Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 12:38:41 (6384)

1998-05-09 12:38:41# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[12:38]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Þá er komið til 2. umr. annað frv. af hinni umdeildu frumvarpaþrennu ríkisstjórnarinnar. Þó að þrennan sé okkur kvennalistakonum að mörgu leyti þyrnir í augum er þetta frv. þó það langskásta þeirra þó að alls ekki sé fyllilega ljóst á þessari stundu hvað það eru stór svæði sem koma til með að falla undir hugtakið þjóðlendur.

Það er mjög athyglisvert þegar maður lítur yfir málið að átta sig á því að í byrjun aldarinnar var sú skoðun mjög ríkjandi að þau landsvæði sem enginn gæti sannað eignarrétt sinn á tilheyrðu ríkinu en sú skoðun er hins vegar ekki í samræmi við niðurstöður íslenskra dómstóla sem nú liggja fyrir, samanber athugasemdir á bls. 19 í greinargerð með frv. Svo virðist því sem ákveðin viðhorfsbreyting hafi átt sér stað í þjóðfélaginu frá byrjun aldarinnar þar til núna, a.m.k. ef litið er á dóma Hæstaréttar. En í greinargerðinni segir m.a. á bls. 19:

,,Að lokum er vert að vekja athygli á því að sú skoðun átti mjög almennu fylgi að fagna á þessum tíma að land, sem ekki væri undirorpið beinum eignarrétti, væri ríkiseign. Sú skoðun er hins vegar ekki í samræmi við niðurstöður íslenskra dómstóla sem nú liggja fyrir.``

Mér finnst ástæða til að vekja athygli á þessu, herra forseti, vegna þess að nú á að fara að láta það í hendur dómara að meta hvað falli undir hugtakið þjóðlendur, þ.e. þeir sem verða í óbyggðanefnd eiga a.m.k. að vera hæfir sem héraðsdómarar. Sú ráðandi skoðun sem var í byrjun aldarinnar og þeir dómar sem liggja fyrir endurspegla að mínu mati hverjir hafa verið við völd í íslenskum stjórnmálum á þessari öld og að dómstólar hér á landi fá seint orð á sig fyrir að vera róttækir og einnig má benda á mjög sterka stöðu eignarréttarins í íslensku stjórnarfari.

Ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að hálendið eigi að tilheyra ríkinu, hálendið sem ein heild, og tel líkur á að óbyggðanefndin, sem eins og ég sagði áðan verður skipuð þeim sem fullnægja því að vera héraðsdómarar, byggi ekki síður á forsendum dómstóla en því yfirlýsta, pólitíska markmiði að hálendið eigi að vera í ríkiseign. Ég er því nokkuð hrædd um það, herra forseti, að árið 2007 þegar óbyggðanefndin hefur lokið störfum verði alls ekki jafnmikið um þjóðlendur í ríkiseign og ég hafði vonað og ég er því undir niðri ekki alveg sátt við þetta frv. Ekki vegna þess að um sé að ræða mestu eignatilfærslu Íslandssögunar til ríkisins, eins og sumir vilja halda fram, heldur vegna hins að ríkið komi ekki til með að eiga eins heildstæð svæði á miðhálendinu og ég tel æskilegt og að tekjur ríkisins af þessu svæði verði ekki í samræmi við verðgildi þeirra verðmæta sem eru í húfi.

Herra forseti. Ég skrifa undir nefndarálit allshn. með fyrirvara eins og þegar hefur komið fram. Ástæður eru mikið til þær sömu og hjá hv. þm. sem þegar hafa talað, þeim Jóhönnu Sigurðardóttur og Bryndísi Hlöðversdóttur. Þær ástæður mínar endurspeglast hvað skýrast í þeim brtt. sem ég er meðflutningsmaður að og birtast á þskj. 1291 og 1292.

