Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:39:15 (6319)

1998-05-08 12:39:15# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:39]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Um þessa umræddu brtt. meiri hluta félmn. er það að segja að nefnd sú sem vann að því að semja frv. féllst ekki á þetta ákvæði. Þess vegna tel ég að nefndarmenn hafi verið á þeirri skoðun að það væri ekki rétt.

Ég vek athygli á því að einn nefnarmanna var Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri í Garðabæ. Garðabær hefur nú þegar samþykkt opinbera ályktun sem er andstaða við þessa brtt. meiri hluta félmn. Það hlýtur að opna augu allra fyrir því að um þetta er gríðarlegur ágreiningur. Ég get vel skilið afstöðu bæjarstjóra Garðabæjar og hvers vegna hann gerir ágreining um málið. Það er vegna þess að ákvæðið veitir fyrirtæki í Reykjavík, í eigu Reykjavíkurborgar, heimild til að skattleggja íbúa í öðrum sveitarfélögum sem skipta við þetta sveitarfélag, í Kópavogi, Garðabæ og víðar þar sem Hitaveita Reykjavíkur selur sitt vatn.

Það er auðvitað mjög eðlileg afstaða hjá bæjaryfirvöldum í Garðabæ að mótmæla því að sett séu í lög ákvæði sem heimila einu sveitarfélagi að skattleggja íbúa annars sveitarfélags, til almennra þarfa fyrrnefnda sveitarfélagsins.