Sveitarstjórnarlög

Miðvikudaginn 06. maí 1998, kl. 13:30:09 (6256)

1998-05-06 13:30:09# 122. lþ. 119.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 122. lþ.

[13:30]

Svanfríður Jónasdóttir (frh.):

Herra forseti. Ég hef fyrst og fremst það sem af er ræðu minni verið að fjalla um stöðu sveitarstjórnanna til að taka við þeim viðamiklu verkefnum sem þeim hafa verið falin og mun verða falin að öllu óbreyttu og hef farið yfir nokkra þætti í því umhverfi sem sveitarstjórnunum eru búin. Ég hef einnig vitnað til erindis sem Sigurður Guðmundsson, forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar, hélt á ágætri ráðstefnu sem haldin var á Akureyri fyrir um það bil ári þar sem fjallað var um þróun byggðar á Íslandi með undirtitlinum Þjóðarsátt um framtíðarsýn. En eins og öllum má vera ljóst skiptir það verulegu máli fyrir þróun byggðar í landinu hver rammi sveitarfélögunum er settur.

Ég var að fjalla um það áðan, herra forseti, þegar gert var matarhlé að fjölskyldurnar og heimilin þurfa ýmsa grundvallarþjónustu, svo sem menntun, heilsugæslu og fleira þess háttar og til þessara þjónustuþátta hafa verið gerðar vaxandi kröfur. Þær hafa haft svipuð áhrif og verslunin, þ.e. tilhneigingin hefur verið til stærri eininga sem hafa getað boðið betri og fjölbreyttari þjónustu en sem hefur jafnframt krafist stærri notendahóps. Þennan stóra notendahóp hafa sveitarfélögin með þjónustu sína eða þær þjónustustofnanir sem þau hafa komið sér upp, mjög gjarnan í samstarfi við aðra, getað fengið vegna þess að samgöngur eru gjörbreyttar. Fullorðnir notendur hafa sem betur fer getað ferðast á ágætum vegum víða um landið á einkabílum en börnum hefur aftur á móti verið ekið með skólabílum þar sem dreifbýlissveitarfélög hafa náð saman um rekstur grunnskóla.

Reynt hefur verið að koma til móts við þarfir annarra sem geta ekki komist um á eigin farartækjum með ýmsum almennum eða sérhæfðum almenningssamgöngum. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að ýmsar kröfur til ýmiss konar þjónustu við almenning hafa krafist mikillar fjárfestingar bæði frá ríkinu og ekki síður frá sveitarfélögunum.

Eitt er það sem hefur ekki breytt eða gert mikla kröfu um hreyfanleika fólksins, ef það má orða það þannig eins og Sigurður orðar það, og það er aukin þörf fólks fyrir skemmtun vegna þess að mikill tími eða aukinn tími hefur farið í það hjá öllum þorra landsmanna að horfa á sjónvarp á undanförnum árum. Hins vegar er líka lögð mikil áhersla á ýmiss konar aðra afþreyingu og þjálfun sem krefst mikillar fjárfestingar, svo sem í íþróttahúsum og sundlaugum og alls kyns íþróttaaðstöðu. Það er sannarlega kostnaður sem sveitarfélögin hafa fundið fyrir á undanförnum árum og virðist, miðað við ýmsar þær kannanir sem hafa verið gerðar, skipta sköpum um það hvort fólki þykir byggðarlag sitt nægilega fýsilegt til búsetu eða uppeldis.

Ég hef ekki enn þá nefnt áhrifaþátt sem tengist bæði fyrirtækjum og heimilum og það er sú mikla fjárfesting í því sem stundum er kallað grunngerð, sem er íslensk þýðing á orðinu infrastructure sem er kannski öllu skiljanlegra þeim sem hafa lesið um þessi málefni því að orðið grunngerð er tiltölulega nýtt. Þarna er um að ræða miklar fjárfestingar sem liggja í götum og gangstéttum, í torgum og görðum, vatnsveitum, hitaveitum, skolpræsum, ljósastaurum og öllu því öðru sem hægt er að segja að fylgi og fylgja beri nútímasamfélagi. Aðlögunarhæfni byggðarinnar að síbreytilegum forsendum, bæði vegna breytinga á forsendum heimila og atvinnulífs fer minnkandi vegna þess að nú þegar er búið að binda verulegt fé í því sem hér hefur verið upp talið. Við getum ekki lengur ímyndað okkur að við séum að breyta þróun byggðamunstursins með frekari fjárfestingum svo neinu nemi.

Ýmsir aðrir þættir virðast þar skipta nú orðið meira máli enda hefur breyting á dreifingu mannfjöldans á Íslandi verið töluvert mikil. Annars vegar er fólk að flytja vítt og breitt um landið og hins vegar hefur fólki á Íslandi einfaldlega fjölgað meira en víða annars staðar. Á undanförnum 10 árum hefur t.d. þjóðinni fjölgað um næstum 11% eða um rúmlega 1% á ári að jafnaði en á sama tíma hefur íbúum annarra Norðurlanda fjölgað um innan við 0,5% á ári að meðaltali.

Það sem vekur athygli varðandi byggðaþróunina á Íslandi er það að hlutfallsleg fjölgun hefur hvergi verið meiri en á fjölmennasta svæðinu eða um 20% en á 11 landsvæðum hefur hins vegar fækkunin orðið 10% eða meira, allt upp í 22% fækkun á þessu saman tímabili.

Eins og ég sagði, herra forseti, eru þessar breytingar fyrst og fremst vegna búferlaflutninga því að ekki er mikill munur á dánar- og fæðingartíðni eftir landsvæðum. Og á undanförnum tveimur árum hefur þessi straumur verið þyngstur.

Ég auglýsti eiginlega eftir umræðu um byggðastefnu í fyrri ræðu minni, ekki síst vegna þess metnaðarleysis sem mér fannst vera í frv. til sveitarstjórnarlaga. Oft hefur verið tekin snörp umræða í þingsölum um ýmis atriði sem má flokka til byggðastefnu en þegar menn hafa það til viðbótar að aldrei hefur röskun byggðar verið meiri en undanfarin tvö ár þá hefði mátt ætla að einhverjum þætti tímabært að taka málið til umfjöllunar. Hér liggur reyndar fyrir till. til þál. um stefnu í byggðamálum en henni var dreift fyrir nokkrum dögum og ég veit ekki til þess að hún eigi að fá afgreiðslu eða umfjöllun. Það má vel vera, en a.m.k. er alveg ljóst að ekki er mikil pressa á þessi mál núna og það má kannski segja að staða byggðamálanna sé eitthvert best varðveitta leyndarmál sem er á kreiki þessa dagana.

Annað hefur líka verið að gerast. Það hefur ekki bara verið þannig að fólk flytti utan af landi og til höfuðborgarsvæðisins heldur hefur íbúaþróun þéttbýlisstaða landsbyggðarinnar líka verið mjög mismunandi allt frá því að til eru staðir sem hafa vaxið ár frá ári og yfir í staði sem hafa stöðugt misst frá sér íbúa þar sem stöðug fækkun hefur átt sér stað. Menn hafa líka verið að leita ástæðna fyrir þessari þróun og hafa leitað skýringa í atvinnuþróun, atvinnuleysi, tekjum og ýmsum öðrum þáttum en það virðist ekki vera nein einföld skýring. Það virðist þó liggja fyrir að þau svæði, sem hafa getað dregið til sín það fólk sem flytur úr aðliggjandi sveitarhéruðum, hafi náð að stækka. Það virðist því skipta máli fyrir þéttbýlisstaðina úti á landi að hafa gott upptökusvæði, ef það má orða það þannig, að í kring séu sveitahéruð, hvaðan fólk er tilbúið til að flytja til viðkomandi þéttbýliskjarna í stað þess að flytja beint suður.

Akureyri er t.d. einn af þeim stöðum sem hefur haft býsna sterkt upptökusvæði og fólk hefur flutt til Akureyrar allt eins og að flytja suður. Þau svæði og þeir kaupstaðir sem hafa notið fjölgunar vegna flutnings frá þeim virðast þó ekki gefa vonir um að þaðan flytji miklu fleira fólk á næstu árum þannig að við getum kannski litið svo á að þeirri fjölgun sem átt hefur sér stað á ýmsum þéttbýlisstöðum úti á landi vegna þessara áhrifa sé að verða lokið.

Það er athyglisvert, af því að ég var að tala um till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir næstu árin, að það var samþykkt stefna árið 1994 og byggðaþróun undanfarinna ára hefur gengið þvert á þá stefnu. Þar var eitt af þremur markmiðum að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins en það hefur augljóslega ekki tekist. Ég get ekki látið hjá líða að geta þess, herra forseti, að mér sýnist að í þessari nýju till. til þál. sem liggur fyrir ætli menn sér ekki bara að draga úr fólksflutningum til höfuðborgarsvæðisins heldur ætli menn að fjölga á landsbyggðinni um 10%. Ég veit satt að segja ekki hvort ég á að hlæja eða gráta þegar ég les slíkt en það er alveg ljóst að það markmið sem menn settu sér 1994 hefur ekki tekist. Sumir segja að það sé kannski út af fyrir sig gott að höfuðborgarsvæðið gat þó tekið við flestum sem þangað hafa flutt þó að á tímabili hafi verið töluvert um að fólk flytti beint af landsbyggðinni til útlanda, aðallega til Jótlands. En það hefur verið rætt, herra forseti, í tengslum við byggðaþróunina að menn þurfi líka að huga að því að Ísland á nú orðið í samkeppni um fólk við umheiminn. Það er ekki bara samkeppni á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis en við þurfum að hafa augað á hvoru tveggja.

Þeir sem ákvörðun taka um að fara af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins eða snúa ekki aftur eftir að hafa stundað nám eru væntanlega að gera það með það að leiðarljósi að bæta stöðu sína sem kostur er. Engu að síður er þessi þróun þjóðfélaginu dýr og óæskileg. Fækkun íbúa rýrir nýtingu ýmiss konar mannvirkja og stofnana sem þjóðfélagið hefur komið upp til að þjóna íbúum og fyrirtækjum. Samfélög í samdrætti hafa sýnt sig að vera á ýmsan hátt gölluð. Deilur hafa tilhneigingu til að magnast nema þau skynji sameiginlegan óvin. Rekstur fyrirtækja er erfiðari við skilyrði mannfækkunar. Þjónustusvæði og markaðir dragast saman og þar með tekjumöguleikar. Fyrirtæki eins og fiskvinnslufyrirtæki sem geta að öðru jöfnu ekki náð til sín nema takmörkuðu hlutfalli vinnumarkaðar eiga erfitt með að manna þá atvinnustarfsemi sem þau stunda jafnvel þó að ekki séu gerðar kröfur um mikla sérmenntun.

Til þess kann að koma að ekki náist æskileg fullnýting náttúruauðlinda vegna mannfæðar. Samdrátturinn verður þannig vítahringur. Fólk vill ekki flytja á stað þaðan sem aðrir eru að flytja í mismiklum mæli jafnvel þó að það gæfi því tækifæri til að skapa sér viðunandi viðurværi.

Nú kann einhver að spyrja: Það kann að vera rétt að fólk muni ekki vilja búa á landsbyggðinni og muni vilja flytja þaðan. En er víst að höfuðborgarsvæðið geti þá tekið við öllu þessu fólki? Mun það fá störf? Munu ekki neikvæð áhrif stórborgarinnar smám saman yfirvega hin jákvæðu áhrif?

Herra forseti. Það er álit Sigurðar Guðmundssonar að svo muni ekki verða á næstu árum. Það er álit hans að höfuðborgarsvæðið hafi mikla vaxtarmöguleika og að í alþjóðlegum samanburði hafi það yfirburði á ýmsum sviðum m.a. í því hvað varðar aðgengi að óspilltri náttúru, svo sem margir sakna í stórborgum nágrannalandanna. Atvinnulíf svæðisins hefur jafnframt sýnt sig í því að vaxa á undanförnum árum um u.þ.b. þúsund störf á ári að meðaltali þrátt fyrir samdrátt í ýmsum greinum og auknu atvinnuleysi sem því tengjast.

Herra forseti. Það hefur komið í ljós að ýmsir aðrir þættir en atvinnulíf og atvinnumál ráða því hvar fólk kýs að búa. Það er samt sem áður lykilatriði hvernig búast má við að atvinnulífið þróist á næstu árum og einkum og sér í lagi er það lykilatriði hvar á landinu uppbyggingin verður. Einhverjir möguleikar eru í atvinnugreinum sem byggjast á nýtingu náttúruauðlinda sem eru bundnar við tiltekna staði. En ef ekki kemur til umtalsverður fjöldi áhugaverðra starfa í öðrum greinum en opinberri þjónustu á landsbyggðinni á næstu árum verður þeirri þróun sem við höfum séð ekki snúið við af því að tími varnaraðgerða fyrir greinar með litla framleiðni er liðinn.

Herra forseti. Ekki þýðir lengur að bjóða upp á meira af því sama. Menn verða að fitja upp á nýjungum og það verður að bjóða upp á atvinnutækifæri sem gefa menntuðum einstaklingum færi á atvinnu, færi á að búa úti á landi. Við veltum því mikið fyrir okkur hvernig þróunin verði í sjávarútveginum á næstu árum vegna þess að hann er burðarás í atvinnulífi margra sveitarfélaga úti um landið. Það er hægt að orða þá þróun á þann veg að mikilvægt sé að gera sér grein fyrir því hvernig þarfir sjávarútvegsins til aðstöðu í landi muni ríma saman við uppbyggingu heilbrigðra samfélaga.

[13:45]

Það er ljóst að jafnsveiflukennd atvinnugrein og sjávarútvegurinn getur aldrei orðið sams konar undirstaða traustrar og öflugrar búsetu og margar aðrar greinar. Atvinnugrein sem gerir sams konar kröfur til vinnslumöguleika í landi og mannafla og loðnuveiðar þar sem allt er á hvolfi um stóran hluta landsins í hámark tvo mánuði um miðjan vetur leiðir ekki til stöðugleika í þeim byggðarlögum sem hlut eiga að máli. Þess vegna skiptir svo miklu máli hver verður framvinda greinarinnar út frá tæknilegum og líffræðilegum forsendum. Það er vitað að eðlileg nýting auðlinda sjávarins byggir á mjög dreifðri búsetu fólks um landið en þessi nýting skapar ekki forsendur fyrir þeirri búsetu sem hún krefst þó í raun. Þetta er vissulega umhugsunarefni, herra forseti, en bætt geymslutækni, flutningatækni og bætt stjórnun vega að hluta til á móti þessu í nýtingu sumra fisktegunda.

Það er ljóst að fámenn byggðarlög geta ekki staðið undir fjölbreyttri þjónustu. Fólk gerir engu að síður kröfur um þjónustu og því vaknar spurningin um hvort hægt er að koma til móts við þessar kröfur með einhverjum hætti. Að sjálfsögðu eru bættar samgöngur á landi ein mikilvæg forsenda fyrir möguleikum á því að bjóða bætta þjónustu en hún er hins vegar ekki fullnægjandi þegar litið er til tegunda þjónustu sem þurfa mannfjölda sem eru verulega umfram þann sem má finna í þéttbýliskjörnum landsbyggðarinnar, jafnvel þó að þeir séu tengdir eins náið saman með vegum og hægt er. Það er nokkuð fullreynt að frá stjórnmálalegu sjónarmiði er ekki ásættanlegt að stefna að því að safna fólki saman í færri og stærri þéttbýlisstaði hér á landi, m.a. með því að þjappa saman þjónustunni. Það hefur einfaldlega ekki náðst pólitísk samstaða um þá stefnu þó að hún hafi oft verið viðruð, þ.e. hún hefur orðið til á pappírnum en þegar á reynir hefur lítið gerst. Svo geta menn kannski sagt að það sé líka óvisst um árangur slíkrar stefnu.

Herra forseti. Eins og hér hefur komið fram eru einungis örfáir staðir á landinu sem hafa sýnt sig í því að sýna viðnám gegn því að fólk flytji beint suður til Reykjavíkur. Við veltum því fyrir okkur hvort hægt væri að ná meiri árangri með því að beina athyglinni að þessum stöðum sérstaklega þegar hið opinbera á hlut eða hvetja einkaaðila með fjárhagslegum stuðningi til að velja atvinnu sinni þar stað.

