Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 10:44:58 (6410)

1998-05-11 10:44:58# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, Frsm. meiri hluta StG
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[10:44]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Stefán Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég tala fyrir nál. meiri hluta iðnn. um frv. til laga um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Meiri hlutann skipa Stefán Guðmundsson, sá er hér stendur, Guðjón Guðmundsson, Árni R. Árnason, Sigríður Anna Þórðardóttir, Hjálmar Árnason og Pétur H. Blöndal.

[10:45]

Virðulegur forseti. Ég held að rétt sé að byrja á því að fara yfir brtt. sem meiri hluti nefndarinnar flytur og eru á þskj. 1266. Þær eru eftirfarandi:

,,1. Við 2. gr. 6. mgr. orðist svo:

Grunnvatn merkir í lögum þessum vatn sem er neðan jarðar í samfelldu lagi, kyrrstætt eða rennandi, og fyllir að jafnaði allt samtengt holrúm í viðkomandi jarðlagi og sem unnið er í öðrum tilgangi en að flytja varma til yfirborðs jarðar eða nýta staðarorku þess.

2. Við 7. gr. Í stað orðanna ,,vegna rannsóknanna`` í fyrri málslið 2. mgr. komi: vegna nýtanlegra rannsókna.

3. Við 10. gr. 1. málsl. 1. mgr. orðist svo: Þrátt fyrir ákvæði 6. og 7. gr. er landeiganda heimilt án leyfis að hagnýta jarðhita í eignarlandi sínu til heimilis- og búsþarfa, þar með talið til ylræktar, iðnaðar og iðju, allt að 3,5 mw. miðað við vermi sem tekið er úr jörðu alls innan eignarlands.

4. Við 14. gr. Í stað orðanna ,,allt að 100 ltr./sek.`` Í 1. málsl. komi: allt að 70 ltr./sek.

5. Við 16. gr. Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Við meðferð umsókna um leyfi og veitingu þeirra skal gætt náttúruverndarlaga, skipulags- og byggingarlaga og annarra laga sem varða rannsóknir og nýtingu lands og landgæða.

6. Við 18. gr. 6. tölul. orðist svo: Upplýsinga- og tilkynningarskyldu leyfishafa, þar með talda skyldu til afhendingar á sýnum og gögnum og hvernig hún skuli innt af hendi.

7. Við 22. gr. Á eftir orðunum ,,gefi upplýsingar um`` í 1. málsl. 2. mgr. komi: staðsetningu holunnar.

8. Á eftir 33. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Lög þessi taka eftir því sem við á til rannsókna og nýtingar á örverum sem vinna má á jarðhitasvæðum. Rannsóknir og nýting örvera á jarðhitasvæðum er óheimil án leyfis iðnaðarráðherra samkvæmt lögum þessum. Leyfi samkvæmt þessari grein skal veitt að fenginni umsögn umhverfisráðherra. Náttúruvernd ríkisins fer með eftirlit með rannsókn og nýtingu samkvæmt þessari grein.

Iðnaðarráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessarar greinar í samráði við umhverfisráðherra.

Með örverum er átt við örverufræðilega einingu, myndaða af frumum eður ei, sem fær er um eftirmyndun eða yfirfærslu erfðaefnis.

9. Við 35. gr. er verði 36. gr. Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:

Endurskoða skal ákvæði 34. gr. laganna fyrir 1. janúar 2001.

10. Fyrirsögn frumvarpsins orðist svo: Frumvarp til laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu.``

Í nál., virðulegi forseti, segir svo:

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Pál Gunnar Pálsson og Jón Ingimarsson frá iðnaðarráðuneyti, Ingimar Sigurðsson frá umhverfisráðuneyti, Þorkel Helgason orkumálastjóra og Helga Torfason frá Orkustofnun, Árna Bragason frá Náttúruvernd ríkisins, Jón Gunnar Ottósson frá Náttúrufræðistofnun, Stefán Thors skipulagsstjóra, Jón Rögnvaldsson frá vegamálastjóra og Jakob Kristjánsson frá Iðntæknistofnun.

Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Náttúruvernd ríkisins, Alþýðusambandi Íslands, Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Samtökum iðnaðarins, Náttúrufræðistofnun Íslands, Vegagerðinni, Skipulagsstofnun, Orkustofnun, Hitaveitu Suðurnesja, Landssambandi veiðifélaga, Hitaveitu Reykjavíkur, Rannsóknarráði Íslands, Verkfræðingafélagi Íslands, Félagi landfræðinga og Samtökum iðnaðarins.

Með frumvarpi þessu er lagt til að skipað verði í einn lagabálk reglum um allar auðlindir í jörðu hvort sem um er að ræða í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi. Meginmarkmið þess er að stuðla að skynsamlegri nýtingu auðlinda í jörðu frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Í frumvarpinu er fylgt þeirri skipan sem viðurkennd hefur verið í löggjöf og réttarframkvæmd að eignarréttur á auðlindum í jörðu eignarlanda og innan netlaga í vötnum og sjó fylgi landareign. Einnig er íslenska ríkið lýst eigandi auðlinda í þjóðlendum í samræmi við samnefnt frumvarp sem nú liggur fyrir þinginu. Þá er lagt til að samræmdar reglur gildi um leit, rannsóknir, nýtingu og leyfi opinberra yfirvalda í þessum efnum. Lagt er til að iðnaðarráðherra fari með veitingu rannsóknar- og nýtingarleyfa en Orkustofnun verði falin stjórnsýsluverkefni á þessu sviði. Í umboði ríkisins er lagt til að iðnaðarráðherra verði heimilt að hafa frumkvæði að og láta leita að auðlindum í jörðu hvar sem er á landinu, jafnt innan sem utan eignarlanda og hvort sem landeigandi sjálfur hefur hafið slíka rannsókn eða heimilað hana öðrum nema sá aðili hafi áður fengið rannsóknarleyfi. Núgildandi námulög og orkulög hafa að geyma reglur um rannsóknir og leit sem byggjast á sama grunni, þ.e. heimild ríkisins til að láta leita að jarðefnum og jarðhita hvar sem er á landinu. Þá er gert ráð fyrir að nýting auðlinda í jörðu sé háð leyfi iðnaðarráðherra hvort sem það er til nýtingar auðlinda í eignarlöndum eða utan þeirra. Áfram verður landeiganda þó heimilt að nýta á eignarlandi sínu grjót, möl, leir, sand, vikur, gjall og önnur slík gos- og steinefni, sem og að nýta jarðhita og grunnvatn í eignarlandi sínu til heimilis- og búsþarfa innan tiltekinna marka. Landeigandi þarf hins vegar nýtingarleyfi frá iðnaðarráðherra til þess að nýta jarðefni, svo sem málma, jarðolíu og jarðgas, svo og jarðhita og grunnvatn yfir hinum tilteknu mörkum.

Í frumvarpinu er jafnframt lagt til að sveitarfélög hafi forgang til nýtingarleyfa vegna grunnvatns og jarðhita innan marka sveitarfélags vegna þarfa þess og því tryggður réttur til umsagnar áður en nýtingarleyfi eru veitt. Auk þess geti iðnaðarráðherra heimilað sveitarfélagi að taka eignarnámi auðlindir ef brýna nauðsyn ber til vegna almannahagsmuna í sveitarfélaginu, óháð því hvort viðkomandi réttindi eru innan marka sveitarfélagsins eða ekki.

Þá er gert ráð fyrir að iðnaðarráðherra hafi heimild til að taka auðlindir eignarnámi ásamt öðrum réttindum sem nauðsynleg eru til að nýtingarleyfi komi að notum. Ef auðlind í eigu landeiganda er nýtt af öðrum fær hann fullt endurgjald fyrir. Sé auðlind tekin eignarnámi hefur landeigandi val um það hvort endurgjald fyrir hana verður metið sem bætur sem greiðist í einu lagi eða árleg greiðsla meðan vinnsla auðlindar stendur yfir.

