Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 13:30:39 (6385)

1998-05-09 13:30:39# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[13:30]

Ólafur Örn Haraldsson:

Hæstv. forseti. Landnámi Íslands lýkur með því að frv. um þjóðlendur verður samþykkt í þinginu eins og ég vona að verði innan skamms. Það má því segja að það sé sögulegur viðburður og þegar litið verður til baka til loka þessarar aldar hygg ég að menn muni eftir lögfestingu þessa frv. vegna þeirrar sérstöðu sem það hefur. Nú kastar ríkið eign sinni á einskis manns land og þar með lýkur landnámssögu Íslands. Ég styð þetta frv. og þá stefnu sem kemur fram í því. Ég vænti mikils af samþykkt þess og þeim málatilbúnaði sem því mun fylgja.

E.t.v. mætti segja að ríkið sé ekki alltaf þægilegur eða heppilegur samningsaðili eða eigandi að gögnum og gæðum. En forræðislaust má hálendi Íslands ekki vera lengur og enginn er nærtækari en ríkið, fyrir hönd þjóðarinnar, til að fara með forræði eignarinnar.

Ég er alfarið andvígur því sem fram hefur komið á nokkrum stöðum, að sveitarfélögin eignist það land sem skilgreint verður sem þjóðlendur. Það á við hvort sem það er miðhálendið eða annað land sem fólki tekst ekki að sanna eignarrétt sinn á. Ég vil leyfa mér að vitna í bók sem heitir Landið og landnáma og benda þar á nokkra stærstu landnámsmennina. Þeir munu hafa verið Ingólfur Arnarson, Skalla-Grímur, Auður djúpúðga, Eiríkur í Goðdölum, Helgi magri, Hrollaugur Rögnvaldsson og Ketill hængur. Þó að þessir menn hafi allir numið stórt land og víðlent, þá eru það litlir skikar miðað við það landnám sem verður nú með samþykkt þjóðlendufrv.

Sveitarfélögin hafa hins vegar sett það fram, og reyndar hef ég heyrt það af munni annarra, að þau ættu að eignast þetta. Nú veit ég að sveitarfélögin eiga lýðkjörna fulltrúa og þar er mikil staðþekking, metnaður og áhugi á að fara vel með landið. Ég tel hins vegar að við eigum að horfa til almannahagsmuna með því að láta ríkið eiga þjóðlendurnar. Þessi stefna sveitarfélaganna hefur m.a. komið fram í samþykktum Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Ég gerði það að umtalsefni og gagnrýndi harðlega í umræðunni um frv. til sveitarstjórnarlaga.

Ég vil endurtaka það sem ég lét koma fram í þeirri umræðu, reyndar voru þær skoðanir allar sendar hv. þingmönnum. Ég lít svo á að það megi draga þá ályktun að þessi samtök styðji ekki þjóðlendufrv., að því leyti að ríkið eignist þjóðlendurnar, heldur að sveitarfélögin umhverfis hálendið eignist hálendið. Það merkir þá væntanlega að Reykjavík og höfuðborgarsvæðið, sveitarfélögin eignist það land sem kynni að vera gert að þjóðlendum í nágrenni Reykjavíkur. Í því landi er eitthvað af Reykjanesfólkvangi, væntanlega, hugsanlega Bláfjöllin og e.t.v. eitthvað af Esjunni.

Ég vantreysti ekki fulltrúum Reykjavíkur, hverjir sem eru þar við stjórnvölinn, til að fara með þetta. Ég tel að við eigum að sýna það, þéttbýlisbúar á þessu svæði, að við bjóðum alla landsmenn velkomna, ekki aðeins til þess að ganga um okkar land heldur bjóðum þeim til áhrifa með þeirri hálendisnefnd sem mun væntanlega taka til starfa. Ég vil endurtaka það sem ég hef sagt, að ég tel að umráðasvæði þeirrar nefndar og svæðisskipulagið eigi að taka til stærra svæðis en í fyrirliggjandi skipulagstillögum um miðhálendið.

Þau sveitarfélög sem slíka samþykkt gera, að gefa miðhálendið og reyna þar með í einhvers konar óformlegum makaskiptum í lokuðu valdakerfi sveitarfélaganna að ná til sín því landi sem enginn á hér í nágrenninu, virðast ekki hafa fylgst með þróuninni og þeim viðhorfum fólk hefur. Ný kynslóð er komin til sögunnar í þessu landi, það er fólk sem gengur um landið, ferðast um landið og hefur mjög ríkar tilfinningar til þess. Þetta er ekki það fólk sem hefur hæst á fundum. Þetta er ekki endilega það fólk sem gengur lengst í nokkrum málum, hvorki í náttúruvernd né stjórnmálum. Þetta er venjulegt íslenskt fólk sem bæði á heima á höfuðborgarsvæðinu og úti um allt land, fólk sem viðurkennir að landið eigi allt að vera í þjóðareign.

