Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 11:16:02 (6414)

1998-05-11 11:16:02# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, Frsm. minni hluta GE
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[11:16]

Frsm. minni hluta iðnn. (Gísli S. Einarsson):

Herra forseti. Ég mun í ræðu minni gera grein fyrir nefndaráliti minni hluta. Ég mun fara yfir þau atriði sem ég tel vera mjög gagnrýniverð varðandi einstakar frumvarpsgreinar og síðan vitna til athugasemda frá ýmsum aðilum sem unnið hefur verið út frá. Í upphafi geri ég að sjálfsögðu grein fyrir því, og ég mun ítreka það aftur, að minni hlutinn telur að málið sé ekki nægjanlega þroskað til að fá afgreiðslu og minni hlutinn telur og mun leggja fram með rökstuddri dagskrá að málinu verði vísað til ríkisstjórnar til frekari umfjöllunar.

Það er ástæða til þess, herra forseti, að byrja á því að vitna til bréfs sem lagt hefur verið í hólf allra þingmanna og borist hefur frá hv. þm. Ólafi Erni Haraldssyni. Þetta er svarbréf frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

,,Háttvirtur þingmaður. Á fundi stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í dag var fjallað um bréf þitt og varðandi þær spurningar sem þar eru settar fram er vísað í umsögn sem samþykkt var á fundi 24. apríl sl.

Á fundi stjórnar samtakanna í dag kom fram að hún telur að hálendið skuli vera ein skipulagsleg heild. Ef stofnuð yrði nefnd um skipulag miðhálendisins mundi stjórn SSH að sjálfsögðu ekki skorast undan ábyrgð en áskilur sér þó rétt til að taka sjálfstæða ákvörðun um það síðar.

Stjórnin telur jafnframt að vegna þeirrar umræðu sem fram hefur farið bæði á Alþingi og annars staðar um málið sé rétt að Alþingi fresti afgreiðslu málsins til haustsins. Þannig gefist meiri tími til umræðna um þetta mikilvæga mál.``

Herra forseti. Ég sé ekki annað en það nákvæmlega sama eigi við um málið sem við erum að ræða og það er einmitt verið að ræða um eignarhald á almenningum. Um það erum við að ræða í þessu frv. Ég mun koma að því síðar að það kemur fram í Dagblaðinu í dag í skoðanakönnun að þorri þjóðarinnar eða um það bil 70% af þeim sem talað var við eru gegn, ekki bara frv. um sveitarstjórnarlögin heldur ... (Gripið fram í: Það var ekki gegn ...) Það er andstaða við að farið skuli vera með hálendið og almannarétt um landinu eins og verið er að gera með þessum frumvörpum. Svona skil ég þetta mál og skýri það auðvitað út eins og ég skil það, en ekki aðrir.

Herra forseti. Undir nefndarálit minni hlutans rita ásamt mér, hv. þingmenn Svavar Gestsson og Jóhanna Sigurðardóttir auk þess sem hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sat fundi nefndarinnar og er samþykk því áliti sem ég mæli hér fyrir, með leyfi forseta:

,,Í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um eignarhald á auðlindum í jörðu eru þrjú meginatriði sem ágreiningur er um við stjórnarandstöðuna. Í fyrsta lagi er það ákvæði frumvarpsins --- sem er aðalatriði þess --- að allar auðlindir í og á jörðu í löndum í einkaeign séu eign landeigenda. Þessi ákvæði stríða í grundvallaratriðum gegn frumvörpum þeim sem fyrir liggja í þinginu um sama efni frá stjórnarandstöðunni, þ.e. frumvarp Sighvats Björgvinssonar o.fl. og frumvarp Hjörleifs Guttormssonar o.fl., en í frumvarpi þessu er lagt til að djúphiti í jörðu, kol, olía, gas, málmar og fleiri jarðefni séu þjóðareign. Má því segja að í þessu máli komi einkar skýrt fram sá grundvallarágreiningur sem uppi er milli þeirra flokka sem nú eru í stjórnarliði annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar. Í öðru lagi einkennir frumvarp ríkisstjórnarinnar tillitsleysið við áherslur í umhverfismálum.``

