Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 22:43:03 (6463)

1998-05-11 22:43:03# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, BH
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[22:43]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Það frv. sem er til umfjöllunar er einn liður í auðlindapólitík hæstv. ríkisstjórnar. Með frv. er verið að tryggja ákveðnum einstaklingum forræði yfir auðlindum sem hingað til hefur ekki verið þjóðarsátt um að gera og er ekki sátt um enn þann dag í dag. Þessu hefur verið líkt við ráðstöfunina á auðlindum sjávar. Lögin um stjórn fiskveiða segja reyndar að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar en síðan eru hin eiginlegu forráð í höndum einstaklinga, útgerðarmanna, svo það nálgast eigendaforráð.

Á þjóðlendum sem eru afréttir og almenningar utan eignarlanda hefur verið tekin sú stefna að kveða skýrt á um að þær séu eign íslenska ríkisins. Eigendaforráðin eru síðan falin forsrh. sem er þá sá sem fer með eignina. Í þessu frv. kveður við allt annan tón sem er meira í þá veru að búa til réttarástand líkt því sem lögin um stjórn fiskveiða hafa skapað. Hér er verið að fjalla um auðlindir í og á jörðu á löndum í einkaeigu og það á að festa það í lög að þær séu eign landeiganda án þess að við því séu settar nokkrar verulegar skorður. Það er þetta meginmarkmið laganna sem er umdeilt en það er ekki aðeins þetta heldur má ekki síður setja spurningarmerki við það hvernig mörk eignarlanda eru ákveðin í þessu frv. Annars vegar hvað varðar mörk eignarlanda út til sjávar og út í stöðuvötn, þ.e. í netlögum, og hins vegar niður á við.

Það er ekki úr vegi að skoða svolítið umfjöllun lögfræðinnar um fasteignir. Fasteign er almennt skilgreind sem afmarkað land og eðlilegir hlutar þess, lífrænir og ólífrænir, ásamt þeim mannvirkjum sem varanlega er við landið skeytt. Það að eiga fasteign þýðir því í raun að sá aðili hefur einkarétt til að ráða yfir fasteigninni innan þeirra marka sem þeim rétti eru sett í lögum eða með óbeinum eignarréttindum annarra sem geta falist í afnotaréttindum, t.d. ítaksrétti, veðrétti, kauprétti og forkaupsrétti svo dæmi séu tekin um óbein eignarréttindi.

[22:45]

Eignarrétturinn sem er friðhelgur verður sem sagt ekki takmarkaður nema með lögum og því er það mjög veigamikið hlutverk sem löggjafinn hefur í þessum efnum. En hvað felst nánar í því að eiga eitthvað samkvæmt skilgreiningu lögfræðinnar? Fræðimenn hafa skilgreint það svo að í því felist heimild til að ráða yfir eigninni og nota hana, heimild til að ráðstafa henni með löggerningi. Eign getur verið grundvöllur lánstrausts, hægt er að eftirláta einkaeign til erfingja í allflestum tilvikum og eigandi getur leitað aðstoðar yfirvalda til verndar eignarrétti sínum sem er friðhelgur samkvæmt stjórnarskránni. Um þetta eru flestir sammála, þ.e. hvað felst í einkaeignarréttinum, en um hitt eru menn alls ekki sammála, þ.e. hver takmörk skuli setja þeim rétti eiganda. Einkum er um þetta deilt þegar mörk fasteigna í einkaeigu eru ákveðin, annars vegar þegar þau eru ákveðin niður á við, hins vegar þegar þau eru ákveðin út í vötn eða sjó, eins og þetta frv. tekur á. Menn eru ekki sammála um hvort eigi yfirleitt að setja mörk niður á við eða ekki og ýmsar hugmyndir hafa verið uppi í þeim efnum hvað varðar auðlindir í jörðu. Þá hafa líka verið uppi deilur um það hver réttur eiganda skuli vera í netlögum í sjó og stöðuvötnum. Á einhverjum punkti hlýtur að koma að mörkum fasteignar og í þessu frv. er gengið mun lengra í þeim efnum en áður hefur verið viðurkennt, þrátt fyrir að látið sé að því liggja í frv. að hér sé verið að staðfesta það sem þegar er viðurkennt.

Hv. þm. Ragnar Arnalds rakti það í ræðu sinni í dag að frv. gengi mun lengra hvað varðar forráð jarðeigenda yfir netlögum í sjó og vötnum en almennt hefur verið talið. Hæstaréttardómur frá árinu 1996 staðfestir þetta svo ekki verður um villst. Málavextir voru þeir að ákærði lagði grásleppunet sín á Breiðafirði við Langey sem liggur vestan Skarðs í Dalabyggð. Kvaðst ákærði hafa fengið leyfi Fiskistofu til að stunda grásleppuveiðar á Breiðafirði á vor- og sumarvertíð 1994 sem gefið hafði verið út á grundvelli reglugerðar um hrognkelsaveiðar. Málatilbúnaður ákæruvaldsins er á því reistur að ákærði hafi lagt grásleppunet sín innan 60 faðma frá stórstraumsfjörumáli Langeyjar og þar með í netlögum eyjarinnar. Innan þeirra eigi landeigandi einn rétt til allrar veiði og þar með talda veiði sjávarfiska. Ákæruvaldið leiddi þennan rétt á 3. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 1849, eða veiðitilskipunarinnar og síðari löggjöf. Með því að veiða innan þeirra marka hafi ákærði unnið til refsingar samkvæmt tilskipuninni. Ákærði mótmælir þessu og staðhæfir hann að netin hafi verið lögð norðvestan við eyna en ekki suðvestan við hana. Hann telur sig enn fremur hafa átt rétt til að stunda veiðarnar þar sem netin lágu og vísar um það til veiðileyfis. Síðan er komist að þeirri niðurstöðu að sannað er að netin voru lögð þar sem ákæruvaldið hélt fram og snerist því ágreiningurinn í raun og veru einungis um það hvort viðkomandi einstaklingur hafi mátt veiða á þessu tiltekna svæði.

Um þetta segir í dómi Hæstaréttar, með leyfi forseta:

,,Með vísan til forsendna Héraðsdóms telst sannað, að ákærði hafi lagt net sín á þeim stað, sem tilgreindur er í ákæru.

