Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 12:22:15 (6248)

1998-05-06 12:22:15# 122. lþ. 119.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[12:22]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hef skilið það þannig að þessi lína milli heimalanda og afrétta væri alger útgangspunktur í allri þessari umræðu. Það sem ég var að spyrja hæstv. ráðherra um var: Hver er hin lagalega staða þessarar línu í samanburði við aðrar markalínur sem um er að ræða inn á hálendið? Ég sé í áliti svæðisskipulagsnefndarinnar um miðhálendi Íslands að hún gengur út frá þessari línu og ég sé ekki betur en að í öllum þeim kortum sem fylgja svæðisskipulagstillögunni sé alls staðar gengið út frá sömu línu.

Spurningin er þá þessi, herra forseti: Telur hæstv. umhvrh. að þessi lína hafi sömu stöðu stjórnsýslulega séð og markalínur sveitarfélaga, sýslna eða annarra slíkra umdæma? Telur hann með öðrum orðum að hún marki þessa einingu skýrt eða teldi hann nauðsynlegt að ljá þessari línu beinan lagagrundvöll með því að skrá hana í lög landsins á tiltekinn hátt eins og gert er með sum sveitarfélagamörk, eins og t.d. Garðabær er markaður í lögum landsins í lagasafninu þar sem tilgreind eru hnit sem lína er dregin á milli til þess að ákveða hvað er sveitarfélagið Garðabær? Teldi umhvrh. ekki nauðsynlegt að taka það fram, til þess að þessi lína hafi gildi, að hún verði lögfest sem slík?