Herra forseti. Það kom best í ljós strax í upphafi eftir að mælt hafði verið fyrir meirihlutaálitinu. Þá gerðu stjórnarliðar strax athugasemd við frv. og því var heitið að taka þetta frv. aftur til umfjöllunar sem segir og sýnir að þetta mál er engan veginn þroskað til þess að koma til afgreiðslu nú þegar. Áfram, herra forseti, úr nefndarálitinu:

,,Það er greinilega ætlun stjórnarflokkanna að sniðganga umhverfisstofnanir og umhverfisráðuneyti. Eitt ágreiningsefnið varðar útleigu og gjaldtöku fyrir afnot einkaaðila af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar. Stjórnarfrumvarpið gerir ráð fyrir því að ráðherra fái sjálfdæmi um að leigja hverjum sem er hvað sem er fyrir hvaða fjárhæð sem er.`` --- Þetta er eitt af meginatriðum sem við gagnrýnum harkalega. --- ,,Stjórnarandstæðingar vilja hins vegar setja skýrar málsmeðferðarreglur um leigu afnotaréttar þar sem m.a. fulls jafnræðis sé gætt og skýrar reglur um afnotagjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs eða lögum um útboð.``

Þarna kemur fram meginmunur á áliti stjórnarandstöðu og áliti stjórnarliða.

,,Meginefni þessa frumvarps tekur til auðlinda á jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga. Meginmarkmið frumvarpsins er að setja heildarlöggjöf um eignarhald á auðlindum í jörðu og um réttindi til þess að rannsaka, leita að og nýta auðlindirnar.

Auk þess sem að framan getur vantar margt í frumvarpið. Þar má nefna:

--- að ekki er fjallað nægilega um eignar- og hagnýtingarrétt ríkisins á auðlindum í jörðu utan afmarkaðra eignarlanda ...``

Þar kemur, herra forseti, akkúrat að því sem ég minntist á í upphafi míns máls þegar ég vitnaði til þess bréfs sem hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson hefur lagt í hólf allra þingmanna til þess að kynna þeim álit Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu á þessum málum sem hafa loksins rankað við sér.

,,að ekki er kveðið á um eignarrétt ríkisins að jarðefnum sem ekki hafa verið hagnýtt hér á landi þar sem þau hafa ekki fundist í nýtanlegu magni, þvert á móti eru þessi auðæfi afhent landeigendum,

að óljóst er kveðið á um eignarrétt ríkisins á orku háhitasvæða,

að ekki eru settar skýrar reglur um hvernig bætur skuli metnar fyrir tjón sem landeigendur telja sig verða fyrir vegna leyfisveitinga eða eignarnáms,

að í frumvarpið vantar skýrar reglur um leyfisveitingar til leitar, rannsókna og nýtingar á þeim auðlindum sem frumvarpið tekur til, svo og ákvæði um gjaldtöku fyrir réttindi til þess að leita að, rannsaka og nýta þær auðlindir ...``

Þar breytir engu þó heiti frv. sé breytt samkvæmt tillögum meiri hluta hv. iðnn.

,,að ekki eru í frumvarpinu nægjanleg ákvæði um umhverfismat umfram þau sem eru í gildandi lögum.``

Þar er ástæða til þess að gera harða atlögu að þessu máli.

,,Ljóst er að mikill ágreiningur er um meðferð ýmissa meginatriða milli vísindamanna sem komu til viðræðna við nefndina um frumvarpið. Má þar nefna að einn viðmælandi nefndarinnar sagði að erfðaefni sem slíkt væri ekki lifandi sem brýtur í bága við skilgreiningu annars viðmælanda um að þau séu hluti hinnar lifandi náttúru.

