Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 17:06:57 (6451)

1998-05-11 17:06:57# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[17:06]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hv. síðustu tveir ræðumenn, hv. þm. Ragnar Arnalds og hv. þm. Gísli S. Einarsson, hafa sýnt mjög glöggt fram á hve alvarlegt og raunar hættulegt mál er á ferðinni sem á að fara að koma í gegnum þingið.

Herra forseti. Ég held að sú umræða hafi farið mjög vaxandi á umliðnum árum hvað er raunverulega að gerast í þessu þjóðfélagi. Það hefur átt sér stað mikil eignatilfærsla, mikil valdasamþjöppun í þjóðfélaginu og peningar og völd eru sífellt að færast á fárra manna hendur. Við sjáum þessa samþjöppun valds mjög víða. Stórar valdablokkir eru að verða til sem tengjast eignar- og stjórnunarlega og má segja að það sé dæmi um nútímalénsveldi þar sem auður safnast á fárra hendur og slíkt hefur leitt af sér og mun leiða af sér ef ekkert verður að gert að fátækt og misskipting fer vaxandi. Það er einmitt það sem við erum að fjalla um, herra forseti, varðandi þetta mál að hér getur verið á ferðinni og er reyndar á ferðinni, ég er þess eiginlega alveg fullviss, mikil eignatilfærsla til landeigenda. Eins og síðasti ræðumaður sagði er verið að gefa landeigendum miklu meiri rétt en þeir hafa í dag og verið er að festa í sessi eignarrétt á miklum auðlindum.

Á undanförnum vikum höfum við verið að fjalla um annað mál ekki óskylt þessu að því leyti að verið er að færa nýtingarréttinn á miðhálendinu í hendur örfárra sveitarfélaga þar sem aðrir, t.d. fólk á suðvesturhorninu, hafa lítinn aðgang að.

Maður veltir fyrir sér, herra forseti, hvort það sé tilviljun að þegar þessi helmingaskiptastjórn íhalds og framsóknarmanna situr að völdum, þá á sér ávallt stað mikil eignatilfærsla með einum eða öðrum hætti. Við þekkjum vel að 1984, þegar þessir stjórnarflokkar voru að völdum, var kvótakerfi komið á sem leitt hefur til mestu eignatilfærslu sögunnar frá þjóðinni til örfárra kvótakónga sem fengið hafa hundruð milljóna gefins frá þjóðinni.

Við höfum fjallað í hálfan mánuð um miðhálendið og sýnt fram á hvernig verið er að færa frá fólkinu ákvarðanir um nýtingu á miðhálendinu í hendur örfárra sveitarfélaga og nú erum við komin að því að fjalla um eignarhald og nýtingar á auðlindum í jörðu þar sem landeigendur geta rakað til sín stórkostlegum fjármunum ef þjóðin þarf að nýta auðlindir sem fyrirfinnast á jarðareign þessara landeigenda. Það er ekki nema von að spurt sé hvort það sé tilviljun þegar helmingaskiptastjórnin situr að völdum að þannig sé aukið á þá eignatilfærslu sem hefur orðið í þjóðfélaginu á umliðnum einum til einum og hálfum áratug.

Stjórnarliðar hafa gagnrýnt okkur nokkuð í þeirri umræðu sem varð um miðhálendið og talið að við værum í miklu málþófi þó við værum aðeins að ræða ítarlega um það mál sem þá var á dagskrá. Þeir töldu að við í minni hluta værum að kúga meiri hlutann og beita miklu órétti þegar við vorum að ræða ítarlega þetta mál og sögðu að þeir væru í meiri hluta á þingi og þetta mál skyldi í gegn. Við héldum því þá fram að við í minni hlutanum sem værum að tala gegn því máli teldum líka að við værum að tala máli meiri hluta þjóðarinnar sem hafnaði þeirri tilhögun sem fyrirhuguð er að því er varðar miðhálendið. Ég held, herra forseti, að sú skoðanakönnun sem birtist í DV í dag staðfesti að það var rétt sem við héldum fram en í þeirri skoðanakönnun kemur fram að 70% þjóðarinnar eru andvíg því hvernig á að fara með miðhálendið og hverjir eiga að hafa ákvörðunarrétt um nýtingu þess.

Það hefur verið löngum til þess vitnað, herra forseti, að eignarréttarákvæðin séu mjög sterk í stjórnarskránni og á því byggir sá meiri hluti sem vill knýja þetta mál fram með þeim hætti sem nú er ætlunin. Í 72. gr. stjórnarskrárinnar segir:

,,Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.``

Herra forseti. Þegar við ræðum þetta eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar held ég að við hljótum að staldra nokkuð við þá spurningu: Hvernig er almannarétti háttað í stjórnarskránni? Ég held að við hljótum að stoppa svolítið við það hvort nægjanlega hafi verið gætt að almannarétti þegar endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur farið fram. Við höfum að vísu ákvæði í stjórnarskránni um að allir skuli verið jafnir fyrir lögum en það virðist hvergi duga. Eignarréttárákvæði stjórnarskrárinnar virðast þar vera ofar öðru.

Herra forseti. Ég held að í þessu máli séum við enn eina ferðina að upplifa að fremur sé verið að tryggja sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna sem þessum stjórnarflokkum er mjög tamt þegar þeir eru að völdum. Ég á sæti í iðnn. sem fjallaði um það mál sem er til umræðu en fyrir hv. iðnn. lágu einnig fleiri frv. sem snerta það mál sem við ræðum hér um eignarhald á auðlindum í jörðu. M.a. frv. sem hefur ítrekað verið flutt af jafnaðarmönnum undir forustu Sighvatar Björgvinssonar um eignarhald á auðlindum í jörðu og gjald fyrir nýtingu þeirra. Sömuleiðis hafa alþýðubandalagsmenn flutt í mjög langan tíma gegnum mörg ár frv. um jarðhitaréttindi sem felur í sér takmörkun á nýtingu auðlinda í jörðu, raunverulega takmörkun á einkaeignarréttinum.

[17:15]

Ég tel það mjög miður, herra forseti, að þessi frv. stjórnarandstæðinga fengu ekki skoðun samhliða því frv. sem við fjöllum um í dag. Ég óskaði ítrekað eftir því, herra forseti, að þessi frv. stjórnarandstæðinga yrðu skoðuð samhliða þessu stjfrv. sem er auðvitað rétt og eðlilegt þar sem þau fjalla um sama efni. Við því var ekki orðið nema að litlu leyti, herra forseti, og því hlýt ég í þessari umræðu að draga fram nokkurn þann mismun sem er á þessum tveim frv. sem Sighvatur Björgvinsson flutti og síðan stjfrv. Alþýðubandalagsmenn munu að sjálfsögðu örugglega fjalla um það mál sem þeir hafa flutt þessu lútandi. En frv. sem jafnaðarmenn flytja felur í sér að tryggja einnig almannahagsmuni en ekki að styrkja í sessi sérhagsmuni landeigenda.

Meginmarkmiðið með frv. okkar jafnaðarmanna var að setja heildarlöggjöf um eignarhald á auðlindum í jörðu og um gjaldtöku fyrir réttindi til þess að rannsaka, leita að og nýta auðlindir í jörðu í sameign þjóðarinnar, að skilgreina með lögum sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar og einnig gjaldtöku fyrir réttindi sem veitt eru einstaklingum eða félögum til þess að leita að, rannsaka en þó fyrst og fremst til þess að nýta slíkar sameiginlegar auðlindir. Í greinargerð með því frv. er sagt orðrétt, herra forseti:

,,Flutningsmenn frumvarpsins vilja því að slík gjaldtaka fyrir nýtingu sameiginlegra auðlinda ásamt með gjaldtöku fyrir mengandi atvinnustarfsemi nýtist til þess að draga mjög verulega úr því rangláta skattkerfi sem einkennir nú tekjuöflun ríkisins, einkum og sér í lagi með lækkun á tekjusköttum einstaklinga.``

Í stórum dráttum felur frv. okkar jafnaðarmanna í sér að þar er í fyrsta lagi kveðið skýrt á um eignar- og hagnýtingarrétt ríkisins á auðlindum í jörðu utan afmarkaðra eignarlanda. Í öðru lagi er kveðið á um eignarrétt ríkisins að jarðefnum sem ekki hafa verið hagnýtt hér á landi þar sem þau hafa ekki fundist í nýtanlegu magni. Í þriðja lagi er kveðið á um eignarrétt ríkisins til orku háhitasvæða hvar sem er á landinu, með þeirri undantekningu að þeir sem hafið hafa nýtingu háhitasvæða fyrir gildistöku laganna haldi þeim rétti sínum áfram. Í fjórða lagi eru settar skýrar reglur um hvenær bætur skulu metnar fyrir tjón sem landeigendur telja sig verða fyrir vegna leyfisveitinga eða eignarnáms. Ég mun koma nokkuð ítarlega inn á það í mínu máli hér á eftir. Í fimmta lagi er í frumvarpinu að finna reglur um leyfisveitingar til leitar, rannsókna og nýtingar á þeim auðlindum sem frumvarpið tekur til. Einnig er mjög mikilvægt í því frv. að þar eru strangari ákvæði um umhverfismat en eru í gildandi lögum og eru í því stjfrv. sem við hér fjöllum um. Stjórnarandstæðingar hafa einmitt sett mikið út á það hvað umhverfisþátturinn er snautlegur í frv., fyrir náttúrlega utan meginefni þess, hvernig verið er að festa rétt landeigenda í sessi. Lagt er til í frv. okkar jafnaðarmanna að umhverfismat fari ávallt fram, þar sem það á við, áður en nýtingarleyfi eru veitt en ekki aðeins áður en framkvæmdir eru hafnar eins og nú er gert. Einnig er í frumvarpinu að finna reglur um vernd jarðhitasvæða, grunnvatns og þeirra svæða sem önnur jarðefni verða numin úr.