Við veltum því fyrir okkur hvort stjórnvöld hafi í raun möguleika til að hafa áhrif á þróun byggðarinnar og hvaða tæki séu þá vænlegust. Eins og fram hefur komið er núverandi þróun neikvæð og dýr fyrir samfélagið vegna þess að hún nýtir ekki þá fjárfestingu í íbúðum, atvinnutækjum og opinberri þjónustu sem hefur verið lagt í á undanförnum árum. Þess vegna er nýting náttúruauðlindanna að verða dýrari og hún verður jafnvel óframkvæmanleg ef búsetan þjappast meira saman á lítið svæði.

Þá er ótalið að margir vildu gjarnan búa á landsbyggðinni ef þar væru atvinnutækifæri sem hæfa menntun þeirra og áhuga en geta það ekki eða illa við þær aðstæður sem nú eru. Samt er ljóst að ákveðnar aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins gætu skilað árangri í þessum efnum og ég vil telja hér upp, herra forseti, þær aðgerðir sem Sigurður Guðmundsson telur að séu vænlegastar.

1. Uppbygging menntakerfis sem tekur tillit til búsetudreifingar í landinu og færir sér í nyt nútímatækni til þess að gera fólki í öllu landinu mögulegt að njóta bestu og fjölbreyttustu menntunar sem völ er á.

2. Fjárhagslegur stuðningur ríkisvaldsins varðandi miðlun tækniþekkingar, markaðssetningu, vöruþróun og annað sem er litlum fyrirtækjum í fámennum byggðarlögum um megn. Þessi stuðningur þarf að vera réttlátur og gegnsær.

3. Skipulag opinberrar þjónustu sem hefur það að markmiði að veita öllum landsmönnum sambærilega þjónustu en notar til þess bestu tækni sem völ er á.

4. Samgönguframkvæmdir til þess að stækka atvinnu- og þjónustusvæði þar sem hægt er að bæta stöðuna umtalsvert með þeim hætti.

Herra forseti. Þetta var í raun inngangur að umfjöllun um frv. til sveitarstjórnarlaga vegna þess að eins og fram hefur komið eru slík lög ákveðin umgjörð um líf fólksins í landinu vegna þess að sveitarfélögin eru sá aðili miklu fremur ríkinu sem ræður í raun miklu um aðstöðu fólks hvað varðar dagvist fyrir börn, skóla, afþreyingu, húsnæðismál og ýmislegt fleira sem fólk horfir sannarlega til þegar það veltir því fyrir sér hvar það kýs að setjast að, hvar það kýs að búa sér heimili.

Herra forseti. Á ráðstefnunni, sem ég hef getið um og fór fram á Akureyri fyrir um það bil ári um þróun byggðar, voru kynntar fyrstu niðurstöður úr könnun eða rannsókn sem þá hafði farið fram en ekki var búið að vinna fullkomlega úr, rannsókn sem var gerð á orsökum búferlaflutninga. Það var Byggðastofnun sem gekkst fyrir rannsókninni í samvinnu við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. Niðurstöður rannsóknarinnar komu endanlega út í nóvember á síðasta ári og vöktu nokkra athygli. Kannski má segja að það hafi eyðilagt svolítið fyrir kynningu á þessum rannsóknum að einhverra hluta vegna voru þær kynntar fyrst á fundi hjá Framsfl. Það gaf mönnum þá tilfinningu að þetta væru pólitískar lausnir sem væri ekki ástæða til að taka sérstakt mark á og ég tel miður að þannig skyldi hafa verið farið með niðurstöður rannsóknarinnar vegna þess að það skipti verulegu máli hvernig þær voru kynntar, ekki síst vegna þess að svo merkilegt sem það má teljast, þá er búið að tala um byggðamál og menn hafa verið að leita lausna mjög lengi án þess að nokkur sambærileg rannsókn færi fram á orsökum þeirra miklu búferlaflutninga sem átt hafa sér stað á Íslandi á þessari öld.

Þessi rannsókn og niðurstöður hennar eru lykillinn að því sem stjórnvöld eru að gera núna en eins og ég sagði, herra forseti, harma ég hvernig til tókst með kynningu á rannsókninni. Ég hafði beðið í eftirvæntingu eftir að fá niðurstöðurnar í hendur og hafði vænst þess að kynning þeirra yrði með þeim hætti að um þær gæti spunnist nokkur umræða sem mætti þá verða okkur öllum til aukins skilnings á orsökum búferlaflutninga og þá hugsanlegum úrræðum til þess að snúa þróuninni við sem er þjóðhagslega óhagkvæm eins og margoft hefur komið fram. En því miður tókst ekki betur til en svo að umræða hefur orðið sáralítil, allt of lítil að mínu mati, vegna þess að rannsóknin var mjög víðfeðm. Bæði voru notuð ýmis þau gögn sem fyrir lágu og kannanir sem áður höfðu verið gerðar en einnig voru gerðar viðamiklar kannanir sem snertu atriði sem höfðu ekki verið skoðuð áður sambærilega.

Herra forseti. Ég ætla að fara lauslega yfir samandregnar niðurstöður þessarar rannsóknar. Ég held að nauðsynlegt sé að þær komi fram vegna þess að þær eru, eins og ég sagði áðan, lykill að því sem stjórnvöld ættu að vera að gera núna. Þegar ég segi ,,ættu að vera að gera núna`` vil ég minna á það að sum okkar höfum vitnað til niðurstaðna úr þessari rannsókn þegar við höfum verið að reyna að þyngja mál okkar hér hvað varðar ýmsar áherslur en höfum ekki orðið vör við mikil viðbrögð. Vonandi breytist það þegar fyrir liggur till. til þál. um stefnu í byggðamálum sem byggir að stórum hluta á þessum niðurstöðum, þá hljóta menn, t.d. ýmsir ráðherrar, sem virðast ekki hafa heyrt hingað til, að fara að heyra eða ég geri mér a.m.k. vonir um það.

Markmið rannsóknarinnar var að leita skýringa á búferlaflutningum á milli landshluta á Íslandi vegna þess að ef menn fyndu slíkar skýringar þá gætu þær veitt gagnlegar vísbendingar um hvaða aðgerðir væru líklegar til að hafa áhrif á framtíðarþróun búferlaflutninga í landinu. Eins og ég sagði skoðuðu menn mikið af fyrirliggjandi gögnum sem til voru og framkvæmdu tvær sérkannanir til að afla nýrra gagna. Menn skoðuðu forsendur þeirra skýringa sem komu fram og auðvitað kemur þar fram að búferlaflutningar eru ákvörðun einstaklings og fjölskyldu sem byggist á mati og samanburði viðkomandi aðila á kostum og göllum aðstæðna í upprunabyggð og hugsanlegum áfangastað. Þess er einnig getið að hugsanlegt væri að um þvingaða búferlaflutninga t.d. vegna atvinnuleysis eða ófullnægjandi menntunaraðstæðna.

Þetta tvennt höfum við gjarnan nefnt í umræðunni, þessa svokölluðu þvinguðu búferlaflutninga vegna atvinnuleysis eða ófullnægjandi menntunaraðstæðna. Í umræðu um menntamál er mjög gjarnan bent á mikilvægi þess að fólk út um allt land eigi völ á góðri menntun og góðum menntunarkostum fyrir börn sín vegna þess að hitt er svo algengt að foreldrar þurfi að fylgja ungmennum eftir þegar þau ákveða að fara til framhaldsnáms. Hér er talað um að sú ákvörðun að flytja byggist á mati og samanburði á kostum og göllum aðstæðna í upprunabyggð og á hugsanlegum áfangastað. Það er kannski þess vegna sem það var svo áhugavert, herra forseti, að könnunin skyldi vera gerð því að hún var einmitt gerð á mati fólks, bæði á aðstæðum heima fyrir og reynt var að fiska eftir því hvað það var sem menn vildu helst sjá eða hafa þar sem þeir settu saman sitt heimili eða viðhéldu því.

Ég gat þess áðan að búferlaflutningar hafi verið meiri á Íslandi á þessari öld en þekkist í nágrannalöndunum. Að hluta til er það kannski vegna þess að þéttbýlismyndun hófst svo seint á Íslandi af ýmsum ástæðum, pólitískum, félagslegum og atvinnulegum en alla vega má kannski segja að við höfum tekið með trukki það sem aðrir voru búnir að taka sér tvær til þrjár aldir í að þróa. Það hefur hins vegar gerst að í nágrannalöndunum hafa búferlaflutningar breyst á undanförnum árum. Þar var það svo að fram til um 1970 var aukning á streymi fólks frá jaðarsvæðunum til þéttbýlli staða og stórborga. En eftir 1970 hægði sums staðar á búseturöskuninni, t.d. í Skandinavíu, í Finnlandi og í Bretlandi, og fólk tók í vaxandi mæli að flytja frá stórborgum til smærri þéttbýlisstaða og dreifbýlis, oft í nánd við stórborgirnar og víða er spáð áframhaldi slíkrar þróunar. Hér á landi hefur þessarar þróunar ekki gætt enn. Við þekkjum reyndar að hér varð ákveðin breyting á tímabilinu frá 1976--1980 en þá breyttist munstrið aðeins þannig að fleira fólk flutti út á land en flutti utan af landi en það gerðist m.a. vegna mikillar uppbyggingar í atvinnulífinu á árunum upp úr 1970 en síðan hefur þróunin öll verið á einn veg og flutningur hefur fyrst og fremst verið af landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðið eða úr minna þéttbýli í stærra þéttbýli, úr sveitum í þéttbýli. Eins og fram kom í því sem ég hafði eftir Sigurði Guðmundssyni áðan er það mat hans að við gætum lengi átt eftir að horfa framan í þessa þróun ef ekkert er að gert vegna þess að höfuðborgarsvæðið á Íslandi hefur ekki enn þá þau merki stórborgar sem fólk er að flýja erlendis, m.a. vegna þeirra möguleika sem gefast á útivist eða vegna aðstæðna sem gefa fólki kost á nálægð við náttúruna sem hér eru en eru víðast hvar annars staðar ekki.

[14:00]

Mjög sterkt samband er á milli ánægju íbúanna með búsetuskilyrðin og fólksfjöldaþróunar í einstökum landshlutum. Það vegur þungt hvort aðstæður fyrir framangreinda þætti nútímalegra lífshátta eru hagstæðar eða ekki. Athyglisvert er, herra forseti, að hugtakið ,,nútímalegir lífshættir`` kemur fyrir aftur og aftur í niðurstöðum þessarar rannsóknar og svo virðist sem það sem er kallað hér nútímalegir lífshættir hafi sterkasta aðdráttaraflið. Þau svæði á landsbyggðinni, sem byggja öðru fremur á frumvinnslugreinum atvinnulífsins, á landbúnaði og sjávarútvegi, einkum fiskvinnslu, fá að öðru jöfnu lakasta einkunn frá íbúunum sjálfum fyrir einstaka þætti búsetuskilyrða og þau svæði hafa jafnframt tapað flestu fólki. Þróun atvinnutækifæra í fiskvinnslu hefur mikla fylgni við þróun nettóbúferlaflutninga frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins.

Við tölum oft um hversu mikilvægt það er að fiskvinnslan nái að þróast og að hún flytjist ekki öll út á sjó og menn hafa haft áhyggjur af því að fólk úti um landið væri að missa vinnu sína vegna þess að ekki væri nægjanleg fiskvinnsla og sveitarstjórnir landsins hafa eytt ófáum milljónunum í að halda fiskvinnslufyrirtækjum gangandi til að viðhalda atvinnu. Það virðist vera svo, herra forseti, að fiskvinnsla þyki svo lítt aðlaðandi, a.m.k. í því formi sem við höfum þekkt hana, að beinlínis hefur verið fólksflótti frá þeim svæðum þar sem fiskvinnslan hefur þó verið hvað mest. Menn sækja úr henni í aðrar greinar. Ég sagði ,,fiskvinnsla eins og við höfum þekkt hana`` vegna þess að sem betur fer hefur þróunin á þessu sviði orðið sú að það þarf kannski ekki eins margar hendur og þurfti vegna tæknibreytinga en svo er líka annað að með aukinni fullvinnslu er fiskvinnsla orðin mun líkari vinnu í öðrum iðnaði. Þegar fiskvinnsla er orðin fiskiðnaður, ég vek athygli á því að það er dálítill munur á þessum hugtökum, þá nær hún kannski að skapa sér nýjan sess og verða eftirsóknarverðari. Þó er ljóst að launakjörin þurfa þá einnig að batna og vonandi geta þau líka gert það með breyttri og meiri tækni og frekari fullvinnslu.

En búsetumat almennings sem er samsett úr þeim samanburði sem fólk gerir á sínum eigin aðstæðum og þeim aðstæðum sem það telur sig geta vænst annars staðar skýrir búsetuþróunina í landinu að stórum hluta. Til að hafa áhrif á búsetuþróunina þarf að breyta þessum skilyrðum sem móta búsetumat fólksins í einstökum landshlutum og í raun þarf að bæta búsetumatið. Þar hafa fjölmiðlar mjög stóru hlutverki að gegna, herra forseti, því að fjölmiðlar hafa tilhneigingu til að sýna myndir af höfuðborgarsvæðinu eins og það er undir öllum kringumstæðum, bæði við jákvæðar og neikvæðar aðstæður. Hins vegar er líklegt að þegar landsbyggðin á í hlut sé fyrst og fremst verið að sýna hinar neikvæðu aðstæður. Það þykir frétt þegar stór fyrirtæki loka, mikið atvinnuleysi verður, náttúruhamfarir ganga yfir eða alvarleg staða kemur upp einhverra hluta vegna. Ég tala ekki um ef það er eitthvað sem er hægt að hlæja að, þá getur landsbyggðin fengið smárými í fréttum. Þetta mótar auðvitað viðhorf, ekki bara þeirra sem hér búa, heldur því miður einnig íbúanna á landsbyggðinni því að sjálfsmynd þeirra verður að hluta til til í gegnum fjölmiðlana og búsetumat þeirra sem þar búa mótast af þessari mynd líka. Því skiptir verulegu máli hvaða mynd er dregin upp hvað það varðar hversu sátt fólk er við það svæði eða þann stað sem það býr á. Kannski skiptir jafnmiklu máli tilfinningin fyrir því að hlutirnir séu í góðu lagi og það sem efnislegt kann að vera.

Ef við skoðum búsetuþróunina er ljóst að búferlaflutningarnir hafa verið mjög miklir og að um 60--70% landsbyggðarmanna, sem á annað borð flytja á milli byggðarlaga, flytja á höfuðborgarsvæðið. Búseturöskunin vegna búferlaflutninga hefur verið mun meiri hér á landi en t.d. í nyrstu héruðum Skandinavíu og Finnlands. Við höfum stundum verið að vísa til ýmissa aðgerða sem hefur verið gripið til í norðurhéruðum Skandinavíu þegar við höfum rætt hversu alvarleg þróunin er hér og þær aðgerðir hafa að líkindum skipt máli því að búseturöskunin hefur verið mun minni þar þótt þeim þyki hún ærin. Eitt af því sem þar hefur gerst, herra forseti, er að þar hafa sveitarfélögin verið stækkuð. Þar hafa verið búnar til burðugar stjórnsýslueiningar til að taka við verkefnum. Þá kem ég enn og aftur að því að á meðan við búum ekki til burðugar stjórnsýslueiningar til að taka við verkefnum óttast ég að viðnám okkar gagnvart þessari búseturöskun verði minna en skyldi. En það munar allt of miklu, herra forseti, á því sem landsbyggðin á Íslandi tapar, t.d. á árunum frá 1960 til 1990, því að þá tapar landsbyggðin á Íslandi tæplega 30% af íbúafjöldanum miðað við það sem hann var árið 1960 en samsvarandi tap í nyrstu héruðum Noregs, Svíþjóðar og Finnlands var um 18%. Á þeim tíma þegar landsbyggðin tapar tæplega 30% þá tapa Vestfirðirnir um 53% fólksfjöldans sem þar var árið 1960. Samsvarandi tala fyrir Lappland var 29%, sem er eitt af norðlægu og erfiðu svæðunum í Skandinavíu, og það var mesta tapið í framangreindum héruðum Skandinavíu og Finnlands.