Við setningu veiðitilskipunar 1849 sagði svo í 1. gr.: ,,Á Íslandi skulu héðan í frá jarðeigendur einir eiga dýraveiði og fugla, nema öðruvísi sé ákveðið í tilskipun þessari.`` Um fuglaveiði er nú mælt fyrir í öðrum lögum, en annars gildir þetta ákvæði tilskipunarinnar óbreytt. Við lögtöku hennar var jafnframt kveðið svo á um í 21. gr., að allar greinar laga um fiskveiðar og hvalveiðar, sem ekki sé breytt í þessari tilskipun, skuli fyrst um sinn standa óraskaðar. Verður ekki talið, að ákvæði 3. gr. tilskipunarinnar um rétt landeiganda til veiði 60 faðma á haf út frá stórstraumsfjörumáli hafi falið í sér annan og rýmri rétt landeiganda til veiða en þann, sem kveðið var á um í upphafsákvæði tilskipunarinnar [þ.e. til dýraveiði og fuglaveiði].``

Síðar í dómi Hæstaréttar segir: ,,Af fornlögum verður ekki ráðið, að netlög í sjó hafi verið talin háð sömu eignarráðum fasteignareigenda og landið fyrir ofan. Með síðari tíma löggjöf hafa eigendum fasteigna ekki heldur verið veittar allar sömu eignarheimildir yfir netlögum í sjó, sem þeir njóta yfir fasteignum, er á þeim liggja. Með veiðitilskipun 1849 var tekin upp ný afmörkun netlaga á þann veg, að þau skyldu miðast við tiltekna fjarlægð frá stórstraumsfjörumáli. Innan þeirra, svo markaðra, skyldi fasteignareigandi einn eiga tilteknar heimildir, sbr. 1. gr. tilskipunarinnar. Með löggjöf eftir það hefur fasteignareigendum ekki með ótvíræðum hætti verið veittur einkaréttur til veiði sjávarfiska í netlögum, sem miðist við fjarlægð frá stórstraumsfjörumáli. Ákvæði 2. kapítula rekabálks Jónsbókar um afmörkun netlaga, sem miðast við sjávardýpi, hafa ekki heldur verið felld úr gildi með ákvörðun löggjafans, þótt þau hafi hins vegar ekki verið tekin upp í útgáfu lagasafns eftir 1919. Vafi um rétt fasteignareiganda að þessu leyti verður skýrður ákærða í hag. Ber með vísan til 45. gr. laga nr. 19/1991 að sýkna hann af broti á 3. gr. tilskipunarinnar um veiði á Íslandi frá 1849.``

Það er ljóst að þessi hæstaréttardómur, sem er tiltölulega nýr, frá árinu 1996, segir okkur það að ekki er rétt sem fullyrt er í frv. að í raun og veru sé verið að staðfesta í lög þau atriði sem hafa verið þar áður hvað þetta varðar, vegna þess að frv. fellir undir eignarland eða eins og segir í frv.: ,,Eignarland merkir í lögum þessum landsvæði, þar með talið innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.`` Síðar segir: ,,Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, ...`` Það er því alveg ljóst að verið er að færa netlögin með þessu frv. undir einkaeignarréttinn ótakmarkaðan og það er ekki í samræmi við það sem verið hefur. Það er verið að færa þarna til eignir, herra forseti, og verið að færa landeigendum meiri verðmæti samkvæmt þessu frv. en þeir hingað til hafa átt.

Kenningar um mörk fasteigna niður á við hafa verið ýmsar, eins og komið hefur fram í umræðunni, og nokkrum sinnum hafa verið lögð fyrir Alþingi frv. um takmarkanir á eignarráðum yfir jarðhita í jörðu. Að því er ég kemst næst var það fyrst gert árið 1927 og svo annað slagið síðan. Þingmenn Alþb. og Alþfl. hafa flutt tillögur um þetta efni þar sem meginstefnan hefur verið að miða skuli við að landeigandi eigi jarðhita á yfirborði jarðar og ákveðna vegalengd niður á við en að þeirri vegalengd lokinni taki við sameiginleg verðmæti þjóðarinnar allrar.

Það er jafnframt ljóst að þær tillögur hafa ekki náð fram að ganga og í þessu frv. er verið að festa í sessi leið séreignarstefnunnar sem gengur út á að færa landeiganda skýlausan einkaeignarrétt yfir þeim jarðhita sem undir jörð hans er. Það eru ekki lítil verðmæti, herra forseti, sem þarna eru fest með lögum undir einkaeignarrétt landeiganda. En þetta frv. og þær hugmyndir sem í því felast koma í sjálfu sér ekki á óvart, því þær eru í takt við aðrar hugmyndir hæstv. ríkisstjórnar um það hver skuli eiga auðlindir landsmanna. Það hefur leynt og ljóst verið stefna þessarar ríkisstjórnar að færa þau verðmæti sem land þetta býr yfir undir einkaeignarréttinn í stað þess að tryggja að afrakstur þeirra gangi til sameiginlegra sjóða landsmanna og nýtist þannig landsmönnum öllum. Því miður hefur Sjálfstfl. villst nokkuð af leið í auðlindaumræðunni frá því á árum áður þegar forverar ráðherra Sjálfstfl. héldu á lofti annarri pólitík en nú heyrist úr því horni. Einkum er fróðlegt að lesa um fossamálið svokallaða en ég rifjaði einmitt upp það mál og aðdraganda þess í ræðu minni á laugardaginn var um þjóðlendurnar. En í upphafi aldarinnar þegar menn voru að átta sig á verðmætunum sem felast í orku fallvatna var talað annars vegar um þá sem aðhylltust séreignarstefnu, þ.e. að auðlindir á og í landi skyldu tilheyra landeiganda, og hins vegar allsherjarstefnu sem fólst í því að hið rennandi vatn skyldi ekki vera undirorpið eignarrétti landeiganda heldur skuli það vera eign ríkis og sveitarfélaga eða þá að það sé óeignarhæft en lúti umráðum ríkisvaldsins. Þessar tvær stefnur birtast í raun í þeirri umræðu sem nú hin síðustu ár hefur átt sér stað meðal landsmanna. Ríkisstjórnin hefur aðhyllst séreignarstefnuna utan þjóðlendna þar sem allsherjarstefnan virðist hafa orðið ofan á í þeim herbúðum. Flokkarnir í stjórnarandstöðu hafa hins vegar byggt málstað sinn á allsherjarstefnu í einni eða annarri mynd.

Ég vil gera örlitla grein fyrir þessum tveimur stefnum í máli mínu. Ég tel það nauðsynlegt til útskýringar og til að tengja þessa umræðu við umræðu sem í raun og veru var mjög hávær fyrr á öldinni og ekki síst fyrir þær sakir að mér skilst að þessi ágæta skýrsla, nefndarálit meiri hluta fossanefndar sé uppurin og ófáanleg og sakar því ekki að festa það gagnmerka efni sem í henni er í þingtíðindi.

,,Vatnalöggjöf sína hafa menn bygt á mjög ólíkum grundvelli. Eignarrjettur að landi er alment viðurkendur í siðuðum löndum. En eignarrjett að landi hafa menn svo, --- að minsta kosti í orði --- látið sumstaðar ná til vatns þess, sem á landinu liggur. Þessa stefnu mætti nefna sjereignarstefnuna. En þetta leiðir aftur til þess, að landeigandi er talinn eiga slíkan eða svipaðan umráðarjett yfir vatninu á landi sínu sem yfir landinu sjálfu. Takmarkanir á rjetti þessum yfir vatninu eru þó miklar gerðar. Jafnvel í löndum, þar sem vatnalöggjöfin er berum orðum bygð á sjereignarstefnunni, eins og í Noregi, verða landeigendur (eigendur vatnsbotns og vatnsbakka) t.d. að þola umferð um vatnið og viðarfleytingu í því, auðvitað gegn bótum fyrir spell á veiði eða landi. Ennfremur mega þeir eigi taka til orkunýtingar nema ákveðna tölu af hestorkum fallvatns, nema leyfi (sjerleyfi) ríkisvaldsins komi til. Vatnsmiðlun ... mega menn eigi heldur gera nema leyfi komi til. Og margar fleiri takmarkanir eru gerðar á umráðarjetti manna yfir vatni, sem löggjöfin segir í orði kveðnu eign landeiganda. Því er það --- og eflaust líka vegna eðlis vatns, einkum rennandi vatns --- að rjettarfræðingar telja rjett þann, sem landeiganda er fenginn yfir vatni á landi hans, jafnvel þar sem sjereignarstefnunni er fylgt, eigi til eignarrjettar í þeirri merkingu, sem það orð er haft í hlutarjettinum.

