Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 12:00:48 (6382)

1998-05-09 12:00:48# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[12:00]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Það kemur augljóslega fram í máli hv. þm. Péturs Blöndals að hann er með samviskubit út af frv. til sveitarstjórnarlaga, hvernig hann greiddi atkvæði og hvernig hann snerist milli 1. og 2. umr. Nú sér hann eitthvert réttlæti í því að forsrh. fari með eigendaforræðin á hálendinu. Hv. þm. verður að gera skýran greinarmun á eigendaforráðunum, hvernig þeim er fyrir komið, og síðan hvernig skipulagsrétturinn og stjórnsýsluvaldið er á miðhálendinu. Forsrh. hefur ekkert að segja með sjálfa stjórnsýsluna á miðhálendinu eða hvernig við hagnýtum það. (PHB: Jú.) Það er svæðisskipulagið, þau sveitarfélög sem liggja að hálendinu og þeir einn, tveir eða þrír fulltrúar sem eiga að koma annars staðar frá og hafa umsagnarrétt. Þannig er eigendaforræðið eitt en skipulags- og byggingarlög annað og síðan hvernig stjórnsýslunni er háttað, sem verið er að ákvarða með sveitarstjórnarlögunum.

Allt þetta sýnist mér, herra forseti, benda til þess að hv. þm. sé orðið nokkuð órótt yfir því hvernig hann greiddi atkvæði við 2. umr. og ekki skrýtið vegna þess að þó að hann sé í meiri hluta, þá er hann að greiða atkvæði gegn vilja meiri hluta þjóðarinnar að því er varðar skipulag á hálendinu.