Sveitarstjórnarlög

Fimmtudaginn 07. maí 1998, kl. 23:52:24 (6291)

1998-05-07 23:52:24# 122. lþ. 120.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 122. lþ.

[23:52]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað Þjóðvaka varðar þá á ég auðvitað ekkert að vera að minnast á hann. Ég get sagt um Þjóðvaka: Blessuð sé minning hans. Ég mun ekki minnast á hann framar í ræðum mínum en óska aftur á móti jafnaðarmönnum til hamingju með þá vegferð sem þeir eiga í starfi sínu.

Hv. þm. minnist á sanngirni og hvort það sé sanngjarnt að einn fulltrúi úr Reykjanesskjördæmi komi inn í skipulagsmálin. Nú veit ég ekkert hvort það verður einn, ég veit ekkert hverja t.d. félmrh. og umhvrh. skipa. Þarna koma menn úr öllum kjördæmum. Þetta frv. er ekki til að jafna atkvæðavægi. Hitt er ljóst að kannski verða átök um hvernig atkvæðavægi verður jafnað og það verður gert á næsta þingi og einhver hluti þingmanna af landsbyggðinni færður yfir á þessi kjördæmi. Það hygg ég að liggi fyrir.

Hvað varðar hitt sagði ég ,,þinglegir``. Ég get vissulega, hæstv. forseti, beðist afsökunar á því orðalagi mínu því að ég tek undir að þeir brutu ekki þingsköp en hitt er annað mál að það sem ég átti við með ummælum mínum er þetta málþóf, að menn standi fjóra og fimm klukkutíma í senn að lesa upp úr ritum og tala um allt annað en efnið og rugli umræðuna með því. Hér er meðalræðulengdin hátt í fjórar klukkustundir og það finnst mér ekki þinglegt. Ég viðurkenni þó að inn á milli hafa komið menn sem hafa talað stutt og strítt. Það viðurkenni ég. Enn er það í gildi sem Churchill sagði: Það tekur fimm mínútur að semja fimm tíma ræðu, en fimm klukkustundir að semja fimm mínútna ræðu. Ég virði því meira hina stuttu og snörpu ræðu.

En hitt vil ég að lokum segja, herra forseti, um þann hv. þm. sem hér talaði að ég hygg að hann haldi sig öðrum fremur við þau efnistök sem eru til umræðu hverju sinni.