Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 11:10:21 (6411)

1998-05-11 11:10:21# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, ÁMM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[11:10]

Árni M. Mathiesen (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. framsögumanni meiri hluta nefndarinnar fyrir ágæta framsögu. Ég þakka honum sérstaklega fyrir þau orð sem hann lét falla um umhverfis-, náttúruverndar- og skipulagsmál, þá áherslu sem hann lagði á lögskýringargildi nál. meiri hlutans og það að nefndin muni taka þetta mál upp á milli umræðna.

Ég vil hins vegar varpa því fram hvort ekki sé betra og skynsamlegra, í stað þess að byggja á lögskýringarákvæði, að það sem efnislega kemur fram í nál. verði einfaldlega fært inn í 1. gr. frv. Þannig mundu menn, þegar þeir fara að velta þessum málum fyrir sér eins og hugsanlega kæmi upp og væntanleg umfjöllun í nál. bendir til, ekki þurfa að leita til lögskýringarákvæðisins heldur sé það lagatextinn sem taki skýrt og greinilega á málinu.

Ég vil enn fremur leita eftir frekari skýringum á breytingum sem gerðar eru á 10. gr. og 14. gr. þar sem möguleikar jarðeigenda til þess að nýta án leyfis annars vegar jarðvarma og hins vegar vatn, minnka úr 5 megavöttum í 3,5 megavött og úr 100 sekúndulítrum í 70 sekúndulítra. Mér finnst ég ekki fá fullnægjandi skýringar á þessu í nál. og með brtt. Mér virðist þessi breyting gerð til að takmarka svigrúm landeigenda og einstaklinga. Þetta eru yfirleitt landareignir úti á landsbyggðinni sem heldur hefur sorfið að að undanförnu og ætti þá frekar að ýta undir möguleika einstaklinga til að nýta þær auðlindir sem finnast þar í jörðu.

Ég vil einnig lýsa efasemdum um þau ákvæði sem yrðu 34. gr. ef brtt. verða samþykktar, varðandi örverurnar. Ég held að það mál sé ekki nægilega þroskað eða næg umræða um, herra forseti, og við þyrftum að skoða betur hvort það eigi heima í þessum lögum.