Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 12:33:19 (6253)

1998-05-06 12:33:19# 122. lþ. 119.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÓÖH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[12:33]

Ólafur Örn Haraldsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var spurður hvers vegna ég hefði greitt atkvæði á móti því að taka á dagskrá frv. umhvrh. um breytingu á skipulagslögunum. Ég gerði að nokkru leyti grein fyrir því í ræðu minni sem ég flutti hér. Viðhorf mín fara það fjarri þeim hugmyndum sem koma fram í því frv. að ég taldi að það þyrfti nauðsynlega að koma aftur til þingsins í nýjum búningi. Ég gerði ítarlega grein fyrir því í ræðu minni í hverju ég teldi að þyrfti að bæta frv. Það snýr að tveimur meginþáttum, þ.e. annars vegar nefndarskipaninni --- ég fór yfir það í alllöngu máli, bæði jafnvægi, jafnræði og samsetningu af öllu tagi --- og hitt atriðið er að ég tel umboð nefndarinnar of veikt.

Hv. þm. Svavar Gestsson spurði sömuleiðis hvort umhvn. hefði fjallað um ágreiningsmál varðandi hálendið í þeim búningi sem sá ágreiningur hefur birst hér. Það hefur umhvn. ekki gert sérstaklega enda voru þau mál ekki komin í þá umræðu og búning sem þau hafa síðan verið eftir síðasta fund nefndarinnar. En að sjálfsögðu ræddi nefndin málefni hálendisins og skipulagsmálin þegar þau voru til umræðu og eins líka þegar fyrrgreind þáltill. um þjóðgarða á miðhálendinu kom fram.