Endurskoðun á úthlutunarreglum LÍN

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 15:03:23 (6415)

1998-05-11 15:03:23# 122. lþ. 124.1 fundur 366#B endurskoðun á úthlutunarreglum LÍN# (óundirbúin fsp.), GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[15:03]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Árleg endurskoðun úthlutunarreglna Lánasjóðs ísl. námsmanna hefur staðið yfir á undanförnum dögum og nýlega hefur slitnað upp úr viðræðum þar sem meiri hluti stjórnar LÍN sá ekki ástæðu til að ræða frekar kröfu námsmanna. Meiri hlutinn stefnir því á að samþykkja nýjar reglur í krafti meirihlutavalds síns á mánudaginn kemur, þ.e. í dag. Þetta segja stúdentar í fréttatilkynningu og benda á að þær kröfur sem þeir gera við endurskoðun á þessum reglum ganga m.a. út á það að þeir fái launahækkanir eins og aðrir.

Námsmenn gera þá kröfu að hljóta sambærilegar hækkanir á námslánum fram til ársins 2000 og aðrir hópar hafa fengið en meiri hluti stjórnar LÍN leggur til að hækkun lánanna nemi um 2,5%, úr 56.200 í 57.600 kr. sem er í takt við verðlagsbreytingar. Sú tillaga þýðir að námslán verða á næsta ári lægri en atvinnuleysisbætur sem eru í dag orðnar 59.636 og námsmenn verða því eini hópurinn sem situr eftir.

Námsmenn leggja einnig til að frítekjumarkið verði miðað við að námsmenn geti haft lágmarkslaun í landinu yfir sumartímann eða þrisvar sinnum 70 þús. kr. án þess að lánið skerðist en meiri hlutinn leggur hins vegar til að frítekjumarkið verði 185 þús. kr. sem sýnir að meginþorri námsmanna mun ekki hljóta óskert lán. Af þessu tilefni vil ég beina þeirri fyrirspurn til hæstv. menntmrh.: Er hann sammála kröfum námsmanna og mun hann beita sér fyrir því að tekið verði mið af þeim við endurskoðun úthlutunarreglna lánasjóðsins?

(Forseti (ÓE): Forseta láðist að geta þess í upphafi að honum hafa borist tvöfalt fleiri fyrirspurnir en unnt verður að taka fyrir og hv. þingmenn verða að una úrskurði forseta um það hverjir komast að. Forseti biður hv. þm. og hæstv. ráðherra að stytta mjög mál sitt og nýta kannski ekki fullan rétt sinn til þess að koma þrisvar í ræðustól.)