Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 12:49:30 (6324)

1998-05-08 12:49:30# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[12:49]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi láta það koma fram að hv. félmn. mun hittast milli 2. og 3. umr. til að fara yfir nokkur atriði sem upp hafa komið í umræðunni og einnig vegna bréfa sem okkur hafa borist, m.a. varðandi endurskoðendur o.fl. Mér finnst sjálfsagt að taka til skoðunar þessa ábendingu þingmannsins eins og aðrar ábendingar sem fram hafa komið. Það er álitamál hvort beri að halda þessum gömlu heitum, þ.e. að þau komi fram í lögunum, og í sjálfu sér þarf ekki endilega að vera mótsögn í greininni. Því að í lokin kemur fram að hver sveitarstjórn ákveði í sínum samþykktum hvað hún telur sig vera, hvort hún telur sig vera hreppsnefnd eða bæjarstjórn eða hvort hún vilji bara kalla sig sveitarstjórn. En þetta er álitamál hvort yfirleitt þurfi að nefna þetta og hvort hefðin, ríkjandi hefð, muni halda hvað þetta varðar.

En ég ítreka það að við munum að sjálfsögðu skoða þessa ábendingu þingmannsins.