Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 12:02:27 (6383)

1998-05-09 12:02:27# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, BH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[12:02]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Mig skal ekki undra að hv. þm. Pétur Blöndal sé farinn að velta fyrir sér, og það er ekki seinna vænna, samspili frv. sem rætt var í síðustu viku og þess frv. sem nú er til umræðu. Hið fyrra takmarkar nefnilega að nokkru leyti efni þess frv. sem við höfum nú til umræðu. Þessi tvö frumvörp þarf að skoða saman. Segja má að skipulags- og stjórnsýsluvald sé á vissan hátt takmörkun á eignarráðum landeiganda og þess vegna ber að skoða þetta tvennt í samhengi. (Gripið fram í: Við höfum alltaf gert það.) Það er mjög mikilvægt að það sé gert en það er ekki hægt að halda því fram að þetta frv. og sá andi sem birtist í því sé sterkari þeim anda sem birtist í hinu frv. Það verður einfaldlega að skoða þessi tvö frv. saman og byggja niðurstöðu á því.

Ég vil byrja á að taka undir með þeim sem hafa vakið athygli á því hversu mikilvæg þau mál eru sem hér eru til umfjöllunar. Þau snerta mikilvægar auðlindir okkar Íslendinga, gersemar sem mikilvægt er að við förum vel með. Það er því nauðsynlegt að um þessi efni verði þokkaleg sátt í samfélaginu. Það má ekki gerast að eftirmálin verði aukið ósætti milli þéttbýlis og dreifbýlis eða á milli þeirra sem með auðlindirnar fara og hins almenna borgara eins og raunin hefur verið með aðrar auðlindir í sameign þjóðarinnar.

Það er um margt fróðlegt að líta til byrjunar aldarinnar en þá voru uppi í samfélaginu háværar deilur um auðlind nokkra, nefnilega hið rennandi vatn, vatnsaflið sem menn sáu þá fram á að mundi fela í sér mikil verðmæti í framtíðinni. Aðdragandi þess máls var sá, á hinu háa Alþingi, að í efri deild þingsins var lagt fram frv. til laga ,,er heimilaði landsstjórninni að veita fossafjelaginu ,,Ísland`` leyfi til þess, að virkja Sogið og breyta vatnsaflinu í raforku og neyta hennar til iðju með þeim skildaga, er þar var til tekinn. Leyfið skyldi standa 99 ár. Landeigendur og leiguliðar voru skyldaðir til að þola mannvirki og usla gegn endurgjaldi eftir mati þriggja dómkvaddra manna. Fjelagið skyldi undanþegið vörutolli á efni til mannvirkja og framleiðslu og útflutningstolli á afurðum iðju sinnar og öllum sköttum og tollum til landssjóðs, en gjaldi í þess stað tíund (10%) af ágóða fyrirtækisins, er áður væri dregið frá: afborgun, fyrning og 5% til hluthafa. Stjórnarráðið skyldi úrskurða kærur fyrirtækisins yfir of þungum sveitarsköttum. --- Fjelagið skyldi láta af hendi raforku handa einstökum heimilum og hreppsfjelögum, ef óskað yrði, næga til ljósa, hita, suðu og smáiðju ,,við verði, sem miðað sje við framleiðslukostnað að viðbættum 10% ágóða``. Með sömu kjörum skyldi landið fá orku til járnbrautarrekstrar frá Reykjavík um Suðurlandsundirlendið ... Frekari ákvæði um ýmislegt skyldi stjórnarráðið setja í leyfisbrjefið. --- Leyfi þetta skyldi veitt Fossafjelaginu Íslandi, ,,eða þeim, sem öðlast réttindi þess``. Flutningsmenn frv. þessa voru þeir Eggert Pálsson, Hannes Hafstein og Magnús Kristjánsson.

Annað frumvarp kom fram í neðri deildinni, er fór í aðra átt. Þar er svo fyrir mælt, að landið hagnýti sjálft vatnsaflið, eitt eða í fjelagi við aðra og að því einu sje heimil yfirráð og stjórn slíkra fyrirtækja. Þar var og ákveðið, að setja skyldi fossanefnd, stjórninni til ráðuneytis, og auk þess, að stjórnin skyldi þegar ráða sjer kunnáttumann um þessa hluti til ráðuneytis. Flutningsmaður var Bjarni Jónsson frá Vogi.``

Í nefndaráliti meiri hluta fossanefndar segir síðan, með leyfi forseta:

,,Eigi voru þingmenn á eitt sáttir um stefnur í þessum málum, en flestir þóttust varbúnir að ráða slíku stórmáli til lykta þá á þinginu. Fyrir því varð það að ráði, að skjóta málum þessum á frest, en láta rannsaka þau til nokkurrar hlítar áður en þau kæmi til umræðu hið næsta sinn. Var nú gerð svohljóðandi ályktun í sameinuðu þingi:

,,Alþingi ályktar að skora á landsstjórnina að skipa 5 manna nefnd, til að taka til íhugunar fossamál landsins, og skal verkefni nefndarinnar sérstaklega vera:

1. Að athuga, hverjar breytingar nauðsynlegt er að gera á gildandi fossalöggjöf.

2. Að afla sem ítarlegastra upplýsinga og skýrlsna um fossa í landinu og notagildi þeirra.

3. Að athuga, hvort tiltækilegt sé að landið kaupi vatnsafl og starfræki það.

4. Að athuga, hvort og með hvaða kjörum rjett sje að veita fossafjelaginu ,,Ísland`` og öðrum slíkum fjelögum, er umsókn kunna að senda, lögheimild til að starfrækja fossafl hjer á landi.``

,,Í samræmi við þessa þingsályktun skipaði stjórnin fimm manna nefnd til þessara starfa ... Þessir voru skipaðir í nefndina: Bjarni Jónsson frá Vogi, alþingism., Guðm. Björnson, landlæknir, alþm., Guðmundur Eggerz, sýslumaður, Jón Þorláksson, verkfræðingur, og Sveinn Ólafsson alþingismaður.``

Þessi nefnd skilaði miklu áliti. Reyndar klofnaði hún í tvo hluta og nefndarálit meiri hluta, sem sjá má í þessari bók, er mjög ítarlegt og fjallar að mörgu leyti um svipað álitaefni og við erum að tala um nú.

Í nefndaráliti meiri hluta fossanefndarinnar er talað um að tvær stefnur ríki varðandi vatnalöggjöf. Mér þykir að mörgu leyti að við séum einmitt hér og nú að fjalla um þessar sömu stefnur. Í áliti nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

,,Vatnalöggjöf sína hafa menn byggt á mjög ólíkum grundvelli. Eignarrjettur að landi er alment viðurkendur í siðuðum löndum, en eignarrjett að landi hafa menn svo, --- að minsta kosti í orði --- látið sumstaðar ná til vatns þess, sem á landinu liggur. Þessa stefnu mætti nefna sjereignarstefnuna. En þetta leiðir aftur til þess, að landeigandi er talinn eiga slíkan eða svipaðan umráðarétt yfir vatninu á landi sínu sem yfir landinu sjálfu. Takmarkanir á rjetti þessum yfir vatninu eru þó miklar gerðar. Jafnvel í löndum, þar sem vatnalöggjöfin er berum orðum bygð á sjereignarstefnunni, eins og í Noregi, verða landeigendur t.d. að þola umferð um vatnið og viðarfleytingu í því, auðvitað gegn bótum fyrir spell á veiði eða landi.``

Það er til önnur stefna er telur vatn eigi undirorpið eignarrétti landeiganda, heldur sé það eign ríkisins eða sveitarfélaga. Það er stefna í andstöðu við séreignarstefnuna sem nefnd var áðan. Sú stefna gerir ráð fyrir því að vatnið sé eign ríkisins eða sveitarfélaga, a.m.k. öll þau vötn og vatnsföll sem nokkuð kveður að. Síðan er það nánar útlistað hvað sé átt við með þessu og undir það sem þeir í meiri hluta fossanefndar kölluðu ,,allsherjarstefnuna`` fellur líka stefna sem gerir ráð fyrir því að óvirkjað vatn, a.m.k. rennandi vatn, sé alls kostar óeignarhæft bæði ríkisvaldi og einstaklingum. Þeir sem þeirri stefnu fylgja líta líkt á vatnið og loft, haf og ljós. Loftið o.s.frv. er almenninsgagn og verður ekki eignarhæft nema takist að handsama það og hefta.

Þetta fellur undir það sem menn kölluðu í upphafi aldarinnar allsherjarstefnuna og má segja að það sé kannski stefnan sem birtist í því frv. sem við ræðum nú um, um þjóðlendur, en frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu fellur frekar undir það sem nefnt hefur verið séreignarstefnan. Þess vegna er það með réttu sem margir hafa bent á að þessi tvö frv. séu að mörgu leyti byggð á mjög ólíkum grunni.

Þessi upprifjun frá byrjun aldarinnar minnir ekki aðeins á þau frumvörp sem við erum að ræða þessa dagana um hálendið. Ekki síður mætti vekja athygli á öðru máli í tengslum við þetta sem vissulega fjallar um mikil verðmæti. Það hefur í bili hlotið sömu örlög og frv. um Fossafélagið Ísland þar sem að því hefur verið frestað en frv. um Fossafélagið Ísland var frestað. Nefndin taldi rétt að fresta frv. á meðan yrði gerð nákvæm rannsókn og úttekt á skipan mála.