Margsinnis kom fram að skýrari ákvæði vantar um rannsóknir og nýtingarrétt og strangari ákvæði um náttúruvernd svo fátt eitt sé nefnt sem gagnrýnt var af hálfu viðmælenda nefndarinnar. Það kom einnig fram að nauðsyn er á að taka á ýmsum atriðum varðandi yfirráð með skýrum lagaákvæðum um að þessi lög haggi ekki þeim lögum sem í gildi eru.``

Herra forseti. Það var m.a. eitt af því sem kom fram í gagnrýni hv. þm. strax í upphafi í andmælum við formann hv. iðnn., þ.e. að ekki skuli vera skýrt kveðið á hvernig þessum málum er fyrir komið varðandi lög sem í gildi eru.

,,Með vísan til framangreindra atriða er augljóst að frumvarp ríkisstjórnarinnar er vanbúið til afgreiðslu Alþingis og nauðsynlegt er að gerðar verði á því gagngerar breytingar.

Af framansögðu er ljóst að frumvarpinu er hafnað af hálfu minni hlutans fyrst og fremst af því að hér er um gífurlega eignatilfærslu að ræða í hendur fárra á kostnað almannahagsmuna. Minni hlutinn leggur því til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Verði sú tillaga felld mun minni hlutinn greiða atkvæði gegn nokkrum greinum frumvarpsins auk þess sem hann mun flytja breytingartillögur við einstakar greinar við 3. umræðu málsins ef nauðsyn krefur.``

Eins og ég gerði grein fyrir í upphafi máls míns, er hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir sem sat fundi nefndarinnar samþykk þessu áliti auk mín og hv. þingmanna Svavars Gestssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur.

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir því í upphafi máls míns að ég mundi fara yfir nokkrar greinar sem ég tel að sé mjög ábótavant í þessu frv. og ég mun leggja það fram sem rök fyrir því að málið sé ekki fullbúið og ekki tilbúið í rauninni til afgreiðslu á hv. Alþingi. Ég vil geta þess að hér eru ráðherrar viðkomandi málaflokka viðstaddir og ég tel að það sé nauðsynlegt en ég vil að það komi fram að í samræðum við hæstv. umhvrh. nefndi hann við mig að hann þyrfti að víkja frá. Á það var fallist en ég minni á að iðnrh. er viðstaddur og hann mun þá taka við þeim spurningum, ef einhverjar eru, sem þarf að koma til hæstv. umhvrh.

Frv. fjallar um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu og eðli máls samkvæmt er nýting auðlinda í jörðu nátengd umhverfi og náttúru. Í frv. eins og hér um ræðir ætti að vera mun sterkari skírskotun til þessara málaflokka sem ég nefndi og jafnframt tilvísun til gildandi laga og reglna sem þar gilda. Ég vil meina að svo sé ekki og það sætir auðvitað furðu. Ekki er hægt að skilja þennan lagatexta öðruvísi en að gildandi lög, t.d. náttúruverndarlög sem hér hafa verið nefnd m.a. varðandi mat á umhverfisáhrifum, séu sniðgengin. Ég tel að þau séu sniðgengin með framsetningu þessara tillagna ásamt reglugerðum sem á þeim eru byggðar --- ég þykist svo sem viss um að það hafi ekki verið ætlun höfunda frv. --- og því er ekki hægt að vísa til slíks síðar nái lagatextinn fram að ganga eins og hann er núna, sérstaklega þar sem skýrari túlkanir hvað þetta varðar er heldur ekki að finna í greinargerðinni. Þessu er einmitt ábótavant varðandi þetta mál, þ.e. að tilvísanir eru ekki nægjanlega skýrar.

