Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 14:16:35 (6275)

1998-05-07 14:16:35# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[14:16]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hreint ótrúlegt hvað hv. þm. er upptekinn af lengd ræðu. Ég get sagt hv. þm. að lengd ræðu er algjört aukaatriði, innihald ræðu er það sem skiptir máli. Ég tel mig reyndar hafa haldið býsna yfirgripsmikla ræðu en ræðu sem var nákvæmlega um það efni sem hér var á dagskrá, þ.e. frv. til nýrra sveitarstjórnarlaga. Ég hefði vel getað haldið enn þá lengri ræðu um þetta efni einfaldlega vegna þess að mér er það sérlega hugleikið. Ég er sjálf sveitarstjórnarmaður og hef verið, ég er landsbyggðarmaður og mér finnast þessi mál vera þess eðlis að um þau á ekki bara og má heldur verður að hafa býsna ítarlegt mál ef menn ætla að fara vandlega yfir frv. sem er mjög yfirgripsmikið, yfir 100 greinar. Ég fór ekki yfir þær allar. Ég vænti þess, herra forseti, að hv. þm. hafi veitt því athygli. Ég fór ekki yfir allar greinar frv. heldur eingöngu þær sem mér þótti sérstök ástæða til þess að fara yfir.

Það er ekki markmið að halda langar ræður en það er markmið að hér komi fram það sem hv. þm. þykir þess virði að fram komi og þeir telja að eigi erindi inn í umræðuna.

Hvað það varðar hvort ég styð frv. eða ekki þykir mér það leitt ef hv. þm. hefur líka misst af lokaorðum mínum. Þar óskaði ég þess að ríkisstjórnin yrði tilbúin til að fresta ákveðnum ákvæðum frv. og skoða betur. Ég hélt að það væri nokkuð ljóst að ef það verður ekki gert, ef frv. verður keyrt áfram með þeim hætti sem það liggur fyrir núna, þá mun ég að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn þessu frv. þó ekki væri nema fyrir þessi ákvæði, 1. gr. og bráðabirgðaákvæðin vegna þess að ég álít, og er þar sammála fjölmörgum, að hér sé farið með slíkum hraða og óðagoti að það sé stórslys ef frv. verður afgreitt í óbreyttum búningi.