Vægi höfuðborgarsvæðisins á Íslandi er mjög mikið vegna þess að 58% þjóðarinnar búa á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á Norðurlöndunum er vægi þéttbýlis með 50 þús. íbúa eða fleiri aðeins frá 31% upp í 39% og höfuðborgirnar annars staðar á Norðurlöndunum hýsa frá 17% til 26% íbúanna. Hér eru þeir hins vegar rétt tæplega 40%. Því er ljóst, samandregið sagt, herra forseti, að sérstaða búferlaflutninganna frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðis hér á landi er mjög mikil.

Herra forseti. Ég talaði áðan um mat á búsetuskilyrðum og hvert mat fólks er á búsetuskilyrðum sínum. Á meðan samskipti ríkis og sveitarfélaga voru meiri en þau eru núna, og þá á ég við fjárhagsleg samskipti, og fleiri verkefni voru sameiginleg með ríki og sveitarfélögum voru gjarnan notuð þau ráð af hálfu sveitarfélaganna til að fá ríkið til að leggja fram peninga til tiltekinna verkefna að lýsa ástandinu sem verstu. Það má orða það þannig að menn hafi talið vænlegast til að ná peningum frá ríkisvaldinu að barma sér sem mest. Ég er handviss um það, herra forseti, að sú aðferð að lýsa landsbyggðinni eins og oft var gert á þessum tíma, við erum að tala um eins og á áttunda áratugnum og níunda áratugnum, allt fram að verkaskiptunum 1989, að þær lýsingar sem sveitarstjórnarmenn og héraðshöfðingjar ýmsir létu frá sér fara á þessum tíma á ástandinu heima fyrir voru ekki til þess fallnar að íbúarnir á þessum svæðum litu björtum augum á búsetuskilyrði sín. Það verður að segjast eins og er að landsbyggðin var sjálfri sér verst á þessu tímabili. Í rauninni var skelfilegt að heyra hvernig menn með þessum hætti ,,auglýstu`` svæði sín. Í stað þess að leggja áherslu á það sem jákvætt var og gott, í stað þess að segja frá því hvað það var sem virkilega gerði það að verkum að fjöldi fólks vildi eiga heima á ýmsum stöðum úti á landi, var fyrst og fremst dregið fram það sem neikvætt var. Svo voru menn alveg hissa á því að fólk skyldi flytja í burtu en það var matið á búsetuskilyrðunum sem fólk heyrði frá þeim sem það hafði kjörið til að vera forsvarsmenn sínir sem hafði auðvitað mikil áhrif á það hvernig fólk brást við þegar því var sagt aftur og aftur hvað aðstæður þess væru slæmar í samanburði við höfuðborgarsvæðið, það var alltaf samanburðurinn, þá kom að því einn góðan veðurdag að fólk trúði því að búsetuskilyrði þess væru óþarflega slæm í samanburði og matið fór eftir því.

Þetta held ég hafi verið alveg skelfilega rangt en á móti bentu menn á það að ef þeir létu sem svo að allt væri í góðu lagi kæmu engir peningar frá ríkinu og þá var lítið hægt að gera. Ég held að þetta sé, herra forseti, ein stærsta ástæða þess að best sé að það sé algerlega hreint borð milli ríkis og sveitarfélaga og sveitarfélögin hafi sjálf sem flest verkefnanna og beri á þeim ábyrgð. Það er þá ekki á annan að benda. En til þess þarf að breyta ýmsum þeim ákvæðum sem eru í frv. til sveitarstjórnarlaga hvað varðar aðstöðu sveitarfélaganna til að taka við þessum verkefnum.

Það virðist vera mat fólks að framfarir á sviði menningar- og afþreyingarmála skynji menn helst á höfuðborgarsvæði og síðan á Norðurlandi eystra, þ.e. það ræðst af þéttbýli. Því meira þéttbýli, því bjartsýnna virðist fólk vera á framfarir í ýmsum mikilvægum málaflokkum. Sú könnun sem var gerð sérstaklega tók til ýmissa málaflokka. Hún tók til atvinnumála, opinberrar þjónustu, húsnæðismála, menningar- og afþreyingaraðstöðu, samgangna, verslunar og þjónustu, umhverfisskilyrða og veðurfars. Mér fannst dálítið skemmtilegt, herra forseti, að það skyldi vera kannað hjá fólki hvað því fannst um veðrið og það kom mér sem Norðlendingi satt að segja dálítið á óvart að við Norðlendingar skyldum ekki skora hæst þar en það voru Austfirðingar. Við komum reyndar þar fast á eftir og það kom engum á óvart að veðurfar á höfuðborgarsvæðinu var talið einna lakast. Það vigtar bara ekki nægilega inn í mat fólks á búsetuskilyrðum til að ráða úrslitum. En þetta er það sem við heyrum gjarnan. Þetta er stöðluð veðurímynd landsins þó svo að við sem búum bæði fyrir norðan og sunnan getum haft ýmsar skoðanir á þessu aðrar en þær sem felast í þessu mati, en það segir okkur kannski hvað þetta mat getur byggst á stöðluðum hugmyndum fólks um það hvað er gott og hvað er vont.

Niðurstaða heildarmats á búsetuskilyrðum var þannig að íbúar höfuðborgarsvæðisins voru ánægðastir með búsetuskilyrði sín. Eðlilega. Það er búið að segja þeim í svo mörg ár að þau séu langbest hér. Íbúar Norðurl. e., einkum Akureyrarsvæðisins, fylgja fast á eftir, og þarf kannski ekki að koma á óvart vegna þess að þar er þéttbýlið mest fyrir utan höfuðborgarsvæðið og mestir möguleikar bæði hvað varðar fjölbreytilega atvinnu og afþreyingu.

[14:15]

Mest ánægja með atvinnumál er líka á höfuðborgarsvæðinu en næstmest á Norðurl. e. af þeim ástæðum sem ég gat um hér. Hins vegar er mest kvartað um ófullnægjandi atvinnumál á Norðurl. v. og Vesturlandi og eru það einkum ófullnægjandi atvinnutækifæri eða fábreytileiki atvinnutækifæranna sem kvartað er undan. Það kemur fram í þessu, herra forseti, að almennt megi segja að lítil ánægja sé með atvinnumál á landsbyggðinni. Það held ég að sé bæði efnislegt og kannski líka byggt á samanburði en efnislegt vegna þess að það er ákveðin fábreytni á ýmsum stöðum, m.a. vegna þess að tiltekin þjónusta, sem við hefðum getað verið með víðar um landið, hefur ekki náð fótfestu annars staðar en í alstærsta þéttbýli.

Menningar- og afþreyingarmálin, sem skipta mun meira máli en menn kannski gerðu ráð fyrir áður en könnunin var gerð, hafa eðlilega sterkasta stöðu á stærstu þéttbýlisstöðunum vegna þess að þar eru mögleikarnir til fjölbreytni mestir.

Almennt má segja að íbúar fjölmennra svæða væru ánægðari en íbúar þeirra svæði þar sem fáir bjuggu. Það kemur fram í niðurstöðum þessarar rannsóknar að íbúar þéttbýlisstaða með 200--1.000 íbúa hafi sérstöðu fyrir það hve óánægðir þeir eru með búsetuskilyrðin. Það virðist svo aftur breytast þegar fámennið er orðið enn þá meira eða þegar orðið er um hrein landbúnaðarhéruð eða sveitir að ræða. Þegar þar er komið gera menn greinilega bara aðrar kröfur og njóta þá þeirra kosta sem slíkt umhverfi býður upp á á meðan litlu þéttbýlisstaðirnir virðast vera þeim annmörkum háðir að menn gera kröfur um það að fá að njóta kosta þéttbýlis án þess að það sé þó nægjanlega stórt eða fjölmennt til þess að geta veitt íbúunum það sem sóst er eftir. Þarna er því ákveðinn vítahringur á ferðinni.

En þegar skoðað er hverjir eru óánægðir og hverjir það eru sem flytja á milli byggðarlaga kemur í ljós að þeir sem eru óánægðastir með búsetuskilyrði sín er starfsfólk í fiskvinnslu, það eru bændur og síðan sjómenn, og svo ungt fólk á aldrinum 18--24 ára sem gjarnan býr í leiguhúsnæði eða hjá foreldrum sínum. Þetta finnst mér býsna alvarleg niðurstaða, herra forseti, óánægjan með búsetuskilyrðin er mest hjá þeim sem vinna í svokölluðum frumvinnslugreinum og svo hjá unga fólkinu. Þar liggur meginhættan. Enda kemur það í ljós að þeir sem lokið hafa háskólamenntun eða bóklegu framhaldsnámi eru líklegri til að flytja búferlum en aðrir. Þar kemur m.a. til fábreytnin í atvinnulífinu og litlir möguleikar á því að geta nýtt menntun beint. Auðvitað má segja að menntun komi alltaf óbeint til góða en fólk vill gjarnan hafa atvinnu líka af menntun sinni, ekki síst ef um starfsnám er að ræða, og flytur þá búferlum til þess að fá hugsanlega notið þeirrar virðingar og launa sem kunna að fylgja því að vinna við það sem þeir menntuðu sig til.

Jafnframt kemur fram að þeir sem búa í eigin húsnæði flytja síður en fólk sem leigir eða býr hjá foreldrum eða ættingjum. Þetta er kannski atriði sem við munum ræða, herra forseti, þegar við ræðum um frv. til nýrra húsnæðislaga vegna þess að þar er einmitt verið að breyta þessari áherslu dálítið mikið frá eignarhúsnæði yfir á leiguhúsnæði en eins og hér kemur fram er meira los á því fólki sem er í leiguhúsnæði en hinum sem búa í eigin húsnæði.

Auðvitað er rætt um mikilvægi atvinnuþróunar en er þó ekki algilt. Það er miklu frekar að fábreytni atvinnutækifæranna hafi áhrif og þá kannski ekki síst á það hverjir flytja burt eða koma ekki til baka eftir að hafa farið til náms eða ævintýra eitthvert annað. Segja má að þau svæði, sem hafa mest byggt atvinnulíf sitt á sjávarútvegi og landbúnaði, hafa tapað flestu fólki. Tengsl brottflutnings við vægi sjávarútvegs í byggðunum eru sérstaklega sterk. Þetta rímar við það sem ég var að tala áðan um, herra forseti, um það hverjir eru líklegastir til að flytja.

Þegar við erum að tala um fjölbreytni í atvinnulífinu er það auðvitað svo að átt hafa sér stað miklar breytingar í atvinnulífinu á undanförnum árum. Við höfum verið að þróa samfélagið úr iðnaðarþjóðfélagi, þó að sumir segi að við höfum kannski aldrei komið við iðnaðarþjóðfélagið en þá höfum við farið yfir í þjónustusamfélag og nú tala menn um upplýsingasamfélagið. Menn velta því auðvitað fyrir sér hvort landsbyggðin geti ekki átt möguleika í upplýsingasamfélaginu þó að hún hafi kannski átt það í þjónustusamfélaginu. Það hafa menn skoðað og eru sammála um að ekki nægi að treysta því að það gerist af sjálfu sér að upplýsingasamfélagið veiti landsbyggðinni ný atvinnutækifæri heldur þarf að vinna í því. Hér liggur einmitt fyrir þinginu till. til þál. um fjarstörf og fjarvinnslu í ríkisrekstri sem tveir hv. þm. flytja, þau Gunnlaugur M. Sigmundsson, sem er einmitt þingmaður Vestfirðinga, og Siv Friðleifsdóttir, sem kemur héðan af höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef ekki séð það, herra forseti, í því flóði afgreiðslutillagna sem liggja fyrir hvort þessi tillaga hefur hlotið náð fyrir augum þeirrar hv. þingnefndar sem hefur fjallað um hana en hún er um það að Alþingi álykti ,,að skora á ríkisstjórnina að beita sér fyrir því að auka fjölbreytni atvinnulífs í dreifbýli með því að innleiða með markvissum hætti ,,fjarstörf`` og ,,fjarvinnslu`` í ríkisrekstri.``

Þetta er, herra forseti, afskaplega góð tillaga að mínu mati og einmitt dæmi um hluti sem væri svo nauðsynlegt að skoða til þess að við næðum að breikka atvinnutilboð þau sem eru á landsbyggðinni og að fleiri sem vilja sinna ýmsum störfum sem lúta að þjónustu gætu verið að störfum úti á landi en þyrftu ekki að flytja búferlum. Nú gerir tæknin þetta kleift og þess vegna er svo mikilvægt að þetta sé skoðað markvisst.

En ef ég gríp ofan í grg. tillögunnar, með leyfi forseta, þá stendur hér:

,,Fábreytni atvinnulífs í dreifbýli er talin ein af ástæðum þess hve hallað hefur á landsbyggðina á undanförnum árum. Framboð á störfum hjá ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum er mest á höfuðborgarsvæðinu þótt viðkomandi stofnunum sé ætlað að þjóna landinu öllu. Gerðar hafa verið nokkrar tilraunir til að flytja ríkisstofnanir út á land með misjöfnum árangri. Margir benda á að það þjóni illa íbúum landsbyggðarinnar að geta ekki sameinað þau erindi sem þeir kunna að eiga við hinar ýmsu stofnanir í einni ferð til höfuðborgarinnar. Störf í ríkisstofnunum krefjast í vaxandi mæli langskólamenntunar og aukinnar sérþekkingar meðan framboð á slíkum störfum er af skornum skammti í dreifbýli. Á sama tíma færist í vöxt að makar langskólagengins fólks séu einnig langskólagengnir. Þegar kemur að því að velja stað til búsetu að loknu námi er eðlilega horft til þess hvort líkur séu á að hjónin geti bæði fengið vinnu á sínu sviði. Skortur á fjölbreytni í störfum er talinn ein af helstu ástæðum þess að menntað fólk sem ættað er af landsbyggðinni er ekki tilbúið að flytja aftur í fyrri heimabyggð að afloknu háskólanámi. Ef mjög fáir þeirra sem fara í langskólanám af landsbyggðinni flytjast heim aftur að námi loknu er ljóst að afleiðingin verður mikill atgervisflótti sem ekkert byggðarlag fær staðist til lengdar.``

Herra forseti. Eins og þarna kemur fram þá rímar í sjálfu sér það sem hér segir við það sem hefur komið fram í niðurstöðum af þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið á orsökum búferlaflutninga og jafnframt sýnist okkur að hér sé sá hljómur sleginn sem menn ættu að hlusta eftir þegar þeir eru að velta fyrir sér hvernig hægt er að tryggja betur búsetu á landsbyggðinni eða að breikka atvinnuvalið. Svo ég haldi áfram að vitna í þessu ágætu greinargerð, þá stendur hér, með leyfi forseta:

,,Tæknin hefur nú gert mönnum fært að búa og starfa fjarri vinnuveitanda. Með tilkomu tölvu, internets og tölvumyndavéla hefur gefist stórkostlegt tækifæri til að dreifa þeim störfum út um land sem ríkisvaldið þarf að láta vinna og skapa þannig raunverulegan möguleika fyrir fólk í dreifbýli til að búa við svipaða fjölbreytni í starfsvali og fólk í þéttbýli býr við. Sú tegund starfa sem tillaga þessi gerir ráð fyrir að komið sé á er hér nefnd ,,fjarstörf`` en enska hugtakið sem oft er notað yfir þessa tegund starfa er ,,telecommuting``. Nú þegar er mikið um fjarstörf í Bandaríkjunum og er reynslan af þeim svo góð að fyrirtæki á þéttbýlli svæðum eins og New York og Los Angeles eru jafnvel farin að hvetja starfsmenn sína til að vinna heima hluta úr vinnuvikunni. Vilja fyrirtækin með þessu minnka þann tíma sem fer í ferðir milli vinnustaðar og heimilis og fá þannig ánægðari starfskraft auk þess sem slíkt fyrirkomulag er liður í því að draga úr þeirri loftmengun sem fylgir aukinni umferð. Þá er og vitað að á Íslandi búa nokkrir einstaklingar sem inna störf af hendi fyrir fyrirtæki sem staðsett eru á vesturströnd Bandaríkjanna. Ef slíkt er gerlegt milli heimshluta ætti ekki að vera vandamál fólgið í því að færa störf í ríkisstofnunum út um land með sama hætti. Eins og svo oft áður er vilji allt sem þarf.