Önnur stefna er sú, er telur vatn eigi undirorpið eignarrjetti landeiganda, heldur sje það eign ríkisins eða sveitarfjelaga, að minsta kosti öll þau vötn og vatnsföll, sem nokkuð kveður að. Tekur þetta þá einkum til allra skipgengra og flotfærra vatna. En sumstaðar tekur þetta þó til alls óvirkjaðs vatns. Í Prússlandi eru t.d. öll skipgeng vötn og flotfær ríkisvötn. Ríkið ákveður sjálft, hver þau vötn sje, og getur hvenær sem það vill breytt einkavatni í ríkisvatn með því að gera það skipgengt eða flotfært, enda verða landeigendur að sæta því endurgjaldslaust. Vötn, sem þar á móti eru hvorki skipgeng nje flotfær, eru einkaeign. ...

Þriðja stefnan er sú, að óvirkjað vatn, að minsta kosti rennandi vatn, sje alls kostar óeignarhæft, bæði ríkisvaldi og einstaklingum. Þeir, sem þeirri stefnu fylgja, líta líkt á vatnið og loft, haf og ljós. Loftið o.s.frv. er almenningsgagn og verður eigi eignarhæft, nema það takist að handsama það og hefta. Af þessari skoðun leiðir það að vatn getur alment eigi verið eignarrjetti undirorpið, hvorki einstakra manna nje ríkisins. Hins vegar hafa einstaklingar rjett til að nota vatnið eins og loftið, hafið og ljósið, meðan sú notkun fer eigi framar en samþýðast megi hagsmunum almennings eða ríkisins. En ríkisvaldið hefur þar ákvörðunarvaldið. Eðli málsins samkvæmt hlýtur landeigandi hver sjerstaklega að nota vatn á landi sínu, alveg eins og hann notar loftið yfir landi sínu, sjóinn fyrir því --- ef það liggur að sjó ---, og ljós sólarinnar, sem á það fellur. Auk þess verður hann að þola, að vatnið hvíli á og fari um land hans, og því er sanngjarnt að hann eigi nokkurn forgangsrjett til að nota það handa heimili sínu, til ræktunar á landi sínu og til atvinnu sinnar. Í Rómaveldi virðist eigi hafa verið viðurkendur eignarrjettur að vatni. Vötnum var þar að vísu skipt í tvent: Almenningsvötn og einkavötn. En einkavötnin urðu fá, því að öll þau vötn, sem eigi voru vön að þorna upp árlega voru almenningsvötn. Einkavötnin urðu þá aðallega þau vötn eða vatnsöfn, sem til urðu í leysingum eða vatnavöxtum. Auðvitað máttu menn nota almenningsvötnin til þarfa sinna, ef botni þeirra eða bakka var eigi spilt, svo sem til að taka úr þeim neysluvatn og til jarðyrkju. Og máttu menn því veita vatni sem að fornu hafði verið, en eigi framar, nema leyfi ríkisvaldsins kæmi til. Það gilti ákveðin regla vorra laga, að vötn öll skuli svo renna sem að fornu hafa runnið. Lík meginregla sem í Rómaveldi gildir í Austurríki. Þar eru yfir höfuð öll vötn almenningsvötn. ...

Raunverulegur munur á því, hvort vötn eru kölluð eign ríkisins og því, að þau eru talin óhæf til eignar, heldur almenningsgagn, sem ríki og hjeruð ráða yfir, að því leyti sem um yfirráð er að tefla, er lítill eða enginn. Báðar stefnurnar síðastnefndu hafa það sameigið, að vatnið sje og eigi alment að vera undir forræði ríkisins (eða hjeraða), að því leyti sem þörf sje á að skipa fyrir um notkun þess, og að þeim, er til þess nái og þá sjerstaklega þeim, er land eiga undir því, skuli heimil not þess, meðan þau fara eigi í bága við lögmæta hagsmuni annara einstaklinga, eða almennings. Þessar tvær stefnur má því vel nefna einu nafni allsherjarstefnuna.

[23:00]

Þá er næst að athuga kosti og ókosti þessara stefna, sjereignarstefnunnar og allsherjarstefnunnar. Virðist þá hentugast að taka til athugunar þær helstu tegundir vatnsnotkunar, sem nú tíðkast, og bera saman, hverju máli það skifti um hverja þeirra, hvort löggjöfin er bygð á sjereignarstefnunni eða allsherjarstefnunni.

Fyrsta tegund vatnsnotkunar og gamalkunnust er notkun vatns til neytslu manna og dýra, notkun til heimilis og búsþarfa, eins og kalla mætti það. Sjereignarstefnan, rökrjett, tekin verður hjer að halda því fram, að landeigandi eigi einkarjett til vatns á landi sínu í þessu skyni, og að öðrum sje hún óheimil, nema landeigandi leyfi. Allsherjarstefnan viðurkennir að vísu, að notandi land þess, sem vatnið liggur á, eigi fyrst að fá sínar þarfir fyltar. En ef vatn er afgangs þeim þörfum, þá telur allsherjarstefnan rjett, að aðrir fái not þess, auðvitað gegn endurgjaldi fyrir landspell eða veiði, ef slík spell verða. En eftir sjereignarstefnunni ætti landeigandi (,,vatnseigandi``) eigi að þurfa að hlíta slíkri vatnstöku endurgjaldslaust, að minsta kosti svo framarlega sem hann gæti bent á það, að vatnið hefði eitthvert verðmæti í sjer fólgið honum til handa, t.d. ef hann fengi notað það til áveitu á land sitt, til iðnaðar eða iðju o.s.frv. Eftir sjereignarstefnunni á landeigandi eignarrjett eða einkanotkunarrjett á vatni því, sem á landi hans er hverju sinni. Og afleiðingin er sú, að hann getur bægt öllum öðrum frá, nema löggjöfin setji sjerstakar takmarkanir á þeim rjetti hans. En slíkar takmarkanir hljóta eftir sjereignarstefnunni að hafa í för með sjer skaðabótaskyldu, ef viðkomandi getur bent á tjón af sjálfri vatnstökunni.

