Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 14:26:22 (6345)

1998-05-08 14:26:22# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, VS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[14:26]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Við greiðum nú atkvæði um mjög mikilvæga grein sveitarstjórnarlaga. Hún er mikilvæg fyrst og fremst fyrir það að hún tekur á óviðunandi ástandi sem ríkir í skipulagsmálum á miðhálendi Íslands, þar með talið á jöklum.

Með samþykkt þessarar greinar verður öllu landinu skipað innan staðarmarka sveitarfélaga, sveitarfélög sem liggja að miðhálendinu framlengjast inn til landsins sem er eðlilegt m.a. með tilliti til þess að í gegnum aldirnar hefur þetta land verið nytjað af íbúum viðkomandi hreppa og hefur allan tímann verið skilgreint innan staðarmarka þeirra. Það er því fyrst og fremst verið að bæta jöklunum við með þessum lögum.

Það er fullur vilji til þess innan þingflokks framsóknarmanna að skipulagsmál miðhálendisins verði með þeim hætti að þar verði samræmis gætt og að tryggt sé að miðhálendið verði skipulagt sem ein heild. Að því starfi munu koma fulltrúar allra landshluta, einnig þéttbýlisins á suðvesturhorninu.