Í frumvarpinu er jafnframt að finna ákvæði um skilyrði fyrir veitingu leyfa, vernd og eftirlit með vinnslusvæðum, meðferð upplýsinga og fleira.

Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að með frumvarpi þessu er ekki á nokkurn hátt verið að hrófla við eða víkja úr vegi löggjöf og reglum á sviði umhverfis-, náttúruverndar- og skipulagsmála, hvorki að því er varðar rannsóknir né nýtingu auðlinda, sbr. breytingartillögu við 16. gr. frumvarpsins. Frumvarpinu er þannig ekki ætlað að taka með heildstæðum hætti á umhverfismálum, náttúruvernd eða skipulagsmálum sem tengjast rannsóknum eða nýtingu þessara auðlinda. Um þau atriði gilda ýmis lög á sviði umhverfis- og skipulagsmála og eiga þau einnig við um rannsóknir og nýtingu samkvæmt þessu frumvarpi. Það er jafnframt álit meiri hlutans að frumvarpið raski ekki með neinu móti heildarstefnumörkun hvað varðar alþjóðaskuldbindingar um umhverfismál og áætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun.

Þá hefur komið fram gagnrýni á að frumvarpið setji ekki ákvæði um vernd og nýtingu á sandi, vikri, grjóti o.fl. Meiri hlutinn telur að setja þurfi reglur um vernd og nýtingu þessara jarðefna en telur hins vegar ekki rétt að það verði gert með því að kveða á um að nýtingarleyfi þurfi að koma til. Réttara væri að endurskoða ákvæði laga um umhverfismat og setja lög um frágang og eftirlit með vinnslusvæðum.

Nefndin ræddi sérstaklega hvort málsmeðferðarreglur við veitingu leyfa séu nægilega skýrar samkvæmt frumvarpinu, einkum í þeim tilvikum þegar fleiri en einn aðili sækir um leyfi á sama stað. Ákvæði 17. gr. frumvarpsins kveður á um þau meginsjónarmið sem búa að baki veitingu nýtingarleyfa. Þá eru í 18. gr. tilgreind þau skilyrði sem fram þurfa að koma í leyfinu. Í 19. gr. er síðan kveðið á um heimild ráðherra til að auglýsa eftir umsóknum. Þegar þessi ákvæði eru virt með hliðsjón af almennum málsmeðferðarreglum í stjórnsýslunni, svo sem ákvæðum stjórnsýslulaga, er það álit meiri hlutans að nægilega skýrt sé kveðið á um það á hvaða grunni leyfi skuli veitt og samkvæmt hvaða sjónarmiðum.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali. Helstu efnisatriði breytinganna eru eftirfarandi:``

Ég held að það sé rétt að ég fari yfir það enn og aftur:

[11:00]

1. Lögð er til breyting á skilgreiningu grunnvatns í því skyni að gera hana skýrari. Samkvæmt skilgreiningunni telst á sem rennur neðan jarðar til grunnvatns í þessum skilningi.

2. Lögð er til breyting á 2. mgr. 7. gr. sem fjallar um nýtingu auðlinda. Eins og málsgreinin er orðuð mætti ætla að landeigandi sem látið hefur rannsaka auðlind án rannsóknarleyfis geti krafið nýtingarleyfishafa um allan sannanlegan kostnað vegna rannsóknarinnar, einnig þann sem ekki getur nýst nýtingarleyfishafanum. Því er lagt til að landeigandi geti einungis krafið nýtingarleyfishafa um sannanlegan kostnað vegna nýtanlegra rannsókna, gegn afhendingu á niðurstöðum þeirra.