Ég vil leyfa mér að tefja þingheim með örlítilli sögu. Þó að hún sé ekki merkileg þá sýnir hún hug manna. Ég gekk á Esjuna eins og ég geri reyndar oft. Þar er nærtækast æfingasvæði fyrir þá sem vilja ganga á fjöll. Ég gekk upp á Kerhólakamb og síðan austur eftir Esjunni og kom á Þverfellshorn. Þetta var fyrir tæpu ári snemma að morgni og þar var komin ný varða á Þverfellshornið. Þetta var lítil varða en upp úr henni stóð rós. Afskorið blóm en þó lifandi því það stóð í vatni, í litlum vatnsbikar. Við hliðina á rósinni var skjal með fallegum borða. Undir það skjal höfðu skrifað um 40 manns sem höfðu gengið miðnæturgöngu á Esjuna um nóttina áður. Yfirskrift skjalsins var eftirfarandi: ,,Elsku Esja. Velkomin til Reykjavíkur.``

Þó að ég sé hér að segja að Esjan eigi ekki öll að vera í eigu okkar Reykvíkinga þá sýnir þessi örlitla saga þann hug sem fólk ber til landsins, ekki aðeins hér á höfuðborgarsvæðinu heldur úti um allt land. Það er þessi hugur, væntumþykja og hlýja, hinn almenni skilningur á því að þetta er landið okkar allra, sem sveitarfélögin eiga að viðurkenna með því að sækjast ekki eftir landi sem enginn á og standa með okkur í samþykkt þjóðlendufrv.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að ræða einstök efnisatriði þessa frv. Ég vil þó beina einu sérstaklega til væntanlegs forráðamanns hálendisins en það er gróður- og jarðvegsvernd.

Miðhálendi Íslands hrópar á verndun jarðvegs og gróðurs. Sá sem fer með eignarforræði þar á næstu árum og áratugum ber þá mestu skyldu að friða þetta land, bæta það og gera það á allan hátt sjálfbært. Ég vil því skora á hæstv. forsrh. að beita sér fyrir algerri beitarfriðun á hálendinu. Ég vil ekki að það verði gert með hörku og einhliða valdboði, heldur með sáttum og samkomulagi þar sem bæði séu sýnd skilningur og mildi, viðurkenning á fornum réttindum en um leið full festa þar sem um slíka hagsmuni er að ræða.

Vegna fátæktar og vanþekkingar höfum við í aldanna rás nýtt auðlindir hálendisins óheyrilega. Í dag er nægt beitarrými fyrir allan okkar beitarpening utan miðhálendisins. Í raun er ekkert sem réttlætir skammtímahagsmuni og þau sjónarmið að nýta þessar auðlindir til beitar í dag. Það brýtur í bága við alla umhverfissáttmála sem við höfum undirgengist.

Grundvallarforsendan varðandi framtíð hálendisins er að það verði endurheimt, vistkerfið endurheimt og ástand einnar auðlindarinnar bætt, þá á ég við jarðveg og gróður. Þetta þarf að gera hvarvetna á hálendinu. Lögum um landgræðslu og alþjóðasáttmálum sem við höfum undirgengist, svo sem varnir gegn myndun eyðimarka og Dagskrá 21 frá Ríó, er ekki framfylgt á hálendinu og verður ekki fyrr en það verður friðað fyrir beit.

Ríkisstjórnin hefur sett sér markmið um sjálfbæra þróun og þar með talið sjálfbæra nýtingu auðlinda. Ég tel að það sé nærri samdóma álit vísindamanna að núverandi landnýting hálendisins til beitar sé ekki sjálfbær og verði það ekki nema e.t.v. á Norðvesturlandi með sérstökum ráðstöfunum. Stefna ríkisstjórnarinnar, sem ég er að vissu leyti að vitna til, kemur fram í ritinu ,,Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi`` sem hægt er að fá víða en það er umhvrn. sem gaf það út í júní 1997. Þar er sérstaklega fjallað um gróður- og jarðvegsvernd.