Þá er notkun vatns til iðnaðar og iðju án orkunýtingar vatnsins, t.d. fiskþvottar og ýmiskonar iðnaðar. Sjereignarstefnan hlýtur hjer að leiða til hins sama sem áður segir um neytsluvatn. ,,Vatnseigandi`` hlyti að eiga tilkall til endurgjalds fyrir vatnið, ef það væri frá eða af landi hans tekið, með sama hætti sem fyrr segir. Allsherjarstefnan gæti hjer eigi lengra farið en svo, að landeigandi ætti forgangsrjett til notkunar þess vatns, sem á landi hans er, til iðju og iðnaðar í þarfir þeirrar jarðar eða atvinnu, sem beinlínis væri rekin í sambandi við hana eða ræktunar henni.

Sama sem sagt var um neytsluvatn og iðjuvatn gildir um vatnsnotkun til jarðræktar. Sjereignarstefnan, rökrjett tekin, telur landeiganda (,,vatnseiganda``) hjer sem annars eigi þurfa að hlíta notum annara af vatni á landi sínu, jafnvel þótt afgangs verði sjálfs hans þörfum. Allsherjarstefnan viðurkennir það, að landeigandi skuli að jafnaði ganga fyrir um notkun vatns til ræktunar lands síns, er að vatninu liggur, af því að honum er venjulega auðveldara að nota það í því skyni en öðrum. En það vatn alt, er afgangs verður þörfum landeiganda, þeim er taldar hafa verið, er öðrum frjálst endurgjaldslaust. ...

Þá er nýting vatnsorkunnar. Hjer skiftir ágreiningur milli fylgismanna þessara tveggja stefna mestu máli. Síðan mönnum tókst að taka vatnsorkuna í þjónustu stóriðjunnar hafa landeigendur, sem talið hafa sig eiga orkuvötn, ,,selt`` þau eða ,,leigt`` einstökum mönnum eða fjelögum. ,,Kaupendur`` þessir og ,,leigjendur`` hafa síðan framselt og framleigt rjettindin og svo hafa þau verið ,,framseld`` eða ,,framleigð`` koll af kolli. Fyrsti ,,seljandi`` eða ,,leigjandi``, sem venjulega er landeigandi, hefir venjulega, að minsta kosti hjer á landi, fengið smáræði fyrir ,,rjettindin``. Kaupgróðamenn hafa síðan haft þau og selt hver öðrum, þar til þau hafa oft verið komin í geypiverð. Kaupgróðamennirnir hafa sjaldnast aflað sjer þessara ,,rjettinda`` í því skyni að virkja vötnin, heldur til þess að láta ,,rjettindin`` aftur af hendi með meiri eða minni hagnaði.

Ef svo hefir til þess komið, að vatnið yrði virkjað, þá legst kaupverð það, er síðast var látið fyrir ,,rjettindin``, við virkjunarkostnaðinn. En orkuverðið er aftur háð öllum þeim kostnaði, sem orkuframleiðslan hefir í för með sjer. Andvirðið, sem goldið hefir verið síðast fyrir orkuvatnið, hlýtur því að auka það verð, er framleiðandinn setur á orkuna, er hann selur öðrum, t.d. til hitunar, lýsingar, iðnaðar o.s.frv., ... Viðskiftamenn hans greiða þá að lokum, og einatt margfalt, verð það, er hann hefir látið fyrir rjettindin. Sjereignarstefnan segir landeiganda einum auðvitað heimilt að ,,selja`` eða ,,leigja`` vatnsrjettindi sín og þar á meðal orkunytjarrjettinn, við því verði sem hann getur fengið. Vatnið og vatnorkan er eftir henni eign landeiganda, sem hann getur ráðstafað sem öðrum eignum sínum alment.

Vatn hans má enginn virkja nema samþykki hans komi til, eða það sje af honum tekið eða orkunýtingarrjetturinn lögnámi samkvæmt lögum, ef almenningsþörf krefur, enda kom fult verð fyrir. Og sama rjett á, eftir sjereignarstefnunni, hver sá, sem ,,keypt`` hefir eða ,,leigt`` vatnsrjettindi, ef hann leiðir heimild sína til landeiganda, hvort sem beint er --- milliliðalaust --- eða óbeint --- um milliliði fleiri eða færri. --- Allsherjarstefnan heldur því þar á móti fram, að vatnið --- þar á meðal orkugæft vatn --- sje allsherjargagn. Þegar þörf ber til, þá geti ríkisvaldið sjálft tekið óvirkjað vatn til virkjunar eða leyft einstökum mönnum eða fjelögum að virkja það í orkunýtingarskyni, án þess að endurgjald sje greitt fyrir vatnsnotin út af fyrir sig, heldur að eins fyrir tjón á landi eða mannvirkjum, sem virkjun vatnsins kann að hafa í för með sjer. Hún telur með öllu fráleitt, að kaupgróðamenn hafi vatnorkuna að fjeþúfu í viðskiftabralli sínu og að viðskiftamenn orkuframleiðandans greiði svo þær fjárhæðir, sem hann hefir greitt kaupgróðamönnunum, er honum seldu. Munurinn á þessum tveimur stefnum verður því sá, að notandinn þarf eigi að greiða fyrir náttúruraflið --- vatnorkuna --- eftir allsherjarstefnunni, og afurðir þær, sem orkan skapar eða hjálpar til að skapa, verða því framleiðanda að skaðlausu ódýrari en ella myndi verða. Eftir sjereignarstefnunni verður orkuframleiðandinn að greiða fyrir náttúruaflið þar sem kaupgróðamennirnir hafa selt það eða leigt, og það verður eigi af þeim tekið, nema fult verð komi fyrir.

Eftir því sem þarfir almennings á vatnorku hafa aukist, hafa menn sjeð þenna mun og hversu fráleitt það er, að vatnsrjettindin sje höfð að fjeþúfu af einstökum gróðabrallsmönnum eða fjelögum, og svo sje almenningur auðvitað látinn borga brúsann.

Allsherjarstefnan heldur því auðvitað fram, að enginn, nema ríkisvaldið, hafi heimild til að virkja vatn svo að nokkru verulegi nemi, t.d. fram yfir 50, 100, 150 o.s.frv. eðlishestorkur, án samþykkis ríkisvaldsins. Þetta leiðir bæði af því, að ríkið á forræði á vötnunum, og ennfremur af því, að öll meiri háttar iðjufyrirtæki skifta miklu um almennings hagsmuni. Þau þurfa mörg eða flest, traustan umbúnað, til þess að þau valdi eigi slysum. Þau skifta máli um þjóðerni og tungu, þar sem svo hagar til, að mikinn erlendan vinnulýð þarf til að reka iðjuverin. Þau geta og kæft aðra atvinnuvegi í landinu með því að draga frá þeim verkalýð landsins o.s.frv. Einnig hlýtur það að leiða af allsherjarstefnunni, að enginn má koma upp vatnsmiðlunum, í hverju skyni sem þær eru gerðar, nema með leyfi ríkisvaldsins, enda sje þeim kröfum fullnægt, er ríkið setur um traustleik, viðhald og notkun slíkra mannvirkja. Sjereignarstefnumenn fara í þessu efni sömu leiðir. ...

Þá er rjett að athuga það sjerstaklega, hvort hagfeldara muni að byggja vatnalöggjöf Íslands á allsherjarstefnunni eða sjereignarstefnunni.

