm. að því í leiðinni meðan ég man að ég tók ekki betur eftir en hann hefði greitt atkvæði á móti því að frv. um breytingu á skipulags- og byggingarlögum kæmi á dagskrá Alþingis. Mér finnst það ekki ríma við hans afstöðu í þessum málum að öðru leyti að hann skuli hafa verið á móti því. Þó að hann vilji gagnrýna tillöguna þá hefði verið sniðugt að fá hana á dagskrá. Þá hefði kannski verð hægt að laga hana aðeins í vor í tengslum við málið. Það væri því gaman ef hann mætti vera að því síðar í þessari umræðu að gera grein fyrir á hvaða rökum hann hafnaði því að sú tillaga um breytingar á skipulags- og byggingarlögum kæmi á dagskrá. En aðallega ætlaði ég að spyrja hv. þm. um þjóðgarðana, hvaða skoðun hann hefði á því máli.

Í þessum umsögnum eru fleiri afar fróðleg skjöl t.d. frá Landvarðafélagi Íslands, Íslenskum fjallaleiðsögumönnum og fleirum en ég ætla ekki að fara nánar út í þær að sinni, herra forseti.

Ég hef í máli mínu rakið nokkuð yfirlit málsins frá frv. hæstv. félmrh. og að frv. hæstv. umhvrh. sem ekki mátti ræða. Ég hef farið aðeins yfir stöðu þessa miðhálendismáls og vinnu skipulagsnefndar sem á að ljúka núna um áramótin. Ég endurtek að ég óttast að ráðherrarnir séu að stefna þeirri vinnu í hættu. Mér þætti það verra. Ég held að þar hafi verið vel unnið þó að sjálfsagt mætti vinna betur en ég held að þar hafi verið vel unnið og vonandi stendur nefndin af sér þetta áhlaup virkjanafyrirtækjanna. En ég held að líka sé nauðsynlegt með hliðsjón af málinu í heild að átta sig á því, og ég vil láta það koma hér fram, að þessi vinna nefndarinnar um miðhálendi Íslands eru aðalrök mín fyrir því að ég held að fresta ætti málinu. Ég held að það væri betra fyrir miðhálendið og fyrir umhverfið að fresta þessu máli. Það er þess vegna sem við alþýðubandalagsmenn og óháðir höfum flutt till. til þál. um rökstudda dagskrá sem gengur út á það að málinu verði frestað. Ég held að málið mundi batna stórkostlega við það að fresta því. Og ég bendi á þann möguleika að ef stjórnarmeirihlutinn telur óhjákvæmilegt að ljúka málinu engu að síður, þ.e. sveitarstjórnarlagafrv., þá mætti náttúrlega hugsa sér að fresta 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða eins og t.d. borgarstjórinn í Reykjavík nefndi í útvarpsviðtali hygg ég að það hafi verið í gær, en þar segir, með leyfi forseta. Fyrst segir fréttamaður:

,,Ert þú að mælast til þess að a.m.k. 1. gr. sveitarstjórnarlaganna sem þarna er umdeild verði frestað þar til tekið verður fyrir frv. Guðmundar Bjarnasonar um svæðisskipulag miðhálendis`` o.s.frv. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri segir, með leyfi forseta: ,,Mér finnst mjög eðlilegt að það ætti að fylgjast að. Sveitarstjórnarlögin sem slík, ég sé enga ástæðu til að fresta þeim.`` Þ.e. sveitarstjórnarlagaþáttinn í þessu máli. Það eru allir sammála um að ef á að klára --- ja, það eru að koma sveitarstjórnarkosningar og það er auðvitað eðlilegt að ljúka þessu en þó er ekkert í þessu frv. sem sveitarfélögin þurfa á að halda en segjum að meiri hlutinn sé þeirrar skoðunar, þá skulum við bara hjálpast að við að ljúka því.

