Ákvörðun um þingfrestun

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 10:41:14 (6262)

1998-05-07 10:41:14# 122. lþ. 120.92 fundur 352#B ákvörðun um þingfrestun# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[10:41]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Það er ekkert við því að segja þó að fundir Alþingis haldi eitthvað áfram fram eftir vori og fram á sumar. Allir alþingismenn eru að sjálfsögðu reiðubúnir til að sitja hér fundi eins og ástæða er til.

Hitt er öllu verra, sem hér hefur komið fram, þegar forsrh. tekur fram fyrir hendurnar á stjórn þingsins og tilkynnir í fjölmiðlum hvernig haga eigi þingstörfum án þess að hafa, að því er við vitum, samráð við forseta eða aðra þingmenn. Það er því eðlilegt að forseti sé spurður að því hvort taka beri alvarlega þann boðskap sem kom fram hjá hæstv. forsrh. í fjölmiðlum í gær. Er það samkvæmt þessum fyrirmælum sem þingið á að starfa eða ekki?

Ég tók eftir því að hæstv. forseti tók þannig til orða í svari sínu áðan, að um þessi mál, þ.e. um starfslok þingsins, væri ekki hægt að ræða fyrr en umræðu um þau mál sem nú eru á dagskrá og fleiri yrði lokið. Nú bíða tæp 70 mál umræðu. Það er full ástæða til þess að spyrja hæstv. forseta: Hvað á hann við? Hvaða mál eru það, ,,og fleiri`` af þessum rúmlega 60 málum, sem ekki eru á dagskrá, sem að hans viti þarf að ljúka umræðu um til viðbótar þeim sem nú eru á dagskrá svo að hans mati sé hægt að ræða við forustumenn þingflokka um verklok á Alþingi?