Um vatn til neyslu (til heimilisþarfa og bús) mun alment vera svo ástatt hjer á landi að hvert sveitaheimili hefir nóg af vatni. Þó eru undantekningar frá þessari reglu. Ennfremur er það alkunna, að sumir kaupstaðir eða kauptún þurfa vatns af annara manna löndum. Sem dæmi má nefna Reykjavíkurkaupstað og Akureyrarkaupstað. Eftir sjereignarstefnunni mundu þeir, sem land eiga undir vatni, geta óheimilað vatnstöku í neysluskyni. Eftir stjórnarskránni, 50. gr., yrði sá, er vatnið tekur, að greiða fyrir vatnstökuna. Er hjer eigi átt við veiðispjöll eða lands af vatnstökunni, því að sjálfsagt er að bætur komi fyrir slíkt. Eftir allsherjarstefnunni kæmu bætur fyrir vatnstökuna sjálfa venjulega alls eigi til mála. Spjöll á landi eða mannvirkjum og annað óhagræði, sem vatnstakan hefði í för með sjer, yrði bætt framar eigi.

Líkt er um vatn til jarðræktar og iðnaðar og iðju án orkunýtingar að segja. Nú hagar hjer svo til sumstaðar, að taka þarf vatn til jarðræktar og iðnaðar eða iðju af landi annara manna. Eftir sjereignarstefnunni þyrfti alment að greiða endurgjald fyrir vatnstökuna, en eftir allsherjarstefnunni eigi. Skiftir þetta miklu máli, því að vatnsgjaldið mundi einatt gera fyrirtækin kostnaðarsamari en ella mundi verða.``

Síðar segir í skýrslu fossanefndar, með leyfi forseta:

,,Hjer á landi má búast við því, að menn skiftist í tvo flokka um notkun fallvatna. Annar flokkurinn mun vera því mótfallinn, að orkuvötn landsins verði tekin til stóriðju að nokkru ráði í einu, og því reyna að hamla því, að sjerleyfi verði veitt í því skyni. Sá flokkur telur verða að fara mjög varlega í þeim efnum, vegna hættu er þjóðerni landsmanna og atvinnuvegum stafi af stóriðjunni. Þótt stóriðjuver yrði reist, þá mundi sá flokkur manna varla hirða, þótt þau yrðu skammæ fyrir það, að vatnsrjettindin hefði verið dýru verði keypt. Að eins mundu þeir harma það, að orka til almenningsþarfa, sem slík hver kynni að selja hjer, yrði svo eða svo miklu dýrari en ef þau hefði fengið náttúruaflið, vatnsorkuna, ókeypis.

Hinn flokkurinn, sem telur stóriðju hjer hættulausa og landinu jafnvel til stórgagns, t.d. tekjulind handa ríkissjóði, hlyti þar á móti að telja það illa farið, ef iðjuverin þyrfti að gjalda fyrir orkuna verðauka, er stafaði af kaupum og sölum á vatnsrjettindunum, svo að niður kæmi á verði afurðanna. Og þetta hlyti að verða því varhugaverðara í þessara manna augum sem aðstaða stóriðju hjer á landi er eigi glæsileg.``

Þannig var komið víða við í skýrslu fossanefndar og m.a. tekist á um stefnu hvað varðar stóriðjuna.

,,Ágreiningurinn milli allsherjarstefnu og sjereignarstefnu (eða meiri hluta og minni hluta nefndarinnar)`` --- en eins og kunnugt er þá þá klofnaði fossanefndin --- ,,að því er snertir rjett almennings til vatnsafnota við orkuvinslu er nú aðallega eða eingöngu um borgun fyrir vatnsafnotin. Vjer viljum láta almenning hafa rjett til þessara vatnsnota eftir svipuðum reglum, sem gilda fyrir umferðarnot, þ.e. venjulega án endurgjalds fyrir vatnið sjálft, en gegn endurgjaldi fyrir spjöll á veiði, landi, mannvirkjum o.s.frv. En sjereignarstefnumenn vilja auk þessa leyfa landeigendum og þeim sem eignast hafa og eignast kunna ,,vatnsrjettindi`` þeirra að taka borgun fyrir vatnið eða fyrir afnot þess til orkuvinslu. Og um upphæð borgunarinnar vilja þeir láta gilda þá venjulegu aðalreglu fyrir kaupum og sölu, að seljandinn má taka eins mikið og hann getur fengið kaupandann til að borga, en ef eigi semur, og almenningur (ríkið, hjerað) er kaupandinn, þó sje verðið ákveðið með mati, og matsverðið hlýtur þá, eins og venja er til, að miðast við það, hvað aðrir kaupendur að áliti matsmanna mundu vilja gefa mest fyrir afnotarjettinn.

Ef til vill sjest einna best hvílík fjarstæða slík sjereignarstefna væri hjer í landi með því að hugsa sjer að samskonar reglur ættu að gilda um hina aðra tegund almenningsnotkunar á vatni, umferðina. Vjer skulum þá hugsa oss að sjerhver landeigandi hefði rjett til að taka borgun fyrir umferð um vatn á landi hans. Komi maður að ferjuvatni, verður hann, jafnvel þótt hann leggi sjer sjálfur til ferjubát og fyrirhöfn, að semja við landeigandann um borgun fyrir að mega nota vatnið til þess að fleyta ferjunni yfirum á því; er þá auðsjeð, að ef maðurinn á brýnt erindi yfirum, þá getur landeigandi heimtað og fengið hátt gjald hjá honum, því hærra sem nauðsyn ferðamannsins til að komast leiðar sinnar er meiri. Vilji einhver sveit taka upp flutninga eftir vatni langleiðis, þá verður fyrst að semja við landeigendur um borgun fyrir leyfi til að fara eftir vatninu. Venjulega verður um það tvent að velja fyrir notendurna, að borga landeigendum fyrir afnotaleyfið, eða flytja landveg meðfram vatninu, og þá gera þar veg fyrst. Auðsjeð er að landeigendur allir til samans geta heimtað og fengið svo háa borgun fyrir afnotarjett vatnsins, að einungis verður hóti ódýrara að flytja eftir vatninu heldur en landinu meðfram því, ef allur kostnaður er talinn. Verð afnotarjettarins ákvarðast eingöngu af þörf notandans, en tilkostnaður seljanda kemur ekki til greina, því að hann er enginn. Auðvitað hefir engin siðuð þjóð heimilað landeigendum að gera sjer þarfir almennings á þennan hátt að fjeþúfu. En einmitt þetta sama vilja nú sjereignarstefnumenn heimila hjer á landi, að leyfa einstökum mönnum að gera sjer þarfir almennings til ljóss, hita og vinnuafls að fjeþúfu. Og þótt í rauninni skifti litlu hverjir það eru eða verða, sem eiga að fá þennan rjett til að taka fyrirhafnarlaust gjöld af almenningi, þá er rjett að geta þess, að fyrirsjáanlegt er nú þegar, að það verða að mestu leyti erlendir eignamenn, en að mjög litlu leyti sjálfir ,,bakka-búarnir``, þ.e. eigendur eða ábúendur vatnajarðanna sjálfra.``

Eins og heyra má af þessum upplestri upp úr nefndaráliti meiri hluta fossanefndar, sem væri full ástæða til að lesa upp í heild sinni því að þar er margan fróðleik að finna, þá hefur verið hér frá því í upphafi aldarinnar tekist á um þessi grundvallaratriði, þótt vissulega hafi áherslurnar breyst að nokkru leyti. Það var þannig að í upphafi aldarinnar voru það ekki bara vinstri sinnaðir stjórnmálaflokkar sem töluðu fyrir allsherjarstefnunni heldur þvert á móti. Ég get fyrir mína parta tekið undir orð eins mikilhæfs stjórnmálamanns, sem var mjög afgerandi í umræðum um auðlindir landsmanna í upphafi aldarinnar, þótt sú stjórnmálastefna sem hann stóð fyrir sé að öðru leyti ekki að mínu skapi.

