Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 14:38:22 (6394)

1998-05-09 14:38:22# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[14:38]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Hér skaut upp gamla sjónarmiðinu. Hv. þm. sagði: ,,Það er verið að taka miðhálendið af landsbyggðarmönnum.`` Landsbyggðarmenn hafa aldrei átt miðhálendið umfram aðra. Þvert á móti er verið að ákveða hér að ríkið skuli eiga miðhálendið af því að það eigi það enginn annar. Ef verið væri að taka eitthvað af einhverjum, þá standa íslensk lög til þess að það yrði að gjalda fullar bætur fyrir. Nú spyr ég hv. þm. og bið hann að hugleiða það, hann getur rætt það síðar þó hann geti ekki komið aftur í andsvar núna: Er hv. þm. að gefa undir fótinn með það að hann ætli sér að koma fram í nafni þeirra sem hann telur eiga miðhálendið og gera kröfur um eignarnámsbætur, verði það frv. samþykkt sem hér liggur fyrir. (GÁ: Það hvarflar ekki að mér.) Hvernig stendur þá á því, virðulegi forseti, að hann heldur fram því sjónarmiði að með þessu frv. sé verið að taka land af einhverjum sem það eigi? Það samrýmist að sjálfsögðu ekki að halda því fram og segja svo í hinu orðinu: ,,Ég ætla ekki að fara fram á bætur fyrir þá upptöku.`` (GÁ: Það er verið að skera úr deilumáli.) Þau komu nefnilega nákvæmlega fram í ummælum hans áðan þessi gömlu sjónarmið framsóknarmanna úr öllum flokkum að við Íslendingar eigum ekki saman þetta land heldur sé það í eigu örfárra. Og til allrar guðs lukku hefur flokkur hans nú hrakist frammi fyrir sókn þeirra sem eru þeirrar skoðunar að við eigum þetta land öll saman. Ég er sannfærður um að ef þjóðin fengi að segja sitt í kosningum eða skoðanakönnunum um fylgi við stefnu annars vegar okkar alþýðuflokksmanna, kvennalistakvenna, jafnaðarmanna og alþýðubandalagsmanna sem vilja tryggja þjóðareign á landinu og hins vegar stefnu núverandi stjórnarflokka, þá er ég ekki í nokkrum vafa um hver niðurstaða þeirrar umsagnar yrði.