Ég held að það sé alveg nauðsynlegt þegar farið er í svona afdrifaríka breytingu sem ég spái, herra forseti, að muni kosta skattgreiðendur mjög mikið og stuðla að miklu meiri eignatilfærslu en við höfum séð áður, að fara nokkuð yfir forsögu þessa máls eins og hv. síðasti ræðumaður gerði svo ágætlega í sinni framsögu. Ég held að það sé mikilvægt að öllu sé haldið til haga í þessu efni þegar við erum að fara út í svona breytingar sem í mínum huga, herra forseti, eru engu þýðingarminni fyrir þjóðfélagið en það sem við vorum að fjalla um varðandi miðhálendið, geta verið eins afdrifaríkar og kannski kostað þjóðina miklu meira en við sjáum fyrir í dag. Þess vegna er þetta stjfrv. sem við nú fjöllum um í mínum huga fullt eins stórt og það frv. sem við höfum fjallað um í langan tíma varðandi miðhálendið.

Eignarhald á auðlindum í jörðu hefur lengi og raunar alla þessa öld verið deilumál og komið upp með jöfnu millibili á hv. Alþingi. Svo ég vitni í umræður sem urðu 1905 og nokkuð er vitnað til í frv. hv. þm. Sighvatar Björgvinssonar, þá urðu umræður á Alþingi um þingsályktunartillögu um námur í jörðu. Þá komu glöggt í ljós mismunandi skoðanir þingmanna á því hvaða stefnu bæri að fylgja um eignarhald á námum. Þar voru skoðanir skiptar og sumir þingmenn vildu að ríkið teldist eigandi þessara verðmæta en aðrir töldu að rétturinn væri best kominn hjá landeigendum. Frumvarp til námulaga var lagt fram á Alþingi 1905 og endurflutt 1907. Í því frumvarpi var miðað við þá meginreglu að íslenska ríkið ætti námuréttinn. Meiri hluti þingmanna hafnaði því hins vegar og landeigendastefnan var því lögð til grundvallar þeim námulögum sem samþykkt voru 1907. Þessari stefnu var haldið þegar ný námulög voru sett og aftur með lögum frá 1973 en þó með ýmsum takmörkunum. Landeigendastefnunni var einnig fylgt þegar lög nr. 98/1940, um jarðhita, voru sett og síðan þegar þau voru leyst af hólmi með III. kafla orkulaga, nr. 58/1967, með vissum takmörkunum.

Þessi tvö andstæðu sjónarmið um eignarhald settu einnig mark sitt á deilur sem urðu um eignarhald á fossum eins og glögglega kom fram í mismunandi áliti meiri og minni hluta fossanefndarinnar frá 1917. Meiri hlutinn vildi fylgja þeirri stefnu að vatnsafl væri eign þjóðarinnar en minni hlutinn taldi að slíkur réttur skyldi fylgja landareign. Það sérstæða var, eins og menn þekkja, að stefna minni hlutans varð ofan á þegar vatnalögin voru sett 1923, en þó var réttur landeigenda takmarkaður á ýmsan hátt.

Við þekkjum að deilur hafa verið um lög um jarðhita og einnig ákvæði gildandi orkulaga sem leystu þau af hólmi.

Það er full ástæða til þess, herra forseti, þegar við fjöllum um þessar miklu breytingar sem hér er verið að gera landeigendum í hag, þar sem verið er að festa þetta í sessi eins og hér á að gera og verið er að koma því svo fyrir að einkaeignarréttarsjónarmið hafi algjöran forgang og að landeigendur hafi ótakmarkaðan rétt að því er varðar það sem finnst hugsanlega á þeirra landareign jafnvel þó almannahagsmunir séu í húfi, að nefna, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds benti á, að þetta gengur í berhögg við skoðanir fræðimanna sem til eru margar lærðar bækur og rit um. Það er alveg sama hvað finnst í jörðum landeigenda, hvort heldur það er jarðhiti og hversu djúpur hann er, verðmætar námur eða olía o.s.frv., einkaeignarrétturinn er algerlega takmarkalaus að því er þetta frv. varðar. Þess vegna er ástæða til þess að rifja upp skoðanir Bjarna Benediktssonar á þessu og einnig skoðanir Ólafs Jóhannessonar sem hann setti fram á sínum tíma þar sem vissulega var verið að takmarka eignarréttinn en ekki gera hann takmarkalausan eins og þingmenn Framsfl. á árinu 1998 ætla að gera.

Ég hefði frekar haldið miðað við stefnu Framsfl. og Sjálfstfl. að sjálfstæðismenn væru að flytja þetta frv. og þeir hefðu fengið Framsfl. nauðbeygðan til þess að flytja það með sér. En svo er ekki, herra forseti. Það er Framsfl. sem er í forustu fyrir því að festa takmarkalausan einkaeignarrétt í sessi sem getur kostað þjóðina mikla fjármuni frá skattgreiðendum, en enginn veit hve mikla, á komandi árum.

Það er verið að leggja, herra forseti, fjárhagslegan bagga á börnin okkar og komandi kynslóðir með þeirri óheillaleið sem hér á að feta, herra forseti. Ég spái því að á komandi árum og í framtíðinni verði oft rifjað upp hvernig að þessu var staðið og hvaða skoðanir þingmenn höfðu á því herrans ári 1998 þegar var verið að lögfesta svo afdrifaríka breytingu. Það væri fróðlegt að fá að vita hjá löglærðum mönnum --- ekki veit ég hvort hæstv. iðnrh. veit það, það skiptir hann kannski engu máli --- hvort það sé gerlegt ef ný ríkisstjórn tekur við og helmingaskiptastjórnin sest á stjórnarandstöðubekkinn, að breyta þeim ákvæðum sem hér er verið að festa í sessi um ótakmarkaðan rétt landeigenda. Fyndist mér nú, herra forseti, að hæstv. ráðherra ætti að heiðra okkur með nærveru sinni þegar spurt er mikilvægrar spurningar eins og hvort eitthvað sé í hinum sterka einkaeignarrétti í stjórnarskránni sem segir að þegar búið er að festa svona í lög, þ.e. takmarkalausan rétt landeigenda, þá verði ekki aftur snúið. Þá getum við t.d. ekki eftir næstu kosningar þegar framsóknarmenn og sjálfstæðismenn væntanlega setjast á stjórnarandstöðubekkinn, breytt þessari óheillaleið sem þeir eru að leggja upp með landsmenn í vegna þess að auðvitað þurfa landsmenn, þjóðin og skattgreiðendur, að borga fyrir þetta.

Ég er ekki viss um, herra forseti, frekar en með miðhálendisfrv. sem þjóðin áttaði sig ekki á fyrr en farið var að ræða það mikið og ítarlega í þingsölum, að hún átti sig á því hvað stefnir í að lögfest verði hér á næstu dögum. Vera má að það sé nauðsynlegt að ræða þetta mál lengi og ítarlega til að koma því til skila út fyrir þinghúsið hvað hér sé á ferðinni, herra forseti.

[17:30]

Hinir ágætu fyrrum forustumenn Sjálfstfl. og Framsfl., Bjarni Benediktsson og Ólafur Jóhannesson, vildu fara aðra leið en nútímaframsóknarmenn og nútímasjálfstæðismenn vilja fara. Árið 1945 flutti Bjarni Benediktsson frv. til laga um viðauka við lög nr. 98/1940, um eignar- og notkunarrétt jarðhita, þar sem gert var ráð fyrir að leyfi ráðherra þyrfti til jarðborana er næðu dýpra en 10 metra. Nú erum við að tala um þetta ótakmarkað.

Árið 1957 var lagt fram stjfrv. um jarðhita. Samkvæmt því átti réttur landeiganda að ná til nýtingar niður á 100 metra dýpi en ríkið skyldi eiga rétt til jarðhita að öðru leyti. Það frv. var ekki útrætt.

Hér hefur Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarlögmaður, í marsmánuði fyrir sameiginlegan fund allshn., félmn., iðnn. og umhvn., gert góða samantekt um hálendið og auðlindir á jörðu innan eignarlanda, ákvæði þeim tengd í lögum og hvaða frumvörp og tillögur hafa verið flutt um það efni. Hann ræðir um þessi frumvörp sem fyrrum forustumenn Framsfl. og Sjálfstfl. fluttu. Þar segir hann varðandi frv. Bjarna Benediktssonar frá 1945, með leyfi forseta:

,,Árið 1945 flutti Bjarni Benediktsson frumvarp til laga um viðauka við lög nr. 98/1940 og var þar lagt til að leyfi ráðherra þurfi til jarðborana dýpra en 10 metra og tekið fram að þetta væri lagt til vegna þess að hætta gæti verið á því að jarðboranir spilltu hagnýtingu jarðhitans. Flutningsmaður taldi að þarna væri aðeins um almenna takmörkun á eignarréttinum að ræða, sem löggjafarvaldinu væri heimilt að setja, þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins.``

Þetta er nákvæmlega eins og hv. þm. Ragnar Arnalds lýsti svo vel áðan. Það er verið að festa í sessi einkaeignarréttinn og það gengur bersýnilega í berhögg við skoðanir ýmissa fræðimanna sem hafa fjallað um þetta mál í gegnum tíðina. Það að bera fyrir sig stjórnarskrána í þessu efni held ég, herra forseti, að sé afar hæpið. Ég tel ekki nauðsynlegt að haga málum eins og gera á í þessu frv., með vísan til stjórnarskrárinnar.