Hitt er 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða, eins og borgarstjórinn benti á, og ég verð að segja það eins og er, herra forseti, að ég fæ ekki skilið þessa miklu þörf fyrir að reyra þetta svona saman þrátt fyrir þau miklu mótmæli sem hafa komið fram. Það hafa engin rök verið flutt fyrir nauðsyn málsins. Hver eru rökin fyrir því að klára þurfi þetta með þessum látum? Vill kannski ráðherra félagsmála segja okkur frá því af hverju hann er að þessu? Hvaða læti eru þetta? Eru það einhverjir hagsmunir eða einhver viðhorf sem við, hinir almennu óbreyttu þingmenn sjáum ekki og hæstv. ráðherra hefur á hraðbergi sem hann gæti sagt okkur frá?

Ég vil ekki hafa uppi neina hótfyndni í þessu efni. Það getur vel verið að í málinu séu einhver rök sem eru þess virði að meta en ég hef ekki heyrt þau. Ég hlýt að spyrja hæstv. félmrh. að því sem mína aðalspurningu til hans. Ég hef reyndar spurt hann margra spurninga í ræðu minni en ég spyr hann þeirrar aðalspurningar: Til hvers að knýja málið fram nú? Af hverju ekki að bíða í nokkra mánuði? Hvað er hætt við að gerist í sumar sem gerir það að verkum að endilega verði að klára þetta núna? Hvað er það? Er það vegna þess að ríkisstjórnin eða hæstv. ráðherra leggur ekki í að fara með málið inn á kosningaþing næsta vetur? Það eru engin rök, það eru ekki efnisrök í málinu. Hvað er það sem um er að ræða? Ég fer fram á það í fullri vinsemd við hæstv. félmrh. að hann svari því hvaða efnisrök, hvaða nauður rekur hann til að reka svona á eftir málinu eins og hann gerir?

Mér finnst að til þrautavara mætti hugsa sér, herra forseti, að gildistökuákvæði frv. væri í tvennu lagi. Það væri annars vegar um það að ræða að lögin tækju gildi --- er það ekki 1. júní samkvæmt frv. ef ég man rétt? En það er jafnframt sagt að 1. gr. og ákvæði til bráðabirgða taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 1999. Af hverju segi ég það? Það er vegna þess að þá verður miðhálendisnefndin búin að skila af sér. Telur hæstv. ráðherra að til greina kæmi að fara í málið með þeim hætti? Ég tel að öll tilslökun, ef menn vilja orða það þannig, af þessum toga mundi greiða verulega fyrir málinu en það hefur ekki verið gefinn neinn kostur á slíku og þá er það eins og það er. En ég endurtek spurningu mína til hæstv. ráðherra: Hver eru rökin? Af hverju í ósköpunum þetta offors?

Nú geta menn auðvitað haldið því fram að það séu stjórnarandstæðingar sem tali mikið og það er alveg rétt út af fyrir sig og hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið svo vinsamlegur að annast skeiðklukkuþátt þessarar umræðu í sjálfboðavinnu. En ástæðan er m.a. sú að við höfum viljað koma að ýmsum sjónarmiðum. Ég tel t.d. að ég hafi í ræðu minni komið á framfæri sjónarmiðum sem ekki hafa heyrst mjög mikið áður í umræðunni, ég held ekki. Ég hef reynt að fylgjast með henni þó að ég viðurkenni, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á, að það kemur fyrir að athyglin dofnar eina og eina mínútu. Það er ekki hægt að neita því. En ég held að þessi áhersla sem ég hef reynt að vera með á orkuþáttinn í málinu, orkusektorinn og hættuna sem blasir við ef hann gengur of frekt fram. Ég held að það hafi kannski ekki komið fram sem skyldi en alla vega finnst mér vanta inn í umræðuna skýr rök ráðherrans fyrir því að málinu verði að ljúka á þessu vori, skýr rök. Ég vil fá að heyra þau. Ég áskil mér rétt til þess að fallast á þau rök ef þau eru mælt af skynsamlegu viti af hæstv. félmrh.

