Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 23:47:27 (6288)

1998-05-07 23:47:27# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[23:47]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get vel fallist á að það hafi ekki verið þreytt ríkisstjórn sem lagði fram þetta vonda frv. hæstv. umhvrh. en það fórnarlamb sem þau tvö ljón sem hv. þm. hefur nefnt hér eru að japla á er hinn þreytti smalamaður sem fer nú fram í gervi Framsfl. sem hefur samkvæmt síðustu skoðanakönnun sem birtist í Ríkisútvarpinu í kvöld tapað þriðjungi fylgis síns. Hrunið á þessari viku. Af hverju heldur hv. þm. að það sé? Kynni það að vera vegna þess að obbi landsmanna veit að verið er að ræna miðhálendinu frá honum? Kynni það að vera?

Hv. þm. talar jafnan skýrt. Ræða hans skal vera já, já og nei, nei eins og segir í helgri bók sem hann þekkir vel. Hv. þm. sagði að ég hefði snúið út úr orðum hans en ég var einungis að segja það efnislega í örfáum setningum sem hv. þm. sagði um frv. hæstv. umhvrh. Hann sagði að það þyrfti að leggja það fram eftir nýsmíði í haust. Það þyrfti að koma fram nýtt frv. Hvað þýðir það, herra forseti? Venjulegur maður með slaka meðalgreind, eins og a.m.k. sá þingmaður sem hér stendur, getur ekki dregið aðra ályktun en þá að ef búa þarf til nýtt þingmál úr þessu hlýtur hið fyrra að vera ónýtt.