Um frv. Bjarna Benediktssonar segir:

,,Frumvarpið var flutt að ósk bæjarráðs Reykjavíkur. Frumvarpið var afgreitt með rökstuddri dagskrá, þar sem skorað var á ríkisstjórnina að láta fyrir næsta þing semja frumvarp um notkun jarðhita og eftirlit með jarðborunum.``

Varðandi frv. um rétt ríkisins til jarðhita neðan 100 metra kemur fram, í þessari samantekt Tryggva Gunnarssonar, með leyfi forseta:

,,Á Alþingi 1956 var flutt frumvarp til laga um jarðhita og var þar byggt á tillögum nefndar sem skipuð hafði verið árið 1954 til verksins. Meðal þeirra sem sæti áttu í nefndinni var Ólafur Jóhannesson, þá prófessor í lögum við lagadeild Háskóla Íslands. Í frumvarpinu var lagt til að rétti til umráða og hagnýtingar jarðhita í eignarlöndum yrði skipt þannig að landeigandi ætti rétt til að bora eftir jarðhita niður að 100 metrum og ekki nær landarmerkjum aðliggjandi landareignar en 200 metrum. Ríkið ætti hins vegar allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita, sem lægi dýpra eða væri sóttur dýpra en 100 metra undir yfirborð jarðar.``

Hér segir einnig að tillagan hafi einkum verið byggð á eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Með borun allt að 100 metrum muni jafnan fást nægilegur jarðhiti til heimilis- og búsþarfa, ef borun ber á annað borð hagnýtan árangur. Með slíkri borun væri því fullnægt öllum venjulegum þörfum landeiganda.

Dýpri boranir en 100 metrar væru svo kostnaðarsamar og árangur svo óviss, að útilokað væri að bændur eða aðrir landeigendur almennt leggi í slíkar framkvæmdir.

Kunnáttumenn töldu að jarðboranir innan við 100 metra gætu ekki spillt hagnýtingu jarðhita í nágrannaeign, ef borun færi ekki nær merkjum en 200 metra.

Skipting jarðhita, sem lægi dýpra en 100 metra á milli einstakra jarðeigna væri miklum vandkvæðum bundin og raunar lítt framkvæmanleg.

Með einni djúpri jarðborun gæti jarðhiti margra landareigna verið tæmdur. Það væri algerlega óeðlilegt að réttur til slíkrar jarðborunar væri í höndum landeiganda, þar sem einum einstökum þeirra væri þá e.t.v. veitt færi á að svipta aðra jarðeigendur möguleikum til nýtingar jarðhita. Í slíkar jarðboranir yrði ekki lagt, nema í sambandi við meiri háttar jarðhitamannvirki í almannaþágu, svo sem til hitaveitu eða iðnaðar. Væri eðlilegt að ríkið hefði ráðstöfunarrétt á jarðhita í þessu skyni.

Engin ákvæði væru í íslenskum lögum um takmörk fyrir rétti landeiganda niður á við í jörðina. Þó mætti ekki draga af því þá ályktun að eignarráð landeiganda næðu niður á ótakmarkað dýpi.`` --- Herra forseti. Það er ástæða til þess að endurtaka þetta: ,,Þó mætti ekki af því draga þá ályktun að eignarráð landeigenda næðu niður á ótakmarkað dýpi.``

Hér er enn staðfesting á því sem hv. þm. Ragnar Arnalds segir. Ræðumenn hafa aftur og aftur vitnað til þess að hér væri ekki um ótakmarkaðan rétt að ræða og væri hægt að vitna í það. Síðan segir:

,,Fræðimenn hefðu talið að eignarráð landeiganda ættu almennt að ná svo langt niður í jörðina, sem nauðsynlegt væri til þess að hann gæti haft þau not af landi sínu sem heyrðu til venjulegrar hagnýtingar á eignarrétti yfir fasteign. Löggjafarvaldið gæti þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttar sett almenn takmörk fyrir því hversu djúpt niður í jörðu eða hátt upp í loft eignarráð landeiganda skuli ná, enda væri eigi gengið óeðlilega nærri rétti landeiganda.``

Hvað með þessi ákvæði, herra forseti? Það væri út af fyrir sig fróðlegt að heyra hvað hæstv. iðnrh. segir um þessa skoðun fræðimanna. Við erum að vitna til merks manns, Ólafs Jóhannessonar. (SJS: Sú var tíðin að Framsfl. tók mark á honum.) Já það er rétt, þeir gerðu það lengi. Þeir eru alveg hættir því, þessir nútímaframsóknarmenn, á því herrans ári 1998, að taka mark á þeim merka fræðimanni og fyrrum forsrh., Ólafi Jóhannessyni. (Iðnrh.: Margt hefur nú breyst síðan 1956.) Margt hefur breyst frá 1956. Hvað hefur nú breyst? Jú, það hefur breyst að með helmingaskiptastjórn Framsfl. og Sjálfstfl. er að verða gífurleg eignatilfærsla hér á landi. Ég er viss um að Ólafur Jóhannesson, fyrrv. forsrh. og fræðimaður, hefði haft ýmislegt um það að segja hvernig nútímaframsóknarmenn fara með gögn og gæði þessa lands. Í umsögn Tryggva Gunnarssonar segir enn fremur, með leyfi forseta:

,,Hér væri ekki hægt að segja að gengið væri neitt nærri rétti landeiganda, þar sem hann geti eftir sem áður haft öll venjuleg not fasteignar sinnar, bæði þau, er hann þegar hefur, og þau sem menn almennt reikna með.``

Herra forseti. Þó ég hafi kannski skilning á því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson og Finnur Ingólfsson þurfi að ræða saman og ég ætli ekki, þó að ég eigi töluvert eftir af ræðu minni, að krefjast þess að ráðherrann sitji hér allan þann tíma, þá hefði ég viljað að hann hlustaði á það þegar ég er að vitna í mjög merka tillögu sem flutt var að tilhlutan nefndar sem í áttu sæti Ólafur Jóhannesson, þá prófessor í lögum við lagadeild Háskóla Íslands. Þar voru lögð til rök og efni í frv. um rétt ríkisins til jarðhita neðan 100 metra. Þar er haldið fram sem rökstuðningi með þeirri tillögu:

,,Löggjafarvaldið gæti þrátt fyrir ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttar sett almenn takmörk fyrir því hversu djúpt niður í jörð eða hátt upp í loft eignarráð landeiganda skuli ná, enda væri eigi gengið óeðlilega nærri rétti landeiganda. Hér væri ekki hægt að segja að gengið væri nærri rétti landeigenda ...`` Ég hef vitnað í ýmis önnur rök frá þessari ágætu nefnd sem styður að hægt sé að takmarka þessi réttindi en ekki gera þau ótakmörkuð eins og hér á að gera.

Herra forseti. Hæstv. ráðherra sagði úr sæti sínu með frammíkalli áðan að margt hefði breyst síðan. Því er alveg nauðsynlegt, þegar hæstv. ráðherra fær tækifæri til þess, að hann skýri það hér úr ræðustól hvað hafi breyst. Ekki hefur eignarréttarákvæðið í stjórnarskránni breyst. Hvað er það sem hefur breyst síðan, sem gerir það nauðsynlegt að festa í sessi eins og hér á að gera, ótakmarkaðan eignarrétt landeigenda sem greiða þarf að fullu ef almenningur eða þjóðin þarf að nýta einhver verðmæti á landareign þeirra? Um það vil ég í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra hvað hafi breyst.

Í öðru lagi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið skoðað í ráðuneyti hans að, ef þessi óskapnaður hér verður lögfestur sem ég held að sé ógæfuspor fyrir þjóðina, verður þá yfirleitt hægt að breyta þessu ákvæði. Verður kannski með vísan í stjórnarskrána um að eignarrétturinn hafi verið festur þannig í sessi með þessum lögum, þegar framsóknarmenn fara væntanlega á stjórnarandstöðubekkina eftir næstu kosningar, ekki hægt að breyta þessu ákvæði? Ég held að það sé mikilvægt að fá það fram vegna þess að ég held að þetta séu mjög afdrifarík ákvæði sem hér á að binda í lög varðandi einkaeignarrétt landeigenda.

Í orkulögum frá 1967 segir:

,,Landareign hverri fylgir réttur til umráða og hagnýtingar jarðhita úr landareigninni, þó með takmörkunum þeim, sem lög þessi tilgreina.`` Þar var kveðið á um að landeigandi eigi rétt á að hagnýta sér jarðhita eins og honum þykir best henta til heimilisþarfa, framleiðslu og iðnaðar.

Þá kom frv. um að jarðhiti á háhitasvæðum skuli vera eign ríkisins. Frv. til breytinga á orkulögum var flutt 1973. Það var um að ríkið ætti allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita á háhitasvæðum, en landareign hverri fylgdi réttur til umráða og hagnýtingar hvera og jarðhita á lághitasvæðum og náttúrulegs jarðhita á yfirborði landareignarinnar á háhitasvæðum.

Frumvarpið 1973 byggði á því að með lögunum væri verið að setja eignarráðum fasteignaeigenda almennar takmarkanir. Nýting háhitaorkunnar taldist ekki til þeirra nota af landi sem heyrði til venjulegrar hagnýtingar og eignarrétti yfir fasteignum. Verðmæti hennar í jörðu hefði ekki orðið til fyrir mannlega starfsemi.

Þetta eru allt innlegg í það sem við sem tölum gegn þessu frv. erum að segja. Það eru engin rök fyrir því að festa einkaeignarréttinn svo í sessi hjá landeigendum eins og hér á að gera.