3. Lögð er til breyting á 10. gr. sem fjallar um jarðhita. Fram hafa komið upplýsingar um það að 5 mw. séu nokkuð há mörk á nýtingu án leyfis. Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun notar stærsta gróðrarstöð landsins, sem er 6.000 fermetrar, jarðhita sem jafngildir 2,8 mw. Þá hefur jafnframt komið fram að orka úr einni borholu á háhitasvæði sé óvíða meiri en 5 mw. Með hliðsjón af þessu er lagt til að mörkin verði færð niður í 3,5 mw.

4. Lögð er til breyting á 14. gr. sem fjallar um grunnvatn. Samkvæmt upplýsingum frá Orkustofnun eru 100 ltr./sek. sem mörk nýtingar án leyfis nokkuð há. Með hliðsjón af þessu er lagt til að mörkin verði færð niður í 70 ltr./sek.

5. Lögð er til breyting á 18. gr. sem fjallar um innihald rannsóknar- og nýtingarleyfa. Lagt er til að tilgreina skuli einnig form gagnaskila svo að auðvelt og hagkvæmt verði að miðla upplýsingum og gögnum.

6. Lagt er til að við bætist ný grein sem verði 34. gr. og fjalli um nýtingu hitakærra örvera. Brýna nauðsyn ber til að setja á næstu árum heildarlöggjöf um hagnýtingu lífrænna verðmæta. Mótun slíkrar löggjafar tekur þó nokkurn tíma. Því er hér lagt til að bætt verði inn í frumvarpið ákvæði um rannsóknir og nýtingu örvera á jarðhitasvæðum, en sú aðferðafræði sem frumvarpið byggir á við rannsóknir og nýtingu fellur vel að verndun þeirrar auðlindar sem í örverum felst.

Hátæknivæddur líftækniiðnaður byggir tilurð sína á rannsóknum á þessum örsmáu lífverum. Lyf og efnahvatar sem notaðir eru í iðnaði eru gott dæmi um verðmætar afurðir þessa nýja atvinnuvegar. Aðalhráefni líftækniiðnaðarins eru þó ekki genin sjálf, sem efnislegir þættir lífveranna, heldur þær upplýsingar sem þau bera í sér.

Hveralífverur eru ein af eftirsóttustu uppsprettum líftækniiðnaðarins fyrir hagnýt gen. Ástæðan er sú að þeir eiginleikar sem hveralífverur hafa þróað og gera þeim kleift að lifa og starfa við háan hita í harkalegu umhverfi hveranna eru þeir sömu og sóst er eftir til nota í iðnaði.

Ísland sem heild er stærsta og fjölbreytilegasta hverasvæði veraldar og því sækja erlendir vísindamenn og fyrirtæki hingað til að afla efniviðar í rannsóknir sínar og fer þessi ásókn vaxandi. Markmið þeirra er að einangra hitakærar örverur eða erfðaefni úr íslenskum hverum til að finna þar verðmæt gen sem nýta má í iðnaði. Í þessu sambandi mætti kalla hverina lífnámur. Þó er ekki um námur eða auðlindir að ræða í hefðbundnum skilningi því námumaðurinn sækir aðeins nokkur lítil sýni af vatni, sandi eða hverahrúðri sem hann síðan vinnur með í rannsóknastofu og leitar að eftirsóttum genum. Hér er því um að ræða sjálfbæra og vistvæna nýtingu verðmæta sem hefur ekki í för með sér neina hættu á náttúruspjöllum.

Ríó-sáttmálinn um verndun líffræðilegs fjölbreytileika, sem Ísland hefur staðfest, ber það með sér að viðurkennt er að þau verðmæti sem finna má í lífríki einstakra landa tilheyri upprunalandinu og utanaðkomandi aðilum sé óheimilt að hagnýta sér slík verðmæti án samþykkis og eftirlits viðkomandi lands. Ekki hafa verið sett lög á Íslandi sem hafa beinlínis þann tilgang að tryggja markmið Ríó-sáttmálans að þessu leyti eins og gert hefur verið í sumum öðrum löndum. Hér er því lagt til að bætt verði úr brýnni þörf og rannsóknir og nýting örvera á jarðhitasvæðum verði felldar undir meginefni frumvarpsins í ljósi þess að heildarlöggjöf um hagnýtingu lífrænna verðmæta skortir. Með þessu á að tryggja að aðgangur að þeim auðlindum sem fólgnar eru í íslenskum hverum sé háður stjórn og eftirliti með sama hætti og aðgangur að öðrum auðlindum í jörðu sem frumvarpið nær til.