Ég hef líka lagt fyrir hæstv. ráðherra spurningu um það hvort þeir óttist ekki, að það að draga mörkin inn í jökla trufli þessa vinnu við miðhálendismálið. Ég hef lagt fram spurningar um hver sé lagaleg staða þeirrar línu milli heimalanda og afrétta sem alltaf er verið að tala um. Ég sé ekki alveg hver lagaleg staða hennar er vegna þess að það að draga línu á kort er ekki nægilegt í þessu tilviki. Ég hef því spurt umhvrh. um það. Síðan hef ég spurt umhvrh. um visst lykilatriði í málinu, að ef svæðisskipulagsnefndin kemst að ákveðinni niðurstöðu og ef það er fært inn í aðalskipulag sveitarfélags, þá getur sveitarfélag væntanlega neitað að taka við þeirri niðurstöðu. Ég held að það hljóti að vera þannig samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Ef það er ekki þannig, þá þarf að segja það vegna þess að þá er það í raun og veru allt annað en gildir í öllum öðrum skipulagsmálum vegna þess að sveitarfélögin eru algerlega ,,sovereign`` í skipulagsmálum en þau hafa hins vegar rétt til þess að stofna til samvinnu við aðra. Í frv. frá hæstv. umhvrh. stendur: ,,Niðurstöðuna skal færa inn í aðalskipulag.``

[12:15]

En það hlýtur samt að vera þannig að þegar búið er að færa niðurstöðuna inn í aðalskipulag, þá verði að bera hana undir viðkomandi sveitarstjórn í þeim hreppi. Það hlýtur að vera þannig. Þá getur hreppurinn eða sveitarstjórnin væntanlega neitað og þá kemur málið til kasta Skipulagsstofnunar og umhvrh. Þá náttúrlega hafa þessir aðilar samræmingarskyldu í þessu efni. En ég átta mig engu að síður ekki alveg á því hvernig menn sjá fyrir sér að þessir hlutir geti gengið fyrir sig og þess vegna bar ég þessa spurningu fram til hæstv. umhvrh.

Ég hef einnig spurt hv. formann umhvn. nokkurra spurninga um umhvn. Hefur hún sérstaklega fjallað um þetta hálendismál? Hefur hún tekið málið til sín? Ég hef ekki heyrt að hún hafi tekið málið til sín til formlegrar umfjöllunar. (Gripið fram í: Viltu endurtaka spurninguna?) Hefur umhvn. fjallað um þessi umdeildu hálendismál í frv. félmrh. sérstaklega? Það er spurningin.

Síðan hef ég, herra forseti, lagt áherslu á að við teljum rétt að málinu sé frestað og það er aðalafstaða okkar alþýðubandalagsmanna og óháðra á þessu stigi málsins.

Ég hafði ekki hugsað mér, herra forseti, að dvelja mjög lengi við þessa umræðu vegna þess að auðvitað er mjög margt komið fram og ég tel mig hafa skilað í grófum dráttum því sem ég vildi sagt hafa. Ég hef borið fram fyrir hæstv. ráðherra allmargar spurningar og það getur vel verið að þeim takist ekki að svara þeim í andsvörum. En ég vona samt að þeir reyni það vegna þess að það greiðir aðeins fyrir umræðunni. Ég hef bent á möguleika til að koma kannski til móts við sjónarmiðin að einhverju leyti með því að breyta gildistökuákvæðinu, með því að fresta 1. gr. og ákvæðinu til bráðabirgða eins og t.d. borgarstjórinn í Reykjavík hefur bent á og fleiri og ég hef kallað eftir svörum frá ýmsum aðilum, þ.e. hv. formanni umhvn., hæstv. félmrh. og hæstv. umhvrh. Ég endurtek að ég harma það að hæstv. iðnrh. skuli ekki vera hér vegna orkumálanna. Það er greinilegt að orkugeirinn er allt annarrar skoðunar en umhverfisþátturinn eins og hann leggur sig. Ég er þá auðvitað að beina spurningum til Framsfl. því að svo vill til að ábyrgðaraðilar þessa máls eru allir úr Framsfl. Ég er líka að bera fram spurningar til þeirra. En ég hóf mál mitt, herra forseti, á því að spyrja hæstv. forsrh. hvort hann teldi að sú ákvörðun hans að hafna því að ræða þessi mál, skipulags- og byggingarlagafrv., hafi skilað mjög miklum árangri og hvernig hann sjái þann árangur hafa birst að undanförnu.

Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.