Í nefndarálitinu segir:

,,Með því að enn eru ógerðar rannsóknir um tilhögun og kostnað virkjunar Sogsins, svo og um það, hve mikið af orku þess muni þurfa til almenningsnota, og hvernig hentugast væri að koma orkuveitu til almenningsþarfa í framkvæmd, ef til sjerleyfisveitingar kæmi, virðist oss ekki unnt að taka að svo stöddu afstöðu til leyfisbeiðni Fossafélagsins ,,Ísland``, en leggjum til að landsstjórninni verði heimilað að láta framkvæma umræddar rannsóknir, og ætlumst til þess að þeim rannsóknum verði hagað svo, að eftir þeim megi afráða, hvort sjerleyfi skuli veitt, og þá með hverjum skilyrðum auk hinna almennu, sem sett kunna að verða með sjerleyfislögum.``

Þarna erum við að vissu leyti að horfa á svipað mál og málið um gagnagrunna á heilbrigðissviði sem kom til umræðu fyrir skömmu. Það fjallar nefnilega einnig um auðlind og tengist þar af leiðandi að auðlindagjaldsumræðunni. Aðkoman að því máli er ekki ólík því sem var í upphafi aldarinnar þegar menn lögðu frv. fyrir Alþingi um það að tilteknu félagi yrði veitt heimild til nýtingar fossaflsins eða vatnsaflsins.

Það má segja að af þessum svokölluðu hálendisfrv. sem eru nú til umræðu í þinginu sé frv. til laga um þjóðlendur það frv. sem mest kemur til móts við það sjónarmið að hálendið sé eign þjóðarinnar allrar en ekki einstaklinga eða sveitarfélaga. Margt má þó finna að umgjörð málsins sem ég mun víkja að síðar í ræðu minni og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert nokkuð ítarlega grein fyrir. Frv. hefur verið til meðferðar í hv. allshn. og eins og fram kom í framsögu formanns nefndarinnar hafa fjölmargir komið að máli við nefndina vegna málsins og fjöldi umsagna hefur borist.

Sú sem hér stendur styður þetta frv. en skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara og áskilnaði um að flytja og/eða styðja hugsanlegar brtt. Ég stend að brtt. hv. allshn. sem eru allar til bóta en að auki leggur minni hlutinn fram nokkrar brtt. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur gert þó nokkra grein fyrir. Það má segja að þær brtt. feli það í sér í hnotskurn að þar er gerð tilraun til þess að draga að nokkru leyti úr því mikla valdi sem forsrh. er falið í þessu frv. Við teljum það vera nánast ógnvænlegt og jafnvel fara út á ystu nöf þess sem kallað má eðlileg stjórnsýsla. Þess vegna leggjum við til að nokkuð verði dregið úr þessu valdi m.a. með því að dómsmrh. skipi nefndarmenn í óbyggðanefnd, þannig að a.m.k. fleiri ráðuneyti komi að þessum málum, og málefnum óbyggðanefndar sem vissulega á eftir að verða mjög umfangsmikil og hafa mikilvægu hlutverki að gegna.

Þá má segja líka að brtt. okkar í minni hlutanum víki að því að styrkja umhverfisþáttinn í frv. Við leggjum m.a. til að þegar fjallað er um meðferð eða nýtingu lands og landsréttinda innan þjóðlendna sé tekið fullt tillit til umhverfisverndar, alþjóðlegra skuldbindinga og sjálfbærrar nýtingar í þjóðlendum. Við leggjum til að í leyfum sem veitt verði samkvæmt lögum þessum skuli greina þau skilyrði sem leyfishafa eru sett, þar á meðal um gildistíma leyfis, skýrslugjöf leyfishafa, skyldu hans til að hlíta eftirliti og greiða kostnað af því, um öryggis- og umhverfisráðstafanir, kaup vátrygginga vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar leyfishafa og um greiðslu leyfisgjalds.

[12:15]

Það má fyrst og fremst segja að það séu þessi tvö grundvallaratriði, þ.e. aukning og meira vægi umhverfisþáttarins og að draga úr valdi forsrh. sem séu grundvöllur okkar brtt.

Stærsta efnisatriði frv. felst í því að íslenska ríkinu er með því falið til eignar allt land og landsréttindi og hlunnindi í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Má segja að með því sé greitt úr úrlausnarefni sem hefur verið tilefni margra dómsmála í gegnum tíðina sem þó hafa ekki leitt ágreiningsefni fyllilega til lykta.

