Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 22:37:26 (6460)

1998-05-11 22:37:26# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[22:37]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka að ég tel ekki að umhvrn. eða stofnunum þess hafi neitt verið fleygt út úr því frv. sem er til umfjöllunar. Það er rangtúlkun af hálfu hv. þm. Það er ljóst hver skoðun meiri hluta hv. iðnn. er um samspil þessa frv. við lög og reglur á sviði umhverfis-, náttúruverndar- og skipulagsmála og að því er varðar rannsóknir á nýtingu auðlinda eins og segir skýrt í nál., auk þess sem fjallað er um það í brtt. nefndarinnar, í þeim kafla þar sem fjallað er um leyfi vegna rannsókna, breyting við 16. gr., þar sem segir: ,,Við meðferð umsókna um leyfi og veitingu þeirra skal gætt náttúruverndarlaga, skipulags- og byggingarlaga og annarra laga sem varða rannsóknir og nýtingu lands og landsgæða.`` Þetta er því alveg skýrt fram tekið hér, hæstv. forseti.

Hitt er annað mál sem varðar ákvæðin um örverur og þann þátt málsins. Það kom upp í umfjöllun um málið í þinginu eftir að það kom þar inn og í hv. iðnn. Eftir viðræður milli ráðuneytanna, umvhrn. og iðnrn. varð að samkomulagi að fara með málin eins og hér er lagt til. En ég ítreka að hv. framsögumaður meiri hlutans greindi frá því að hugsanlega væru örfá atriði um umhverfismál skoðuð nánar. Ég skal ekkert segja á þessu stigi hvað kemur út úr þeirri endurskoðun í meðferð hv. iðnn. en það eru nokkur atriði sem verður litið á þá. Ég vona að það sé og verði fullkomið samkomulag að það verði tekið þar til umfjöllunar en ég þori ekki að segja um það á þessu stigi hverjar breytingar kunna að verða gerðar ef þær verða.