[11:30]

Einnig má benda á það að þessum lögum er ætlað að verða ótrúlega víðtæk. Í I. kafla þeirra er tekið fram að þau taki til hvers konar frumefna, efnasambanda og orku sem vinna megi úr jörðu, hvort heldur þau eru í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigsins sem þau kunna að finnast við. Allt það sem í jörðu finnst er annaðhvort frumefni eða efnasamband. Þetta hygg ég að menn séu almennt sammála um. Þar með má segja að engin undantekning sé á gildi laganna. Þegar síðan er litið til þess að frv. gerir ráð fyrir að hæstv. iðnrh. geti látið rannsaka auðlindir hvar sem er á landinu með nýtingu í huga þá ætti hver maður að sjá að það er óhæfa að fyrirhugað gildissvið og vald iðnrh. sé með slíkum ólíkindum. Ég tel að það gangi allt of langt. Þetta eru atriði sem ég vona að hv. iðnn. taki til umfjöllunar, a.m.k. núna á milli umræðna. Auðvitað væri réttast að fara fram á að þessu máli verði frestað til haustsins þar sem ekkert liggur á að afgreiða það.

Um ýmsar jarðmyndanir gilda sérstakar verndarreglur en til þeirra er ekkert tillit tekið að mínu mati, ekki einu sinni í greinargerðinni. Sérstakar reglur um jarðvegsnámur og frágang þeirra eru í gildi. Slíkar námur kunna einnig að vera háðar lögum um mat á umhverfisáhrifum en það fer að vísu eftir stærð þeirra. Hæstv. iðnrh. skal að vísu falið að fylgjast með því að tillit sé tekið til umhverfissjónarmiða, sbr. 17. gr. Hins vegar ekki hægt að sjá að iðnrh. sé bær til að fylgjast með slíku. Ég tel að alls ekki eigi að blanda saman eftirlitshlutverki og framkvæmdarhlutverki. Einn af meginþáttum gagnrýni okkar er að það á ekki að blanda saman eftirlitshlutverki og framkvæmdarhlutverki. Þessu gerðum við grein fyrir þegar við ræddum málið í hv. iðnn., að þarna væru ekki nógu skýr mörk á milli.

Eðlilegra væri að umhvrh. yrði falið að hafa þetta eftirlitshlutverk með höndum. Með því væri hægt að komast hjá hættu á hagsmunatengdum ákvörðunum sem hljóta, ef menn velta málinu fyrir sér, að vera hagsmunir iðnrh. sem í þessu tilviki felast í að hafa sem mest yfirráð yfir aðgerðum varðandi auðlindir í jörðu, t.d. ef við horfum til hálendisins.

Minni hlutinn gerir það að tillögu sinni að texti 1. gr. verði endurskoðaður. Ég tel að í greininni þurfi að vísa til þess að önnur lög geti gilt um þessar auðlindir. Þar á ég við það sem um getur í umhverfis- og náttúruverndarlöggjöf. Þetta er eitt af meginatriðunum sem við höfum gert grein fyrir í iðnn.

Í tengslum við 4. gr. er ástæða til að benda á eftirfarandi: Þó iðnrh. sé heimilt að láta rannsaka og leita að auðlindum, þá eru engin rök fyrir því að það leyfi eigi að ná til alls landsins. Það er ómögulegt að sjá nauðsyn til þess að t.d. friðlýst svæði, þjóðgarðar og náttúruvætti séu undir sömu ákvæði seld og annað land. Um þetta atriði var ekki rætt nema að takmörkuðu leyti þegar við fjölluðum um málið í iðnn. Þetta er eitt af þeim atriðum sem ég held að þurfi að skoða og ég bið um að það verði athugað þegar við förum yfir málið á milli umræðna úr því það er þegar ákveðið.

