Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 11:58:57 (6381)

1998-05-09 11:58:57# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[11:58]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Eignarrétturinn sem forsrh. fer með á þessu mikla landsvæði, hálendinu, í umboði þjóðarinnar, hlýtur að vera miklu sterkari en rétturinn til að skipuleggja svæðið. Ef svo er ekki, þá held ég að skipulagslög séu farin að brjóta grundvallaratriði stjórnarskrárinnar.

Eignarrétturinn, sem forsrh. fer með, hlýtur að felast í því að ráðstafa þessu landi. Hann leyfir skotveiði eða bannar hana, hann leyfir byggingar eða bannar þær og það er forsrh. sem fer með þetta vald sem eigandi og eignarrétturinn er mjög sterkur samkvæmt stjórnarskránni. Ég get því ómögulega séð að það að sveitarfélögin fari með tiltölulega veikt skipulagsvald nákvæmlega eins og alls staðar á landinu sé sterkara en eignarrétturinn sem forsrh. fer með í umboði þjóðarinnar. Ef svo er, þá held ég að við þurfum að fara að líta á skipulagslögin og fara að vernda borgarana, ekki bara ríkið heldur líka borgarana fyrir valdi hins opinbera á formi skipulags. Það hefur svo sem margoft verið bent á það að t.d. bændur geti ekki byggt sér hænsnakofa eða kartöflugeymslu án þess að fá fyrir því samþykki skipulagsyfirvalda. Það getur vel verið að skipulagslögin séu orðin of sterk og séu farin að takmarka eignarréttinn og mér finnst það koma fram í máli hv. þm. að svo sé, að vald sveitarfélaganna í skipulagsmálum sé eignarréttinum yfirsterkari sem forsrh. fer með um allt hálendið í umboði þjóðarinnar.