Hugmynd flutningsmanna gengur út á að ákveðið hlutfall opinberra starfa verði á hverjum tíma veitt fólki sem býr á landsbyggðinni og sinnir starfinu þar með aðstoð tölvu og nútímafjarskiptatækni. Með tilkomu samskiptabúnaðar á borð við Lotus Notes, ljósleiðara, tölvuskönnun skjala og annarri hraðvirki samskiptatækni er lítill munur á hvort starfsmenn sem vinna að sama verkefni sitja hver í sínu herbergi eða hver í sínum landshluta. Til að innleiða þann starfsmáta sem fylgir fjarstörfum mætti hugsa sér sem raunhæft markmið að þegar í stað verði tvö opinber störf færð yfir í hvert landsbyggðarkjördæmi og þau auglýst til umsóknar sem fjarstörf. Á næsta einu og hálfu ári verði svo metið hvernig til tekst og ríkisreksturinn aðlagaður frekari breytingum í þessa veru. Á grundvelli fenginnar reynslu verði stefnt að því að ekki færri en 2% allra opinberra starfa standi til boða sem fjarstörf árið 2003 og að í lok ársins 2007 verði ekki færri en 5% allra opinberra starfa fjarstörf. Einnig kæmi vel til greina að mati flutningsmanna að örva einkafyrirtæki til að bjóða upp á fjarstörf með því að veita tímabundna skattalega umbun fyrir hvert starf sem þannig væri búið til.

Geri Íslendingar nú átak í að koma á fjarstörfum er þó langt í frá að við verðum fyrstir þjóða til að beita tölvutækninni með þessum hætti. Rakið hefur verið hversu vinsæl fjarstörf eru að verða í Bandaríkjunum. Í Vinnunni, blaði ASÍ, var fyrir skömmu sagt frá því að danska blaðið Aktuelt hefði greint frá nýlegri Gallup-könnun í Danmörku sem sýnir að u.þ.b. sjötti hver Dani vinnur heima með aðstoð tölvutækni. Skoðanakönnunin sýndi að Danir vilja mjög gjarnan vinna heima í einn til tvo daga í hverri viku. Flestir, eða 48%, sögðu ástæðuna vera frelsið til að ráða vinnutíma sínum, 6% nefndu barnagæslu og 23% sparnað í ferðakostnaði. Blaðið Vinnan greinir einnig frá því að hinn mikli áhugi starfsfólks og atvinnurekenda á fjarvinnslu hafi ýtt við dönsku verkalýðshreyfingunni. Sagt er frá því að fyrir tíu árum hafi verkalýðshreyfingin litið á fjarstörf sem ógnun þar sem þessi tegund starfa gæti leitt til ,,frumskógarvinnumarkaðar lausráðins fólks`` en nú sjái danska verkalýðshreyfingin fjarstörf sem leið til aukins áhrifamátts starfsfólks á skipulagningu og uppbyggingu eigin vinnu. Á árinu 1997 fékk yfir ein milljón danskra launþega ákvæði um fjarstörf í kjarasamninga og hið sama má segja um 620.000 starfsmenn sveitarfélaga og 60.000 starfsmenn í banka- og fjármálastörfum.

Ríkisstjórn Íslands er með þingsályktunartillögu þessari hvött til að hafa frumkvæði í sköpun fjarstarfa hér á landi og stuðla þannig á raunhæfan og markvissan hátt að jöfnun á framboði og fjölbreytni starfa milli landsbyggðar og þéttbýlis.``

[14:30]

Þetta var, herra forseti, hin ágæta tillaga þeirra hv. þm. Gunnlaugs M. Sigmundssonar og Sivjar Friðleifsdóttur um fjarstörf og fjarvinnslu í ríkisrekstri og var kynnt hér vegna þess hve mikilvægt er að fjölbreytni atvinnutækifæra á landsbyggðinni verði meiri en verið hefur og það sýna allar þær rannsóknir sem gerðar hafa verið. Það er einn af lyklunum að því að búsetumat fólks úti á landi sé jákvæðara en það hefur verið og að fólk sem hefur menntun eigi möguleika á að hasla sér völl úti á landi, eigi jafnvel möguleika á að koma heim aftur, ef má orða það þannig, ef um er að ræða einstaklinga sem hafa farið burt til náms.

Það kemur fram að fjölbreytni atvinnutækifæra, menntunarmöguleikar og almenn lífsgæði eru mikilvægust þegar fólk er að velja sér búsetu. Það eru hinir nútímalegu lífshættir sem felast í aðgengi að verslun og þjónustu, í aðgengi að menningu og afþreyingu, sem ráða því hvar fólk vill eiga heima en sömuleiðis gerir fólk kröfur um góðar aðstæður í húsnæðismálum og samgöngum.

Miðað við það sem ég hef rakið virðast ekki miklar líkur á að sú þróun sem verið hefur í búferlaflutningum, og hefur aldrei verið meiri en á undanförnum tveimur árum, muni breytast alveg á næstunni. Það er ljóst að um 14% íbúa landsbyggðarinnar segjast ætla að flytja búferlum milli byggðarlaga á næstu tveimur árum. Reyndar segja rúm 10% íbúa höfuðborgarsvæðisins hið sama en munurinn þarna á milli, 3--3,5% er þá nettótap landsbyggðarinnar, og það er í það miklu samræmi við það sem á undan hefur gengið að það bendir til að heildartap landsbyggðarinnar geti að öðru óbreyttu haldist áfram á svipuðum nótum og verið hefur að undanförnu. Svona lítur þetta út, herra forseti, og þess vegna er merkilegt þegar menn eru að setja fram tillögur þar sem þeir þykjast ætla að fjölga íbúum á landsbyggðinni um svo og svo mikið á tiltölulega stuttum tíma. Við höfum ekki enn þá fengið að kynnast galdraformúlunum en vonandi gefst hæstv. forsrh. færi á að mæla fyrir þáltill. sinni um stefnu í byggðamálum áður en þing fer heim í vor svo við fáum að nema þau hin miklu vísindi sem hljóta að liggja þar að baki.

Nokkuð ljóst er að orsakir búferlaflutninga eru margþættar og ég hef hér getið um möguleika sem hefur verið reifaður í þinginu í þeirri þáltill., sem ég var að vitna í áðan, til að gera atvinnuval á landsbyggðinni fjölbreyttara og til að gera það mögulegt að landsbyggðin geti haldið í sitt í upplýsingabyltingunni þótt hún hafi ekki getað það í þjónustusamfélaginu, svo við notum þau heiti sem hafa verið sett á hin ýmsu tímabil í þróunarsögunni. Það er alveg ljóst að menntun er samt sem áður það sem mun ráða úrslitum um framvindu mála á landsbyggðinni. Ég held að öllum komi saman um það. Hinum fábreyttari störfum er að fækka og öll þróun kallar á ýmiss konar sérhæfingu og menntun. Eins og ég gat um áðan er það líka ein ástæða þess að fólk flytur í burtu að það þarf að fara til annarra landshluta, aðallega þó á höfuðborgarsvæðið, til að leita sér menntunar og hverfur síðan ekki heim aftur, m.a. vegna þess að atvinnutækifæri gefast ekki.

Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, hefur fjallað um æðri menntastofnanir og mikilvægi nýrra menntunartækifæra í erindi sem ég vil gjarnan vitna í máli mínu til stuðnings um það hversu mikilvægt er að menn byggi skólakerfið upp um allt land, ekki bara grunnskólastig og framhaldsskólastig heldur einnig háskólastig. Ég hygg reyndar að mönnum á Alþingi sé nokkuð ljóst hve mikilvægt það er að háskólastigið sé byggt upp víðar en í Reykjavík en vissulega finnst mér og fleirum að rösklegar mætti ganga til verks vegna þess að satt að segja hefur þurft að draga hverja krónu undan nöglunum á ríkisvaldinu, á þeim sem ráða fjármálum þjóðarinnar, til að byggja upp Háskólann á Akureyri. Þó svo að þegar séu komnir peningar í að undirbúa háskólamenntun á Austurlandi óttast ég að þar þurfi mikla orku áður en áfram verður haldið. En í því erindi, sem ég ætla að vitna í, sem Þorsteinn flutti á ráðstefnu á Akureyri, fjallar hann um mikilvægi nýrra menntunartækifæra, bæði á framhaldsskólastigi og háskólastigi, einkum frá sjónarhóli þess sem sér framtíð fyrir hinar dreifðu byggðir í landinu. Þetta skiptir máli, herra forseti, að fjallað sé um þessi mikilvægu mál, menntunartækifæri á framhaldsskólastigi og háskólastigi frá sjónarhóli þess sem sér framtíð fyrir hinar dreifðu byggðir í landinu. Hann fjallar í erindinu um starfsemi Háskólans á Akureyri og gildi hans fyrir menntun og atvinnulíf á landsbyggðinni og síðan líka um áherslur framhaldsskólans og möguleika framhaldsskólanna til að tengjast betur atvinnulífi með nýrri samskiptatækni sem virðist vera lykillinn að ýmsu ef menn vilja nota hann. Þá er það fyrst Háskólinn á Akureyri:

,,Sérstaða Háskólans á Akureyri felst einkum í því að vera eini deildaskipti háskólinn utan Reykjavíkursvæðisins. Hann er atvinnulífstengdur og menntar fólk til ákveðinna starfa í samfélaginu eins og t.d. hjúkrunarfræðinga, kennara, rekstrarfræðinga og sjávarútvegsfræðinga. Háskólinn á Akureyri lítur á það sem meginhlutverk sitt að tryggja að háskólamenn kunni til verka í nútímaupplýsingaþjóðfélagi og í gegnum háskólanám sitt hafi þeir öðlast þau verkfæri sem þarf til að efla atvinnulífið í landinu. Þannig er miðað við að kennsla og rannsóknir nýtist sem best til að byggja upp atvinnulífið úr núverandi stöðu þess. Fyrir landsbyggðina er talið mest áríðandi að fá til starfa háskólamenntað fagfólk á sviði heilbrigðis- og kennslumála, í sjávarútvegi og öðrum fyrirtækjarekstri. Þessi þörf landsbyggðarinnar endurspeglast í viðfangsefnum deilda háskólans.

Tengsl Háskólans á Akureyri við rannsóknastofnanir atvinnuveganna og fyrirtæki eru velþekkt. Varðandi námsframboð þá eru deildir háskólans frumkvöðlar í að koma fram með ný menntunartækifæri. Sjávarútvegsdeild háskólans er sú eina sinnar tegundar hér á landi og undirbýr nú nám í matvælaframleiðslu sem er sniðið að þörfum atvinnulífsins á landsbyggðinni. Rekstrardeild sérhæfir sig í gæðastjórnun og hefur mjög sveigjanlegt námsskipulag sem gerir henni kleift að aðlaga sig skjótt að breyttum þörfum atvinnulífsins. Kennaradeildin leggur áherslu á raungreinakennslu og starf í fámennum skólum og er brautryðjandi í að koma á fót námi á háskólastigi fyrir leikskólakennara. Heilbrigðisdeildin er m.a. frumkvöðull í að bjóða upp á meistaranám í hjúkrunarfræði í samvinnu við erlendan háskóla.`` --- Þetta er líka athyglisvert, herra forseti, að boðið skuli vera upp á meistaranám í hjúkrunarfræði á Akureyri og það í samvinnu við erlendan háskóla en þar kemur einmitt nútímafjarskiptatækni mjög við sögu.

,,Mesta gildi Háskólans á Akureyri felst þó í þeim nemendum sem hann útskrifar. Eitt aðalhlutverk hefðbundinnar háskólamenntunar hér á landi hefur löngum verið að útskrifa opinbera embættismenn sem starfa og stjórna í höfuðborg landsins. Í rannsóknum félagsvísindamanna hefur t.d. komið í ljós að u.þ.b. 60% háskólamenntaðra Íslendinga vinna í opinbera geiranum en eins og kunnugt er eru langflest störf á vegum hins opinbera á höfuðborgarsvæðinu. Háskólinn á Akureyri hins vegar menntar háskólafólk sem hefur að miklu leyti sest að á landsbyggðinni og gegnir sú vaska sveit ungra manna og kvenna þar í vaxandi mæli leiðandi hlutverki í sjávarútvegi, rekstri fyrirtækja, mennta- og heilbrigðismálum.

Þörfin fyrir háskólamenntað fólk er ótvírætt mest í fyrirtækjum sem starfa á landsbyggðinni.`` --- Vakin er athygli á niðurstöðum Stefáns Ólafssonar sem benda á að háskólamenntað fólk vinnur að öllu jöfnu í opinbera geiranum en í miklum minni hluta í framleiðslu- og útflutningsgreinum og að aðeins um 2% háskólamenntaðra manna vinna við sjávarútveg en sú atvinnugrein er þó mikilvægasta undirstaða útflutningsteknanna.

,,Háskólafólk sem útskrifast frá Háskólanum á Akureyri hefur skilað sér vel til atvinnulífs á landsbyggðinni. Úr hópi brautskráðra frá Háskólanum á Akureyri vorið 1996 eru 42% búsettir á Akureyri, 36% eru búsettir utan Akureyrar og Reykjavíkur og 21% eru búsettir í Reykjavík. Þeim hópi brautskráðra sem setjast að á landsbyggðinni utan Reykjavíkur og Akureyrar fer hlutfallslega fjölgandi. Svo dæmi sé tekið af sjávarútvegsdeild háskólans þá hafa 20 sjávarútvegsfræðingar útskrifast þaðan. Af þeim starfa 17 í stjórnunarstörfum í sjávarútvegsfyrirtækjum á landsbyggðinni og aðeins einn starfar hjá því opinbera.``

Þetta var um háskólann og mikilvægi hans fyrir uppbyggingu í atvinnulífi landsbyggðarinnar í fjölbreyttara atvinnulífi og þeim menntunarmöguleikum sem þar þyrfti að bjóða upp á, ekki bara fyrir norðan heldur víðar.

Það skólastig sem mikið er fjallað um í þingsölum er framhaldsskólinn, bæði vegna þess að við erum tiltölulega nýbúin að setja ný lög um framhaldsskóla og einnig vegna hins að ungmenni sem sækja framhaldsskóla eru alla jafna enn þá á framfæri foreldra sinna og þess vegna hefur staðsetning framhaldsskólans, þ.e. það hvort framhaldsskóli er í viðkomandi sveitarfélagi eða ekki, haft veruleg áhrif á það hvar fjölskyldur velja sér búsetu. En á 8. og 9. áratugnum þróaðist ný skólahreyfing á Íslandi, áfangakerfisskólarnir eða fjölbrautaskólarnir. Til dæmis um hversu mikil bylting þetta var þá voru árið 1967 aðeins til fjórir menntaskólar sem útskrifuðu stúdenta en árið 1983 voru þeir a.m.k. 22 og munar þar að langmestu leyti um fjölbrautaskólana en flestir þeirra hófu hins vegar ekki starfsemi sína fyrr en eftir 1975. Margir þessara skóla voru byggðir upp á landsbyggðinni og í áfangakerfinu var það yfirleitt markmið að tengja saman námshefðir bóknáms og verknáms. Þrátt fyrir að kerfið hafi um margt bætt skólastarf hér á landi hefur þetta markmið að ýmsu leyti snúist upp í andstæðu sína. Í framhaldsskólum hefur vægi bóknáms stóraukist á undanförnum árum á kostnað verklegs náms. Stjórnvöld hér á landi hafa séð að við svo búið mátti ekki standa. Þannig segir svo í skýrslu nefndar um mótun menntastefnu frá 1994. Hér er vitnað beint í skýrsluna:

[14:45]

,,Ljóst er að endurskoða þarf frá grunni námsframboð framhaldsskólans og námsuppbyggingu á einstökum námsbrautum í þeim tilgangi að miða námið í ríkara mæli við þarfir einstaklinga, atvinnulífs og þjóðfélagsins í heild.``

Nú er yfirlýst, herra forseti, að þetta hafi verið gert í þeim framhaldsskólalögum sem nú er starfað eftir. Þess gætir þó ekki enn. Lítið hefur gerst sem bendir til þess að áherslur hafi breyst. Ljóst er að verknám og starfsnám ýmiss konar er mun dýrara en bóknám og enn höfum við ekki séð að meira fjármagni væri varið til framhaldsskólans. Enn höfum við ekki séð þær breytingar sem menn gerðu sér vonir um. Vonandi munu þær verða á næstu árum. Auðvitað er mjög mikilvægt að þessi þáttur skólastarfsins verði efldur eins og vonir manna hafa staðið til áratugum saman.

