Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 17:34:27 (6368)

1998-05-08 17:34:27# 122. lþ. 121.3 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, Frsm. 1. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[17:34]

Frsm. 1. minni hluta sjútvn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Mér er nú alveg óskiljanlegt hvernig hæstv. ráðherra gat misskilið mig og haldið að ég væri að spyrja um fiskifræði. Ég var ekki að biðja um einhvern samjöfnuð á þessum tegundum sem slíkum. Mér er ljóst að þær eru ólíkar og óskyldar reyndar og allt það. En hins vegar gilda sömu leikreglur þegar kemur að milliríkjasamningum um uppskiptingu veiðiréttinda. Þá gilda í raun og veru sömu leikreglur og þá er ljóst að það er fyrst og fremst tvennt sem myndar stofn að kröfugerð einstakra ríkja. Það er annars vegar veiðireynslan úr stofninum á undangengnum árum áður en til uppskiptingar kemur og hins vegar réttur strandríkja og hvort tveggja átti auðvitað við um Reykjaneshrygg eins og ég fór reyndar yfir fyrr í ræðu minni. Það sem ég var að leiða líkur að og tel mig hafa rökstutt nokkuð rækilega var það að mikilvægt væri að Íslendingar öðluðust sem mesta veiðireynslu, einnig í kolmunna og öðrum stofnum sem ekki hefur enn verið samið um uppskiptingu á vegna þess að hún er fram undan. Og þá mun veiðireynslan, akkúrat eins og á Reykjaneshryggnum, skipta mjög miklu máli. Það er því skynsamlegt að hafa reglurnar þannig að þær hvetji til slíkrar sóknar og það sé freistandi og hvetjandi fyrir útgerðarmenn að taka þá áhættu og leggja í þann kostnað sem því er samfara að reyna að ná tökum á slíkri nýtingu. Það er verið að slá á slíka hvatningu með þessari aðgerð sem nú á að fara að gera gagnvart norsk-íslensku síldinni. Hún getur ekki annað en verkað letjandi gagnvart því að menn fari að nýta sér aðra möguleika. Það er þannig. Þegar öllu sem heitir frumkvæði, frumherjaréttur og veiðireynsla er drekkt. Þetta hélt ég að hæstv. utanrrh. gæti skilið og gæti þá einnig fjallað á almennum nótum um samhengi þessa máls við samningsstöðu okkar almennt og það var það samhengi sem ég var að fara fram á að yrði svarað. Einnig væri eðlilegt að hæstv. ráðherrar svöruðu fyrir þá stefnubreytingu, það fráhvarf frá þeirri stefnu sem mótuð var í úthafsveiðilögunum og gilti á Flæmska hattinum og Reykjaneshrygg sem hér er í raun og veru verið að boða eða lögfesta.