Menningar- og tómstundastarf fatlaðra

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 15:22:45 (6431)

1998-05-11 15:22:45# 122. lþ. 124.1 fundur 370#B menningar- og tómstundastarf fatlaðra# (óundirbúin fsp.), MF
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[15:22]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Á haustþingi 1995 lagði ég fram till. til þál. um skipun nefndar um menningar- og tómstundastarf fatlaðra. Tillagan fól í sér að skipuð yrði fimm manna nefnd til að kanna á hvern hátt fatlaðir gætu notið sumarleyfa, tómstunda, lista og menningarlífs á sama hátt og aðrir í þjóðfélaginu og gera síðan tillögur um úrbætur.

28. maí 1996 var þessi þáltill. samþykkt á Alþingi og orðaðist tillgr. svo, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra að láta kanna á hvern hátt fatlaðir geti notið sumarleyfa, tómstunda, lista og menningarlífs á sama hátt og aðrir í þjóðfélaginu og gera tillögur um úrbætur. Tryggt verði að fulltrúar frá samtökum sveitarfélaga, svæðisskrifstofum um málefni fatlaðra, Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp komi að málinu.``

Fyrirsögn tillögunnar var: ,,Tillaga til þingsályktunar um menningar- og tómstundastarf fatlaðra`` en þessi niðurstaða og þessi breyting fékkst m.a. vegna þess að í nefndarstarfinu kom fram að þá þegar lá fyrir að á vegum félmrn. hafði nefnd hafið störf sem hafði það verkefni að endurskoða lögin um málefni fatlaðra og í framhaldi af því þótti rétt að vera ekki með sérnefnd heldur væri þetta nefnd sem starfaði samhliða.

Mér er kunnugt um að hæstv. félmrh. leitaði fljótlega til Öryrkjabandalagsins og Þroskahjálpar um tilnefningu í nefndina og þaðan komu tilnefningar en samkvæmt því sem ég best veit síðan hefur ekkert starf átt sér stað í þau tvö ár sem liðin eru síðan þáltill. var samþykkt. Finnst mér það harla skrýtið þar sem ljóst er að flytja á málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna og í umræðu var lögð rík áhersla á að þessi þáttur væri sérstaklega skoðaður áður.