Ég vil aftur vísa í meirihlutaálit fossanefndar en þar er m.a. að finna ritgerð um almenninga og afrétti, ritgerð eftir Bjarna Jónsson frá Vogi, þar sem hann gerir úttekt á þessu máli og hvernig því sé í raun og veru hagað með eignarrétt og eignarforráð yfir almenningum og afréttum sem í þessu frv. eru nefndar þjóðlendur. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Niðurlag:

Jeg hefi komist að ábyggilegri niðurstöðu um það, að einstaklingar, sveitarfjelög og sýslufjelög eiga engin önnur yfirráð yfir almenningum og afrjettum, en ríkið vill veita þeim, og að þeim hefir aldrei verið veitt með lögum annað en sá rjettur sem Grágás veitti hverjum fjórðungsmanni, hverjum meðeiganda að almenningum (nú eru þær allar allsherjarfje, og á því nú hver landsmaður þann sama meðeignarrjett) og beitirjettur í afrjettum, sumarbeit þeim sem átti upprekstrarheimildina, en vetrarbeit þeim sem næstir bjuggu, afrjettareigöndum dýraveiði og fugla í afrjettarlandinu; að rjettur til grasatekju og rótargraftar í afrjettarlöndum hefir orðið að venju, að minsta kosti á sumum stöðum, en sumstaðar af því að þar hefir verið almenning, er menn ráku fje í og kölluðu síðar afrjett. Er þá svarað tölul. 1 í þingsályktuninni.``

Þetta varð niðurstaða Bjarna Jónssonar frá Vogi í upphafi aldarinnar og má segja að það sé svipuð niðurstaða sem fengin er hér í þessu frv. og fagna ég því. Alla öldina hafa síðan öðru hverju risið deilur um eignarrétt yfir hálendissvæðum Íslands eða þeim svæðum sem hafa verið nefnd afréttir og almenningur og hafa lotið sérstakri eignarréttarlegri stöðu. Lengi snerist umræðan í þjóðfélaginu um það hvort þessi landsvæði ættu að vera að fullu eign hlutaðeigandi sveitarfélaga á þeirri forsendu að íbúar þeirra hefðu nýtt svæðið til upprekstrar fyrir búfénað sinn eða hvort ríkið ætti þessi svæði, en því var haldið fram af hálfu ríkisins í nokkrum dómsmálum eins og rakið er mjög ítarlega í athugasemdum með frv. Þar er reyndar þessi saga rakin mjög vel og niðurstöður í helstu dómsmálum og er frv. því mjög fróðleg lesning fyrir þá sem vilja kynna sér sögu umræddra landsvæða og hefur verið mjög vel að verki staðið í greinargerðinni eða athugasemdunum sem fylgja með frv.

Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að heimildir sveitarfélaganna, íbúa þeirra og einstakra upprekstraraðila innan umræddra svæða takmarkist við þröngar nýtingarheimildir sem einkum felast í beitarafnotum og veiðiréttindum sem upprekstraraðilum hafi verið fengin með lögum. Þá hafa dómstólar einnig hafnað eignarrétti ríkisins á þessum svæðum þar sem ekki væru til staðar nægilegar eignarréttarheimildir sem sýndu fram á það.

Það hefur komið fram í niðurstöðum dómstóla að það hefði verið eðlileg leið til að fá ákvörðun handhafa ríkisvalds um málefnið að Alþingi setti lög um það svo skapaður yrði grundvöllur til að styðjast við og má því segja að dómstólar hafi beinlínis kallað eftir skýrari línum frá löggjafanum í þessum efnum. Það er því ljóst að frv. sem hér er til umfjöllunar er til þess fallið að gera línur skýrari í mörgu tilliti á þessu landsvæði og sú ákvörðun að fela ríkinu eignarráð yfir þessu landi er að mínu mati eðlileg þótt vissulega megi deila um það á hvern hátt skuli farið með þau eignarráð.

Ég vil vekja athygli á einu atriði í athugasemdum með frv. en sá texti er að mínu mati vægast sagt svolítið loðinn. Sá texti er ekki til þess fallinn þykir mér að skýra hvað verið er að gera með þessu frv. og get ég ekki ímyndað mér að hann komi lögskýrendum að gagni í framtíðinni. En í athugasemdum við 2. gr. frv. segir, m.a.:

,,Þegar setja á lagareglu um hver fari með eignarráð þess lands og landsréttinda sem enginn getur sannað eignarrétt sinn til er viðfangsefnið fyrst og fremst að leysa úr því hver skuli fara með eignarréttindi innan þessa lands sem annars kæmi í hlut eiganda landsins að fara með. Frá lagalegu sjónarmiði er ekki endilega nauðsynlegt að lýsa því yfir að sá sem fer með þau eignarráð sé eigandi landsins og landsréttindanna, heldur mætti gera það með orðalagi í lögum sem kvæði á um að sá aðili réði yfir landi og landsréttindum utan eignarlanda eða færi með rétt til að hagnýta landið og landsréttindin, sbr. einnig orðalag 2. gr. námulaga ... Má raunar orða það svo að samkvæmt íslenskum lögum sé engin óumflýjanleg nauðsyn að allt land sé háð eignarrétti að einkarétti. Skýr ákvæði um forræði á landi utan eignarlanda ættu þar að vera nægjanleg. Hversu langt á að ganga í þessu efni og hver eigi að fara með eignarráðin, þ.e. ríkið, sveitarfélögin eða einhver annar aðili, er pólitísk ákvörðun.

