Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 18:45:33 (6453)

1998-05-11 18:45:33# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[18:45]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst það nú benda til þess þegar hv. 4. þm. Vesturl., Guðjón Guðmundsson, kemur hér upp, að stjórnarliðar hafi nokkrar áhyggjur af umhverfisþættinum þó þeir hafi ekki talið sér fært að taka meira tillit til ábendinga þeirra stofnana sem fjalla um hann á vegum umhvrn.

Það er rétt að það ákvæði sem hv. þm. nefndi er örlítið til bóta. En ég er honum bara gjörsamlega ósammála. Hann verður auðvitað að fá að hafa sínar skoðanir í friði og ég að virða þær eins og hann virðir mínar. Ég tel að hér sé ekki nægjanlega vel um hnútana búið. Ég hef miklu frekar tilhneigingu til þess að taka mark á því sem kemur fram hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruvernd ríkisins, að því er þessa þætti varðar, en þeim aðilum sem ég veit að stjórnarliðar hlustuðu grannt eftir, eins og t.d. fulltrúa iðnrn. sem sat yfir okkur í nefndinni og andmælti hverju orði sem náttúruverndarmenn sem vinna að þessu máli daginn út og daginn inn, höfðu að segja.

Með allri virðingu fyrir fulltrúa iðnrn. sem sat yfir okkur á þessum nefndarfundum og andmælti stöðugt þeim sjónarmiðum sem Náttúrufræðistofnun Íslands setti fram og Náttúruvernd ríkisins, þá tek ég meira mark á stofnunum sem fjalla um umhverfismál en fulltrúa iðnrn. að því er þennan þátt varðar, með fullri virðingu fyrir þeim ágæta manni.