Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Föstudaginn 08. maí 1998, kl. 18:03:01 (6370)

1998-05-08 18:03:01# 122. lþ. 121.3 fundur 642. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# frv. 38/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 122. lþ.

[18:03]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að taka undir með síðasta ræðumanni um að hér er verið að skipta miklum gæðum. Það hlýtur að skapa átök. Hér er ekki farið í öllu að vilja þeirra sem telja sig vera í áskrift að kvóta síldarinnar með réttu eða röngu vegna úthafsveiðilaganna frá 1996 og því er ekkert skrýtið að beinir hagsmunaaðilar leggist gegn því fyrirkomulagi sem hér er lagt til. Þeir fá þó fyllilega sinn hluta eða sömu aðstæður og aðrir, reyndar nokkuð betri, og því tel ég að þeir geti vel við unað.

Sem áheyrnarfulltrúi í sjútvn. fylgdist ég vel með umfjöllun nefndarinnar og kynnti mér umsagnirnar sem komu fram um málið. Afstaða mín til þessa frv. samræmist ekki fyllilega neinu þeirra þriggja nefndarálita sem fyrir liggja og mun ég því í stuttu máli gera grein fyrir afstöðu okkar kvennalistakvenna nú.

Hér eru mikil verðmæti í húfi og því verður að vanda vel til, sérstaklega ef verið er að úthluta einhverju varanlega sem ekki er gert hér. Því er þetta frv. þótt ófullkomið sé ekki hættulegt að mínu mati þótt hagsmunaaðilar séu auðvitað óánægðir með að fá ekki fast hlutfall af síldveiðikvóta til eilífðarnóns. Það er grundvallarafstaða mín að ekki eigi að byggja leyfi til síldveiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á veiðireynslu. Annars vegar vegna þess að mjög stutt er síðan þessar veiðar hófust á ný og lítil reynsla komin á þær þótt að óafgreiddu þessu frv. hefði mátt túlka úthafsveiðilögin, nr. 151/1996, svo að stefnt væri að því að veiðireynsla eigi að gilda um þennan stofn sem aðra og hins vegar vegna þess að göngumynstur síldarinnar mun mjög líklega breytast á næstu árum. Síldin gæti þess vegna flust alfarið inn til Norður- og Vesturlands eða Vestfjarða og inn á firði og þá er ljóst að mun smærri bátar gætu veitt síldina en nú meðan hún er langt úti í hafi og til þarf stórvirk skip.

Af þessum sökum styð ég 1. gr. frv. um að taka úr sambandi ákvæði 5. gr. úthafsveiðilaganna fyrir veiðiheimildir úr norsk-íslenska síldarstofninum. Ég sat í nefndinni sem samdi úthafsveiðilagafrv. en rétt er að minna á að sú nefnd klofnaði áður en hún lauk störfum og það var einmitt þessi 5. gr. sem var langumdeildust. Ég sat hjá við afgreiðslu frv. þegar það var afgreitt á Alþingi og andmælti þessari grein.

2. gr. frv. fjallar um það hvernig veiðum verður háttað næstu þrjú árin. Sú skipan mála sem þar er lögð til er að mörgu leyti furðuleg og ber merki pólitískrar málamiðlunar. Veiðireynslan gildir að því leyti að einungis þeir sem stundað hafa þessar veiðar á árunum 1995--1997 --- mér er ekki alveg ljóst og spyr hæstv. ráðherra að því hvort það sé krafa að þeir verði að hafa veitt á öllum þessum árum til að komast í 90% pottinn eða bara einhverju þeirra --- þau skip sem hafa veitt síld á þessum árum fá 90% kvótans sem er síðan skipt án tillits til veiðireynslu eftir burðargetu 60% og jafnt 40%.

Vissulega má deila um þessi viðmið, bæði um prósentutölurnar og hvort taka eigi þarna inn fleiri þætti eins og t.d. veiðireynslu eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur mælt hér fyrir. Ég tel óskynsamlegt að meta veiðireynsluna sem aðgöngumiða að þessum klúbbi sem fær 90% heimildanna og sé engin sérstök rök fyrir þessari 40:60 skiptingu. Þó er ljósglæta í b-lið 2. gr., nefnilega að heimilt er að úthluta allt að 10% veiðiheimildanna til annarra, reyndar samkvæmt reglum sem ráðherra setur og við höfum ekki séð enn. Ég fagna þessari smugu fyrir aðra, hugsanlega nýliða í greininni sem ég vona svo sannarlega að geti nýtt sér þetta. En því miður er gengið þannig frá frv. að það er háð geðþóttaákvörðun ráðherra hvaða úthlutunarreglur muni gilda, þ.e. væntanlega kemur reglugerð, en við höfum ekki séð enn þá hvaða reglur það eru.

Ég endurtek því þá skoðun mína sem ég setti fram við 1. umr. þessa máls að æskilegra hefði verið að löggjafinn segði skýrar hvað hann vill með þessi 10% veiðiheimildanna. Það var ekki rætt til hlítar í hv. sjútvn. því ljóst var að stjórnarflokkarnir höfðu gert með sér samkomulag sem ekki átti að hagga. Ég get því ekki stutt 2. gr. þessa frv. þó að ég fagni því að þessi skipan kemur þeim skilaboðum rækilega út að ekki sé ætlunin að byggja á veiðireynslu því það gengur ekki á grundvelli takmarkaðrar sóknar. Ég taldi svo vera við 1. umr. Ég leit svo á að þarna væri verið að setja rásmark næstu þrjú árin en skil það betur núna eftir umræðurnar í nefndinni að væntanlega er núna verið að taka allt kapphlaup úr sambandi og að veiðireynslan komi til með að gilda í framtíðinni og í raun og veru er 1. gr. frv. ein og sér nægileg til að skilja megi frv. svo.

Niðurstaða 2. gr. í heild mun hvorki uppfylla kröfur um réttláta úthlutun veiðiheimilda né um hagkvæmni þannig að ég tel að 2. gr. frv. sé ekki ásættanleg og ekki til fyrirmyndar.

En hvers konar fyrirkomulag viljum við kvennalistakonur þá hafa? Ég tel skynsamlegast að hafa frjálsa sókn, fá sem kröftugasta sókn í þennan stofn en að þessi kvóti verði boðinn út sem fyrst til þeirra sem geta veitt hann á sem hagkvæmastan hátt og greitt fyrir það gjald, a.m.k. ef síldin er innan lögsögunnar því ég sé annmarka á því ef um er að ræða stofn sem er utan lögsögunnar.

Ég get því að mörgu leyti tekið undir það sem segir í nál. 2. minni hluta, þ.e. jafnaðarmanna, að veiðarnar verði frjálsar um sinn en fljótlega verði veiðiheimildir boðnar upp. Ég styð því frjálsa sókn. En ég get ekki stutt brtt. minni hlutans þar um því þar er gefið til kynna að veiðireynslan eigi að gilda í framtíðinni með því að taka ekki 5. gr. úthafsveiðilaganna úr sambandi varanlega hvað snertir síldina.

Herra forseti. Um þetta mál má hafa mjög langt mál en ég ætla að sleppa því að sinni. Það er vor úti og langir vinnudagar fram undan og að baki. Mig langar að lokum að spyrja hæstv. sjútvrh. og helst hæstv. utanrrh., ef hann er í húsinu, hvort ekki hafi komið til greina að bjóða upp veiðiheimildirnar eins og nokkrir ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna hafa lýst sig fylgjandi, eða hvort slíkt geti ekki gerst að hans mati fyrr en síldin er komin inn í lögsöguna.