Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 17:32:47 (6367)

1998-05-08 17:32:47# 122. lþ. 121.3 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[17:32]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég get að sjálfsögðu ekki farið ítarlega út í það hvað á að segja um kolmunnastofninn. Það liggur hins vegar ljóst fyrir að það gegnir allt öðru máli um þann stofn. Hann hefur allt annað göngumynstur. Við erum að ræða um stofn sem var stærsti fiskstofn í Norður-Atlantshafi og skipti íslenska þjóðarbúið gífurlegu máli og vonandi mun hann gera það um langa framtíð ef við berum gæfu til að vernda hann með eðlilegum hætti og veiða ekki allt of mikið úr stofninum. Að því er kolmunnastofninn varðar er þar um allt annað mál að ræða. Það er ekki jafnmikil vissa fyrir því að við getum veitt úr þeim stofni. Ég tel því að þar eigi að gilda aðrar reglur sem menn verða að sjálfsögðu að ræða um í framtíðinni. Það sama á við um karfann á Reykjaneshrygg. Það vill nú svo til að ástæðan fyrir því að við höfum náð hlutdeild í þeim stofni er sú að farið var að gera út frystitogara á Íslandi. Við hefðum aldrei fengið neina hlutdeild í þeim stofni ef það hefði ekki verið gert. Það vill nú svo til að ýmsir börðust harkalega á móti því að nokkurn tímann kæmi frystitogari hingað til lands, en það er þó eitt af því góða við það að farið var út í þá útgerð að við öðluðumst verulega hlutdeild í þeim stofni sem er allt annars konar stofn en síldarstofninn og þolir engan samjöfnuð þar við.