Þorsteinn Gunnarsson nefnir það í ræðu sinni sem dæmi um sérkennilegar áherslur að framhaldsskólinn leggi nánast enga áherslu á menntun í matvælagreinum eða sáralitla. Nú er verið að byggja skóla í Kópavogi sem við bindum vonir við að auki vinsældir matvælagreina en á móti er auðvitað verið að leggja niður skóla eða námsbrautir annars staðar. Það þykir merkilegt að um eða yfir 80% af vöruútflutningi Íslendinga eru matvæli, fiskur eða kjöt, og sérkennilegt að engin heildstæð stefna er til um menntun þeirra sem vinna í þessari atvinnugrein og námsframboð á þessu sviði er því harla fábreytilegt.

Herra forseti. Eins og ég fór yfir áðan, varðandi möguleika á fjölbreytileik starfa með fjarvinnslu, þá á hin nýja tölvu- og samskiptatækni líka að gera framhaldsskólanum kleift að aðlaga sig atvinnulífinu. Svo ég endurtaki það enn og aftur þá er hin nýja tækni í raun lykill að ýmsum þeim nauðsynlegu breytingum sem við þurfum að sjá í okkar mennta- og atvinnulífi.

Í erindi Þorsteins Gunnarssonar er farið yfir það að Verkmenntaskólinn á Akureyri hafi verið brautryðjandi í að hagnýta tölvusamskipti til fjarkennslu á framhaldsskólastigi og farið nokkuð yfir það hvað það hefur skipt miklu máli.

Í erindinu er getið um háskóla í Oklahóma þar sem menn eru með kennslusjónvarp og eitt af þeim sjónvarpsnetum sem þar eru samanstendur af háskólum og 11 framhaldsskólum og héraðsháskólum. Það kerfi er fullkomlega gagnvirkt og hægt að fylgjast með fjórum sjónvarpsskjám samtímis í sömu kennslustofunni. Hér er, herra forseti, verið að fjalla um nýja tækni sem getur gefið okkur nýja möguleika til breytingar á menntakerfi okkar. Þessir möguleikar hafa verið til umræðu og sú sem hér stendur hefur m.a. flutt þáltill. um að nýttir verði þannig að markvisst yrði unnið í því að setja fram tillögur um það hvernig nýta megi fjarkennslu á grunn-, framhalds- og háskólastigi til að jafna aðstöðu til náms. Ég mun koma betur að því síðar, herra forseti, í ræðu minni.

Sá búnaður og þeir möguleikar sem verða munu til staðar í bandarískum háskólum eru ekki komnir að marki hér til okkar þó að við séum á sumum sviðum býsna framarlega í fjarkennslu. Hins vegar er ljóst að Háskólinn á Akureyri og Háskóli Íslands eru að koma sér upp sjónvarpsbúnaði sem mun gefa ýmsa möguleika, t.d. þá að sjónvarpa kennslu á báða vegu milli háskólanna með fullum fjölmiðlunargæðum, að vera kjarni í myndveri til að framleiða kennsluefni og að vera kjarni í miðstöð fyrir fjarkennslu sem síðar næði til fleiri landsvæða. Ljóst er að þáttur heimanáms, símenntunar og endurmenntunar mun stóreflast í kjölfar þessarar nýju tækni.

Sú harðnandi alþjóðlega samkeppni sem einnig er á sviði háskólamenntunar gerir það að verkum að við þurfum að horfa á fjarskiptatækni sem lykil í því að við stöndum okkur. Fjarkennsla milli háskólanna mun efla háskólamenntun í landinu og gera hana fjölbreyttari. Í næstu framtíð mun fjarkennsla ekki aðeins vera möguleg milli háskólanna hér á landi heldur má hugsa sér að háskólarnir tengist menntasetrum t.d. á Austurlandi og Vestfjörðum með þessum búnaði.

Það er sérstaklega áhugavert, herra forseti, að horfa til þess að við getum gert menntunarmöguleika og atvinnumöguleika svo miklu fjölbreyttari en þeir eru núna með nýrri tækni, með því að tengja háskólana bæði á Akureyri og Háskóla Íslands við háskólasetur bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum og jafnvel víðar, sé metnaður er fyrir hendi. Að mínu mati mun það skipta sköpum hvað stjórnendur eru tilbúnir til þess að setja mikla peninga til þessa á næstu árum. (Gripið fram í: Jafna aðstöðu til náms.) Til að jafna aðstöðu til náms, já, sem er auðvitað stórt atriði þegar við erum að horfa til búsetuþróunar í landinu og þess umhverfis sem við viljum búa Íslendingum, hvort sem það er með lögum um sveitarstjórnir eða annað. (Gripið fram í: Um bæjarstjórnir.)

Það er nauðsynlegt, herra forseti, að fá háskólamenntað fólk sem kann til verka í nútímaupplýsingaþjóðfélagi til starfa í fyrirtækjum og stofnunum á landsbyggðinni. Ein leiðin að þessu markmiði er að efla og auka þau menntunartækifæri sem nú eru í boði á háskólastigi á landsbyggðinni. Þar ræður væntanlega sama lögmál og hefur ráðið því að þeir sem hafa útskrifast úr Háskólanum á Akureyri hafa haft meiri tilhneigingu til að setjast að úti á landi en þeir sem hafa útskrifast úr háskóla í Reykjavík. Ef við menntum fólk, sem hefur sérstaka þekkingu á möguleikum hinnar nýju tækni úti á landi, þá mun það jafnframt koma landsbyggðinni til góða.

Framfarir í samgöngum og bylting í fjarskipta- og upplýsingatækni auðveldar okkur að koma upp fyllilega samkeppnishæfri háskólastarfsemi á fleiri stöðum á landsbyggðinni. Margir telja því að hin nýja tölvu- og fjarskiptatækni muni sjálfkrafa leysa úr þeim búsetuvanda sem hinar dreifðu byggðir í landinu standa frammi fyrir. Ekkert er þó fjær sanni. Það gerist ekkert sjálfkrafa í þessum efnum, herra forseti. Það vitum við af reynslunni. Það þarf virkilega að vinna í þessum málum. Í þessu sambandi skiptir máli hvernig og hvort hinni nýju tækni er beitt með tilvísun til þess sem fólkið í landinu er að fást við. Það virðist því miður vera landlæg tregða hjá stjórnvöldum að skipuleggja háskóla- og rannsóknastarfið í landinu þannig að það nýtist atvinnulífi og fólki um allt land. Auðvitað er það mjög alvarlegt.

Þegar við horfum til möguleika á fjölbreytileik í atvinnu úti á landi og einnig á þá breytingu sem átt hefur sér stað á undanförnum tveimur árum, sérstaklega í byggðaþróun, þar sem flutningar til höfuðborgarsvæðisins hafi aldrei verið meiri, þá horfum við auðvitað til þess sem gerst hefur hér. Mikil uppbygging orkufreks iðnaðar er hafin á suðausturhorni landsins og val á staðsetningu þessara stóriðjuvera er auðvitað á ábyrgð íslenskra stjórnvalda.

Stjórnvöld bera líka ábyrgð, herra forseti, gagnvart þeim íbúum landsins sem ekki njóta nálægðarinnar við þessi umsvif. Nauðsynlegt er að stjórnvöld bjóði íbúum landsbyggðarinnar þær úrbætur að háskólamenntun og rannsóknir í þágu atvinnulífsins á landsbyggðinni verði efldar. Það er svarið. Til að þessi kostur verði raunhæfur þarf auðvitað auknar fjárveitingar frá opinberum aðilum og atvinnulífi. Það þarf tilfærslu og endurskipulagningu stofnana og hagnýtingu upplýsingatækni, t.d. í þágu fjarkennslu. Grípa þarf til sérstakra aðgerða til að skapa skilvirkan aðgang að háskólamenntun á þeim landsvæðum sem nú eru í mestri fjarlægð frá háskólastarfi. Þar nefni ég enn og aftur Austurland og Vestfirði.

Þetta var, herra forseti, hugleiðing um mikilvægi nýrra menntunartækifæra og æðri menntastofnanir á landsbyggðinni. Ég studdist m.a. við erindi Þorsteins Gunnarssonar, rektors Háskólans á Akureyri, en hann hefur fjallað mjög mikið um þessi mál eins og menn þekkja.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi ætla ég að fara yfir frv. sjálft. Í fyrri ræðu minni fór ég yfir ákveðna hluta úr frv. Ég fór fyrst og fremst yfir nokkrar spurningar sem ég varpaði til hæstv. félmrh. Hann mun væntanlega svara mér í sinni lokaræðu. Hann svaraði mér ekki þá, enda gerði ég ekki miklar kröfur til þess. Í máli mínu kom ýmislegt fram sem ég vænti að hann skoði betur áður en hann svarar. Ég hef hins vegar áhuga á því að fara yfir frv. sjálft og skoða einstakar greinar þess með tilliti til þeirra brtt. og athugasemda sem fram hafa verið lagðar varðandi það. Enn sem komið er mun ég ekki fjalla um 1. gr. Í upphafi ræðu minnar kvaðst ég munu geyma umfjöllun bæði um 1. gr. og bráðabirgðaákvæðið þar til í lokin.

Af hálfu hv. félmn. er gerð brtt. við 4. gr. en hún lýtur að heiti sveitarfélaga. Mikill munur á þessari grein, um heiti sveitarfélaga, og þeirri sem er í gildandi lögum. Möguleikar sveitarfélaganna til nafngifta eða til nafntöku eru rýmkaðir mjög en hv. félmn. hefur gert brtt. við 4. gr. þar sem sagt er að sveitarstjórn skuli fá umsögn örnefnanefndar um þá nafngift. Þetta er talið nauðsynlegt í ljósi þess að menn vilja viðhalda ákveðnum venjum og reglum í nafngiftum og til að koma í veg fyrir slys eins og menn þykjast hafa séð að hafi orðið í nafngiftum sveitarfélaga á undanförnum árum. Þar hefur misjafnlega tekist til og að hluta má kenna um þeim þrönga ramma sem nafngiftum er settur í gildandi sveitarstjórnarlögum. Hv. félmn. þótti rétt að hafa vaðið fyrir neðan sig í þessu efni og ég styð þá brtt. sem hér er gerð.

Einnig gerð brtt. af hálfu hv. nefndar við 5. gr. sem fjallar um byggðamerki. Mér sýnist að það sé svona fremur til einföldunar. Í brtt. segir að greinin skuli orðast svo, með leyfi forseta:

,,Sveitarstjórn er heimilt að ákveða byggðarmerki fyrir sveitarfélag.

Byggðarmerki skulu skráð hjá Einkaleyfastofunni sem veitir umsóknum viðtöku og kannar skráningarhæfi merkjanna. Umsókn skal fylgja tilskilið gjald.

Skráning byggðarmerkis veitir sveitarfélagi einkarétt á notkun þess.

Iðnaðarráðherra setur nánari reglur um skráningu byggðarmerkja, m.a. varðandi umsóknir og meðferð þeirra, skilyrði fyrir skráningu, ógildingu, birtingu og gjöld fyrir umsóknir og vottorð úr byggðarmerkjaskrá.``

Greinin er ný og kemur í stað þeirrar sem er í frv. Menn kunna að reka hornin í það að iðnrh. eigi að setja reglur um skráningu en það helgast af því, herra forseti, að Einkaleyfastofan er undir iðnrn., enda fjallar Einkaleyfastofan ýtarlega um 5. gr. og ég ætla að leyfa mér að vitna aðeins í þá umfjöllun. Þar segir, með leyfi forseta:

[15:00]

,,Einkaleyfastofan hefur það hlutverk að sjá um framkvæmd laga er varða vernd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar. Nánar tiltekið veitir stofnunin viðtöku umsóknum um vernd vörumerkja, einkaleyfa og hönnunar og meðhöndlar umsóknir í samræmi við ákvæði fyrrnefndra laga og reglugerða.

Í vörumerkjalögum er merkjum íslenskra bæjar- eða sveitarfélaga veitt óbein vernd í samræmi við ákvæði Parísarsamþykktarinnar um vernd eignarréttinda á sviði iðnaðar. Í 14. gr. laga nr. 45/1997 segir að vörumerki megi ekki skrá ,,... ef heimildarlaust eru í merkinu ríkistákn, opinber alþjóðamerki, merki íslenskra bæjar- eða sveitarfélaga ... eða annað sem til þess er fallið að villst verði á því og framangreindum merkjum eða táknum ...``. Þrátt fyrir þetta ákvæði er stofnuninni ekki gert skylt að halda skrá um slík merki.

Í 5. gr. umrædds frumvarps segir að tilkynna skuli ákvörðun um byggðarmerki til byggðarmerkjanefndar er félagsmálaráðherra skipar. Nefndin á m.a. að fjalla um útlit byggðarmerkja og skal félagsmálaráðuneytið setja almennar reglur um slík merki.

Samkvæmt þessu er gert ráð fyrir því að tvö ráðuneyti setji reglur um byggðarmerki og tveir aðilar fari með framkvæmdina, þ.e. byggðarmerkjanefnd og Einkaleyfastofan.

Að mati Einkaleyfastofu er þetta fyrirkomulag óhentugt, jafnt fyrir umsækjendur sem framkvæmdaraðila. Ljóst þarf að vera hvaða aðili tekur ákvörðun um skráningarhæfi og annast framkvæmd skráningar. Sé þetta í höndum tveggja aðila getur leikið vafi á hvor þeirra tekur lokaákvörðun um skráningu merkis og ber að öðru leyti ábyrgð á framkvæmdinni.

Komið gætu upp vandkvæði, m.a. varðandi eftirfarandi tilvik: Til hvaða aðila ber umsækjanda að snúa sér fyrst? --- Er nauðsynlegt að leita til beggja aðila? --- Við hvaða tímamörk yrði réttarvernd miðuð? Til hvaða ,,æðra stjórnvalds`` ætti að beina kæru? Hvaða aðili ber kostnað af skráningu og birtingu?

Þá vill Einkaleyfastofan benda á að í frumvarpið vantar heimild til gjaldtöku og grundvallarákvæði varðandi skilyrði til skráningar. Einnig vantar heimild til ógildingar, en slík íþyngjandi ákvæði eiga varla heima í reglugerð.

Rétt þykir að vekja athygli á því að í athugasemdum við 5. gr. frumvarpsins segir að stuðst sé við danskar reglur. Ef litið er til 4. gr. dönsku laganna kemur í ljós að gert er ráð fyrir að einungis iðnaðarráðherra setji reglur um skráningu þarlendra byggðarmerkja og að framkvæmdin sé í höndum einnar stofnunar, þ.e. ,,Patentdirektoratet`` [einkaleyfaskrifstofan danska]. Í reglugerð sem iðnaðarráðherra Dana setti árið 1993 eru nánari fyrirmæli um skilyrði fyrir skráningu og framkvæmdina að öðru leyti.