Svæði eru friðlýst vegna þess að þau eru einstök á einhvern hátt og þar með verðmæt. Það verðmæti hefur væntanlega ekki verið talið felast í hugsanlegri námavinnslu. Við höfum ekki farið nægjanlega í gegnum það hvernig farið skuli með slík landsvæði. Það er ástæða til að leggja ríka áherslu á að settir verði staðlar og reglur um að skýrar kröfur verði gerðar til þeirra sem fá leyfi til rannsókna samkvæmt þessum lögum. Það er mikil ástæða til þess að það verði mjög skýrt. Það er eitt af því sem ég gerði grein fyrir í nál. minni hlutans. Reglurnar þurfa að fjalla um og kveða á um færni, menntun og þekkingu þeirra sem starfa að rannsóknunum. Það þarf að fjalla um umgengni, umfang rannsókna og frágang. Þetta held ég að þurfi allt saman að koma fram. Ég tel að þetta sé ekki nægjanlega skýrt.

Ég held að ekki nægi að Orkustofnun verði eingöngu gerð grein fyrir áætlunum rannsóknaraðila. Það ætti einnig að gera t.d. Náttúrufræðistofnun grein fyrir slíkum framkvæmdum og kannski Náttúruvernd ríkisins til viðbótar. Þá eru komnir þrír aðilar sem fjalla um málin og að mínu mati komið mun sterkara aðhald. Til dæmis er Náttúrufræðistofnun yfirstofnun allra náttúrufræðilegra grunnrannsókna í landinu og hefur samkvæmt því með höndum eftirlits- og umsagnarhlutverk sem ekki er hægt að ganga fram hjá. Þetta eru atriði sem ég tel mjög mikilvæg og vona að verði einnig skoðuð.

Ég held áfram með greinarnar og ræði næst um 5. gr. Þar teljum við í minni hlutanum að ekki sé tekið tillit til þess að verulegt rask og náttúruspjöll geti hlotist af leit. Þó menn reyni að setja varnagla við það þegar leyfi er gefið til rannsóknarleitar, þá er ekki gengið nægjanlega frá því að tekið verði tillit til þess að um rask og náttúruspjöll geti verið að ræða. Ég tel því, eins og ég gerði grein fyrir áðan, að fyrir utan umsögn Orkustofnunar ætti líka að leita til Náttúruverndar ríkisins og Náttúrufræðistofnunar. Til viðbótar ætti einnig að vera skylt að kynna slík áform fyrir sveitarstjórnum. Ég held að ef menn eru með áform um rannsóknir geti það ekki gerst öðruvísi en að leitað verði til sveitarstjórnanna í tengslum við það.

Það sama á við um 6. gr. Þar sé ég ástæðu til að nefna svipuð atriði og þau sem ég nefndi um 5. gr. Þar á ég hins vegar við nýtingu en ekki leit.

Ég vil nefna 8. gr. frv. Benda má á, herra forseti, að sú grein lagafrv. gengur þvert gegn ýmsum gildandi lögum og reglugerðum. Þess vegna er ástæða til að tryggja tilvísanir í önnur lög og reglugerðir, öðruvísi en aðeins með vísan í nál. meiri hlutans.

Nýting jarðefna getur fallið undir náttúruverndarlöggjöf, lög um mat á umhverfisáhrifum og aðra slíka löggjöf. Þá gæti greinin óbreytt stuðlað að enn frekari fjölgun smánáma um land allt þar sem ekkert er kveðið á um eftirlit. Þetta atriði, herra forseti, ef rétt er, bendir til að ekki hafi verið fjallað nóg um málið. Varúðarreglur skortir til þess að koma í veg fyrir slys sem gætu hlotist af þessu. Þessar námur eru mikil vandamál, eins og fram hefur komið í skýrslum sem hafa verið teknar saman, t.d. af Náttúruverndarráði og Náttúruvernd ríkisins. Ég held að frumvarpshöfundar hafi t.d. ekki haft þessar skýrslur nógu ofarlega í huga. Ég nefni t.d. skýrslu umhvrh. um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Ég held að menn hafi ekki haft þau atriði nægjanlega til hliðsjónar við gerð samningu þessa frumvarps.