Þar má fyrst nefna brtt. á þskj. 1292 sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir mun gera grein fyrir á eftir. Þær brtt. tengjast því frv. sem var til umræðu í gær, þ.e. frv. til sveitarstjórnarlaga, nefnilega því að við kvennalistakonur viljum ekki að miðhálendinu verði skipt í ræmur á milli sveitarfélaga heldur að það verði heildstætt stjórnsýslusvæði undir sérstakri stjórn. Í samræmi við það er lagt til að heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku á þjóðlendum séu skertar. Það er einmitt eitt af áhyggjuefnum mínum ef tertusneiðafrv. svokallaða verður að lögum að sveitarfélögum verði heimilt samkvæmt því frv. sem við erum að ræða nú --- en þessi frv. spila mjög saman --- að semja um endurgjald vegna afnota sem hún heimilar innan þjóðlendna. Þó að ríkið eigi þjóðlendurnar samkvæmt 2. gr. þessa frv., þá koma viðkomandi sveitarfélög til með að fá tekjurnar af nýtingu þeirra en ekki ríkið þó að skilja megi 2. gr. frv. þannig að ríkið eigi að njóta hvers konar landsréttinda og hlunninda af þjóðlendum.

[12:45]

Það er mjög mikilvægt, herra forseti, eins og þegar hefur komið fram í umræðunni að skoða þetta frv. í tengslum við frv. til sveitarstjórnarlaga sem við ræddum í gær og í raun mun stjórnsýsluvald sveitarfélaganna skerða rétt ríkisins verulega á þjóðlendum þó svo að ríkið eigi þjóðlendurnar að nafninu til.

Brtt. á þskj. 1291 sýna í fyrsta lagi að ég hef áhyggjur af því að ekki sé nógu mikil áhersla lögð á umhverfisvernd og alþjóðlegar skuldbindingar í þeim efnum í þessu frv. Ein breytingin sem við leggjum til við 3. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Fullt tillit verði tekið til umhverfisverndar og alþjóðlegra skuldbindinga í því efni og sjálfbærrar nýtingar í þjóðlendum. Í leyfum sem veitt eru samkvæmt lögum þessum skal greina þau skilyrði sem leyfishafa eru sett, þar á meðal um gildistíma leyfis, skýrslugjöf leyfishafa, skyldu hans til að hlíta eftirliti og greiða kostnað af því, um öryggis- og umhverfisráðstafanir, kaup vátrygginga vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar leyfishafa og um greiðslu leyfisgjalds.``

Þetta sjónarmið kemur einnig fram í frv. því sem við kvennalistakonur stöndum að með hv. þm. Sighvati Björgvinssyni o.fl. sem fjallar um miðhálendið.

Í b-lið brtt. sem er við 3. gr. frv. er lagt til að breyting verði gerð á því hvernig gjaldtöku verði háttað, þ.e. að það verði forsrh. sem ákvarði gjaldtöku en ekki sveitarfélögin. Þetta er í samræmi við þá hugsun okkar að þjóðlendurnar verði sérstakt stjórnsýslusvæði undir sérstakri stjórn en ekki undir stjórnsýslu sveitarfélaga. En orðalagið á þessum lið brtt. er þannig, með leyfi forseta:

,,Gjaldið sem ráðherra ákvarðar skal taka tillit til verðmætis þess sem afnot eru heimiluð á. Nánari ákvæði um gjaldtöku skal setja í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Ráðherra skal þá láta bjóða út nýtingu lands og landsgæða í þjóðlendum þegar ætla má að um verðmæta nýtingarkosti sé að ræða. Útboð skulu þá fara fram samkvæmt ákvæðum laga um framkvæmd útboða, nr. 65/1993.``

Síðan segir í c-lið, með leyfi forseta:

,,Tekjum af leyfum til nýtingar lands skv. 2. mgr. skal varið til landsbóta, umsjónar, eftirlits og sambærilegra verkefna innan þjóðlendna, samkvæmt ákvörðun Alþingis.``

Hér vil ég vísa í þá hugsun sem er mjög svipuð og í fiskveiðistjórnarlögunum, að afraksturinn af þeirri gjaldtöku sem heimiluð er í sjávarútvegi fer eingöngu til sjávarútvegsins. Það er hugsunin í þessu frv. og reyndar í okkar brtt. líka. Þetta er réttlætt með því að þjóðlendum er fengin sérstaða sem svipar til sjálfseignarstofnana sem mér finnst alls ekki sjálfsagt að gera og það var rökstutt nokkuð vel áðan í ræðu hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur. Á bls. 34 í greinargerðinni með frv. segir, með leyfi forseta:

,,Í þessu frumvarpi er á því byggt að ekki beri að fara með þjóðlendur eins og hefðbundnar eignir ríkisins, svo sem einstakar lóðir eða jarðir, heldur fari ríkið í þessu tilviki með varðveislu og forræði sameiginlegra gæða þjóðarinnar, þó svo að taka verði tillit til hagsmuna þeirra sem þegar hafa áunnið sér réttindi til nytja innan þeirra. Af þessu leiðir að lagt er til að tekjum sem kunna að falla til vegna gjalda (leigu) fyrir afnot lands og landsgæða innan þjóðlendu verði varið sérstaklega í þágu verkefna innan þjóðlendna, en renni ekki í ríkissjóð eða einstaka sveitarsjóði. Þjóðlendur fá með þessu sérstöðu sem um margt svipar til sjálfseignarstofnana. Er þar enn höfð í huga hin sögulega sérstaða þessara landsvæða.``

Ég velti því fyrir mér, herra forseti, hvort þetta þýði að gert sé ráð fyrir að þær tekjur sem t.d. fást af virkjunum eigi ekki að renna til ríkisins heldur til sveitarfélaga eða þeirra rekstraraðila sem um ræðir, þ.e. hvort leyfisgjaldið á að fara til ríkisins eða sveitarfélaganna og verja til endurbóta innan þjóðlendnanna. En hvað með starfsemi t.d. eins og virkjunarstarfsemi? Þetta er að mínu mati óljóst, herra forseti, og þess vegna leggjum við fram áðurnefnda brtt. við 3. gr.

Þá vil ég benda á brtt. okkar minni hlutans við 6. gr., nefnilega þá að dómsmrh. skipi nefndarmenn í óbyggðanefnd í stað forsrh. Ég tel mjög óeðlilegt að forsrh. sem fer alfarið með málefni þjóðlendna skipi einnig alla nefndarmenn óbyggðanefndar. Þetta vald forsrh. er gífurlega mikið því að störf þessarar nefndar koma til með að varða miklu um þá gífurlegu hagsmuni sem þarna eru í veði. Við leggjum því til að dómsmrh. skipi þessa nefnd þó ekki væri nema til að dreifa valdinu.

Að lokum, herra forseti, vil ég taka fram að ég styð allar brtt. allshn. Þær eru að mínu mati allar til bóta þó að þær séu ekki mjög stórvægilegar.

Herra forseti. Um þetta mál má hafa mjög langa tölu og ég geri mér fyllilega grein fyrir því að hér er ótakmarkaður ræðutími núna. En mér finnst áhugaverðast á þessu stigi, auk þess að gera grein fyrir meginafstöðu minni, að kryfja nánar hvernig sjónarmiðin um ríkisrétt gegn einkaeignarrétti hafa tekist á alla þessa öld þegar miðhálendið er annars vegar. Einnig finnst mér mjög mikilvægt að fara nánar í umsagnir hinna fjölmörgu aðila sem allshn. bárust.

Þar sem fyrri ræðumenn, þ.e. hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, hafa þegar komið nokkuð inn á þessi mál ætla ég að hætta að sinni en koma nánar inn þetta í seinni ræðu minni. Ég tel mesta þörf fyrir að fara ofan í hina lögfræðilegu umræðu, samanber ágætar upplýsingar sem fram koma í greinargerð frv., svo og í grein Þorgeirs Örlygssonar um eignarhald á landi og náttúruauðlindum sem birtist í afmælisriti Gauks Jörundssonar árið 1994. En e.t.v. tengist sú umræða meira þriðja frv. í þessari þrennu og ég mun örugglega koma inn á hana í tengslum við það mál.

Ég er í öllum grundvallaratriðum sammála sjónarmiðum Jóhönnu Sigurðardóttur sem fram komu hér áðan og einnig Bryndísar Hlöðversdóttur að öðru leyti en því að ég tel ekki rétt að sveitarfélögin fari með stjórnsýsluvald á þessum svæðum þó að ég taki undir með henni að það sé mjög óeðlilegt að forsrh. hafi allt það vald sem hann hefur. Þess vegna leggjum við til að a.m.k. verði tekið frá honum það vald að skipa óbyggðanefnd.

Margir eru á mælendaskrá, herra forseti, svo ég ætla að ljúka máli mínu núna en koma síðar nánar að þessum grundvallaratriðum. Þar er ekki síst athyglisvert að ræða ýmsa grundvallarpunkta sem lagðir hafa verið fram af Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni fyrir nefndirnar. Þar er rakin lagaleg þróun þessara mála. Það vekur t.d. athygli mína hversu lítil áhersla er þar lögð á almannarétt eða á rétt ríkisins til eignar á landi.