Það er ljóst að stærstur hluti hálendisins er ekki hæfur til beitar samkvæmt gögnum RALA og Landgræðslu ríkisins. Fyrir því hefur verið gerð grein í bókinni Jarðvegsrof á Íslandi, sem og í gögnum vegna skipulags hálendisins og athugasemdum stofnana sem hér hefur verið vitnað til. Þær athugasemdir hafa verið lagðar fram vegna þessa frv. Mörg önnur svæði neðan hálendismarka landsins eru heldur ekki beitarhæf vegna jarðvegsrofs eða þar sem auðnir ríkja. Því eru einnig gerð skil í sömu bók og ástæðum fyrir þeirri niðurstöðu.

Aðstæður til friðunar eru oft mjög erfiðar. Landgræðsla ríkisins hefur haft það að stefnumarki og stefnumiði í langan tíma að friða verst förnu afrétti landsins en það hefur lítið miðað. Jafnvel þótt samningar hafi náðst um einstök svæði er alltaf hægt að segja slíkum samningum upp. Aðferðirnar hafa einkum verið að fara samninga- og sáttaleiðir en alltaf eru einhverjir sem telja sig ekki geta farið að þeim vinnubrögðum. Þá gengur hvorki né rekur og það er ekki hjálp í því að etja bændum eða landeigendum saman. Til þessa máls verður að koma nýr forráðamaður landsins, forsrh. Ég ítreka það að ég vil ekki að þetta sé gert með einhliða valdboði heldur með festu en um leið samningum, sanngirni og virðingu fyrir fornum réttindum bænda.

Sum mál sem rekin hafa verið á grundvelli ítölulaga, en þau eru gömul og úrelt, standast ekki stjórnsýsluvenju auk þess sem þau viðhorf sem þau miða við eru úrelt og sjónarmið sjálfbærrar þróunar koma þar hvergi nærri. Landgræðsla ríkisins stendur einnig í ströngu gagnvart mörgum landnotendum sem fara illa með landið. Það gengur hins vegar illa því að lögin eru úrelt. Sanna þarf ofnýtingu samkvæmt flóknu og vinnufreku ferli og landið nýtur ekki vafans. Það fer gífurleg orka í að reka svona mál á grundvelli hvers og eins landnotanda og þeim tíma væri betur varið til annarra verka. Þessi viðhorf koma að mörgu leyti fram í þeim skipulagstillögum sem nú liggja fyrir og gerðar eru af svokallaðri svæðisskipulagsnefnd um miðhálendið. Ég vil láta það koma fram enn einu sinni að ég tel þá vinnu í öllum aðalatriðum hafa verið vel leysta og þeim til sóma sem þar hafa unnið. Ég tel að þar sé lagður sá grunnur sem við getum unnið áfram með við skipulag miðhálendisins.

Þó er sá galli á þessu svæðisskipulagi miðhálendisins að ekki er tekið af nógu mikilli festu á beitarálagi. Beitarfriðun hálendisins næst aldrei með núverandi fyrirkomulagi. Málið er einfaldlega komið í hnút og á þennan hnút verður að höggva. Það getur aðeins forráðamaður landsins gert, forsrh. Þegar farið er í slíka vinnu þarf að gæta þess að hálendið sé friðað fyrir beit en um leið væri hægt að hafa það verklag að samstarfsnefnd eða fagnefnd yrði stofnuð til að fást við álitamál. T.d. eru afréttir í Vestur-Húnavatnssýslu og víðar á hálendinu í góðu ástandi og þola vel beit. Síðan eru aðrir staðir sem þola enga beit, eru auðnir hið efra en að einhverju leyti nýtanlegir hið neðra. Eitt hlýtur þó að vera augljóst: Hrossabeit á hálendinu þarf að banna eins fljótt og frekast er kostur.

Virðulegi forseti. Ég vildi nýta þetta tækifæri sem gefst hér nú, þegar heldur hefur færst ró yfir umræðuna, til að flytja þetta mál. Ég er þó alls ekki að gefa í skyn að fyrir það sé settur fótur í núverandi þjóðlendufrv. Ég taldi að þrátt fyrir þau átök sem hér hafa farið fram undanfarna daga þá ætti ekki að nýta þetta mál sem skotfæri í þeirri baráttu. Hér hlýtur að vera um sameiginlegt áhugamál okkar allra. Við þurfum ekki að efast um vilja þorra bænda, þorra landeigenda í þessu. Við þurfum ekki að efast um vilja þéttbýlisbúa, hvar sem þeir eru á landinu. Ég ítreka áskorun mína til hæstv. forsrh., hins nýja landnámsmanns, að gæta landsins og vernda jarðveg og gróður á hálendinu.