Herra forseti. Ég mun fara yfir nokkrar greinar til viðbótar, t.d. 10. gr. sem við tókum fyrir í umfjöllun okkar í iðnn. Rétt er að benda á að ákvæði vantar um umhvn. og verndarsjónarmið og vegna þess að gert er skylt að tilkynna Orkustofnun um framkvæmdir þá vitna ég til þeirra athugasemda sem ég gerði við 5. gr. Ég ætla ekki að fara yfir þær aftur í þessari ræðu.

Í 11. gr. er að finna ákvæði um að ekki megi hefja aðgerðir til nýtingar jarðhita fyrr en úttektarmenn hafi staðfest að ekki verði spjöll af þeim. Ég tel að nokkuð góð sátt sé um þetta ákvæði, en af hverju gerum við ekki sömu kröfu til annarra auðlinda, þekktra og óþekktra? Þá hygg ég að meiri sátt mundi ríkja. Hér nægir að nefna nýtingu á jarðefnum. Ég held að mikil ástæða sé til þess að leggja áherslu á að úttektarmenn þurfi að standast kröfur um mikla færni, menntun og þekkingu á þessum sviðum. Ég tel að ljóst þurfi að vera að hvaða þáttum úttekt á að beinast til að tryggja að faglega sé að málum staðið. Ég tel að slíkir úttektarmenn ættu alltaf að koma frá óskyldum aðilum. Í því sambandi mætti t.d. benda á eftirlitsmannakerfi Náttúruverndar ríkisins. Ég held að það mundi tryggja hlutlæga umfjöllun og það ætti að vera kostur. Slíkir úttektarmenn gætu ekki komið í veg fyrir að önnur ákvæði laga gildi, þar á ég t.d. við lög um mat á umhverfisáhrifum, og það ætti auðvitað að koma fram í texta greinarinnar.

Varðandi 14. gr. á það sama við og ég sagði um 11. gr.

Ég hleyp síðan svolítið áfram og fer í 17. gr. Þar verið að tala um að tryggja umhverfissjónarmið. Ég hygg að við þyrftum að reyna að finna betri skilgreiningu á þessu hugtaki, ,,umhverfissjónarmið``. Ég segi aftur að ég tel vafasamt að það nægi að aðeins iðnrh. fari með þessi eftirlitsmál. Ég bendi á að í skýringum við greinina er gert ráð fyrir því þó að að sjálfsögðu sé eingöngu verið að tala um eftirlit samkvæmt ákvæðum laganna. Slík mál eru ekki á hans verksviði. Það er fremur í verkahring umhvrh. og einnig ætti að vera skylt að leita umsagnar Náttúruverndar ríkisins. Þetta eru þó nokkuð mörg atriði sem ég held að ástæða sé til að skoða í umfjöllun hv. iðnn. nú á milli umræðna.

Varðandi 18. gr. held ég að heppilegra væri að tala um náttúruverndaráðstafanir. Í því sambandi vísa ég til þeirra athugasemda sem ég hafði við 17. gr., herra forseti.

[11:45]

Ef við lítum til 21. gr. þá er kannski ástæða til þess að ítreka þá skoðun að fleiri stofnanir en eingöngu Orkustofnun ættu að koma að eftirliti. Ekki má skilja orð mín svo, herra forseti, að það sé eitthvert vantraust á stofnunina heldur er verið að leggja til betra eftirlit og meira aðhald. Ég nefni enn Náttúruvernd ríkisins og Náttúrufræðistofnun því að hér er verið að ræða um framkvæmdir og aðgerðir sem snerta mjög og geta snert náttúru landsins. Þess vegna hef ég þessar stofnanir í huga og hef nefnt þær aftur og aftur.

