Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 14:13:03 (6273)

1998-05-07 14:13:03# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[14:13]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil fyrst að það komi fram að ég er ekki í málþófi. Ég tel að þeim tíma, sem hér er nýttur í ræðustól til að reyna að fá hæstv. ríkisstjórn til að breyta frá sínum fyrri áformum um að afgreiða frv. eins og það liggur fyrir núna, sé vel varið.

Hvað það varðar að umræðan skili litlu, þá er það ekki eins og hv. þm. telur. Umræðan skilar miklu. Hún skilar m.a. þeirri athygli sem nú beinist að hv. alþm. og Alþingi, athygli sem er meiri og verður mun meiri þegar kemur að afgreiðslu þessa máls en ella hefði verið.

Við sem hér höfum talað erum í pólitík og við erum í pólitík vegna þess að við viljum að ákveðin viðhorf fái framgang í þjóðfélaginu og við erum tilbúin til að tala fyrir þeim. Það er okkar vinna. Þess vegna er allt umtal um tímann í samhengi við annað svolítið afstætt. En málþóf er þetta ekki, hv. þm. Málþóf getur það aldrei kallast þegar menn eru að tala fyrir þeim málstað sem þeir telja réttan og ég tala nú ekki um þegar menn eru að tala fyrir jafnstóran hóp þjóðarinnar eins og við vitum að bíður eftir því að þau tíðindi berist héðan frá Alþingi að hæstv. ríkisstjórn hafi ákveðið að geyma sér ákvörðun um ráðstöfun miðhálendisins þar til hlutirnir hafa verið skoðaðir betur.