Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 23:45:27 (6287)

1998-05-07 23:45:27# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[23:45]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vissi að hv. þm. Össur Skarphéðinsson væri ljón en ég vissi ekki að í huga hans yrði hvítt svart á svo stuttum tíma, (ÖS: Ljónin ...) að hann rangfærði orð mín fimm mínútum síðar með þeim hætti að ég hefði sagt að frv. hæstv. umhvrh. væri illa úr garði gert. (ÖS: Það þarf að semja það upp á nýtt.) Það sagði ég ekki. Ég sagði að það þyrfti að gera á því örlitlar breytingar (SvG: Vitleysa.) sem sneru að því sem hv. þm. sagði að allir landsmenn, ég sagði að það gætu komið héraðsnefndir að því í staðinn fyrir sveitarfélögin sem liggja að miðhálendinu. Ég gat þess að ég hefði rætt þetta fyrr við hæstv. umhvrh. og félmrh. og mönnum fyndist þetta rétt og ég trúi því að um það sé samstaða.

Í tilfelli Þorgeirs Hávarssonar var það vissulega þreyttur smalamaður sem lá vel við höggi. Það var ekki þreytt ríkisstjórn sem lá vel við höggi í huga þessara tveggja hv. þm. Það var ríkisstjórn sem hafði lagt mikið á sig, fengið til þess hæfustu menn og færustu lögfræðinga að semja frv. sem miðuðu að þjóðarsátt um miðhálendið. En í hita leiksins eftir að þjóðvakamenn og hluti jafnaðarmanna hafði farið fram með miklu ærslum og oft og tíðum ekki þinglegir, vildu hv. þm. vera fremstir í þeim flokki sem, hvað skal segja, svo við notum nú ekki dónaleg orð, hæstv. forseti, höfðu hátt í túngarðinum heima.