Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 14:25:15 (6279)

1998-05-07 14:25:15# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[14:25]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir það leitt að ég skildi ekki alveg spurningu hv. þm., þá sem kom síðast um skipulagsfrv. frá því í fyrra. (HG: Hvers vegna þingmaðurinn hefði greitt atkvæði með því frv. eins og það það lá þá fyrir og samþykkt það. En það afnam þá markalínu sem vitnað var til þegar unnið var að svæðisskipulaginu þannig að sveitarfélögin hafa ...)

Herra forseti. Ég held að ég og hv. þm. þyrftum lengri tíma en hér gefst í stuttu andsvari og hann að útskýra málið fyrir mér standandi á gólfinu til að ræða þessi mál. Mér sýnist að hv. þm. verði einfaldlega að biðja um orðið og ég síðan að fá tilefni til að svara honum þá betur síðar.

En hvað varðar áhyggjur hans af svæðisskipulaginu og afdrifum þess eru þær áhyggjur sem hann lýsir hér áhyggjur ýmissa fleiri. En hann hlýtur líka að þekkja til málflutnings þeirra sem segja sem svo að þetta svæðisskipulag sé þannig úr garði gert að það er verra en ekkert. Þar er ég ekki að tala fyrir hönd orkugeirans. (HG: Það er fyrst og fremst ...) Ég er ekki að tala fyrir hönd hans. Það eru aðrir aðilar sem ég er nú að tala fyrir og menn hafa þar vísað í bæði innihald þessa skipulags, þ.e. hvaða áherslur þar eru lagðar, m.a. hvað varðar beitarafnotin, m.a. varðandi það sem menn tala um sem stærsta umhverfismál íslensku þjóðarinnar og líka aðrir sem hafa áhyggjur af því að of margt sé óljóst í þessu skipulagi eða þessum skipulagsdrögum sem nú er verið að vinna.