Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 17:28:37 (6365)

1998-05-08 17:28:37# 122. lþ. 121.3 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[17:28]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði mig einnar spurningar. Hann spurði hvort það mundi hafa einhver áhrif á samningsstöðu okkar Íslendinga í síldarmálinu að við veiddum ekki þá síld sem við hefðum heimild til að veiða.

Ég tel að svo sé alls ekki. Það eru eðlilegar skýringar á því hvers vegna það hefur ekki verið. Og það er líka staðreynd að hagsmunamál Íslands er að minna en meira verði veitt úr þessum stofni. Við eigum allt undir því að stofninn taki upp sitt gamla göngumynstur. Ég tel því engar ástæður til að hafa áhyggjur af því.

Auðvitað ber okkur að reyna að nýta okkar heimildir sem mest. Og ég hef í sjálfu sér ekki áhyggjur af því. Von okkar er fyrst og fremst sú, eins og hv. þm. veit, að síldin fari að ganga inn í okkar lögsögu. Þá eru ákvæði um það í þessum samningi að skiptingin skuli tekin til endurskoðunar. Að mínu mati er það fyrst þá að síldin fer að ganga í allverulegum mæli inn í okkar lögsögu, að vænta má einhverra breytinga á þessu hlutfalli.

Ég tel því að sá ótti sem þingmaðurinn hafði hér frammi í ræðu sinni sé ástæðulaus.