Síðan er ágætt að vitna til iðnn. neðri deildar Alþingis sem leitaði árið 1973 eftir umsögn lagadeildar Háskóla Íslands um frv. um að jarðhiti á háhitasvæðum skuli vera eign ríkisins. Hjá lagadeild háskólans kemur fram, með leyfi forseta:

[17:45]

,,Af því sem að framan hefur verið rakið, kemur skýrt fram, að heimild til hagnýtingar jarðhita með borunum á háhitasvæðum skuli vera ríkiseign, án tillits til þess, hve ofarlega jarðhitinn er í jörðu. Er jafnframt gengið út frá því að ríkið muni framvegis sjálft hagnýta jarðhita með borunum eða heimila það öðrum gegn gjaldi. Samkvæmt núgildandi lögum á landeigandi að jafnaði rétt til hagnýtingar jarðhita og jarðefna, sem eru undir yfirborði lands hans. Vafi leikur hins vegar á hve langt hagnýtingar- og umráðaréttur landeiganda nái í jörðu niður. Þar sem ákvæði frv. áskilja hins vegar ríkinu jarðhita undir yfirborði jarðar á háhitasvæðum, án tillits til þess hve djúpt hann liggur í jörðu, verður að ætla að frv. hafi í för með sér, ef að lögum verður, að eigendur jarðhitaréttinda á þessum svæðum verði sviptir heimild sinni samkvæmt núgildandi lögum til að hagnýta jarðhita undir yfirborði jarðar með borunum.`` --- Aðeins síðar segir: ,,Með lögum þessum eru eignarrétti einstaklinga sett tiltekin almenn takmörk án þess að bætur komi fyrir en heimild löggjafarvaldsins til að setja eignarréttindum almennar takmarkanir er fyrir löngu viðurkennd af dómstólum.``

Herra forseti. ,,Heimild löggjafarvaldsins til að setja eignarréttindum almennar takmarkanir er fyrir löngu viðurkennd af dómstólum.`` Af hverju er það ekki gert í þessu frv.? Hvaða réttindi er verið að færa landeigendum? Hvað getum við staðið frammi fyrir miklum bótum í komandi framtíð sem skattgreiðendur þurfa að greiða? Hefur það verið tekið saman? Ég spyr ráðherrann um það, herra forseti. Hvað hefur þegar verið greitt í eignarnámsbætur? Liggur eitthvað fyrir um það? Hefur það verið tekið saman af hálfu iðnrn. með tilliti til þeirra áforma sem eru í atvinnumálum, stóriðjuáforma og fleiri þátta sem lýtur að atvinnurekstrinum í landinu? Kalla þau áform og þær áætlanir sem þar eru á að það þurfi að nýta land sem er í eigu jarðeigenda og greiða þeim eignarnámsbætur fyrir?

Eins og hér segir kemur fram að það er hægt að setja eignarréttinum almennar takmarkanir, það er fyrir löngu viðurkennt af dómstólum. Síðan segir:

,,Þarna er byggt á því að fyrrgreindar skerðingar á jarðhitaréttindum hafi ekki í för með sér skyldu til greiðslu eignarnámsbóta. Þrátt fyrir það er ástæða til að ætla að frv. verði skýrt þannig, ef það verður að lögum, að eignarskerðingar þessar skuli koma til framkvæmda við gildistöku laganna en hins vegar beri að greiða þeim aðilum bætur, sem sviptir hafa verið réttindum sínum til að hagnýta jarðhita með borunum, ef um verðmæt réttindi er að ræða. Niðurstaða lagadeildar er því sú að ofangreint frv. feli ekki í sér stjórnarskrárbrot ef það verður að lögum.``

Í samantekt Tryggva Gunnarssonar frá 2. mars er líka vitnað til afmælisrits Gauks Jörundssonar frá 1994 um eignarhald á landi og náttúruauðlindum en þar segir, með leyfi forseta:

,,Þótt það sé ekki talið vafa bundið samkvæmt framansögðu að réttur landeigenda nái jafnt til umráða og nota undir yfirborði sem yfir því, er meira vafamál hver mörk verði að setja þessum eignarráðum landeiganda. Markalínan hefur ekki verið dregin við ákveðna dýpt heldur hefur verið lagt til grundvallar að miða verði við þær kröfur sem eðlilegt sé að viðurkenna af tilliti til hagsmuna landeiganda.``

Mér þótti sérlega athyglisvert, og vil ég draga það fram í lokin áður en ég vík frá samantekt Tryggva Gunnarssonar, sjónarmið Bjarna Benediktssonar þar sem fram kom í þeirri nefnd og rökstuðningi hennar þegar flutt var frv. til laga um jarðhita. Í þeirri nefnd átti m.a. Ólafur Jóhannesson sæti en þar voru allt önnur sjónarmið uppi og greinilegt að menn töldu rétt, eðlilegt og sanngjarnt að takmarka með einhverjum hætti einkaeignarrétt jarðeigenda að því er varðar t.d. rétt ríkisins til jarðhita.

Ég hef farið yfir eldri frumvörp um auðlindir og nokkuð yfir sögu þessa máls og fer að koma að kaflaskiptum þar sem ég mun fara nokkuð ítarlega í það frv. sem við ræðum hér en í lokin vil ég þó vitna til þess að þegar frv. til núgildandi orkulaga var lagt fram á Alþingi 1966 var lögð fram brtt. við 3. gr. þess en sú grein fjallar um að réttur til jarðhita skuli fylgja landareign. Brtt. var svohljóðandi:

,,Jarðhitinn í jörðu niðri er eign þjóðarinnar. Alþingi ákveður hverju sinni með löggjöf um umráðarétt og hagnýtingu hans.``

Tillaga þessi var felld í neðri deild og síðan hefur á síðustu tveimur áratugum, eins og ég vitnaði til í upphafi míns máls, flest árin á þessum tveimur áratugum verið lögð fram á Alþingi frv. um eignarhald á jarðhita. Oft hafa það verið þingmannafrumvörp en einnig hefur verið um að ræða stjfrv. og öll hafa þau miðað að því að takmarka umráða- og hagnýtingarrétt landeigenda ýmist miðað við ákveðið hitastig eða dýpt.

Hvar hafa deilurnar staðið? Þær stóðu þá kannski eins og við erum að deila um í dag um þá spurningu sem hefur risið hvað hæst, hvort landeigendur ættu stjórnarskrárvarinn rétt til alls jarðhita undir landi sínu eða hvort heimilt væri að takmarka rétt þeirra án bóta. Ég tel, herra forseti, og segi það enn og aftur að mér finnst að stjórnarliðar skuldi okkur að færa betri rök fyrir máli sínu en þeir hafa gert um að nauðsynlegt sé að festa eignareinkaréttinn í sessi með þeim hætti sem hér er gert vegna þess að ekki hefur staðið upp á okkur stjórnarandstæðinga að flytja rök fyrir því að ekki sé nauðsynlegt að skipa málum með þeim hætti sem hér er gert með tilvísan til stjórnarskrárinnar.

Ég ætla aðeins, herra forseti, áður en ég vík frá því frv. sem fékkst ekki mikið rætt í nefndinni, þ.e. hv. iðnn., frv. okkar jafnaðarmanna, að vísa til þess sem segir í greinargerð með því frv.:

,,Æ brýnna verður að skýra hvernig eignar- og hagnýtingarrétti á auðlindum í jörðu utan afmarkaðra eignarlanda eigi að vera háttað. Óraunhæft er að leggja út í kostnaðarsamar framkvæmdir við rannsóknir og nýtingu slíkra auðlinda meðan ekki er skýrt hver eigi rétt til auðlindanna. Um er að ræða kostnaðarsamar rannsóknir og framkvæmdir sem ljóst er að einstaklingar geta ekki lagt í einir síns liðs. Eðlilegt er að ríkið komi þar inn til að tryggja hagnýtingu þeirra auðlinda sem finnast eða finnast kunna í jörðu í framtíðinni. Með þeim rökum er eðlilegt að kveða á um að ríkið eigi umráða- og hagnýtingarrétt á auðlindum í jörðu sem finnast utan afmarkaðra eignarlanda.``

Síðan er nokkuð langur kafli í frv. jafnaðarmanna undir forustu Sighvats Björgvinssonar sem fjallar um eignar- og hagnýtingarrétt jarðhita sem ég ætla ekki að fara að lesa frá orði til orðs en grípa niður í tvo, þrjá örstutta kafla í greinargerðinni með leyfi forseta. Mér finnst þetta hafa þýðingu og mikið innlegg í það sem við erum að ræða hér, þ.e. frv. hæstv. iðnrh.:

,,Nýtanlegt varmaafl háhitasvæðanna er talið vera um 90 af hundraði alls varmaafls jarðhitasvæða landsins. Telja má líklegt að háhitasvæðin verði á næstu áratugum nýtt fyrst og fremst til stóriðju, raforkuvinnslu og hitaveitu í þéttbýli. Slík nýting yrði tæpast á færi einstaklinga heldur í höndum ríkis, sveitarfélaga eða stórra fyrirtækja.``

Síðan er vitnað til þess að varmavinnsla úr háhitasvæðum er mun erfiðari en vinnsla lághitasvæða og segir svo:

,,Af þessum sökum m.a. er nýting varma á háhitasvæðum svo vandasöm að einstaklingar hafa ekki sóst eftir henni. Helst hefur verið um að ræða nýtingu vatns við jaðra svæðanna með svipuðum hætti og nýtingu lághitavatns.

Á undanförnum árum hefur verið unnið nokkuð að áætlunum um nýtingu háhitasvæða. Einn þröskuldur í vegi slíkra áætlana hefur verið óvissa um umráðarétt á jarðhita sem unninn er með borunum djúpt í jörðu. Tilgangur þessara laga er að kveða skýrar á en verið hefur um eignarrétt slíks jarðhita.

Með tilliti til framangreinds er í lagafrumvarpi þessu greint á milli eignar- og hagnýtingarréttar á jarðhita eftir því hvort hann er að finna á háhitasvæðum eða lághitasvæðum.

Í frumvarpinu er lagt til að jarðhiti á lághitasvæðum og jarðhiti á yfirborði háhitasvæða innan marka lands sem háð er einkaeignarrétti sé eign landeigenda en allur annar háhiti í jörðu hvar sem er á landinu sem og lághiti á afréttum og almenningum verði eign ríkisins. Þó skulu þeir sem borað hafa eftir jarðhita á háhitasvæðum og byrjað vinnslu hans eða varið verulegum fjármunum til undirbúnings slíkra framkvæmda hafa þann rétt óskertan áfram. Óheimilt er að aðrir aðilar en ríkið og þeir sem leyfi ríkisvaldsins fá bori eftir jarðhita á háhitasvæðum.``

Herra forseti. Síðan kem ég að þeim mismun sem er á stjfrv. og frv. okkar jafnaðarmanna en í frv. okkar jafnaðarmanna segir:

,,Meginreglan er sú að landeiganda skal bætt allt það tjón sem hann verður sannanlega fyrir af völdum framkvæmdanna.

