Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 22:33:00 (6458)

1998-05-11 22:33:00# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[22:33]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. beindi til mín nokkrum spurningum sem ég ætla að sjá hvort ég get gert örlítil skil í andsvari. Fyrst vangaveltur hans um hitakærar örverur, eða örverur sem finna má í jarðhitasvæðum sem getið er um í nýrri grein í frv. Við hæstv. iðnrh. höfum rætt um það og fulltrúar ráðuneyta okkar hafa farið yfir málið og samkomulag hefur orðið um að þetta ákvæði komi nú inn í það frv. sem er til umræðu, m.a. vegna þess að það var til umfjöllunar í hv. þingi og ljóst að stefnt yrði að því að afgreiða það fyrir þinglokin. Hins vegar er líka samkomulag um að málið verði tekið til endurskoðunar, þetta ákvæði laganna verði endurskoðað fyrir 1. janúar 2001, og við höfum reyndar rætt um það hvort breyta megi örlítið orðalagi í greininni. Ég vil benda á að í frv. sem nú hefur verið lagt fram, reyndar eftir að þingmál áttu að vera komin fram sem á að afgreiða á þessu þingi, frv. til laga um breytingar á lögum um Náttúrufræðistofnun Íslands, þar sem þessa er reyndar getið, þar sem segir í 3. gr. þess frv., með leyfi forseta:

,,Náttúrugripi, þar með taldar örverur sem uppruna eiga á jarðhitasvæðum og erfðaefni þeirra, má ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni.``

Í framhaldi af þessu vil ég segja, hæstv. forseti, að almennt er það svo að um Náttúrufræðistofnun Íslands, um Náttúruvernd ríkisins og lög um náttúruvernd, skipulags- og byggingarlög og lög um mat á umhverfisáhrifum er kveðið á um hvernig standa eigi að málum samkvæmt þeim lögum og það frv. sem hér er til umfjöllunar og umræðu tekur að sjálfsögðu ekkert yfir af þeim verkefnum og um það er sérstaklega kveðið á í nál., annars vegar frá meiri hluta nefndarinnar og hins vegar í brtt. við 16. gr. frv. Nú er það hins vegar svo, ég tek undir það með hv. þm., að nokkuð alvarlegar athugasemdir hafa komið frá þessum stofnunum sem heyra undir umhvrn. og því hef ég rætt það við hæstv. iðnrh. að við lítum á þetta mál milli umræðna og því hefur hv. framsögumaður meiri hluta nefndarinnar sagt frá í ræðu sinni að athugasemdir hafi komið fram varðandi umhverfisþáttinn sem teknar verði til skoðunar milli 2. og 3. umr.