Lagt er til að það verði á forræði iðnaðarráðherra að veita leyfi til rannsókna og nýtingar á hitakærum örverum til iðnaðarframleiðslu á sama hátt og fram kemur í III. og IV. kafla frumvarpsins. Greinin tekur fyrst og fremst til nýtingar sem felst í þeirri aðferð að fjarlægja örverur úr sínu náttúrulega umhverfi með sýnatöku, sé markmiðið að einangra og eftirgera erfðaefnið og afurðir þess með framleiðslu í tilraunastofu, og síðar iðnaði fyrir augum. Leyfi samkvæmt greininni skal veitt að fenginni umsögn umhverfisráðherra og þá er Náttúruvernd ríkisins ætlað að fara með eftirlit með rannsókn og nýtingu á hitakærum örverum.

7. Lögð er til viðbót við 35. gr. sem verður 36. gr. Eins og fram er komið er nauðsynlegt að vinna heildstæða löggjöf um vernd og nýtingu lífrænna verðmæta í náttúru landsins. Með ákvæði um að endurskoða skuli nýja 34. gr. frumvarpsins fyrir árið 2001 er verið að leggja áherslu á það.

8. Lögð er til breyting á fyrirsögn frumvarpsins. Ný tillaga að nafngift er talin lýsa betur til gangi frumvarpsins og efnisinnihaldi þess þar sem það hefur að geyma ákvæði um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu og hefur þann megintilgang að stuðla að skynsamlegri nýtingu auðlinda í jörðu frá þjóðhagslegu sjónarmiði.

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins til að stíga nokkur skref til baka í þessu nál. okkar og lesa örstuttan kafla aftur. Hann skiptir vissulega miklu máli í þeirri umræðu sem eftir á að fara fram um þessi mál og því finnst mér rétt að skerpa aðeins á þeim stutta kafla sem segir þó æðimargt. Þar segir svo, með leyfi forseta:

,,Meiri hluti nefndarinnar leggur áherslu á að með frumvarpi þessu er ekki á nokkurn hátt verið að hrófla við eða víkja úr vegi löggjöf og reglum á sviði umhverfis-, náttúruverndar- og skipulagsmála, hvorki að því er varðar rannsóknir eða nýtingu auðlinda, sbr. breytingartillögu við 16. gr. frumvarpsins. Frumvarpinu er þannig ekki ætlað að taka með heildstæðum hætti á umhverfismálum, náttúruvernd eða skipulagsmálum sem tengjast rannsóknum eða nýtingu þessara auðlinda. Um þau atriði gilda ýmis lög á sviði umhverfis- og skipulagsmála og eiga þau einnig við um rannsóknir og nýtingu samkvæmt þessu frumvarpi. Það er jafnframt álit meiri hlutans að frumvarpið raski ekki með neinu móti heildarstefnumörkun hvað varðar alþjóðaskuldbindingar um umhverfismál og áætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun.``

Ég vil taka fram að þeir sem mættu á fund nefndarinnar og ræddu um þennan þátt viðurkenndu að það sem hér var lesið væri fullgilt og fullkomið lögskýringarákvæði. Um það voru menn sammála.

Virðulegi forseti. Ég vil einnig að það komi skýrt fram að athugasemdir hafa komið fram í umræðunni um málið sem snúa að umhverfisþáttum þess. Ég mun því beita mér fyrir því að iðnn. skoði málið á milli 2. og 3. umr. og taki þá með það sem bæst hefur í umræðuna.