Með lögum þessum er eignarrétti einstaklinga sett tiltekin almenn takmörk án þess að bætur komi fyrir en heimild löggjafarvaldsins til að setja eignarréttinum almennar takmarkanir eru fyrir löngu viðurkennd af dómstólum. Telji landeigandi engu að síður að eignarréttindi hans skerðist vegna ákvæða frumvarpsins um eignarrétt ríkisins á orku jarðhitasvæða skal hann bera fram bótakröfur við iðnaðarráðherra fyrir ákveðið tímamark. Hugsanlegar bætur skulu miðast við sannanlegt tjón. Á sama hátt og varðandi jarðefni getur ríkið fallið frá eignarrétti sínum með einfaldri yfirlýsingu þar um.``

Um þetta ákvæði hvernig bæta eigi landeigendum það tjón sem þeir verða fyrir segir í frv. Sighvats Björgvinssonar:

,,Hér er að finna meginreglu um mat á því tjóni sem landeigendur verða fyrir ef ráðherra veitir öðrum aðilum leyfi til rannsóknar og hagnýtingar á jarðefnum og jarðhita á eignarlandi viðkomandi landeiganda. Er meginreglan sú að þeir eiga rétt á bótum fyrir það tjón sem þeir verða fyrir en hins vegar ekki vegna tapaðs hagnaðar af því að nýta viðkomandi auðlind sjálfir ef þeir hefðu til þess getu og ekki heldur til hlutdeildar í framtíðarhagnaði þess sem auðlindina nýtir.``

Það er kjarnaatriði, herra forseti, að bæta landeigendum, að þeir eigi rétt á bótum fyrir það tjón sem þeir verða sannanlega fyrir en hins vegar ekki vegna tapaðs hagnaðar af því að nýta viðkomandi auðlind sjálfir ef þeir hefðu til þess getu og ekki heldur til hlutdeildar í framtíðarhagnaði þess sem nýtir auðlindina.

Ég vil á þessu stigi ræðu minnar, herra forseti, fara í það sem segir um eignarnáms- og bótaákvæði í frv. hæstv. iðnrh. þannig að menn hafi samfellu í þessu og geti þá borið saman þann mismun sem er á þessum tveimur frv., annars vegar frv. okkar jafnaðarmanna þar sem almannahagsmunir eru hafðir að leiðarljósi en ekki að um algeran forgang jarðeigenda sé að ræða og forréttindi þeirra og raunar sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna. En um eignarnáms- og bótaákvæði er að finna í 28. gr. þess frv. sem við fjöllum um, 29. og 30. gr. Þar segir, með leyfi forseta:

[18:00]

,,Samkvæmt III. og IV. kafla frumvarpsins getur ráðherra veitt öðrum en landeiganda rannsóknar- og nýtingarleyfi. Skv. 26. gr. er landeiganda enn fremur skylt að veita leyfishöfum óhindraðan aðgang að eignarlandi og hlíta ákvæðum leyfis þar að lútandi. Verði landeigandi fyrir tjóni af þeim sökum á hann því rétt á bótum fyrir tjón sem hann sýnir fram á. Náist ekki samkomulag um bætur skal ákveða þær með eignarnámsmati.``

Í athugasemdum um 29. gr. segir:

,,Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. frumvarpsins skal nýtingarleyfishafi óska eftir mati á endurgjaldi fyrir auðlind innan tiltekins tíma frá útgáfu leyfis náist ekki samkomulag þar að lútandi. Um slíkt mat er vísað til þessarar greinar, þ.e. að um eignarnámsmat skuli vera að ræða. Ákvæði 1. mgr. 29. gr. segir að ráðherra geti tekið auðlindir eignarnámi ásamt nauðsynlegu landi, mannvirkjum, aðstöðu til vinnslu auðlinda og öðrum réttindum landeiganda. Ráðherra afhendir nýtingarleyfishafa hin eignarnumdu verðmæti. Leyfishafi ber allan kostnað af eignarnáminu.

Í 2. mgr. er almenn eignarnámsheimild til handa ráðherra til nýtingar á auðlindum, svo og til að koma í veg fyrir að nýting hefjist sem spillt geti þegar hafinni nýtingu. Þetta gæti sérstaklega átt við borun eftir jarðhita eða vatni.``

Í athugasemdum við 30. gr. er sérstaklega fjallað um endurgjald til landeigenda. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Í þessari grein er nýmæli þess efnis að landeigandi eigi val um það hvernig endurgjald fyrir auðlind verði metið og hvernig útgreiðslu þess verði háttað, annars vegar að endurgjald fyrir auðlindirnar verði metið sem bætur sem greiðast í einu lagi`` --- hann hefur þar val --- ,,eða hins vegar sem árleg greiðsla meðan vinnsla auðlindar samkvæmt nýtingarleyfi stendur yfir.`` Það er hvergi dregið úr, herra forseti, fullar bætur skulu það vera, ótakmarkaðar bætur sama hverra nota almannahagsmunir krefjast í landi þessara landeigenda. Síðan segir áfram:

,,Bætur fyrir annað en endurgjald ber að meta sérstaklega. Lagt er til að landeigandi hafi 45 daga frest til þess að taka ákvörðun hér að lútandi frá því að ákvörðun um eignarnám er tekin eða óskað hefur verið eftir mati.

Í 2. mgr. er kveðið á um hvernig ákvarða skuli bætur sem greiddar eru sem árleg greiðsla meðan vinnsla auðlindar samkvæmt nýtingarleyfi stendur yfir. Lagt er til að bæturnar verði ákveðinn hundraðshluti eða önnur fastákveðin eining miðað við verðmæti á tilteknu vinnslustigi. Ákvarða verður hvort miða skuli við söluverðmæti fullunninnar auðlindar ...``

Að hugsa sér þetta, herra forseti: ,,Ákvarða verður hvort miða skuli við söluverðmæti fullunninnar auðlindar ...`` Þarna sést einmitt mismunurinn á frv. okkar jafnaðarmanna þar sem þessi mál eru tekin öðrum tökum að því er varðar bótagreiðslu til landeigenda. Þar er meginreglan sú að eigendur eigi rétt á bótum fyrir það tjón sem þeir verða fyrir en hins vegar ekki vegna tapaðs hagnaðar af því að nýta viðkomandi auðlind sjálfir, ef þeir hefðu til þess getu, og ekki heldur vegna hlutdeildar í framtíðarhagnaði þess sem auðlindina nýtir. Í frv. því sem greinilega er stefnt að því að lögfesta er hins vegar sagt: ,,Ákvarða verður hvort miða skuli við söluverðmæti fullunninnar auðlindar``. Eitthvað hlýtur það að kosta skattgreiðendur framtíðarinnar ef þau verðmæti finnast í jörðu landeiganda sem almenningur þarf að nýta. Þegar búið er að tala um söluverðmæti fullunninnar auðlindar er haldið áfram:

,,Ákvarða verður hvort miða skuli við söluverðmæti fullunninnar auðlindar eða hvort nota eigi aðrar viðmiðanir. Heimilt er að tengja endurgjald að nokkru eða öllu leyti við afkomu viðkomandi vinnslu.`` --- Hér er hvergi dregið af, herra forseti, þegar talað er um bætur til landeigenda. --- ,,Þannig kemur til greina að miða afkomu viðkomandi námu við vinnslu jarðefna. Í niðurlagi greinarinnar er kveðið á um að í matinu skuli ákvarða gjalddaga greiðslunnar, hvort hún skuli endurskoðuð og hvort og hvernig skuli setja fram tryggingu að kröfu landeiganda.

Landeigandi hefur samkvæmt þessari grein val um það hvort hann fær bætur greiddar með eingreiðslu sem metnar eru út frá líkum og áætlunum um verðmæti og magn eða fær bætur jafnóðum sem taka mið af því hvernig vinnsla gengur. Ljóst er að ekki er hægt að gefa tæmandi leiðbeiningar um mat en í 2. mgr. er þó lagður til ákveðinn rammi utan um það mat.``

Herra forseti. Ég taldi nokkuð brýnt að fara ítarlega í þessar greinar um eignarnáms- og bótaákvæði sem fela m.a. í sér meginmuninn á þessum tveimur frv. Hvort skyldi nú vera hagstæðara fyrir skattgreiðendur framtíðarinnar, ákvæðið í frv. okkar jafnaðarmanna eða það sem er í frv. iðnrh.? Tvímælalaust, herra forseti, það sem er í frv. okkar jafnaðarmanna. Hvort er hagstæðara fyrir landeigendur, þ.e. sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna? Það má finna í frv. iðnrh. sem hér er greinilega stefnt að að lögfesta á þessu þingi. Ég tel mig því vera að sýna fram á að við erum ekki að fjalla um minni hagsmuni en eru t.d. í miðhálendisfrv., sem mikið var deilt um. Það er full ástæða til þess að taka 11 daga til þess að ræða þetta frv., eða voru þeir ekki það margir sem fóru í umræður um miðhálendismálið? Mér sýnist að hér sé það stórt mál á ferðinni, herra forseti.

Síðan vildi ég líka minnast á, áður en ég vík frá frv. okkar jafnaðarmanna, það sem segir um gjaldtöku fyrir leyfisveitingar. Þar segir:

,,Í leyfum, sem veitt eru samkvæmt lögum þessum, skal greina þau skilyrði sem leyfishafa eru sett, þar á meðal um gildistíma leyfis, skýrslugjöf leyfishafa, skyldu hans til að hlíta eftirliti og greiða kostnað af því, um öryggis- og umhverfisverndarráðstafanir, kaup vátrygginga vegna hugsanlegrar skaðabótaábyrgðar leyfishafa og um greiðslu leyfisgjalds.``

Ég tel að hér sé um mjög skynsamlegar málsmeðferðarreglur að ræða sem settar eru í þessu frv.

