Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:12:31 (6310)

1998-05-08 12:12:31# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:12]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur fyrir ágæta samantekt hennar á stöðu þessa máls, en sjónarmið okkar kvennalistakvenna í þessu mikilvæga máli fara saman með sjónarmiðum jafnaðarmanna. Það er þó eitt atriði í hennar máli sem ég vil andmæla. Það er alls ekki minn skilningur að þó að þetta frv. verði samþykkt, þá verði ekki hægt að taka þá samþykkt til baka. Ég lít svo á að Alþingi geti í framtíðinni breytt því að jöklarnir og hálendissvæðin heyri stjórnsýslulega undir sveitarfélögin, ef því sýnist svo. Þetta er ekki stjórnarskrárbreyting og jafnvel þó svo væri þá er hægt að breyta stjórnarskrá.

Þetta landsvæði verður að öllum líkindum að stórum hluta í eigu ríkisins þannig að ég lít ekki svo á að hér sé um óafturkræfa breytingu að ræða.