Þjóðlendur

Laugardaginn 09. maí 1998, kl. 14:45:42 (6397)

1998-05-09 14:45:42# 122. lþ. 123.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 123. fundur, 122. lþ.

[14:45]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki tekið undir það með hv. þm. að gróðureyðing á landinu sé eitthvert feimnismál. En menn hafa, ekki veit ég betur, tekið á því með miklum sóma með ýmsum aðgerðum á undanförnum áratugum til landgræðslu og uppgræðslu um allt land. Sérstakt skógræktarátak var sett í gang á síðasta ári og ég vona að hv. þm. muni eftir því.

Landgræðslan hefur verið við störf í áratugi og notið aðstoðar bæði ríkis, sveitarfélaga og einstaklinga við það mikla og góða starf. Eins og ég sagði áðan hafa Reyknesingar tekið sérstaklega á gróðureyðingu á sínu landi sem er til mikillar fyrirmyndar. Auðvitað má alltaf gera betur, ég ætla ekki að efast neitt um það, en ég minni á að náttúruhamfarir sem riðið hafa yfir þetta land, veðurfarsbreytingar og búshættir hafa í rauninni haft miklu meiri áhrif á uppblástur á miðhálendinu heldur en nokkurn tíma þessar rollur eða þetta fé sem beitt hefur verið þar upp frá.

Auðvitað getur verið um tímabundið eða staðbundið vandamál að ræða hvað beit varðar en flestir eru sammála um að það sé ekki aðalvandinn, en að snúa öllum vandamálum miðhálendisins upp á bændur og beit búfjár á því svæði er ómaklegt. Ég vil sérstaklega benda á það.

Aftur á móti tek ég undir allar þær hvatningarræður til að reyna að ná upp gróðri á þessum svæðum. Þar sem það er mögulegt og þar sem við getum hugsanlega orðið að liði, þá erum við tilbúnir til þess.