Ákvörðun um þingfrestun

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 10:45:43 (6265)

1998-05-07 10:45:43# 122. lþ. 120.92 fundur 352#B ákvörðun um þingfrestun# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[10:45]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það eru tvær spurningar. Hefur hæstv. forsrh. látið í ljós við forseta Alþingis sem ósk sína það sem kom frá honum í fjölmiðlum í gær eða var skoðun hæstv. forsrh. sett fram í fjölmiðla án þess að stjórn þingsins hefði nokkurn pata af því hver væri vilji forsrh.? Hafi forsrh. sett fram þá ósk við hæstv. forseta um starfshætti Alþingis, sem hann lýsti í fjölmiðlum í gær, hver er þá afstaða forseta til þeirrar óskar?

Ég ítreka spurningu mína. Hæstv. forseti sagði áðan í ávarpsorðum sínum að til þess að hægt væri að ræða, þá væntanlega við formenn þingflokka, um starfslok á Alþingi þyrfti að ljúka umræðu um þau mál sem væru nú á dagskrá þessa fundar og fleiri. Hvaða fleiri mál eru það, virðulegi forseti, af þeim 60 sem bíða sem þarf að mati forseta að ljúka umræðu um áður en hægt er að fara ráðfæra sig við stjórn þingflokka og þingmenn um verklok á Alþingi?