[23:15]

Ég vil vitna í þennan stjórnmálamann. Orð hans eiga við enn í dag. Það kaldhæðnislega við þetta er að sá maður sem skráði sögu þessa stjórnmálamanns hefur verið einn helsti áróðurspenni sjálfstæðismanna og hefur barist gegn því að arðurinn af auðlindum þjóðarinnar renni til landsmanna allra. Penninn heitir Hannes Hólmsteinn Gissurarson og stjórnmálamaðurinn er Jón Þorláksson. Í ævisögu Jóns er komið inn á fossamálin. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

,,Fossamálið var tekið fyrir á þinginu 1919, sem stóð frá júlíbyrjun til septemberloka, og reyndu menn úr fossafélögunum tveimur óspart að hafa áhrif á þingmenn. Þeir Aall og Schelderup, stjórnarmenn í Titan-félaginu, komu báðir til landsins með konum sínum og töluðu við þingmenn ásamt Klemens Jónssyni, framkvæmdastjóra félagsins. Þingið ákvað hins vegar að fresta afgreiðslu málsins en samþykkti þingsályktunartillögu um að skora á landstjórnina að taka Sogsfossa eignarnámi. Jón Þorláksson andmælti þeirri tillögu opinberlega þar sem í henni fælist viðurkenning á því að fossar væru undirorpnir eignarrétti, en meiri hluti fossanefndar hefði einmitt komist að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Þeir væru eins konar almenningur. Hins vegar gætu árbotnar og annað land, sem vatn rynni um, vissulega verið eign einstaklinga. Minni hluti minnti Jón á að í áliti sínu hefði meiri hlutinn sagt ,,að það óvirkjað vatn, sem landeign sú, er það á eða rennur um, þarf eigi til sinna þarfa, skuli vera eins konar almenning undir umráðarétti ríkisins``.

Miklar og harðar deilur urðu í blöðum um fossamálið árið 1919 og það var eitt helsta hitamál í kosningunum þá um haustið. Töldu menn ýmist eignarrétt á fossum í höndum bænda eða ráðstöfunarrétt á þeim hjá hinu opinbera en einnig skiptust menn í innilokunar- og opingáttarmenn, eins og það var kallað, eftir því hvort þeir voru með eða á móti útlendu fjármagni til virkjana og stóriðju. Heimastjórnarflokkurinn var hlynntur því að sérleyfi til virkjana yrði veitt öðru hvoru fossafélaginu, enda hafði hann frá öndverðu talið rétt að fá erlent fjármagn inn í landið. Tíminn sem hafði þá nýlega hafið göngu sína og studdi Framsóknarflokkinn eindregið hafði ekki ákveðna skoðun á því máli en aðhylltist eignarrétt landeigenda á vatni. Taldi aðsópsmesti talsmaður flokksins, Jónas Jónsson frá Hriflu, að hann gæti notað fossamálið til að fylkja bændum undir merki flokksins. ,,Jónas frá Hriflu hugsaði sér gott til glóðarinnar að hamra á því, að Bjarni frá Vogi og Einar Arnórsson væru vatnsránsmenn, eins og hann kallaði þá,`` segir Guðjón Friðriksson, ,,og sá fram á að þetta yrði vatn á myllu flokkseiningarinnar, þó að í raun og veru stríddi það gegn heildarsýn hans á framtíðarþjóðfélagið.`` Hóf Jónas harðar árásir á Einar og Bjarna, sem báðir voru í framboði í kosningunum, og féll Einar en Bjarni hélt þingsæti sínu. Sjálfstæðismenn vöruðu hins vegar flestir við opingáttarstefnu. Gerði Jakob Möller fossamálið að árásarefni á Jón Magnússon forsætisráðherra, en Jakob bauð sig fram gegn honum í Reykjavík í þessum kosningum og felldi hann.

Hið nýkjörna þing kom aðeins saman í nokkra daga í ársbyrjun 1920 til þess að staðfesta nýja stjórnarskrá vegna fengins fullveldis. Skömmu áður en reglulegt þing skyldi koma saman í ársbyrjun 1921 og afgreiða ný vatnalög, tók Verkfræðingafélag Íslands fossamálið til umræðu. Steingrímur Jónsson var frummælandi á fundi þess, sem var haldinn 17. nóvember 1920 ...``

Á þeim fundi var m.a. Jón Þorláksson. Um hans þátt segir hér, með leyfi forseta:

,,Jón kvað það misskilning að meiri hluti fossanefndarinnar hefði lagt til að ríkið ætti að eignast öll vötn. Meiri hlutinn hefði kveðið upp úr um það, að vatn væri engum eignarrétti undirorpið, hvorki ríkisins né einkaaðila, heldur væri það res nullius, einskis manns eign. ,,Það sem við vildum reyna að hindra, var það að ágóðinn sem skapaðist við það að þetta verðmæti hækkaði í verði, rynni í vasa einstaklinga, sem ekkert hefðu til þess unnið,`` sagði Jón, ,,enda verður mönnum nógu erfitt að virkja fallvötnin, þó þeir þurfi ekki að kaupa þau ,,spekúlanta``verði``.``

Á fundinum kvaðst ,,Þorvaldur Krabbe ekki gera sér ljóst, hvað Jón Þorláksson vildi í raun og veru, hvort hann vildi hagnýta fossana eða ekki og hvort hann teldi ríkið eiga að gera það eða veita öðrum sérleyfi til þess. Guðmundur Hlíðdal deildi nokkuð á tillögur Jóns Þorlákssonar og annarra í meiri hluta fossanefndarinnar; taldi hann að hindra hefði mátt gróðabrall með fossaréttindi með því að banna kaup og sölu fallvatna nema með leyfi landsstjórnarinnar; þá sagði Guðmundur, að ekki væri tímabært að setja sérstök sérleyfislög. Jón Þorláksson tók til máls seint á þessum fundi og sagði að eitt hið mikilvægasta í hugsanlegum virkjunum væri að járnbraut austur yfir fjall myndi fylgja í kaupbæti. Ólíkt Guðmundi Hlíðdal væri hann þeirrar skoðunar að fossalöggjöf væri nauðsynleg. ,,Við verðum að sjá að vatnsaflið sé nothæft í framtíðinni, þegar svo er komið að almenningi þykir þörf að það komi til notkunar.`` Ekki hefði nægt að binda kaup og sölu fallvatna við samþykki landsstjórnarinnar.

