Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:29:39 (6313)

1998-05-08 12:29:39# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, GGuðbj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:29]

Guðný Guðbjörnsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. félmrh. fyrir svör hans sem ég er þó ekki alls kostar ánægð með. Í fyrsta lagi er ég sammála hæstv. ráðherra því að ég tel ekki að óbreytt ástand sé æskilegt á hálendinu. Ég tel að rétt hafi verið að taka á þessu máli. En það er mikill munur á því að hafa óbreytt ástand eða það sem nú stendur til og ég get alls ekki séð að sú skipan sem við kvennalistakonur og jafnaðarmenn mælum með, þ.e. að þarna verði sérstakt stjórnsýslusvæði --- það má líta á það jafnvel sem sérstakt sveitarfélag --- ég get ekki séð annað en að það samræmist alveg núverandi stjórnsýsluskipan.

[12:30]

Í öðru lagi spurði ég um útgjöld á svæðum sem tilheyra sveitarfélögunum stjórnsýslulega en ríkinu eignarlega. Mér er fullkomlega kunnugt um eignarlega skipan samkvæmt þjóðlendufrv. enda sit ég í allshn. og hef setið nokkra tugi funda um það mál. Við spurðumst sérstaklega fyrir um fyrirhugaða tekjumöguleika sveitarfélaganna af þessum svæðum í allshn. og munum ræða það nánar þegar frv. um þjóðlendur verður rætt. Það er ekki skýrt og margir hafa látið í ljós áhyggjur af því að sveitarfélögin setji á ýmis konar gjöld á hálendinu. Ég get ekki skilið orð hæstv. ráðherra öðruvísi en svo að hann hafi ekki áhyggjur af því að sveitarfélögin beri þarna skarðan hlut frá borði og hljóti að fá til þess nægilegar tekjur, hvort sem er frá ríkinu eða með þjónustugjöldum.

Í þriðja lagi var ég ekki ánægð með rök hans gegn frestun. Þau voru fyrst og fremst þau að þessi þrjú mál héngju saman. Í rauninni liggur ekkert sérstaklegalega mikið á því ekki er útséð með að hin málin fari hér í gegn. Ég er því ósátt við þau rök.