Hér er hins vegar lagt til að skrefið verði stigið til fulls og því lýst yfir að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Fyrir liggur sú skýra afstaða dómstóla að heimildir sveitarfélaganna, íbúa þeirra og einstakra upprekstraraðila innan umræddra hálendissvæða takmarkist við þröngar nýtingarheimildir og þá fyrst og fremst beitarafnot og þau veiðiréttindi sem upprekstraraðilum hafa verið fengin með lögum. Með því að mæla fyrir um að landið sjálft og önnur landsréttindi séu eign ríkisins verður því ekki séð að verið sé að taka nein réttindi frá sveitarfélögunum eða þeim sem rétt eiga til upprekstrar á þessi svæði. Hlutverk ríkisins er að fara með sameiginleg málefni þjóðarinnar og rétt eins og ríkið fer með stjórn auðlinda í hafinu innan þess ramma sem settur er um þau málefni í lögum verður að telja rétt að ríkið fari með forræði þess lands og landsréttinda á Íslandi sem enginn getur sannað eignarrétt sinn til.``

Á þessum punkti þykir manni að nokkuð skýrt sé að orði kveðið en þegar lengra er haldið og í athugasemdum við 3. gr. þykir mér málið vera farið að vandast svolítið en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í þessu frumvarpi er á því byggt að ekki beri að fara með þjóðlendur eins og hefðbundnar eignir ríkisins, svo sem einstakar lóðir eða jarðir, heldur fari ríkið í þessu tilviki með varðveislu og forræði sameiginlegra gæða þjóðarinnar, þó svo að taka verði tillit til hagsmuna þeirra sem þegar hafa áunnið sér réttindi til nytja innan þeirra. Af þessu leiðir að lagt er til að tekjum sem kunna að falla til vegna gjalda (leigu) fyrir afnot lands og landsgæða innan þjóðlendu verði varið sérstaklega í þágu verkefna innan þjóðlendna, en renni ekki í ríkissjóð eða einstaka sveitarsjóði. Þjóðlendur fá með þessu sérstöðu sem um margt svipar til sjálfseignarstofnana.``

Þarna þykir mér málið fara að flækjast svolítið, vægast sagt, því að þegar maður skoðar það síðan hvernig hugtakið sjálfseignarstofnun er skilgreint samkvæmt lögfræðinni þá verður að segja eins og er að fátt minnir þar á efni þessa frv. en í Lögbókinni þinni segir um þetta, með leyfi forseta:

,,Sjálfseignarstofnun er sjálfstæð lögpersóna sem komið er á fót með viljauyfirlýsingu og ákveðnu framlagi sem nota ber til þess að ná þeim markmiðum sem sjálfseignarstofnuninni eru sett. Sjálfseignarstofnun á sjálf eigur sínar. Hún ber og ein ábyrgð á skuldum sínum. Engir aðilar, hvorki stofnendur sjálfseignarstofnunar né aðrir geta verið í þannig tengslum við sjálfseignarstofnun að jafna megi til eignarað\-ild\-ar. ...

Engin heildarlög eru til um sjálfseignarstofnun. Af þeim sökum verður að fara eftir skipulagsskrá hennar að mestu að því er varðar skipulag og starfsemi. Oft er hlutverk sjálfseignarstofnunar að annast framgang ákveðins málefnis í almenningsþágu (t.d. minningarsjóðir) en svo þarf ekki að vera. Sjálfseignarstofnun getur líka starfað að atvinnurekstri og getur þá starfsemi fallið undir hlutafélagalögin. Sjálfseignarstofnun verður að hafa einhvers konar stjórn. Fer hún að jafnaði með æðsta vald í sjálfseignarstofnuninni. Venjulega hefur enginn eftirlit með gerðum stjórnarinnar, hvorki stofnandi né annar hefur þar neitt að segja nema sérstök heimild sé til þess.

Oft starfa sjálfseignarstofnanir samkvæmt skipulagsskrá sem staðfest hefur verið af dómsmálaráðuneyti. Um þær sjálfseignarstofnanir gilda sérstakar reglur. ...