Varðandi 22. gr., sem hv. iðnn. er mjög vel kunnug, vil ég segja það að í ljósi þess að Náttúrufræðistofnun fer með grunnrannsóknir á jarðfræði Íslands ætti hún einnig að eiga aðgang að þeim gagnagrunni sem er mælt um að verði fyrir hjá Orkustofnun þannig að gagnagrunnurinn, sem við höfum verið að ræða um hvernig menn eigi að hafa aðgang að, hvernig eigi að greiða fyrir það og hver eigi, ætti að vera til í báðum stofnunum. Gagnagrunnurinn ætti að vera bæði í Náttúrufræðistofnun og hjá Orkustofnun. Ég held að þetta sé nauðsynlegt. En um þetta mál höfum við skipst mjög á skoðunum í hv. iðnn. og rætt við fjölmarga umsagnaraðila því það er auðvitað mikil spurning hver á þau gögn sem fyrir liggja eftir að stofnanir á vegum ríkisins hafa framkvæmt þær og hvernig á að greiða fyrir aðgang að þeim gögnum. Þetta eru atriði sem ég held að þurfi að taka skýrt á en hefur ekki verið gert.

Ef ég lít á 23. gr. í framhaldi af 22. gr. þá er athyglisvert að þar er verið að tala um opinbera aðila sem hafa fengið upplýsingar samkvæmt þessum lögum. Það er bæði athyglisvert sökum þess að hvergi er talað um annan slíkan opinberan aðila en Orkustofnun og hins vegar þess að í skýringum við greinina er eingöngu talað um Orkustofnun en eins og ég benti á er rétt að Náttúrufræðistofnun gegnir sama hlutverki og Orkustofnun í þessu tilviki. Mér sýnist að frumvarpshöfundar ætlist ekki til þess að öðrum aðilum séu veittar upplýsingar samkvæmt þessum lögum. Því er ég að ítreka að þau hugsanlegu gögn sem verða til og eru til séu til í a.m.k. tveimur stofnunum.

Varðandi 26. gr. þá ræði ég bara um síðustu málsgrein og þar er alls ekki nægjanlega skýrt kveðið að. Orðalag um að gæta skuli að því að ekki verði mengun er ekki nægjanlega skýrt í því sambandi sem hér er verið að fjalla um. Spurning er hvernig ætti að orða greinina. Hún ætti sennilega að vera með beittari ákvæðum þannig að ótvírætt sé um hvað er verið að ræða.

Ef ég sný mér næst að 35. gr. vara ég eindregið við að sett sé í þessu lög ákvæði þar sem fyrri leyfi fá ótakmarkað gildi. Það getur verið varasamt. Benda má á að svipuð ákvæði eru í lögum um mat á umhverfisáhrifum og þau vandamál sem það hefur haft í för með sér fyrir önnur ákvæði þeirra laga. Þetta kannast menn vel við í sambandi við stóriðjuna sem við höfum verið að ræða um á undanförnum árum.

Búast má við sama ágreiningi í þessari lagasetningu. En telji menn að ekki sé hægt að komast hjá því að þetta ákvæði sé til staðar, ætti á einhvern hátt að takmarka það þar sem framkvæmdir eru ekki hafnar t.d. þremur árum eftir gildistöku og þá eigi þær að öllu leyti að falla undir ákvæði þessara laga. Þetta eru atriði sem við höfum rætt í hv. iðnn. Menn hafa haft mismunandi skoðanir og ég fagna því að hv. þm. Pétur Blöndal er kominn í salinn því að hann hafði margar athugasemdir um þetta frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu í umræðu nefndarinnar.

Eins og sjá má af þeim atriðum sem ég hef verið að tína upp teljum við í minni hlutanum og ég sem er höfundur að þessum athugasemdum að ýmsu sé mjög áfátt sem lýtur að náttúruvernd og umhverfismálum. Mikið vantar á að sú hugsun komist til skila í þessu frv. og auðvitað er ábyrgðarhluti þegar verið er að setja löggjöf sem getur haft jafnafdrifarík áhrif á umhverfið og um er að ræða. Bara af framangreindum ástæðum sem ég var hér að fara yfir, þó ekki væri nema lítill hluti þessara athugasemda sem við höfum í minni hlutanum verið að gera grein fyrir, t.d. í nefndaráliti og í ræðu minni, þá er ástæða til þess að vísa þessu frv. aftur til föðurhúsanna og þá á ég við til ríkisstjórnar og taka málið til frekari umfjöllunar ásamt og með þeim öðrum frumvörpum sem við höfum verið að ræða um sem varða eignarhald á auðlindum í jörðu og yfirráð yfir landsvæðum. Þetta er allt hluti af sömu kökunni sem er verið að skipta á einhvern hátt í tertusneiðar.