Herra forseti. Ég hef engan veginn farið ítarlega yfir þetta frv. okkar jafnaðarmanna en taldi þó nauðsynlegt að gera það til þess að sýna fram á þær leiðir sem við mundum velja að því er varðar eignarhald á auðlindum í jörðu í staðinn fyrir þá leið sem stjórnarflokkarnir vilja fara.

Minni hlutinn hefur flutt sérálit við það frv. sem hér um ræðir sem ég skrifa undir ásamt hv. þm. Gísla S. Einarssyni og Svavari Gestssyni. Þetta nál. er ekki mikið að vöxtum en kemur þó að kjarna málsins, sem við höfum verið að ræða í dag. Meginniðurstaða okkar, þegar við höfum farið yfir þessi atriði, sýnt fram á hve hér er hættulegt mál á ferðinni sem muni kosta mikið í framtíðinni, er að við viljum að þessu máli verði vísað til ríkisstjórnarinnar. Við drögum þá ályktun að hér sé um að ræða gífurlega eignatilfærslu á hendur fárra á kostnað almannahagsmuna. Það er kjarnaatriðið í boðskap okkar, herra forseti.

Ég ætla að drepa aðeins á það sem fram kemur í þessu nál. Þar eru kannski þrjú eða fjögur kjarnaatriði sett fram. Frv. felur í sér, eins og við þekkjum, að allar auðlindir í og á jörðu í löndum í einkaeign séu eign landeigenda. Í minnihlutaálitinu segir, með leyfi forseta:

,,Þessi ákvæði stríða í grundvallaratriðum gegn frumvörpum þeim sem fyrir liggja í þinginu um sama efni frá stjórnarandstöðunni, þ.e. frumvarp Sighvats Björgvinssonar o.fl. og frumvarp Hjörleifs Guttormssonar o.fl., en í frumvarpi þessu er lagt til að djúphiti í jörðu, kol, olía, gas, málmar og fleiri jarðefni séu þjóðareign. Má því segja að í þessu máli komi einkar skýrt fram sá grundvallarágreiningur sem uppi er milli þeirra flokka sem nú eru í stjórnarliði annars vegar og stjórnarandstöðu hins vegar.``

Við drögum það einnig fram að við teljum áherslur í umhverfismálum mjög snautlegar í því frv. sem iðnrh. ber fyrir þingið og teljum að ætlunin sé að sniðganga umhverfisstofnanir ýmiss konar. Ég mun aðeins koma að því síðar í máli mínu og vitna þá í umsagnir þessara aðila. Síðan er vert að minnast á það ágreiningsefni sem ég fór yfir varðandi útleigu og gjaldtöku fyrir afnot einkaaðila af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sem er stórmál, herra forseti, og ég hef sýnt fram á með því að bera saman ákvæðin í þessum tveim frv. Í stjfrv. er gert ráð fyrir því að ráðherra fái sjálfdæmi um að leigja hverjum sem er hvað sem er fyrir hvaða fjárhæð sem er. Stjórnarandstæðingar vilja hins vegar setja skýrar málsmeðferðarreglur um leigu afnotaréttar þar sem m.a. fulls jafnræðis sé gætt og skýrar reglur um afnotagjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs eða lögum um útboð.

Það sem við teljum vanta í frv. er:

,,að ekki er fjallað nægilega um eignar- og hagnýtingarrétt ríkisins á auðlindum í jörðu utan afmarkaðra eignarlanda,

að ekki er kveðið á um eignarrétt ríkisins að jarðefnum sem ekki hafa verið hagnýtt hér á landi þar sem þau hafa ekki fundist í nýtanlegu magni, þvert á móti eru þessi auðæfi afhent landeigendum,

að óljóst er kveðið á um eignarrétt ríkisins á orku háhitasvæða,

að ekki eru settar skýrar reglur um hvernig bætur skuli metnar fyrir tjón sem landeigendur telja sig verða fyrir vegna leyfisveitinga eða eignarnáms.``

Það er alveg ótækt, herra forseti, að skilja þannig við þau ákvæði þessa frv. sem að því lúta. Síðan vantar málsmeðferðarreglur sem við bendum hér á:

,,að í frumvarpið vantar skýrar reglur um leyfisveitingar til leitar, rannsókna og nýtingar á þeim auðlindum sem frumvarpið tekur til, svo og ákvæði um gjaldtöku fyrir réttindi til þess að leita að, rannsaka og nýta þær auðlindir,

að ekki eru í frumvarpinu nægjanleg ákvæði um umhverfismat umfram þau sem eru í gildandi lögum.``

Þetta er stórt mál, herra forseti, sem við í stjórnarandstöðunni, í hverju málinu á fætur öðru, leggjum gífurlega áherslu á, síðast í því frv. sem við fjölluðum um varðandi auðlindirnar.

Í nál. okkar bendum við á að það er ágreiningur um meðferð ýmissa meginatriða á milli vísindamanna sem komu til viðræðna við nefndina um frv. Við bendum á það að einn viðmælenda nefndarinnar, sem ræddi sérstaklega um erfðaefni, sagði að erfðaefni sem slíkt væri ekki lifandi, sem brýtur í bága við skilgreiningu annars viðmælanda um að þau séu hluti hinnar lifandi náttúru.

Við fórum á mörgum fundum, klukkutíma eftir klukkutíma, í gegnum það með umhverfisverndarmönnum að skýrari ákvæði skortir um rannsóknir og nýtingarrétt og strangari ákvæði um náttúruvernd. Þá kom einnig fram nauðsyn þess að taka á ýmsum atriðum varðandi yfirráð með skýrum lagaákvæðum, um að þessi lög haggi ekki þeim lögum sem í gildi eru og yfir það ætla ég að fara í síðasta kafla ræðu minnar. Það er aðallega það sem snýr að umhverfisþáttunum í þessu frv. sem við teljum að illa sé frá gengið.

[18:15]

Þær athugasemdir sem ég staldraði helst við hvað þennan þátt varðar komu frá Náttúrufræðistofnun Íslands. Þær athugasemdir voru mjög hnitmiðaðar og þess efnis að full ástæða var til að taka mark á þeim. Mér fannst forstjóri Náttúrufræðistofnunar flytja það sterk rök fyrir máli sínu að ástæða væri til að skoða málið með öðrum hætti en niðurstaða varð um í nefndinni eða meiri hlutinn vildi fylgja. Einnig komu fram mjög veigamiklar ábendingar frá Náttúruvernd ríkisins sem nefndin fór ítarlega yfir.

Í athugasemdum Náttúruverndar ríkisins segir:

,,Náttúruvernd ríkisins telur að ofangreint frv. uppfylli ekki þessi atriði.`` Hvað er þá verið að vísa í? Það er verið að vísa í núgildandi lög um nýtingu auðlinda í jörðu sem eru að stofni til frá 1967 og 1973 og því löngu orðið tímabært að endurskoða þau. Síðan segir:

,,Um leið má gera ráð fyrir að ný lög taki mið af aðstæðum og viðhorfum nútímans, þar með talið varðandi sjálfbæra þróun, skynsamlega nýtingu og náttúruvernd. Náttúruvernd ríkisins telur að ofangreint frv. uppfylli ekki þessi atriði. Frumvarpið stangast einnig á við veigamikil og mörg atriði í framkvæmdaáætlun umhverfiráðuneytisins, Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, sem samþykkt var af ríkisstjórninni í febrúar 1997``.

Það er náttúrlega mjög alvarleg athugasemd að ýmis ákvæði í frv. stangist í veigamiklum atriðum á við framkvæmdaáætlun umhvrn. um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Mér fannst ekki gefast nægjanlega góður tími, herra forseti, þótt nefndin hefði vissulega farið ítarlega yfir málið, til að bera saman þessi ákvæði í framkvæmdaáætlun umhvrn. um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi til að geta áttað mig nægjanlega á því hvort full rök væru á bak við þá fullyrðingu sem er nokkuð alvarleg.

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Af gefnu tilefni vill Náttúruvernd ríkisins benda á að lög og reglur um efnisvinnslu utan netlaga er ábótavant. Stofnunin telur eðlilegt að ákvæði laga um eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda í jörðu nái lengra út en að netlögum. Ákvæði laga nr. 73/1990 er ófullnægjandi, einkum hvað varðar leyfisveitingu og eftirlit með framkvæmdum, sbr. umsögn stofnunarinnar um aðra liði frumvarpsins.``

Síðan er farið út í veitingu rannsóknarleyfa þar sem þeir gera athugasemdir við og lögð fram ósk um að bætt verði við ákvæði 5. gr. frv.: ,,Áður en leyfi er veitt skal leita umsagnar Orkustofnunar og Náttúruverndar ríkisins`` --- og færa rök fyrir því að það væri nauðsynlegt, herra forseti, varðandi veitingu rannsóknarleyfa.

Síðan fóru þeir í nýtingu lausra jarðefna sem mér fannst mjög athyglisvert en þeir segja:

,,Náttúruvernd ríkisins bendir á að 8. gr. er efnislega samhljóða 3. gr. námulaga, nr. 24/1973. Þessi ákvæði eru alls ófullkomin og í engu miðuð við ríkjandi viðhorf, starfsaðferðir og stjórnsýslu í dag. Ekkert ákvæði er um skipulagningu eða frágang eftir vinnslu. Ekkert er kveðið á um eftirlit eða varúð t.d. vegna merktra náttúruminja eða annarra verðmæta.``

Herra forseti. Þetta eru náttúrlega töluvert alvarlegar ábendingar sem koma fram af hendi þeirra sem fjalla um náttúruvernd og hafa til þess gersta þekkingu. Ég held það hafi verið þeir sem létu fylgja með mjög ítarlegt plagg um hvernig þessum málum er háttað í dag og hve ófullkomin ákvæðin eru og hvernig með hefur verið farið þannig að full ástæða er til að taka mark á því sem þarna kemur fram og gera þá viðeigandi ráðstafanir annaðhvort í þessum eða öðrum lögum eins og námulögum.