Einkaleyfastofan telur að þar sem fyrirmynd að lagaákvæðinu er sótt í dönsk lög sé eðlilegt að reglur og framkvæmd séu með sama hætti og í Danmörku. Því leggur stofnunin til að iðnaðarráðuneytið og Einkaleyfastofan fari að öllu leyti með framkvæmd skráningar byggðarmerkja.``

Skemmst er frá því að segja, herra forseti, að hv. félmn. virðist hafa fallist á öll þessi rök Einkaleyfastofunnar og gerir tillögu að nýrri 5. gr. í ljósi þess.

Þá komum við að 6. gr. Ég þykist nú, herra forseti, hafa fjallað nokkuð um 6. gr. en þar er fjallað um lágmarksíbúatölu, að lágmarksíbúafjöldi sveitarfélags sé 50 íbúar. Ég þykist hafa með ýmsum tilvitnunum og löngum ræðuhöldum rökstutt það að ef við ætlum að efla landsbyggðina, ef við ætlum að flytja verkefni út á land eða reikna með að sveitarfélögin sinni þeim verkefnum sem þau hafa nú þegar, þurfum við auðvitað að skapa til þess ákveðinn stjórnsýslulegan grundvöll. Hann er ekki fyrir hendi í núgildandi lögum og það stendur ekki til að hann verði fyrir hendi miðað við það frv. sem hér liggur fyrir. Það er munur á núgildandi lögum og þessu frv. að því leytinu til að staðan er veikt í þessu frv. frá því sem nú er. Bæði í gildandi lögum og í frv. er gert ráð fyrir að lágmarksíbúatala sveitarfélags sé 50 íbúar en í gildandi lögum er þó ákveðin skylda til samstarfs, þ.e. sveitarfélögin eru skyldug til ákveðins samstarfs. En samkvæmt frv. er engin skylda lengur fyrir hendi til samstarfs þannig að segja má að verið sé að fara í áttina frá því að skapa möguleika á því að sveitarfélögin geti í fyrsta lagi annast þau verkefni sómasamlega sem þau nú hafa með höndum eða eiga að hafa með höndum og í öðru lagi virðist ekkert vera gert til að skapa þeim möguleika á að taka við þeim stóru verkefnum sem sannarlega virðist eiga að flytja til sveitarfélaganna á næstu árum. Þetta er að mínu mati mjög alvarlegt, herra forseti, og ég skil hreint og klárlega ekki hvað vakir fyrir þeim mönnum sem setja hlutina svona fram.

Ég hef rakið í löngu máli hversu mikil byggðaröskunin hefur verið á Íslandi, hversu miklu meiri hún hefur verið hér en í norðlægum héruðum nágrannalandanna, hvernig sveitarfélögin virðast í rauninni hafa reynst ófær um að uppfylla óskir og þarfir íbúanna, hvernig þau virðast hafa verið ófær um að skapa það jákvæða viðhorf eða það að búsetumat íbúanna væri það jákvætt að þeir teldu sig eiga bestu möguleika á að búa úti á landi. Ég vil meina að hluti af þessu sé það að sveitarfélögin hafi aldrei verið nógu burðug til að taka við verkefnum frá ríkinu. En ekki virðist eiga að verða nein breyting þar á, þvert á móti. Líka er verið að afnema þá skyldu sem sveitarfélögin höfðu til samstarfs. Nú virðist það því vera nægjanlegt, að mati einhverra a.m.k. --- væntanlega mun hv. félmrh. útskýra þetta fyrir okkur einhvern tímann í ferlinu --- að 50 íbúar myndi sveitarfélag og þá á það að geta uppfyllt þarfir sinna íbúa. Reynslan hefur hins vegar sýnt okkur allt annað, herra forseti, og ef mönnum væri einhver alvara með því að þeir vildu snúa þessari þróun við í byggðarþróun á Íslandi þá held ég að þarna liggi ein af þeim ástæðum sem menn ættu að fást við.

Ég vil gjarnan, herra forseti, vitna í það sem Gísli Sverrir Árnason, forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar, hefur sagt um sköpun verkefna heima í héraði í tengslum við þróun byggðar á Íslandi, til að styðja það sem ég er hér að reyna að segja. Hann var með erindi á þessari ágætu ráðstefnu á Akureyri sem var haldin fyrir ári síðan á vegum Byggðastofnunar um þróun byggðar á Íslandi og fjallaði þá m.a. um hvernig hægt væri að styrkja byggðina heima fyrir með sköpun verkefna heima í héraði.

Þar segir hann m.a. að hann vilji láta það koma fram strax í upphafi að niðurstaðan í framlagi hans sé að áhrifamesta leiðin til þess að treysta byggð á Íslandi sé að efla sveitarstjórnarstigið í landinu.

Ég hef það á tilfinningunni, herra forseti, að þegar ýmsir hér eru að tala um að þeir vilji efla sveitarstjórnarstigið þá felist það í því að flytja verkefni frá ríkinu algerlega án tillits til þess hvort sveitarfélögin geta tekið við þessum verkefnum eða ekki og það er ekkert gert, nákvæmlega ekki neitt, til að auðvelda sveitarfélögunum að taka við þessum verkefnum. Það að efla sveitarstjórnarstigið merkir hér, á hinu háa Alþingi, miðað við það frv. sem hér liggur fyrir, að verkefni eru flutt frá ríkinu. Ég hef ekki enn þá séð viðleitni til þess að það sé tryggt að sveitarfélögin geti tekið við verkefnunum.

Gísli Sverrir Árnason bendir á að þetta sé að gerast smám saman með sameiningu sveitarfélaga um land allt. En betur má ef duga skal.

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hversu lengi við getum beðið. Eigum við að bíða þangað til Vestfirðirnir hafa tæmst eða Norðurland vestra eða hversu lengi eigum við að bíða? Hvernig eigum við að nálgast þetta? Af hverju þora stjórnvöld ekki að taka af skarið? Eru áhrif héraðshöfðingja svona mikil? Er hún svo hættuleg þessi fækkun fyrirmanna í héraði sem einu sinni var nefnd sem meginástæða þess að sveitarfélögunum fækkaði ekki? Ég veit það ekki, herra forseti, en a.m.k. finnst mér eitthvað vera á skjön hér.

Á hinum Norðurlöndunum voru sveitarfélögin sameinuð með lagaboði eftir að þau höfðu fengið ákveðið svigrúm til að sýna hvers þau voru megnug sjálf fyrir löngu síðan. Ég held að við ættum að velta því svolítið fyrir okkur hvernig við getum gert þessa hluti öðruvísi en við höfum gert þá vegna þess að það er alveg ljóst að þetta hefur ekki gengið nógu vel hjá okkur.

En ég ætla að fara betur ofan í saumana á því sem Gísli Sverrir Árnason segir síðar í minni ræðu því ég vil gjarnan, herra forseti, komast í 7. gr. Þar er brtt. frá, ekki bara hv. nefnd, heldur kemur brtt. til nefndarinnar frá Páli Péturssyni félmrh. Þetta er brtt. við 7. gr. svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Sveitarfélög skulu setja sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana og er heimilt að ákveða sér eðlilegan afrakstur af því fjármagni sem bundið er í rekstri þeirra.``

Herra forseti. Hér er um gjörbreytingu að ræða frá því sem áður hefur verið í rekstri sveitarfélaganna og í lögum sem um þau hafa gilt. Ég tek eftir því að í umfjöllun um 7. gr. og þeim athugasemdum sem borist hafa er fyrst og fremst fjallað um ný verkefni sveitarstjórna, Ríkisendurskoðun er með langan kafla um samkeppnissjónarmið varðandi verkefni sveitarfélaga, en enginn fjallar um þessa nýju áherslu sem þarna er komin inn um arðgjafarmarkmiðin vegna þess að hún var aldrei send út til umsagnar, af því hún kemur inn sem brtt. á seinni stigum. Ég verð að segja, herra forseti, að ég er nokkuð viss um að ef þessi tillaga hefði verið inni í frv. þegar það var sent út til umsagnar hefðu skapast líflegri umræður um frv. í heild sinni en gerðist því hér er, eins og ég segi, um gjörbyltingu að ræða í þeim áherslum sem verið hafa.

Menn hafa úr ræðustóli á hinu háa Alþingi látið að því liggja að hér væri í raun um brot á stjórnarskrá að ræða, þar sem segir að eigi megi leggja á skatta nema með lögum, vegna þess að hér er í rauninni verið að gefa út opna heimild til sveitarfélaganna hvað það varðar að taka gjald fyrir þjónustu sína langt umfram þann kostnað sem þau þurfa að leggja í við að bjóða þá þjónustu.

Það er athyglisvert að í Morgunblaðinu í dag er fjallað sérstaklega um þessa brtt. Fjórdálka grein upp á nánast síðu í blaðinu er lögð undir þessa brtt. undir heitinu: ,,Eðlilegur afrakstur eða dulin skattheimta.`` Með leyfi forseta, ætla ég að vitna aðeins í þessa grein því það sem hér kemur fram er mjög upplýsandi. Hér er fjallað örlítið um brtt. sjálfa af hálfu blaðamannsins Kristínar Gunnarsdóttur, en að öðru leyti er leitað umsagnar hjá m.a. formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga, hjá borgarstjóranum í Reykjavík, hjá bæjarstjóranum í Hafnarfirði og hjá bæjarstjóranum í Garðabæ. Ekki var nú talað við neinn af bæjarstjórunum í litlu landsbyggðarsveitarfélögunum. Það væri út af fyrir sig fróðlegt að heyra hvað þeim fyndist um þetta ákvæði. En því miður fáum við ekkert um það að vita nema auðvitað að frv. verði frestað og við sendum það aftur út til umsagnar með þessari veigamiklu breytingu vegna þess að hún fór aldrei út til umsagnar og menn vita kannski ekki einu sinni um það, margir hverjir, að þetta liggur hér fyrir.

[15:15]

Í upphafi umfjöllunar Morgunblaðsins er rakið að nú liggi þessi brtt. fyrir og hvernig hún er. Síðan kemur fram að borgarstjórinn í Reykjavík og oddviti Sjálfstfl. í borgarstjórn séu sammála um að þessi heimild sé tímabær þar sem í gildandi lögum sé ekki að finna ákvæði um arðgreiðslur til sveitarfélaganna. En Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri í Garðabæ, telur óheppilegt og vafasamt að sveitarfélög byggi tekjuöflun sína á þjónustu við íbúana því að það sé dulin skattheimta.

Herra forseti. Þarna er strax búið að tefla saman helsta ágreiningsefni sem þessu fylgir. Það er allt í lagi að það komi fram að auðvitað er það svo að víða um land eru fyrirtæki í eigu sveitarfélaganna, löngu afskrifaðar hitaveitur og vatnsveitur, sem geta vissulega gefið ágætan arð og ugglaust munu menn skoða þetta ákvæði mjög vandlega með tilliti til þess. Sum þessara fyrirtækja hafa í gegnum tíðina alltaf gefið einhvern arð eða verið látin taka þátt í einhverjum framkvæmdum sem hefur verið réttlætanlegt að þau tækju þátt í. Hér er ekki verið að tengja þessa arðgjöf neinu sérstöku verkefni heldur eingöngu það að gefin er opin heimild á að sveitarfélögin geti sett sér stefnu um arðgjafar- og arðgreiðslumarkmið í rekstri fyrirtækja sinna og stofnana.

Það er áhugavert, herra forseti, að sjá hvað formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, segir um þetta mál. Ég kýs nú, herra forseti, að lesa það sem Vilhjálmur segir, eins og hann sé að tala sem formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, frekar en að hann sé að tala sem sjálfstæðismaður í kosningabráttu.

Hann segir að hann telji mikilvægt að réttarstaða sveitarfélaga til eðlilegs arðs af fyrirtækjum sínum sé fyrir hendi í lögum, líkt og gert hafi verið varðandi t.d. Landsvirkjun og í lögum um Hitaveitu Suðurnesja en þar sé að finna ákvæði um hæfilegan arð. Svo er vitnað beint í formann Sambands ísl. sveitarfélaga og hann segir:

,,Það verður að treysta eigendum til þess að meta hversu langt þeir vilja ganga í þeim efnum,`` sagði hann. ,,Ef einhver yrði ósáttur við þann arð sem sveitarfélögin eru að taka af sínum fyrirtækjum þá væri eflaust hægt að fara með það fyrir dómstóla, sem mundu skera úr um hvað skuli metast hæfilegt.``

Þetta er dálítið athyglisvert. Það er svo að langflest fyrirtæki og stofnanir sveitarfélaga eru einokunarfyrirtæki, þ.e. ef fólk er ekki sátt við verðið eða þjónustuna þá á það engan annan kost. En formaður Sambands ísl. sveitarfélaga sér náttúrlega lausnina á því: Fólk leitar bara til dómstólanna. Það fer bara fyrir dómstólana ef það telur að það sé að borga of háa hitaveitureikninga.

Þetta finnst mér mjög athyglisvert viðhorf, herra forseti, vegna þess að eins og ég sagði er auðvitað verið að tala fyrst og fremst um ákveðin einokunarfyrirtæki.

,,Vilhjálmur sagði að rætt hafi verið um að setja nánara ákvæði um arð af veitufyrirtækjum í orkulög þannig að réttarstaða sveitarfélaga verði skýr og sagði hann að sett hafi verið fram hugmynd um að árlegt afgjald mætti nema allt að 7% af skuldlausri eign viðkomandi fyrirtækis.``

Ég tek eftir því, herra forseti, að hér er fyrst og fremst talað um veitufyrirtæki en í brtt. er þetta mun opnara. Þar er talað um rekstur fyrirtækja og stofnana. Stofnun, elliheimili, leikskóli, sveitarfélögin starfrækja ýmsar stofnanir sem gætu þá allt eins átt undir þetta.

En borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, telur að þetta sé jákvæð breyting því að arðgreiðslur hafi byggst á hefð og hvergi hafi verið kveðið á um það í lögum hvernig þeim ætti að vera háttað.

Það má til sanns vegar færa og í rauninni hefur það verið þannig á undanförnum árum að mjög stíft aðhald hefur verið að sveitarfélögunum hvað það varðar að þau væru ekki að láta þjónustuna kosta meira en það kostar að inna hana af hendi, einmitt vegna þess að þá væru þau farin að brjóta stjórnarskrá og farin að skattleggja af því það var ekki lengur bara verið að innheimta gjöld fyrir veitta þjónustu.

Borgarstjórinn í Reykjavík segir:

,,Þarna er verið að setja inn í sveitarstjórnarlög almennt heimildarákvæði fyrir arðgreiðslum og ég tel að það sé í samræmi við það sem nú er í lögum um Landsvirkjun og Hitaveitu Suðurnesja, sem eru fyrirtæki í opinberri eigu. Miðað við þau viðhorf, sem uppi eru í dag, þá held ég að það sé betra fyrir sveitarfélögin að hafa lagagrunn til að standa á en ekki bara hefðina.``

Þetta er svolítið merkilegt vegna þess að það virðist hafa viðgengist, herra forseti, sums staðar að menn fengju að vinna samkvæmt hefð og það er eðlilegt að þar sem það hefur viðgengist séu menn nú fegnir lagabókstafnum. En eins og ég segi hefur verið býsna þétt aðhald að sveitarfélögunum á undanförnum árum að innheimta gjöld umfram það sem þarf til þess að standa undir viðkomandi rekstri.