Ekki má selja eða veðsetja fasteignir í eigu sjálfseignarstofnana nema að fengnu samþykki dómsmálaráðherra. Ef þjóðfélagshættir og aðstæður hafa breyst svo mjög frá því að skipulagsskrá sjálfseignarstofnunar var samþykkt að markmiðum þeim sem skipulagsskrá gerir ráð fyrir verði ekki náð eða stjórn verður ekki skipuð samkvæmt ákvæðum hennar er dómsmálaráðherra heimilt að breyta skipulagsskrá. Við slíka breytingu skal þó fara eftir óskum stofnenda svo sem unnt er og einnig fá samþykki stjórnar sjálfseignarstofnunarinnar ef það er unnt.``

Herra forseti. Mér þykir þessi samlíking um að þjóðlendunum svipi til sjálfseignarstofnunar einungis vera til þess að rugla málið og gera málið mun flóknara en ástæða er til. Mér þykir þessi tilvísun benda til þess að verið sé að búa til óþarfa deiluefni um þetta mál í staðinn fyrir að þetta sé bara klárt. Þetta er eign ríkisins með eignarforráð forsrh. Þarf að hafa tilvísun í fyrirbæri eins og sjálfseignarstofnun sem byggir allt sitt á skipulagsskrám og mjög sérstakar gilda reglur um? Ég teldi að það væri til bóta ef þetta yrði skýrt frekar við lokaafgreiðslu frv. og helst að þessi texti yrði tekinn út úr athugasemdunum vegna þess að mér þykir það algjörlega út í hött að líkja þessu við sjálfseignarstofnun og í raun stangast á við það skýra ákvæði í 2. gr. frv. þar sem segir:

,,Íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háð einkaeignarrétti.``

Það má eiginlega segja að þessi kafli í athugasemdunum snúi að þeim vandræðagangi sem mér þykir að vissu leyti einkenna þetta frv. vegna þess að forsrh. fari með þessar eigur en ekki fjmrh. eins og almennt er um eigur ríkisins, sem er almenna reglan. Það hljómar svolítið ankannalega að farin er önnur leið í frv. og birtist það m.a. í 11. gr. þar sem tekið er fram að fjmrh. skuli fara með fyrirsvar fyrir hönd ríkisins og stofnana á vegum þess vegna krafna um eignarréttindi innan þjóðlendna og við úrlausn um hvort land teljist til eignarlands eða þjóðlendu.

Í frv. og við yfirferð yfir það í hv. allshn. kom fram að hugað hafi verið sérstaklega að því við undirbúning frv. hvar ætti að skipa málefnum þjóðlendna og það mætti hugsa sér t.d. að fjmrn. færi með þau mál eins og með aðrar eigur ríkisins. Þá hefði komið til álita að landbrn. færi með þessi mál með sama hætti og ríkisjarðir. Niðurstaðan varð forsrn., að því er virðist á þeirri forsendu að ráðuneytið komi þarna fram í nokkurs konar gervi landeiganda en að auki fari það með ýmsar stjórnsýsluskyldur á svæðinu. Önnur ráðuneyti gætu síðan komið að þjóðlendum með öðrum hætti, t.d. vegna ágreiningsefna er upp kunna að rísa og snerta þeirra ráðuneyti og því væri eðlilegra að forsrn. færi með þetta mál.

Til þess hefur verið vitnað að í norskum lögum sé þetta svo að það sem enginn á eigi kóngurinn og í raun sé á vissan hátt í frv. verið að leita fyrirmynda til Noregs. Hins vegar eigum við engan kóng, eins og kunnugt er, og því telji frumvarpshöfundar nærtækast að leita til forsrh. með umráð þessa lands. Hann er þá nokkurs konar kóngur í þessu frv. Í umræðu um frv. hefur það komið fram að á grundvelli þessarar reglu væri kannski ekki óeðlilegt að forseti Íslands færi með málefni þjóðlendna en því hefur verið vísað á bug að slíkt fyrirkomulag sé eðlilegt miðað við stöðu forseta Íslands í stjórnskipaninni. Ég reyndar heyrði aldrei frekari rök fyrir þeirri fullyrðingu og vildi biðja hv. frsm. um að rökstyðja það frekar af hverju ekki sé hægt að fela umráð þessara dýrmætu eigna ríkisins forseta lýðveldisins og hann færi þannig með málefni þessara náttúruperlna. Mér þætti það satt best að segja vel við hæfi þar sem sérstaða þessara væntanlegu eigna ríkisins er mikil. Þannig mætti um leið komast hjá þeim vandræðagangi sem birtist í frv. um umráð þessara eigna og aðkomu mismunandi ráðuneyta að þeim.

En burt séð frá því hver eigi að fara með umráðin, þá er það e.t.v. mikilvægast að þeim sé komið fyrir með þeim hætti að öruggt sé þannig að varðveisla þeirra sé trygg og þjóðin geti komið að ákvörðunum um þessar eignir.