Herra forseti. Kannski er ástæða til þess að minna á að það eru 2--3 vikur þangað til heimssýningin hefst í Lissabon. Þar er hafið og framtíðararfurinn yfirskrift sýningarinnar. Aldrei hafa verið fleiri þátttökuþjóðir en nú. Það eru um það bil 145 lönd sem taka þátt í þessari sýningu. Við erum með í þriðja sinn og við erum að verja til þess 100 millj. kr. Ég er alveg viss um að enginn vafi er á því að allir Íslendingar vita hversu mjög við eigum afkomu okkar undir hafinu sem náttúruauðlind. Við úthlutun nýtingarréttar voru gerð mistök að mínu mati sem verður örðugt að leiðrétta og af því eigum við að læra, sérstaklega í sambandi við þetta mál sem við erum að fjalla um. Við eigum ekki, herra forseti, að gera þau mistök sem voru gerð með setningu laga nr. 38/1990. Þar voru gerð mistök sem mun verða mjög örðugt að laga. Það mun taka minnst áratug eftir að menn hafa komið sér saman um að þar sé ástæða til þess að breyta um.

Ef við erum meðvituð um að slys hafi orðið varðandi eignatilfærslu á auðlindinni í hafinu, þá eigum við að nýta okkur þá reynslu til að koma í veg fyrir að annað slys verði með samþykkt þessa frv. eins og það er lagt fyrir með brtt. Þetta eru atriði, herra forseti, sem ég vildi fara yfir varðandi lagagreinarnar. Ég bendi á og vitna sérstaklega til þess að ég veit að meiri hluti þjóðarinnar er sammála því að við eigum öll sameiginlega miðhálendið og við eigum öll sameiginlega auðlindirnar í jörðu, við eigum öll sameiginlega auðlindirnar í hafinu. Þess vegna verðum við að stíga varlega til jarðar þegar við höfum aðra eins reynslu eins og af lögum nr. 38/1990, sem eru um stjórn fiskveiða, svokallað kvótafrv.

Ég held að rétt sé að fjalla um hvað vantar t.d. um eignar- og hagnýtingarrétt jarðhita. Ég tel að það vanti í þetta frv. þegar verið er að tala um jarðhitasvæði að það er átt við uppstreymissvæði frá rennsliskerfi heits grunnvatns en rannsóknir hafa nefnilega sýnt að slíkum svæðum má skipta í tvo flokka: Annars vegar eru lághitasvæði sem einkennast oft af vatnsmiklum laugum

(Forseti (GÁS): Forseti væntir þess að hv. þm. viti af fyrirkomulagi þingfunda í dag. Miðað er við að fundinum verði frestað núna kl. 12 og þá taki við þingflokksfundir og standi fram til kl. 3. Þá verði fyrirspurnir til ráðherra og umræðunnu síðan fram haldið upp úr kl. 3.30. Því vill forseti spyrja hvort hv. ræðumaður áætli að ljúka ræðu sinni á næstu þremur mínútum eða hvort það séu kannski heppileg tímamót í ræðu hans og hann vilji fresta henni.)

Herra forseti. Þetta er einmitt punkturinn til að skipta ræðunni því að hér ætlaði ég að fara að fjalla um eignar- og hagnýtingarrétt jarðhita og ég tel að það taki allnokkurn tíma ásamt með yfirferð yfir tilvitnanir þannig að ég held að ég þiggi það að gera hlé á ræðu minni núna.