Herra forseti. Í athugasemdum frá Náttúruvernd ríkisins er á mörgum síðum farið yfir orsakir núverandi ástands að því er varðar námur á Íslandi og það er ófögur lýsing. Full ástæða væri til að lesa yfir orsakir núverandi ástands og tillögur til úrbóta sem er náttúrlega mjög þýðingarmikið að því er varðar umgengnina í þessu efni. Ég vil þó benda á samantektina, hún er til fyrir þá sem vilja kynna sér hana. Mér fannst það nokkuð fróðleg lesning hvernig þeir benda á ástandið í dag og hvaða tillögur eru til úrbóta og mun þá vafalaust, herra forseti, ef ástæða er til í síðari ræðu minni fara nákvæmlega yfir það sem þeir benda á að því er varðar umgengnina um námurnar. Síðan segja þeir:

,,Nauðsynlegt er að fyrir liggi mat á efnisgæðum og landgæðum einstakra náma og landsvæða áður en ráðist er í framkvæmdir auk þess sem stofnunin telur að forðast eigi efnistöku í vissum jarðmyndunum og landsvæðum. Náttúruvernd ríkisins bendir á ýmis gögn sem fjalla um ástand efnistökumála og tillögur þar að lútandi.`` --- Sem ég var að vitna í og hefði auðvitað verið, herra forseti, full ástæða til að fara hér yfir þó ég vilji geyma mér það til betri tíma.

Í annarri umsögn sem þeir sendu síðan nefndinni sem er dags. 14. apríl, hin fyrri sem ég var að lesa upp úr er dags. 12. apríl, ítreka þeir það og segja:

,,Náttúruvernd ríkisins ítrekar þá skoðun sína að bæta þurfi til muna lagaákvæði um nýtingu auðlinda í og á sjávarbotni utan netlaga`` sem ég vitnaði til áðan og þeir drógu það alveg sérstaklega fram. Þeir segja um gjaldtöku fyrir leyfisveitingar og auðlindanýtingu að ,,Náttúruvernd ríkisins leggur til ef niðurstaðan verður sú að lagt verður gjald á nýtingu auðlinda verði tryggt að hluti þess gjalds renni til náttúruverndar. Eðlilegt er að aðilar sem raski náttúru leggi til fjármagn til að vernda þessa takmörkuðu auðlind.``

Náttúrufræðistofnun benti mjög stíft á það eins og fram kemur í áliti okkar í minni hlutanum að umhverfisþátturinn er einkar veikur í frv. og þeir bentu margsinnis á ákvæði laga um náttúruvernd, b-lið 5. gr., og töldu að túlka mætti ákvæðin í þessu frv., að lögin um náttúruvernd næðu ekki til þeirra og vitnuðu til þess sem segir í b-lið 5. gr. laga um náttúruvernd en þar stendur:

,,eftirlit með því að náttúru landsins sé ekki spillt með athöfnum, framkvæmdum eða rekstri að svo miklu leyti sem slíkt eftirlit er ekki falið öðrum með sérstökum lögum``. Mjög ákveðið var vitnað í þetta með réttu af hálfu Náttúrufræðistofnunar að gæti hugsanlega verið í framkvæmdinni túlkað svo að lögin um náttúruvernd ættu ekki við það frv. sem við fjölluðum um. Þess vegna lögðu þeir til mjög vandaðar breytingartillögur til að styrkja umhverfisþátt þess frv. sem hlutu því miður fæstar náð fyrir augum meiri hlutans í iðnn. En í þessu áliti Náttúrufræðistofnunar segir:

,,Náttúrufræðistofnun Íslands telur að brýnt sé orðið að endurskoða gildandi lög um nýtingu auðlinda úr jörðu. Stofnunin mælir ekki með samþykkt þessa frv. nema á því verði gerðar verulegar breytingar sem taki mið af ríkjandi sjónarmiðum í umhverfisvernd og fyrirliggjandi áætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi.``

Þarna er enn og aftur komið að því að ekki sé nægilegt tillit tekið til áætlunar umhvrn. um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Síðan halda þeir áfram og segja:

,,Náttúrufræðistofnun vekur athygli nefndarinnar á því að ekkert tillit virðist vera tekið til skuldbindinga sem felast í alþjóðlegum samningum um vernd umhverfis og Ísland hefur staðfest á undanförnum árum.``

Þótt meiri hlutinn reyni að fullyrða annað í nál. sínu leyfi ég mér bara að taka meira mark á þeim stofnunum sem hafa það á verksviði sínu daginn út og daginn inn að fjalla um umhverfismál og umhverfisþáttinn, að þeir viti nú nokk hvað þeir eru að segja þegar þeir benda á að ekki sé tillit tekið til alþjóðlegra skuldbindinga sem við erum aðilar að eða þeirrar áætlunar sem liggur fyrir um sjálfbæra þróun. Síðan segir:

,,Lög um vinnslu jarðefna verði endurskoðuð og samræmd þannig að þau stuðli að aðhaldi í nýtingu þessarar takmörkuðu og endanlegu auðlindar og því að nýting sé í anda meginreglu um sjálfbæra þróun.``

Þeir fara í örfáar greinar sem þeir telja nauðsynlegt að breyta eftir þennan inngang og vekja athygli á 1. gr. og segja:

,,Náttúrufræðistofnun telur að lög um eignarhald og nýtingu auðlinda úr jörðu þurfi að ná til sjávarbotns innan efnahagslögsögu landsins. Setja þarf reglur um nýtingu auðlinda í sjávarbotni sem tryggi skynsamlega nýtingu þeirra og komi í veg fyrir náttúruspjöll.``

Í 4. gr. benda þeir á að ,,hér er kveðið á um að iðnaðarráðherra hafi heimild til að láta rannsaka og leita að auðlindum í jörðu hvar sem er á landinu. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 60/1992 ber Náttúrufræðistofnun Íslands að stunda undirstöðurannsóknir á jarðsvæði landsins og sjá um útgáfu jarðfræðikorta, m.a. korta sem sýna laus jarðlög og þar með mögulegar námur. Stofnuninni ber einnig að ,,leiðbeina um hóflega nýtingu náttúruauðlinda og aðstoða með rannsóknum við mat á verndargildi vistkerfa og náttúruminja og áhrifa mannvirkjagerðar og annarrar landnotkunar á náttúru.`` Þessi ákvæði 4. gr. laga hafa verið túlkuð þannig að stofnuninni ber m.a. að kortleggja jarðefni, flokka námasvæði eftir efni, magni, aðgengi, gæðum efnis og verndargildi. Umhverfisráðherra hefur nýlega lýst því yfir að stofnuninni verði falið að ráðast í þetta mikla verkefni og skapa þannig grunn fyrir áætlun til langs tíma um nýtingu jarðefna á einstökum landsvæðum. Sú yfirlýsing virðist ekki vera í samræmi við þá leið sem valin er með þessu frumvarpi.``

Þarna er því beinlínis haldið fram að þetta sé ekki í samræmi við þá yfirlýsingu. Síðan segir:

,,Í 4. gr. frumvarpsins er hvorki kveðið á um aðkomu umhverfisráðuneytisins né Náttúrufræðistofnunar að rannsóknum eða mati á auðlindum í jörðu. Nauðsynlegt er að skilgreina með einhverjum hætti hver hlutur opinberra rannsóknarstofnana eigi að vera í skráningu og mati á auðlindum í jörðu og hvaða aðili eigi að meta verndargildi og nýtingarþol þeirra auðlinda.

Í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins kemur fram að rannsóknir sem framkvæmdar verða með eða án leyfis geti haft í för með sér veruleg náttúruspjöll. Þrátt fyrir það er ekki kveðið á um að viðkomandi aðilum verði sett skilyrði þar að lútandi. Aðeins er miðað við að setja þurfi skilyrði af öryggis- eða tæknilegum ástæðum eða vegna vinnslu sem fram fer á svæðum.``

Síðan benda þeir á sem er alveg réttmæt ábending:

,,Einnig ætti iðnaðarráðherra að leita álits Náttúrufræðistofnunar áður en leyfi eru veitt til rannsóknar eða leitar á auðlindum í jörðu.``

Er tryggt að svo verði gert? Menn eru ekki setja þetta fram nema af því að þeir telja að hægt sé að sniðganga þetta með einum eða öðrum hætti og ef menn telja sig vera að tala fyrir umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiðum eins og mér finnst nú stjórnarliðar reyna að gera skilur maður ekki af hverju þeir vilja ekki ganga í lið með okkur í minni hlutanum og reyna að styrkja umhverfisþátt frv. Það er þeim algerlega útlátalaust og að kostnaðarlausu ef þeir meina þá eitthvað með því sem þeir setja fram um umhverfismálin og þau séu bara allt í lagi og geta eitthvað um slíkt í greinargerð sem er auðvitað allt annað en að styrkja slíkt í lagatextanum sjálfum.

Og síðan varðandi 5. gr.:

,,Náttúrufræðistofnun telur nauðsynlegt að rannsóknarleyfi fylgi skilmálar sem miðast við að takmarka eða koma í veg fyrir náttúrspjöll. Slíkir skilmálar ættu að vera settir samkvæmt ákvörðun Náttúruverndar ríkisins eða umhverfisráðherra.``

[18:30]

Það virðist vera meira og minna sniðgengið í frv., bæði umhvrh., umhvrn. og umhverfisstofnanir. Ég veit ekki hvort hæstv. iðnrh. er búinn að taka sér vald umhvrh. og ætli að hafa sína hentisemi með þetta. Það vekur a.m.k. tortryggni, herra forseti, þegar lítið eða ekkert var gert af hálfu meiri hlutans til að koma til móts við sjónarmið þessara stofnana og styrkja umhverfisáherslur í frv.