Ein helsta ástæða þess að ég taldi nauðsynlegt að skrifa undir nál. með fyrirvara er sú að í frv. er einum manni, forsrh., fengið gífurlegt vald. Það má nánast segja að honum sem forráðamanni þjóðlendnanna sé falið einræðisvald um málefni þeirra sem verður að teljast varhugavert. Eins og áður hefur verið rakið miða brtt. á þskj. 1291 og lagðar eru fram af minni hluta hv. allshn. að því að draga úr þessu mikla valdi og hefur þegar verið mælt fyrir þeim af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ég tel að með samþykkt þessara tillagna mundi frv. verulega batna bæði hvað varðar þennan þátt forsrh. og auk þess sem umhverfisþátturinn er styrktur sem er einnig mikilvægt. Um umhverfisþáttinn komu fram ábendingar frá ýmsum aðilum sem við m.a. styðjum okkar tillögur við, m.a. frá Náttúrufræðistofnun Íslands, Landgræðslu ríkisins og fleiri aðilum.

[12:30]

Í umsögn fjmrn. er áætlað að kostnaður ríkissjóðs vegna starfa óbyggðanefndarinnar verði rúmar 8 millj. Það verður að telja vafasamt að ríkið sleppi svo auðveldlega frá kostnaði vegna starfa nefndarinnar en henni er falið gífurlega mikið og mikilvægt hlutverk í lögunum og líklegt að starf hennar verði mjög umfangsmikið fyrstu árin. Í 7. gr. frv. er m.a. fjallar um hlutverk óbyggðanefndar en þar segir:

,,Hlutverk óbyggðanefndar skal vera:

a. Að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda.`` --- Sem sagt, að skera úr um mörk þjóðlendna og eignarlanda sem hefur lengi verið mikið deiluefni.

,,b. Að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur.

c. Að úrskurða um eignarréttindi innan þjóðlendna.``

Þá skal óbyggðanefnd, eins og segir í 8. gr., ,,að eigin frumkvæði taka til meðferðar og úrskurða um málefni sem undir hana heyra. Skal hún ákveða og tilkynna fyrir fram hvaða landsvæði ákveðið hefur verið að taka til meðferðar hverju sinni þannig að sá hluti landsins sem starfssvið nefndarinnar tekur til verði tekinn fyrir í áföngum. Stefnt skal að því að nefndin hafi lokið verkinu fyrir árið 2007.``

Við getum séð að þetta verkefni er mjög umfangsmikið og flókið og væntanlega mjög kostnaðarsamt og ég geri ráð fyrir mun kostnaðarsamara heldur en gert er ráð fyrir í athugasemdum eða umsögn fjmrn. um frv., a.m.k. fyrstu árin. Þarna er oft og tíðum um að ræða dýra sérfræðiaðstoð, geri ég ráð fyrir, sem þyrfti að koma til, auk þess sem væntanlega er um að ræða launagreiðslur og annað.

Stór orð falla í garð þessa frv. í umsögnum frá samtökum sveitarfélaga. Reyndar bárust seint og um síðir umsagnir frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Sambandi ísl. sveitarfélaga þar sem málið er harðlega gagnrýnt. Í umsögn t.d. stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem var samþykkt á fundi þann 24. apríl 1998, segir t.d. í greinargerð, með leyfi forseta:

,,Í þessu frv. er um mestu eignarupptöku Íslandssögunnar að ræða ... Samkvæmt frv. verður skipuð sérstök nefnd (óbyggðanefnd) á vegum forsætisráðuneytisins til að kanna eignarhald og úrskurða í kjölfarið um eignarrétt einstaklinga, félaga eða annarra á hálendinu. Í þeim tilfellum þar sem enginn getur sannað sinn eignarrétt mun það land verða skilgreint sem hluti af þjóðlendum, í eign ríkisins og undir forsjá forsrh.``

Síðar í umsögninni segir:

,,Í stað þess að færa eignarrétt þjóðlendna til ríkisins, eins og ráð er fyrir gert í 2. gr. frv., er rétt að mati stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu að færa þjóðlendurnar undir sveitarfélög sem land eiga að hálendinu. Óviss mörk milli sveitarfélaga yrðu þá skilgreind af óbyggðanefnd, samanber brtt. við bráðabirgðaákvæði við frv. til sveitarstjórnarlaga. Með þessum hætti væri að mati stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu verið að skjóta enn frekari stoðum undir sveitarstjórnarstigið og byggð sem víðast á landinu.``

Á svipaða strengi er slegið í umsögn Sambands ísl. sveitarfélaga. Sú umsögn er dagsett 22. apríl 1998 og þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga minnir á að sveitarfélögin hafa farið með stjórnsýsluvald á afréttum sem þeim tilheyra. Ágreiningur hefur verið milli sveitarfélaga og ríkisins um eignarhald á afréttum og dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að þar sem ekki hefur tekist að sanna beinan eignarrétt ríkis eða sveitarfélaga eigi hvorugur aðili eignarrétt á viðkomandi landi.

