Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 22:41:11 (6462)

1998-05-11 22:41:11# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[22:41]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Því miður missti ég smákafla úr ítarlegri ræðu hv. þm. Svavars Gestssonar en ég náði samt þremur spurningum sem hann lagði fyrir mig og ætla að leitast við að svara þeim.

Í fyrsta lagi spurði hv. þm. hvort varaformaður iðnn. væri sammála því að taka málið til umræðu milli 2. og 3. umr. Svarið er já. Við ákváðum það, formaður og varaformaður, áður en fundurinn hófst í morgun að funda í nefndinni milli 2. og 3. umr. og ég hygg reyndar að hv. þm. Stefán Guðmundsson, formaður iðnn., hafi greint frá því í framsöguræðu sinni í dag.

Í öðru lagi spurði hv. þm. hvort mikill ágreiningur væri í Sjálfstfl. um hámarksákvæði í 10. og 14. gr. frv. Annars vegar varðandi jarðhita og hins vegar grunnvatn sem landeigendum er heimilt að nýta. Svarið er nei. Ég hef ekki orðið var við þann ágreining. Hv. þm. Árni Mathiesen gerði grein fyrir því í dag að hann væri ekki sammála þessu og þætti þessi mörk of lág, og hafði áður rætt það í þingflokki okkar. Ég hef ekki heyrt aðra þingmenn Sjálfstfl. gera athugasemdir við þetta.

Í þriðja lagi spurði hv. þm. um hver væri munurinn á lindarvatni og grunnvatni, hver væri skilgreiningin á lindarvatni og af hverju ekki væri getið um það í frv. Svarið er að um að lindarvatn fer samkvæmt vatnalögum en þau gilda um vatn á yfirborði jarðar. Vatnalögin eru að vísu komin mjög til ára sinna, orðin 75 ára gömul, og þurfa sjálfsagt endurskoðunar við en þetta frv. tekur að sjálfsögðu ekki á því.