Ingvar Viktorsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, segir að sér lítist nokkuð vel á brtt. En segist vera fyrir sitt leyti sammála því að þetta eigi ekki að vera galopið, eins og hann orðar það. Svo vísar hann í Hitaveitu Reykjavíkur sem sé að greiða sér arð af fyrirtæki sem Hafnfirðingar telji sig eiga hlut í, og bendir síðan á að fyrirtæki í eigu sveitarfélaga séu fyrst og fremst þjónustustofnanir og þegar að því kæmi að þau skiluðu arði ætti hann auðvitað að ganga til neytenda með lækkun á gjaldskrá. Ef fyrirtæki í eigu sveitarfélags sé farið að skila arði að eigi það því að skila sér til neytendanna. Hann bætir hér við:

,,Þannig að þetta má alls ekki vera galopið en mætti vera einhver möguleiki á arði og ég vildi fá að skoða þann möguleika,`` sagði hann.``

Þá komum við að Ingimundi Sigurpálssyni, bæjarstjóra í Garðabæ, sem stendur í rauninni fyrir nokkuð aðra skoðun. En hann segir, svo ég vitni beint í það sem hann segir, herra forseti:

,,,,Ég tel afar óheppilegt og vafasamt í ljósi tilgangs sveitarfélaga að byggja tekjuöflun þeirra og möguleika á þjónustu við íbúana á arðgreiðslum, sem eiga sér aðrar forsendur en eðlilegt endurgjald af þeim fjármunum, sem sveitarfélagið hefur lagt fyrirtækinu til,`` sagði Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri í Garðabæ. ,,Þá er einnig á það að líta að vafasamt er að sveitarfélög stefni sérstaklega að því að hagnast á þjónustu við íbúana. Eðlilegt er og óumdeilt að sveitarfélög skuli á ákveðnum sviðum innheimta að fullu gjöld á móti þeim kostnaði, sem þau hafa veitt við þjónustu en tekjuöflun sveitarfélaga hlýtur að öðru leyti að eiga að byggjast á skattheimtu í samræmi við lög um tekjustofna sveitarfélaga. Það er álit margra að arðgreiðslur þjónustufyrirtækja sveitarfélaga inn í sveitarsjóði séu ekkert annað en dulin skattheimta, sem brjóti í bága við 77. gr. stjórnarskrárinnar. Með þetta í huga þá er það mitt mat að ekki verði lengra gengið í þessum efnum en að heimila sveitarfélögum að taka arð af þeim fjármunum sem þau hafa lagt fyrirtækjum sínum til.``

Ingimundur bendir á að samkvæmt gildandi sveitarstjórnarlögum skuli sveitarfélög hafa sjálfstæða tekjustofna og sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja til að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem fyrirtækjunum er ætlað að annast. Þannig væri t.d. heimilt að innheimta gatnagerðargjöld og ákveða gjald fyrir vatnsveitu en það hlyti að vera óeðlilegt ef gjaldtaka væri hærri en svo að hún stæði undir kostnaðarliðum. Það væri dulin skattheimta. ,,Maður sér það fyrir sér að framhaldið gæti verið að sveitarfélögin færu að stofna fyrirtæki um ýmsa starfsemi sína. Taki þar upp ákveðnar gjaldskrár og myndi arð út úr því og þá er þetta orðin leið til tekjuöflunar fyrir sveitarfélög,`` sagði Ingimundur.``

Þetta eru áhugaverð viðhorf sem hér koma fram, herra forseti. Það er kannski merkilegt að ákvæði eins og þetta, sem breytir svona miklu, skuli koma sem brtt., reyndar frá félmrh. sjálfum, koma sem brtt. til nefndarinnar þegar hún er að ljúka vinnu við frv. eins og það sem hér liggur fyrir. Ég met það svo, herra forseti, að þetta ákvæði styrki í rauninni þann málflutning sem við stjórnarandstæðingar og fleiri höfum haft uppi í þinginu og margir landsmenn gera nú kröfu um að afgreiðslu þessa frv. verði frestað. Við skoðum betur, auðvitað sérstaklega 1. gr. og bráðabirgðaákvæðið það sem lýtur að hálendinu, en látum ekki þar við sitja heldur verði þetta ákvæði skoðað betur. Og menn sjái örlítið fyrir, áður en þeir lögfesta það, hvert það muni leiða. Að menn reyni að sjá það svolítið fyrir sér hvað þeir séu í rauninni að kalla á hvað varðar tekjustofna sveitarfélaganna og möguleika þeirra til tekjuöflunar með þessu ákvæði.

Fleiri brtt. og athugasemdir sem fyrir liggja við 7. gr., herra forseti, ég held að þær skipti líka máli, ekki síst þær sem koma frá Ríkisendurskoðun. En ég vil þó geta þess að Akureyrarbær segir í umsögn að rétt væri að taka inn í lögin ákvæði um að óheimilt væri að fela sveitarstjórn ný verkefni, t.d. með lagasetningu, án þess að áður liggi fyrir áætlun um kostnað og að tekjustofnar væru tryggðir. Svo er vísað í að slíkt ákvæði muni vera í dönskum lögum. Þetta segja fulltrúar sveitarstjórna af fenginni beiskri reynslu af því þegar ríkið er að ákveða að senda þeim ýmis verkefni án þess að nægjanlegir tekjustofnar hafi fylgt með.

En ég ætla að fara yfir athugasemdir Ríkisendurskoðunar hvað varðar 7. gr. en þar segir Ríkisendurskoðun:

,,Að mínu mati skortir nokkuð upp á að heimildum sveitarfélaga séu settur nauðsynlegur lagarammi með ákvæðum frv. Nefna má sem dæmi að í 3. mgr. 7. gr.`` --- og henni verður ekkert breytt, herra forseti, brtt. á ekki við um 3. mgr., það er 4. mgr. sem brtt. er við --- ,,en í 3. mgr. segir: Sveitarfélög geta tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra enda sé það ekki öðrum falið til úrlausnar að lögum.``

Og það er bara að lögum. Ef við förum að skoða arðgjafarhlutverkið og þessa opnu möguleika þá gæti sveitarfélagið allt eins opnað bar og sett sér ákveðin arðgjafarhlutverk. Ekkert segir hér að það geti ekki verið verkefni sveitarfélagsins eins og hvað annað, bara ef það ákveður það sjálft. Vegna þess að það er líka ein stór breyting á frv. á gildandi lögum, að í gildandi lögum eru verkefni sveitarfélags talin upp. Það er upptalning á því hver séu helstu verkefni sveitarfélags. En í frv. er það ekki talið upp heldur bara sagt að sveitarfélög geti tekið að sér hvert það verkefni sem varðar íbúa þeirra enda sé það ekki falið öðrum til úrlausnar að lögum.

En Ríkisendurskoðun segir um þessa málsgrein 7. gr.:

,,Telja verður að afmarka þurfi þau verkefni sem sveitarfélögum er heimilt að sinna mun betur en hér er gert. Þessari skoðun liggja ýmis sjónarmið til grundvallar og skulu nokkur þeirra nefnd hér í dæmaskyni:

Í fyrsta lagi má nefna samkeppnissjónarmið, en þau takmarka verkefni sveitarfélaga við tiltekin meginsjónarmið. Þannig væri sveitarfélagi almennt ekki heimilt að stofna félag í gróðaskyni sem ætti í samkeppni við einkaréttarlegt félag.

Í annan stað má nefna svokallaða þjónustusamninga eða samninga um einstök rekstrarverkefni. Í frv. þyrfti að setja grundvallarreglur um heimildir sveitarfélaga til að taka að sér slíka samninga annars vegar og til að gera slíka samninga við aðra hins vegar. Hér má benda á 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins til hliðsjónar en þar er heimildum ríkisins til gerðar þjónustusamninga settar tilteknar skorður. Nauðsynlegt er að samsvarandi reglur liggi fyrir um heimildir sveitarfélaga til slíkrar samningsgerðar bæði almennt og einnig að því er varðar fjárhaldsstjórn sveitarfélaga skv. 78. gr. frv.

[15:30]

Síðast en ekki síst skal minnt á þær réttarreglur sem gilda á Norðurlöndum um þetta efni, [heimildir sveitarfélags til að taka að sér verkefni sem ekki er mælt fyrir um í lögum], en þessar norrænu réttarreglur eru í grundvallaratriðum þrengri en reglur hér á landi vegna þess að þær eru miðaðar við að heimildir kjörinna sveitarstjórna séu að stjórna sveitarfélaginu sem slíku, þar með talið í fjárhagsmálefnum þess, en ekki stunda aðra starfsemi.``

Hér lýkur tilvitnun í umsögn Ríkisendurskoðunar um 3. mgr. 7. gr.

Nefna má, herra forseti, að Samband sveitarfélaga á Norðurl. v. bendir á að ákvæði vanti um forsendur fyrir tilvist héraðsnefnda. Þeir segja að það sé eftirsjá að því að fella út upptalningu á helstu verkefnum sveitarfélaga þar sem það hafi ótvírætt upplýsingagildi.

Þetta, herra forseti, liggur fyrir um 7. gr. og ljóst að hv. nefnd tók ekki tillit til þeirra athugasemda sem hér koma fram en brtt. frá Páli Péturssyni, hæstv. félmrh., um arðgjafarmarkmiðin var tekin inn óbreytt.

Ef við skoðum frv. sjálft þá eru athugasemdir við 10. gr. Sú grein er samþykkt um stjórn og stjórnsýslu. Ríkisendurskoðun hefur við hana athugasemdir eða telur rétt að nefna nokkur atriði sem skipt geti máli. Ég vil gera grein fyrir því hvað Ríkisendurskoðun segir um 10. gr., sem er samþykkt um stjórn og stjórnsýslu, eins og hún liggur fyrir. En þar segir, með leyfi forseta:

,,Hér þykir einnig rétt að nefna nokkur atriði sem skipt geta máli t.d. þegar um er að ræða endurskoðun Ríkisendurskoðunar á þjónustusamningum eða samstarfsverkefnum ríkis og sveitarfélaga.

Í 10. gr. frv., sem ber heitið ,,samþykkt um stjórn og stjórnsýslu`` segir að sveitarstjórn skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélags og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast. Í 44. gr. frv. er vikið að hlutverki og valdsviði nefnda en þar segir ,,að sveitarstjórn geti falið nefnd, ráði eða stjórn fullnaðarafgreiðslu mála nema lög mæli á annan veg.```` Tilvitnun lýkur.

,,Að mínu mati`` --- segir hér einhver fyrir hönd Ríkisendurskoðunar --- ,,er nauðsynlegt að samþykktum og stjórnsýsluuppbyggingu sveitarfélaga verði settur skýrari lagarammi en frv. gerir ráð fyrir. Þar ættu t.d. að vera ákvæði sem endurspegla grundvallarstefnumótun varðandi samræmdar kæruleiðir/stjórnsýslukærur innan sveitarfélaganna ... sem frv. gerir ráð fyrir að séu til staðar. Þannig er rétt að tekin sé afstaða til þess hvort sama stjórnvaldið eigi að vera lægra sett eða æðra sett hjá öllum sveitarstjórnum. Þannig ætti einnig að taka afstöðu til þess hvort kæruleiðir og kæruheimildir eigi ekki að vera þær sömu óháð því hvaða sveitarfélagi menn búa í. Það mundi leiða til þess að íbúar allra sveitarfélaga landsins byggju við sama réttarástand hvað þetta varðaði.``

Þrátt fyrir þessar athugasemdir, herra forseti, er ekki gerð nein tillaga til breytinga á 10. gr. Hún stendur eins og hún var upphaflega í frv. þrátt fyrir þær.

Hvað varðar 12. gr., sem fjallar um fjölda fulltrúa í sveitarstjórn, var gerð athugasemd um það hvort mörkin ættu að vera rýmri varðandi fjölda sveitarstjórnarmanna. Akureyrarbær er með slíka athugasemd. Ég geri ráð fyrir því, herra forseti, að fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn sé að nokkru sniðinn eftir þeim veruleika sem við búum við. Það er hins vegar ljóst að svona mörk geta verið viðkvæm ef það fækkar í sveitarfélagi og íbúafjöldi fer niður fyrir þau mörk sem leyfa tiltekinn fjölda bæjarfulltrúa. Það er einhvern veginn alltaf erfiðara að draga saman en þenja út.

Athugasemdir eru gerðar við 13. gr. og það er líka brtt. við 13. gr. frá hv. nefnd. Athugasemdirnar sem komu við greinina voru þær að ákvæði vantaði, sem eru í núgildandi lögum, um það hvenær ný sveitarstjórn taki til starfa. Reyndar kemur líka tillaga frá Sambandi sveitarfélaga á Norðurl. v. um það að greinin byrji á því að tekið sé fram að nýkjörin sveitarstjórn taki við störfum 15 dögum eftir kjördag. Hv. félmn. tekur þessa tillögu Sambands sveitarfélaga í Norðurl. v. upp sem sína og setur inn þannig að ljóst sé að nýkjörin sveitarstjórn tekur við störfum 15 dögum eftir kjördag.

Síðan er nýmæli í brtt. við 13. gr., það er að sá kjörinn fulltrúi í sveitarstjórn sem á að baki lengsta setu í sveitarstjórninni, kveðji hana til fyrsta fundar. Aldursforseta hefur verið falið þetta hlutverk en síðan hafa menn rekið sig á að aldursforseti þarf ekki endilega að hafa reynslu þannig að þessu er snúið yfir á það að sá sem hefur lengsta reynslu af setu í sveitarstjórn kalli sveitarstjórn saman og stýri fundi þar til oddviti hefur verið kjörinn.

Við næstu grein, sem fjallar um kjör oddvita og varaoddvita, komu líka athugasemdir, þó engin brtt. hafi verið lögð fram við hana. Bæði Stöðvarhreppur og Djúpavogshreppur gera athugasemd við þá grein þar sem bent er á að óþarft og ástæðulaust sé að vera að setja það í lög að kjörtímabil oddvita skuli vera eitt ár. Þeir segja fullkomlega nægjanlegt að hafa það í lögum að sveitarstjórn geti sett oddvita af ef hann nýtur ekki lengur trausts og þurfi ekki að vera að endurkjósa oddvita á hverju ári. Eins og menn þekkja er það venjulega pólitískt samkomulag hver gegnir oddvitastöðu, er forseti bæjarstjórnar eða borgarstjórnar, og yfirleitt er sá aðili sem kosinn er í upphafi kjörtímabils endurkjörinn nema samkomulag hafi tekist um annað. Ég hygg að hér sé vísað í það að þetta er svo sem ekki kosning sem menn fara í með óbundnar hendur. Yfirleitt er hér ákveðið samkomulag um það hver gegni þessari mikilvægu stöðu í stjórn sveitarfélagsins. Það er ekki bara verið að kjósa þann sem stjórnar fundum sveitarstjórnar heldur þann aðila sem oft og einatt kemur fram fyrir hönd sveitarfélagsins og hefur því og af ýmsum öðrum ástæðum mikil áhrif á þá stefnumótun sem fram fer í sveitarfélaginu.

Þetta er samt látið vera svona, mönnum þykir líklega ágæt reynsla af því að kjósa oddvita árlega og varaoddvita og tefur ekki fyrir neinum, þó kannski megi segja að óþarft sé og ástæðulaust fyrst að sveitarstjórn getur sett oddvitann af þegar henni hentar.

Næsta athugasemd, sem jafnframt fylgir brtt., er við 19. gr., þar sem fjallað er um hæfi sveitarstjórnarmanna. Akureyrarbær og hreppsnefnd Tálknafjarðarhrepps velta vöngum yfir hæfi og því hvort sveitarstjórnarmaður eigi að taka þátt í atkvæðagreiðslu um hæfi sitt. Hv. félmn. stingur inn einu orði í 3. mgr. 19. gr. þar sem fjallað er um hæfi sveitarstjórnarmanna, sem eru jafnframt starfsmenn sveitarfélaga, til þess að taka þátt í umfjöllun og atkvæðagreiðslu um mál sem þeir hafa sjálfir átt þátt í að undirbúa. Mér sýnist að þessi brtt. sé fyrst og fremst árétting, efnislega gerir hún ekki neitt, en ég get svo sem ekki séð að hún spilli neinu.

Hér er síðan fjöldi greina, herra forseti, sem enginn virðist hafa séð ástæðu til þess að gera nokkra athugasemd við. Það segir okkur kannski að hér séu ekki stórmæli á ferðinni enda er þetta frv. í grófum dráttum heldur litlaust. Ég sagði áðan að 7. gr. hefði orðið átakagreinin ef brtt. félmrh. hefði verið komin áður en frv. var sent til umsagnar. Fyrst það var ekki gert þá er svolítið logn yfir öðrum greinum frv. en 1. gr. og bráðabirgðaákvæðinu, sem hafa að sönnu hlotið langmesta athygli.