Frv. til laga um þjóðlendur gerir á hinn bóginn ráð fyrir því að ríkið eignist allt land sem sveitarfélög eða aðrir geta ekki sannað eignarrétt sinn á. Tilgangurinn er greinilega sá að fella afrétti og önnur landsvæði, þar sem eignarréttur lands er óljós, undir eignarhald ríkisins.

Stjórn sambandsins telur enga nauðsyn á því að ríkið slái eign sinni á allt land sem öðrum tekst ekki að sanna eignarrétt sinn á eins og frv. gerir ráð fyrir. Eðilegra væri að landsvæði sem um langan tíma hafa tilheyrt sveitarfélögum, þar sem þau hafa byggt mannvirki og útivistarsvæði og annast allan rekstur þeirra og farið með stjórnsýslu, verði eign viðkomandi sveitarfélaga. Þetta á við um óskipt land eins og t.d. á Bláfjallasvæðinu þar sem sveitarfélögin hafa skipulagt mannvirkjagerð og útivistarsvæði fyrir íbúana. Enga sérstaka nauðsyn ber til þess að ríkið slái eign sinni á umrædd landsvæði.``

Ég verð að segja að mér þykir skjóta skökku við að umrædd samtök skuli ekki hafa komið þessum stóryrtu athugasemdum á framfæri við nefndina fyrr í umsögnum sínum úr því að málið horfir svo illa við þeim. En þetta mál var sent til umsagnar með bréfi allshn. 16. febrúar og þessar umsagnir eru að berast í lok apríl. Sem sagt, tveimur mánuðum síðar og ef ég man rétt um það bil mánuði eftir að umsagnarfresti lýkur, ég vek athygli á því, en ef ég man rétt var umsagnarfrestur til 20. mars. Mér þykir það því svolítið undarlegt í ljósi þess hversu mikil mótstaða birtist í þessum umsögnum við frv. og í raun og veru við kjarna málsins um að færa eignarréttinn yfir til ríkisins.

Ég get því ekki tekið undir umsagnirnar eða efni þeirra. Ég er beinlínis ósammála þeim. Ég er þeirrar skoðunar að það sé beinlínis æskilegt að skipa málum hvað varðar eignarréttinn með þeim hætti sem gert er í frv. enda sýnir dómasafn Hæstaréttar svo ekki verður um villst að það þarf að taka á eignarumráðunum á hálendinu. Ég tel beinlínis æskilegt að ríkið sé eigandi þessara svæða og get því ekki tekið undir þessi mótmæli eða fallist á að svæðunum sé skipt á milli fjölmargra sveitarfélaga eins og lagt er til að því er mér sýnist í þessum umsögnum.

Ég hef hins vegar talið að eðlilegt sé að sveitarfélögin komi að einhverju leyti að þjóðlendunum eins og gert er ráð fyrir í frv. og hef því ekki getað stutt þær brtt. þar sem lagt er til að afskipti sveitarfélaga verði felld niður. Sú afstaða mín byggist fyrst og fremst á því að með slíkri breytingu sé enn verið að auka vald forsrh. með frv. í stað þess að hann deili þó valdinu að einhverju leyti með sveitarstjórnunum.

En meðferð þessa máls og umsagnir um það lýsa þó glögglega hvar átakspunktarnir eru í þessu máli og þeim málum sem hér eru til umfjöllunar. Hagsmunir hinna fornu deiluaðila, ríkis og sveitarfélaga virðast ósættanlegir fljótt á litið en sú niðurstaða sem fékkst í frv. er að mínu mati sú æskilegasta fyrir íslensku þjóðina hvað varðar eignarréttinn sjálfan þótt gera mætti ýmsar bragarbætur á eins og við í minni hlutanum erum að reyna að gera með brtt. okkar.

Herra forseti. Ég ætla að láta þetta duga í bili um frv. til laga um þjóðlendur sem ég styð eins og mátti greina á máli mínu í meginatriðum en það eru hins vegar mun fleiri efasemdir sem leita á hugann hvað varðar önnur frumvörp hæstv. ríkisstjórnar um málefni hálendisins, t.d. frv. um sveitarstjórnirnar og ekki síst frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu sem kemur til umræðu í kjölfar þessa máls, þar sem segja má að séreignarstefnan sé alls ráðandi sem svo var nefnd í upphafi aldarinnar.