Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 14:34:05 (6392)

1998-05-09 14:34:05# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[14:34]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hamingjuóskirnar. Það sem hér er að gerast er nákvæmlega það sama og gerðist þegar afgreidd var 1. gr. laga um stjórn fiskveiða. Þar var ákveðið að nytjastofnar við Ísland skuli vera sameign þjóðarinnar. Í þessu frv. er ákveðið að þjóðlendur skuli vera í eigu ríkisins. Hvort tveggja er ánægjulegt, mjög ánægjulegt og ég styð það.

En síðan er fjallað um hverjir megi nýta þessa sameign þjóðarinnar. Hverjir fengu ráðstöfunarréttinn á fiskimiðunum? Það voru örfáir einstaklingar og félög. 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða er góð og þörf, jákvæð, enda átti sá sem hér stendur manna mestan þátt í að hún var sett. En menn tóku bara til baka með vinstri hendinni það sem þeir gáfu með þeirri hægri.

Það sama er að gerast hér. Frv. um þjóðlendurnar er frv. um að þjóðin eigi hálendið. Frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu og frv. hæstv. félmrh. Páls Péturssonar um að afhenda 42 sveitarfélögum íhlutunarréttinn um hvernig eigi að nýta þessar sameiginlegu auðlindir okkar eru um að taka umráðaréttinn á þjóðareign, af þjóðinni aftur.

Þennan sannleik ætti hv. þm. Guðni Ágústsson að segja og segja hann afdráttarlaust. Það sem hann gefur með hægri hendinni við afgreiðslu þessa frv. ætlar hann að taka aftur með vinstri hendinni með frv. um auðlindir í jörðu og þeirri ákvörðun að afhenda fulltrúum 4% landsmanna réttinn til þess að stýra nýtingunni á sameign þjóðarinnar á hálendinu.