Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 14:40:50 (6395)

1998-05-09 14:40:50# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[14:40]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson fór mörgum fögrum orðum um Ólaf Örn Haraldsson áðan og óskaði honum til hamingju með það að vera kominn í sinn hóp varðandi málefni miðhálendisins, þann hóp sem væntanlega hefur á undanförnum árum verið helsti andstæðingur bænda á Íslandi og lagt sig í líma við að gera bændur ómerkilega í augum landsmanna (SighB: Vertu ekki að snúa út úr.) og væntanlega þá um leið að bjóða honum upp í þann nýja dans sem er sá að gera landsbyggðarmenn yfir höfuð tortryggilega, sveitarstjórnir úti á landi sem fram að þessu hafa verið taldar geta borið þær byrðar sem á þær hafa verið lagðar varðandi stjórnsýslu á öllu landinu. Ég óska því hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni sérstaklega til hamingju með að vera kominn í þennan hóp.

Uppblástur hefur verið mikið vandamál eins og hv. þm. kom inn á áðan. Í Reykjaneskjördæmi hefur verið tekið á þessu máli af mikilli festu. Ég sem þingmaður Reyknesinga get verið mjög stoltur af því hvernig landeigendur á þessu svæði hafa tekið á vandamálinu. Það er búið að friða öll Suðurnesin, landnám Ingólfs er allt friðað. Reyndar eru nokkrar skjátur á þessu svæði sem menn vonandi ná samkomulagi um að verði fjarlægðar. (Gripið fram í.) Nokkrar rollur eru á þessu svæði sem verða fjarlægðar og væntanlega næst samkomulag um að geta girt þær af þannig að ekki þurfi að skapast vandamál af þeim. Þetta svæði er nú friðað af beit. Ég ætla bara að minna á það, herra forseti, að uppblásturinn varð ekki vegna beitar. Uppblásturinn varð vegna hrístekju á síðustu öld þegar sjómenn og bændur á þessu svæði þurftu eldsneyti til að halda hita í húsum sínum. Þá gengu þeir því miður of nærri gróðri og það var orsök uppblástursins á Reykjanesi á sínum tíma.