Varðandi 8. gr. í frv. þá segir, með leyfi forseta:

,,Grein þessi er efnislega samhljóða 1. mgr. 3. gr. námulaga, sem falla úr gildi verði frumvarp þetta að lögum. Sú breyting er þó gerð að heimild til hagnýtingar án leyfis er ekki bundin við grjót, möl, leir, mó og surtarbrand, heldur tekur hún einnig til bergs, sands, vikurs, gjalls og annarra gos- og steinefna auk moldar.

Ekki eru færð önnur rök fyrir þessari grein frumvarpsins en þau að ,,ekki þyki fært að rannsóknar- og nýtingarleyfi þurfi til rannsóknar og nýtingar á hinum algengari jarðefnum ...``

Grein þessi er hvorki í samræmi við framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi, alþjóðlegar skuldbindingar þjóðarinnar né ríkjandi viðhorfi í umhverfismálum.``

Þetta er aftur og aftur að koma hér fram, herra forseti. Þess vegna þarf auðvitað engan að undra að því fylgi nokkrar áhyggjur af hálfu okkar minni hluta hvernig að þessum málum verði staðið þegar þessu frv. verður sleppt út úr þinghúsinu sem lög og komið í hendurnar á iðnrh. sem á að framkvæma þau lög án þess að á þessum þáttum sé tekið. Og þeir leggja til og segja hér, með leyfi forseta: ,,Setja þarf ákvæði um vernd og nýtingu þessara jarðefna ekki síður en annarra. Sérstaklega er brýnt orðið að setja skýrar reglur um nýtingu gjalls og annarra gosefna. Lög um mat á umhverfisáhrifum hafa ekki reynst fullnægjandi til að koma í veg fyrir náttúruspjöll af völdum malar- og grjótnáms eða vinnslu vikurs, gjalls og annarra gosefna.``

Í nefndinni var töluvert farið yfir þetta. Ég er alveg sammála Náttúrufræðistofnun að því er þetta ákvæði varðar og hve brýnt er að styrkja og taka vel á þessum þætti málsins.

Síðan segir um 10. gr.:

,,Hér er gert ráð fyrir að Orkustofnun setji skilyrði fyrir hagnýtingu jarðhita, en eingöngu vegna öryggis eða af tæknilegum ástæðum. Ekki er gert ráð fyrir verndarþætti eða skilyrðum vegna hans.

Við endurskoðun þessar greinar frumvarpsins ætti að hafa hliðsjón af náttúruverndarlögum ...``

Og síðan fara þeir í 14. gr. og segja:

,,Heimilt þarf að vera að setja skilyrði fyrir hagnýtingu grunnvatns sem taki til umhverfis- og náttúruverndarsjónarmiða. Landeigandi eða Orkustofnun ætti að tilkynna Náttúruvernd ríkisins um fyrirhugaðar jarðboranir og aðrar meiri háttar framkvæmdir með vísun til þessa eftirlitshlutverks sem stofnunin gegnir ...``

Náttúrufræðistofnun gerir hér fleiri athugasemdir en ég verð að segja það að mig undraði nokkuð, og ég skal ekki nota sterkara orð um það, að meiri hlutinn taldi ekki ástæðu til að taka sterkara upp þau ákvæði og þær ábendingar sem hér koma fram.

Ég fer bráðum að ljúka máli mínu þó að hér sé vissulega af nógu að taka. Ég vil þó aðeins fara í tvö atriði, herra forseti, áður en lýk máli mínu. Það er í fyrsta lagi umsögn sem kom fram frá Félagi landfræðinga, sem mér fannst eiga erindi í þessa umræðu, en þar kemur fram:

,,Brýnt er að vanda vel til hvers konar lagasetningar um meðferð á auðlindum landsins, og á það jafnt við um eignarhald og nýtingu. Spurningar um eignarhald verða ekki leiddar til lykta nema með ítarlegri umræðu í samfélaginu, enda skoðanir skiptar. Félag landfræðinga telur orka tvímælis að skilgreina allar auðlindir í jörðu sem einkaeign með jafn fortakslausum hætti og gert er í 3. gr. frumvarpsins, þ.e. á landi sem ekki er skilgreint sem þjóðlendur. Þetta á einkum við um jarðhita djúpt í jörðu, sem og auðlindir sem ekki hafa fundist í neinu magni hérlendis og engin hefð er fyrir nýtingu á, hvað sem framtíðin kann að bera í skauti sér.`` --- Hér er tekið undir þau sjónarmið sem við höfum einmitt sett fram í þessu efni, að það er ekkert sem rekur til þess að halda þurfi á málum jafnafdráttarlaust gagnvart landeigendum eins og hér er gert. Þar nefna þeir olíu og gas þegar þeir tala um það sem finnst í jörðu. ,,Um þetta hefur of lítil umræða farið fram til að verjandi sé að fara þá leið sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu.

Félagið gerir einnig athugasemd við að ekki virðist gæta jafnvægis milli nýtingarsjónarmiða og sjónarmiða umhverfisverndar. Nefna má sem dæmi að í 8. gr. eru yfirborðsnámur til nýtingar á margs konar jarðefnum heimilaðar á landi í einkaeign án þess að til þurfi nýtingarleyfi, án nokkurra skilyrða um umgengni eða frágang, og án þess að vísað sé til ákvæða annarra laga um þau efni. Þau ákvæði frumvarpsins sem lúta að umhverfisvernd eru fá og afar almennt orðuð. Þar má nefna 17. gr., þar sem veiting nýtingarleyfis er skilyrt því ,,að tekið sé tillit til umhverfissjónarmiða.`` Vald til að veita nýtingarleyfi, að uppfylltum þessum skilyrðum ásamt öðrum, er sett í hendur iðnaðarráðherra. Ekki er að finna neinn skýran farveg í frumvarpinu fyrir faglega umfjöllun um áhrif nýtingar á umhverfi.

Mat á umhverfisáhrifum framkvæmda með formlegum og faglegum hætti á sér ekki langa sögu hér á landi. Vinnuaðferðir við slíkt mat hafa verið að mótast á undanförnum árum, en þess hefur óneitanlega gætt að litið sé á það sem eins konar eftirspil, þegar búið er að leggja drög að framkvæmdum og jafnvel taka flestar stefnumarkandi ákvarðanir um þær. Ekki síst hefur þetta átt við um nýtingu á auðlindum í jörðu. Félag landfræðinga telur þörf á að færa mat á umhverfisáhrifum framar í framkvæmdaferlið og gera það gagnsærra og virkara.``

Það er auðvitað umhugsunarvert af hverju svo margar athugasemdir koma fram við þetta frv. sem lúta að umhverfissjónarmiðum, umhverfisþáttunum. Það hljóta að vera ástæður fyrir því að þeir aðilar setja þessi sjónarmið fram með jafnskýrum hætti og hér er gert, og hef ég þó aðeins, herra forseti, vitnað í hluta þeirra umsagna þar sem fjallað er um umhverfisþáttinn í frv. Og það er eitt af því sem mér finnst að við í minni hlutanum ættum að taka til skoðunar, ef ekki verður fallist á að vísa þessu máli til ríkisstjórnarinnar, hvort ekki þurfi að skoða það vandlega á milli umræðna að taka skýrar á því máli en hér er gert.

Ég get, herra forseti, farið að ljúka máli mínu. Ég ætlaði að nefna nokkur atriði sem fram koma í mjög athyglisverðri umsögn Orkustofnunar, en mun þá láta það bíða þar til í síðari ræðu minni, enda er liðið að kvöldmat. Ég get þó ekki stillt mig um að nefna það sem Orkustofnun nefnir í umsögn sinni um verðlag á afurðum. Þar er sagt að raforka til útflutnings gæti þessu til viðbótar, þ.e. útflutningsverðmætin gætu numið um ,,95 milljörðum kr. Til samanburðar er útflutningur sjávarafla áætlaður 94 milljarðar. Að vísu eru erlend aðföng til orkufreks iðnaðar að jafnaði meiri en til sjávarútvegs en engu að síður má ætla að hreinar útflutningstekjur af stóriðjunni yrðu litlu minni en frá sjávarútveginum.``

Við erum því að tala um mikil verðmæti sem í húfi eru þegar verið er að ræða um þessi mál, virkjanir og ónýtta orku og hvernig við þurfum að standa að með ákvæðum þessa frv. ef slík auðæfi finnast í löndum jarðeigenda sem þá þarf að fara að borga ómældar fúlgur fyrir og setja yfir á skattgreiðendur framtíðarinnar.

Ég vil geyma mér nokkur atriði þar til í síðari ræðu minni, herra forseti, en vil enda ræðu mína á því að segja að hér er á ferðinni mjög stórt mál, eins og ég hef getið um. Ég tel að ekki séu nægjanleg rök sett fram af hálfu stjórnarliða um það að þannig þurfi að standa að máli eins og þeir leggja til, með vísan í eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, að gera réttindi landeigenda með þeim hætti sem hér er lagt til, að festa eignarréttinn svo í sessi, að mér finnst þeir skulda okkur stjórnarandstæðingum frekari rök fyrir því en teflt hefur verið fram bæði í nefndinni, frv. og grg. hæstv. iðnrh.

Ég tel að við séum hér enn eina ferðina, herra forseti, --- og það skulu vera mín lokaorð --- að upplifa það að festa frekar í sessi sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna. Það erum við að sjá í tvígang á þessu þingi í tveim stórum málum sem snerta miðhálendið og það frv. sem við ræðum hér um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þetta eru stór mál sem skipta munu komandi kynslóðir miklu máli hvernig á er tekið og mér er til efs að hægt sé að breyta þessu, jafnvel þó að ný ríkisstjórn komi til valda, bæði að því er varðar ákvæðin sem verið er að lögfesta varðandi miðhálendið og það hvernig verið er að festa í sessi ótakmarkaðan rétt landeigenda. Þar hef ég verulegar áhyggjur, herra forseti, og ég er viss um að stór hluti þjóðarinnar deilir því með okkur stjórnarandstæðingum sem tölum gegn því máli sem á að fara að koma hér í gegnum þingið.