En hv. félmn. gerir brtt. við 42. gr. frv. Sú grein frv. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Starfsmenn fyrirtækja og stofnana sveitarfélags eru ekki kjörgengir í stjórnir þeirra fyrirtækja eða stofnana er þeir starfa hjá.``

Til að gæta samræmis leggur hv. nefnd til að við þetta bætist að þeir séu ekki kjörgengir í nefndir, ráð og stjórnir. Það er til að hafa inni öll þessi heiti á þeim sem fara með málaflokka fyrir sveitarstjórnir, þannig að ekki orki tvímælis við hvað er átt.

Næst er gerð athugasemd við 50. gr. Hún fjallar um þóknun og Stöðvarhreppi þykir ekki rétt að setja í lög að nefndir skuli vera launaðar og það eigi að vera alfarið á höndum sveitarstjórnar. Kannski má til sanns vegar færa að það ætti að nægja að sveitarstjórnirnar væru sér meðvitaðar --- og menn ættu að vera það --- um að menn verja dýrmætum tíma, sem ella væri kannski nýttur til launavinnu, meðan þeir starfa fyrir sveitarstjórn sína. Það er þó, herra forseti, orðið ákveðið vandamál hversu lág sú þóknun er sem velflestir bæjarfulltrúar eða fulltrúar í sveitarstjórnum um landið fá fyrir sína vinnu. Ég hygg að það sé einungis hér í Reykjavík og á Akureyri, kannski hér í nágrannasveitarfélögunum stóru, ég þekki það ekki, að um greiðslur er að ræða fyrir þau störf sem unnin eru í stjórn sveitarfélagsins.

Víða á landsbyggðinni eru þessar greiðslur svo lágar að þær ná engan veginn að vega upp á móti því vinnutapi eða vinnu, símanotkun eða öðru sem fulltrúar í sveitarstjórnum verða að leggja fram ef þeir ætla að standa sig fyrir þá sem kjósa þá inn í sveitarstjórn. Nokkuð hefur verið fjallað um það fyrir þær kosningar sem verða eftir rúmlega hálfan mánuð, að það erfitt hafi verið að manna lista. Menn hafa getið sér til um að það væri a.m.k. af tveimur ástæðum. Önnur væri sú að þeir sem til þessara starfa veldust fengju oft mjög óvægna gagnrýni, til þeirra væru gerðar miklar kröfur, ekki síst þegar erfiðleikar steðja að. Eins og ég hef gert að umræðuefni þá er byggðaþróunin erfið. Það getur verið mjög erfið staða að vera í sveitarstjórn og vera kallaður til ábyrgðar vegna þess ástands sem kann að skapast.

Einnig hefur það verið nefnt að þetta sé svo illa borgað að menn hafi hreint og klárlega ekki efni á því að taka þessi verkefni að sér. Það er mjög hættulegt, herra forseti, ef hið mætasta fólk sem gert gæti byggðarlögum sínum mikið gagn með því að taka þátt í stjórnun þeirra treystir sér ekki til að taka að sér störf í sveitarstjórn vegna þess hversu illa þau eru greidd. Það er stundum talað um það að til þess að menn njóti sín í störfum þá þurfi þeir annaðhvort að njóta virðingar eða vera sæmilega launaðir. Helstu þurfa menn að vera hvort tveggja en mér sýnist, herra forseti, að þegar horft er til starfa bæjarfulltrúa eða fulltrúa í sveitarstjórnum víða um landið, þá sé hvorugt til staðar. Engan þarf því að undra þó að menn þyrpist ekki í framboð og ganga þurfi á eftir mönnum til þess að fá þá til að taka að sér þessi mikilvægu verkefni. Þau eru svo sannarlega mikilvæg. --- Þetta var um þóknunina.

[15:45]

Síðan eru næst athugasemdir við 54. gr. en hún fjallar um ráðningu framkvæmdastjóra. Það er svolítið merkilegt að það eru tveir aðilar, Samtök sunnlenskra sveitarfélaga og Samtök sveitarfélaga á Norðurl. v., sem gera athugasemd við 54. gr. Báðir benda á að algengt sé að frestur í samningum við framkvæmdastjóra sé lengri en þrír mánuðir og þess vegna eigi þetta þriggja mánaða ákvæði sem er í frv. að vera lágmarksákvæði. Til þessa hefur ekki verið tekið tillit og er það ugglaust vegna vilja manna til samræmingar. Það er hið algenga að menn séu með þriggja mánaða uppsagnarfrest. Hins vegar er ljóst að ýmsir af framkvæmdastjórum sveitarfélaganna hafa tryggt sér biðlaun til sex mánaða. Ef við lítum svo á að biðlaun og uppsagnarfrestur séu sitthvor hliðin á sama peningi má kannski ætla að hér sé verið að slá ákveðinn tón hvað það varðar, með þeim þriggja mánaða uppsagnarfresti sem er tilgreindur í frv.

Gerð er athugasemd við 57. gr. þar sem talað er um starfskjör, réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaganna, að þar fari eftir ákvæðum kjarasamninga hverju sinni. Ríkisendurskoðun er með athugasemd við þetta þar sem segir að mikilvægt sé að skýrt komi fram í sveitarstjórnarlögum hvaða starfsmenn sveitarstjórna teljist til opinberra starfsmanna og hverjir ekki. Þetta sé mikilvægt bæði með tilliti til réttinda og skyldna starfsmanna og ekki síður réttinda íbúa sveitarfélaganna. 57. gr. frv., sem fjallar um starfsmenn sveitarfélaga, er afar óljós um þetta grundvallaratriði.

Herra forseti. Hér erum við líka komin að ákveðnum vanda vegna þess að þetta hefur satt að segja þróast þannig hjá sveitarfélögunum um landið að ekki er samræmi á milli þess hverjir eru opinberir starfsmenn og hverjir eru í almennum verkalýðsfélögum. Dæmi eru þess að starfsmenn sem vinna á öldrunarstofnunum á einum stað eru allir bæjarstarfsmenn, hvort sem þeir eru faglærðir eða ekki á meðan allir ófaglærðir starfsmenn á sambærilegri stofnun á öðrum stað eru í almennu verkalýðsfélagi. Athugasemd Ríkisendurskoðunar varðandi það að óljóst sé hverjir séu opinberir starfsmenn og hverjir ekki samkvæmt frv. byggir ugglaust á þessari staðreynd, eða þ.e. að frv. byggir ugglaust á þeirri staðreynd og kallar síðan á þá athugasemd að þetta hefur einfaldlega ekki verið samræmt. Þetta á við um fleiri starfsmenn en starfsmenn öldrunarstofnana, þetta á við um býsna marga starfsmenn og kannski alla starfsmenn sumra sveitarfélaga, hvort sem þeir eru faglærðir eða ekki að þeir hafa samkvæmt hefð eða vana eða jafnvel bara einhverri pólitískri línu allir orðið opinberir starfsmenn. Hér er því um mjög breytilegt ástand að ræða. Ég veit svo sem ekki hvort einhver hreyfing er á þessum hlutum og hvort þetta er að skiptast upp aftur en mér finnst það ólíklegt. Ég held að meginbreytingin hvað varðar félagsaðild starfsmanna sveitarfélaganna sé í þá veru að menn eru að ganga úr starfsmannafélögunum og í fagfélög, samanber það sem fóstrur, þroskaþjálfar, sjúkraliðar og fleiri stéttir hafa verið að gera á undanförnum árum. Ég held því að það sé frekar sú tilhneiging sem er í gangi en sú að menn sé að sortera sig betur, annars vegar opinberir og hins vegar almennir.

Þetta var um ráðningu framkvæmdastjóra og um starfskjör og réttindi og skyldur starfsmanna sveitarfélaganna.

Næsta athugasemd sem gerð er og jafnframt brtt. af hálfu hv. nefndar er við 61. gr. Samkvæmt frv. átti fjárhagsáætlun að vera lokið fyrir lok desembermánaðar. Krafan hefur verið sú að fjárhagsáætlun væri lokið fyrir janúarlok en frv. gerir ráð fyrir að henni sé lokið fyrir desemberlok. Hins vegar komu athugasemdir frá nokkrum aðilum við þessa breytingu þar sem menn benda á það óhagræði sem getur verið af þessu. Niðurstaða hv. félmn. er að bregðast jákvætt við þessum athugasemdum þannig að desember er aftur breytt í janúar og verður þetta því óbreytt frá gildandi lögum, þ.e. hvenær sveitarstjórnir eiga að vera búnar að ljúka gerð fjárhagsáætlunar sinnar.

Næsta grein sem athugasemd er gerð við er 63. gr. frv. sem fjallar um þriggja ára áætlun. Þar leggja Samtök sunnlenskra sveitarfélaga til að það verði orðað skýrar að þriggja ára áætlunin nái til næstu þriggja ára eftir yfirstandandi fjárhagsár. Þeir segja sem sagt: Ekki er alveg nógu skýrt hvernig ramminn á að vera um þriggja ára áætlun, hvaða tímarammi er þetta sem um er að ræða?

Við þessu er ekki brugðist en áhugavert væri, herra forseti, að hæstv. félmrh. gerði okkur grein fyrir hvernig reynslan hefur verið af gerð þriggja ára áætlana hjá sveitarfélögunum. Ekki eru mörg ár síðan þetta ákvæði kom inn í lögin og ljóst er að það hefur gengið misjafnlega hjá sveitarfélögunum bæði að semja slíkar áætlanir og standa við þær. Þetta er liður í sífellt auknu fjárhagslegu aðhaldi og er það í sjálfu sér af hinu góða og ekkert nema gott um það að segja að sveitarfélög, eins fyrirtæki og aðrir, geri sér slíkar áætlanir til þess að sjá betur hvers þau mega vænta í fjárhagsmálefnum sínum og hvaða svigrúm er til staðar. En það væri fróðlegt, vegna þess að sveitarfélögin hafa þurft að senda þriggja ára áætlanir sínar til ráðuneytisins --- ég sé reyndar ekkert um það í þessu frv. að það skuli gert --- en það væri áhugavert að fá að heyra frá hæstv. félmrh. hvernig reynslan hefur orðið af slíku og ég veit ekki nema ég beini fyrirspurn til hæstv. ráðherra um það efni þó síðar verði.

Næsta grein sem gerð er athugasemd við og jafnframt brtt. er 65. gr. sem fjallar um fjárfrekar framkvæmdir. Þar eru Samtök sunnlenskra sveitarfélaga með tillögu um að í stað ,,sérfróðs aðila`` komi ,,löggilts endurskoðanda``. Hv. félmn. setur hins vegar nýjan fyrri málslið inn í greinina þar sem þau mörk sem eru við fjárfestingarfjárhæð sveitarfélags eru lækkuð. Það er þannig, herra forseti, að í núgildandi lögum er ákvæði þess efnis ef framkvæmd, áætluð framkvæmd eða kostnaður vegna áætlaðrar framkvæmdar, nemur hærri fjárhæð en sveitarsjóðsgjöld yfirstandandi reikningsárs skuli leggja fyrir sveitarstjórn umsögn sérfróðs aðila, ef hún nemur helmingi hærri fjárhæð en sveitarsjóðsgjöld. Í frv. er þessu breytt þannig að ef hún nemur hærri fjárhæð en helmingi skatttekna --- og brtt. hv. nefndar er síðan í þá veru að ef hún nemi hærri fjárhæð en fjórðungi skatttekna. Þannig eru menn að breyta viðmiðunarmörkum býsna hratt. Fyrst var það ,,hærri fjárhæð en öll sveitarsjóðsgjöldin`` og síðan helmingur þeirra og nú eru menn komnir niður í fjórðung, að ef verið er að framkvæma fyrir fjórðung þurfi umsögn sérfróðs aðila. Þetta er, herra forseti, líka liður í hinu aukna fjárhagslega aðhaldi sem sveitarfélögin hafa þurft að undirgangast á undanförnum árum og í enn ríkari mæli samkvæmt þessu frv., verði það lögum. Eiginlega má segja að sá kafli frv. sem mestum breytingum hefur tekið sé kaflinn um fjármál sveitarfélaga. Þá undanskil ég kaflann um kosningarnar sem er algjörlega búið að taka út úr lögunum og búið að samþykkja sérstakan lagabálk um kosningar til sveitarstjórna.

Síðan er gerð athugasemd við 66. gr. sem fjallar um skil á fjárhagsáætlun til ráðuneytisins. En sú grein hljóðar svo:

,,Strax að lokinni afgreiðslu sveitarstjórnar skal senda ráðuneytinu fjárhagsáætlun skv. 61. gr. og þriggja ára áætlun skv. 63. gr. Sama á við um endurskoðaða áætlun eða breytta skv. 62. gr.``

Það eftirlit er því í lagi. Strax þegar búið er að afgreiða áætlanir eru þær sendar til ráðuneytisins svo það geti haft eftirlit með því hvort menn séu nokkuð að gera af sér.

En við þessi skil á fjárhagsáætlun til ráðuneytisins eru gerðar athugasemdir. Ég ætla ekki að fara yfir þær athugasemdir sérstaklega hvað varðar 66. gr. Ég ætla að vinda mér í 67. og 68. gr. sem fjalla um ársreikninga og endurskoðun ársreiknings en Ríkisendurskoðun gerir ákveðnar athugasemdir við báðar greinarnar. Í athugasemdum Ríkisendurskoðunar segir:

,,Að mínu mati`` --- segir sá sem skrifar athugasemdirnar --- ,,væri æskilegt að hafa ákvæði frv., sérstaklega 67., 68. og 71. gr., um gerð ársreikninga, ítarlegri og skýrari. Hér mætti t.d. eftir því sem við á hafa 8. gr. laga nr. 86/1997, um Ríkisendurskoðun, til hliðsjónar en þar segir:

,,Fjárhagsendurskoðun skal samkvæmt góðri endurskoðunarvenju á hverjum tíma einkum miða að eftirfarandi:

1. Að reikningsskil gefi glögga mynd af rekstri og efnahag í samræmi við góða reikningsskilavenju.

2. Að kanna innra eftirlit og hvort það tryggir viðunandi árangur.

3. Að reikningar séu í samræmi við heimildir fjárlaga, fjáraukalaga og annarra laga, lögmæt fyrirmæli, starfsvenjur og samninga um rekstrarverkefni þar sem það á við.

4. Að kanna og votta áreiðanleika kennitalna um umsvif og árangur af starfsemi stofnana birtist þær með ársreikningi.``

Engar brtt. eru gerðar hvað þetta varðar. Samkvæmt tillögum hv. nefndar á frv. að standa eins og það liggur fyrir en ég held að það hafi hins vegar verið afskaplega þarft, herra forseti, að hv. nefnd fékk ítarlegar athugasemdir frá Ríkisendurskoðun, sérstaklega um fjárhagskafla frv., því það hefur ugglaust orðið til þess að menn hafa skoðað betur margt af því sem þar er til umfjöllunar en þeir hefðu ella gert.

Hvað varðar 69. gr., um skoðunarmenn, gerir Súðavíkurhreppur eftirfarandi athugasemdir:

,,Nauðsynlegt er að kveða fastar á um hlutverk félagskjörinna skoðunarmanna, verklag og verklagsaðgerðir og skilgreina ítarlega verkaskiptingu þeirra og löggiltra endurskoðenda til að tryggja skilvirkni starfa þeirra, að hlutverk þessara aðila sé með glöggum hætti og samræmi í störfum þeirra. Sérstaklega bendir hreppsnefnd á að samkvæmt gildandi sveitarstjórnarlögum er gert ráð fyrir að félmrn. setji reglugerð varðandi störf félagskjörinna endurskoðenda. Ráðuneytið hefur ekki sett slíka reglugerð. Því er annað tveggja nauðsynlegt; að skilgreina frekar ákvæði laganna eða að tryggja að reglugerð varðandi þetta atriði fylgi lagasetningunni.``

(Forseti (RA): Forseti hyggst nú ljúka fundinum og spyr hv. ræðumann hvort hún kjósi að fresta ræðu sinni og halda áfram á næsta fundi eða velja sér nokkur lokaorð.)

Herra forseti. Ég á það mikið eftir af því sem ég vildi sagt hafa um það frv. sem hér liggur fyrir að ég kýs frekar að fresta ræðu minni þar til á næsta fundi.