Sveitarstjórnarlög

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 14:58:24 (6362)

1998-05-08 14:58:24# 122. lþ. 121.2 fundur 288. mál: #A sveitarstjórnarlög# (heildarlög) frv. 45/1998, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[14:58]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Sú skipting sem hér er verið að leggja til í sambandi við sveitarfélög tekur einnig til jökla. Það er eitt af því sem er nýtt í þessu frv. Það er mjög eðlilegt að fólki bregði nokkuð í brún þegar farið er að deila jöklum hálendisins upp á milli sveitarfélaga. Við hvað skal miða? Á að miða við landslag undir jökli, einhver hugsuð vatnaskil o.s.frv.? Þetta er svolítið erfitt og kann að leiða til nokkurra árekstra á milli sýslumanna sem kvaddir verða til. Kannski heyja þeir glímu eða orrustu yfir sprungum á jöklum hálendisins.

Ég hef lagt til í sérstakri tillögu að jöklar á miðhálendinu verði hluti af þjóðgörðum og ég held að Alþingi ætti að bregða á það ráð fyrr en seinna að ganga frá þeirri skipan mála og tryggja þá um leið þá hagsmuni sem flestir nefna sem láta sér annt um hálendið, þ.e. verndarhagsmuni.