Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 14:32:12 (6391)

1998-05-09 14:32:12# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[14:32]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Oft verður maður nú hissa en ég hygg að margur verði hissa eftir að hafa hlustað á þessa ræðu hv. þm. sem um margt var ágæt þegar hann hugsar um moldviðrið og ræðurnar sem stóðu í 5--6 tíma. Flokkssystir hv. þm. talaði í meira en sólarhring eða notaði ræðustólinn meira og minna í heilan sólarhring.

Við erum búin að hlusta á orðræðurnar frá jafnaðarmönnum um að verið sé að stela miðhálendinu. Í heilum leiðurum og blöðum hefur verið hrópað að ríkisstjórnarflokkarnir séu nú að fremja glæp þessarar aldar og stela miðhálendinu, að það sé þjófnaður aldarinnar o.s.frv. Svo allt í einu birtir upp, moldrokið er fjarri, blekkingarumræðan er fjarri og hér stendur foringinn, hv. 4. þm. Vestf., Sighvatur Björgvinsson, og er glaður í bragði og segir þjóð sinni að verið sé að afhenda Íslendingum, íslenskum almenningi, eignarréttinn á hálendinu. Hver botnar í svona umræðum? En loksins, loksins er blekkingarleiknum lokið. Tjaldið er fallið og við blasir að ríkisstjórnarflokkarnir hafa fallist á þessi rök, að deilumálinu um miðhálendið ljúki og það verði eign allra Íslendinga. Um þetta er samstaða í þinginu og ég vona með þjóðinni. Ég óska hv. þingmanni til hamingju með að hafa sagt satt í dag.