Afgreiðsla frumvarps um síldarsamning o.fl.

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 10:47:54 (6267)

1998-05-07 10:47:54# 122. lþ. 120.94 fundur 354#B afgreiðsla frumvarps um síldarsamning o.fl.# (um fundarstjórn), RG
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[10:47]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Mér láðist að minnast á það í umfjöllun minni áðan og tel mjög mikilvægt að fá tækifæri til að koma leiðréttingu á framfæri ef nokkur veður í villu út af spurningu fréttamanns til forsrh. í gær. Þar var spurt hvort það væri ekki stórmál að hin langa umræða sem færi fram á Alþingi tefði að hægt væri að afgreiða síldarsamninginn frá Alþingi Íslendinga. Forsrh. svaraði því til að hann yrði bara afgreiddur í fyllingu tímans þegar þar að kæmi. Ef til vill hefði einhverjum skilist það að við, stjórnarandstaðan, kæmum í veg fyrir að stórmál sem varðaði þjóðina væri afgreitt. Þess vegna kýs ég í umræðu um fundarstjórn forseta að koma því á framfæri að á fundi með forseta sl. mánudag var spurt um hvort ekki væri skynsamlegt að taka það mál á dagskrá og afgreiða síldarsamninginn þannig að hann væri frá til þess að enginn þyrfti að velkjast í vafa um hvort reglugerðin styddist við nægilega sterkar lagaforsendur sem hefur gert það kleift að flotinn sigldi af stað. Okkur var tjáð að það væri ástæðulaust. Þetta óska ég, virðulegi forseti, að gefnu tilefni, að komi fram.

Virðulegi forseti. Þjóðin hefur lengi haft það í flimtingum að forsrh. slái á fingur samráðherra sinna þegar honum hentar. Þingið hefur það mjög á tilfinningunni núna að forsrh. sé farinn að slá á fingur stjórnar þingsins og ekki er hægt að líta fram hjá því að þó að við vitum það auðvitað öll sem hér erum að við ljúkum ekki þingi á morgun, 8. maí, þá er það óviðunandi að forsrh. tjái sig um framvindu þinghaldsins sem hefur ekki verið rætt við þingflokksformenn.