Þingið 1921 afgreiddi ekki vatnalög, en samþykkti frumvarp um heimild fyrir landstjórnina til þess að láta rannsaka Sogsfossa, og var Jón Þorláksson öflugur stuðningsmaður þess. Árið 1923 afgreiddi þingið loks vatnalög að frumkvæði Klemensar Jónssonar sem þá var orðinn ráðherra og var þá tekið meira tillit til álits minni hluta fossanefndarinnar en tillagna meiri hlutans. Lét Jón Þorláksson mjög til sín taka í umræðum um vatnalögin og tókst honum að smeygja inn í frumvarpið fyrirvörum, svo réttur landeigenda yrði ekki óskoraður. Í umræðunum greip Jón aldrei þessu vant til skáldlegra samlíkinga:

,,Það má líkja þessari ónotuðu orku vatnsfallanna hér á landi við heimasætu í föðurgarði. Þeir sem falast eftir orkunni til virkjunar, koma fram sem heiðarlegir biðlar heimasætunnar og er sjálfsagt að taka þeim með fullri kurteisi og velvild, jafnvel þótt rétt þyki af einhverjum ástæðum að synja þeim ráðahagsins. En braskararnir vilja það eitt að gerast friðlar þessarar heimasætu, hafa af henni stundarhagnað og skilja hana svo eftir spjallaða af verðhækkun og þar með svipta því helsta yndi sem hún hafði að bjóða heiðarlegum biðli.``

Jón sagði að ýmsar hindranir hefðu hin síðari ár komið í veg fyrir, að draumar sínir um notkun vatnsafls íslenskum almenningi í hag hefðu ræst. Í fyrsta lagi hefðu fossabraskarar tekið sérhagsmuni sína fram yfir almenningsþarfir. Í öðru lagi hefðu menn verið óþarflega hræddir við útlendinga, miklað málið fyrir sér; aldrei hefði verið ætlunin að reka mjög stór fyrirtæki eða fjölda útlendra verkamanna. Í þriðja lagi hefðu ýmsar vinnsluaðferðir orðið úreltar sakir tækniþróunar svo að í svip væri lítil eða engin eftirspurn eftir raforku til stóriðju frá Íslandi.

Í umræðunum um vatnalagafrumvarpið 1923 vísaði Jón Þorláksson þeirri röksemd á bug, að eignarrétti manna á landi væri hætta búin, væri eignarréttur á vatni ekki viðurkenndur. Hann kvaðst sjálfur ekki vera neinn sameignarmaður eins og þingmönnum væri vel kunnugt um. En þessi röksemd gæfi sér tilefni til að benda á eina hlið málsins. ,,Það hefir nefnilega frá öndverðu verið undirstaða vatnsréttarins að bakkabúar ættu einir þann rétt sem þeir einir gætu notað eða ættu miklu hægara með að nota en aðrir,`` sagði Jón. ,,En almenningur hefir á hinn bóginn frá öndverðu í öllum löndum átt rétt til þeirrar notkunar vatnsins sem allir höfðu jafna aðstöðu til.`` Til dæmis væri réttur almennings til að fleyta trjám eftir ám og sigla eftir vötnum víðast lögvarinn. Smávötn hefðu því gjarnan verið einkaeign og stór vötn almenningseign. Nú væru orðin aldahvörf. ,,Nú má veita orkunni svo langar leiðir að hún getur orðið í fyllsta mæli almenningseign og því er eigi nema eðlilegt að sama aðstaða skapist um þá notkun sem um hina eldri, að almenningur fái rétt til þeirrar vatnsnotkunar sem hann þarfnast.`` Þá hafnaði Jón þeirri röksemd, sem fram kom í áliti minni hluta fossanefndarinnar, að réttur landeiganda til vatns væri fullur eignarréttur. Hann væri takmarkaður hlutaréttur, sagði Jón, réttur til notkunar; þegar sagt hefur verið á fornum bókum, að maður ætti læk, hefði hann átt rétt til þess að nota lækinn á tiltekinn hátt en hann hefði ekki átt vatnið í læknum í bókstaflegri merkingu.``

Nú er fróðlegt, þegar maður veltir vöngum yfir þessum ræðum og orðum Jóns Þorlákssonar, að sjá á hvern hátt söguskýrandinn, túlkandinn, kýs að túlka orð þessa stjórnmálamanns. En nú er komið að Hannesarkafla Gissurarsonar, en hér segir, með leyfi forseta, þegar Hannes fer að túlka:

,,Hvað var hæft í þeim röksemdum sem Jón Þorláksson og aðrir í meiri hluta fossanefndarinnar báru fram fyrir allsherjarstefnunni svonefndu? Þeim varð starsýnt á þann mun, sem er á vatni og ýmsum öðrum gæðum jarðar: Vatn er sífellt á hreyfingu; það rennur ófrosið úr greipum manna. Það virðist því ekki vera fastur hlutur í sama skilningi og jörð, hús eða hestvagn. Getur vatnið þá verið háð eignarrétti? Geta menn þá átt tilkall til þess eins og til jarðar, húss, eða hestvagns? Var ekki eðlilegra að líta á það sem almenningsgagn, sem allir mættu hafa not af svo framarlega sem þeir sköðuðu ekki aðra? Þegar meiri hluti fossanefndar svaraði síðustu spurningunni játandi studdist hann við álit Einars Arnórssonar. En nú sjá menn það sem fossanefndin kom ekki auga á, að Einar notaði rangar röksemdir til að komast að réttri niðurstöðu, --- eða niðurstöðu sem er að minnsta kosti ekki röng. Vitaskuld verður vatnsafl til raforkuvinnslu að vera undirorpið einhvers konar eignarrétti af þeirri einföldu ástæðu, að það er verðmæti, sem meiri eftirspurn er eftir en framboð á. Það rafmagn sem einn maður notar, getur annar maður ekki notað; þar gildir lögmál skortsins. Andrúmsloftið er hins vegar ólíkt vatnsafli; þegar einn maður dregur andann, tekur hann ekkert frá öðrum; allir geta andað; um það gildir ekki lögmál skortsins. Hafið er einnig ólíkt því að því leyti, að það er nægilega rúmgott til þess að allir sem vilja sigla, geta það án þess að skaða hver annan, svo framarlega sem þeir virða almennar siglingarreglur; um siglingar á hafi gildir því ekki lögmál skortsins ...`` --- Síðan segir Hannes:

,,Jón Þorláksson hélt því fram, að réttindi landeiganda til vatns væru takmörkuð hlutaréttindi; þau væru afnotaréttindi, ekki eignarréttindi. Af því leiddi beint, að hugtakið fossaréttindi stóðst ekki. Fossafélögin, Ísland og Titan, höfðu verið að kaupa hlut sem ekki var til. Þetta kann að vera rétt. En spurningin er, hversu víðtæka ályktun má draga af því. Hvorki meiri hluti né minni hluti fossanefndarinnar gerði sér grein fyrir því að öll eignarréttindi eru í raun og veru takmörkuð hlutaréttindi, afnotaréttindi. Menn mega ekki fara með eignir sínar alveg eins og þeir vilja. Einstaklingur má til dæmis ekki leika hástöfum á flygil sinn á næturnar, ef hann býr nálægt öðru fólki. Eigandi hnífs má nota hann til þess að skera með brauð, en ekki til að skera með fólk (nema hann sé skurðlæknir). Maður sem á veiðiréttindi í stöðuvatni á ekki nauðsynlega rétt á því að losa úrgang í vatnið eða taka þaðan vatn til neyslu eða áveitu; því síður leiðir af veiðirétti hans að hann eigi sjálft stöðuvatnið.``

,,Deila fylgismanna ,,allsherjarstefnu`` og ,,séreignar\-stefnu`` árið 1919 virðist af þessum sökum til marks um misskilning``, segir sá sem skráir sögu Jóns Þorlákssonar. Væri Jón Þorláksson heitinn hér til að lesa þessi orð er ég hrædd um að hann yrði ekki hrifinn af þessari túlkun á einu af stærstu málunum á hans pólitíska ferli.

Herra forseti. Eins og ég gat um í upphafi máls míns er rétt að halda því til haga að við erum fyrst og fremst að tala um auðlindapólitík. Í gangi eru tvenns konar stefnur. Annars vegar er það þessi séreignarstefna, sem ríkisstjórnin hefur nú gert að sinni. Hins vegar er það sú pólitík sem stjórnarandstöðuflokkarnir hafa fylgt í þeim málum sem þeir hafa lagt fyrir þingið og byggist á því fyrst og fremst að auðlindirnar eigi að vera í sameign þjóðarinnar og nýtast landsmönnum öllum til heilla.

Það má vekja athygli á tillögu sem lögð hefur verið fram af þingmönnum Alþb. Hún gæti t.d. verið góð byrjun á því sem þarf að gera varðandi auðlindir þjóðarinnar og er nauðsynlegt vegna þess að þær tillögur sem koma fram, t.d. í þessu frv., eru mjög vanhugsaðar eins og ítarlega hefur verið rakið í ræðum þeirra sem talað hafa áður. En till. til þál. um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald, sem lögð hefur verið fram af þingmönnum Alþb., miðar að því að skipuð verði, með leyfi forseta: ,,nefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, m.a. öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda, námur í jörð, orku í rennandi vatni og jarðhita neðan við 100 m dýpi. Nefndin skilgreini þessar auðlindir á skýran hátt og hvernig skuli með þær farið. Nefndin kanni einnig hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar, með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru. Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.``

Í þessari tillögu er vakin athygli á því að þingmenn Alþb. hafa flutt stjórnarskrárfrv. á Alþingi um auðlindir í sameign þjóðarinnar og að nú þegar liggja fyrir þinginu frv. um sama efni, um breytingar á stjórnarskránni, um eignarrétt fallvatna og jarðhita, auk þáltill. um miðhálendið. Eins og hér hefur einnig verið bent á hafa verið lagðar fram tillögur sem ganga að grundvallarstefnu í sömu átt af hálfu alþýðuflokksmanna.

Umhverfisþátturinn er alls ekki nægilega tryggður í þessu frv. Það er enn eitt dæmið um það að þetta frv. er mjög illa undirbúið á allan hátt. Þetta kemur fram í fjölda umsagna um málið. Mér finnst það vera mjög alvarlegur hlutur, ef satt er, að frv. sem hæstv. ríkisstjórn er að flytja standist ekki alþjóðlegar skuldbindingar sem við Íslendingar höfum undirgengist, og jafnvel, eins og bent hefur verið á í umsögn, að það standist ekki áætlanir sjálfrar ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum. Ég vil vísa í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands:

,,Náttúrufræðistofnun Íslands telur að brýnt sé orðið að endurskoða gildandi lög um nýtingu auðlinda í jörðu. Stofnunin mæli ekki með samþykkt þessa frumvarps nema á því verði gerðar verulegar breytingar sem taki mið af ríkjandi sjónarmiðum í umhverfisvernd og fyrirliggjandi áætlun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi.

Náttúrufræðistofnun vekur athygli nefndarinnar á því, að ekkert tillit virðist vera tekið til skuldbindinga sem felast í alþjóðlegum samningum um vernd umhverfis og Ísland hefur staðfest á undanförnum árum. Ekki virðist heldur hafa verið tekið tillit til gildandi laga sem lúta að vernd og nýtingu náttúruauðlinda, svo sem laga nr. 63/1993, nr. 60/1992, 93/1996 og nr. 73/1997.`` Síðan segir:

[23:30]

,,Við gerð þessa frumvarps hefur ekki verið tekið tillit til áætlunar ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi (framkvæmdaáætlun til aldamóta).``

Mér þykja það tíðindi ef hæstv. ríkisstjórn getur ekki einu sinni séð til þess að þau frumvörp sem hún leggur hér fram og ætlar að keyra í gegn án þess að í raun og veru sé nægilega vel staðið að undirbúningi, standist ekki einu sinni áætlanir hennar sjálfrar um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi. Í þessari áætlun, framkvæmdaáætlun til aldamóta, segir, með leyfi forseta:

,,Lög um vinnslu jarðefna verði endurskoðuð og samræmd, þannig að þau stuðli að aðhaldi í nýtingu þessarar takmörkuðu og endanlegu auðlindar og því að nýtingin sé í anda meginreglna um sjálfbæra þróun. Meðal annars verði kveðið á um að kortleggja skuli jarðefni. Flokka þarf námusvæði eftir efni, magni, aðgengi og gæðum efnis.``

Síðan segir í umsögn Náttúrufræðistofnunar:

,,Í 4. gr. frumvarpsins er hvorki kveðið á um aðkomu umhverfisráðuneytisins né Náttúrufræðistofnunar að rannsóknum eða mati á auðlindum í jörðu. Nauðsynlegt er að skilgreina með einhverjum hætti hver hlutur opinberra rannsóknarstofnana eigi að vera í skráningu og mati á auðlindum í jörðu og hvaða aðili eigi að meta verndargildi og nýtingarþol þeirra auðlinda.

Í 2. mgr. 4. gr. frumvarpsins kemur fram að rannsóknir sem framkvæmdar verða með eða án leyfis, geta haft í för með sér veruleg náttúruspjöll. Þrátt fyrir það er ekki kveðið á um að viðkomandi aðilum verði sett skilyrði þar að lútandi. Aðeins er miðað við að setja þurfi upp skilyrði af öryggis- eða tæknilegum ástæðum eða vegna vinnslu sem fram fer á svæðinu.``

Herra forseti. Hér lítur út fyrir að verið sé að þjóna einu meginmarkmiði sem er að tryggja eignarrétt landeiganda að auðlindunum. Sjálfsagðar takmarkanir á þeim rétti eru látnar liggja á milli hluta, svo sem umhverfisatriði, náttúruvernd, meðferð viðkvæmra vistkerfa o.s.frv.

Það verður aldrei sátt um þetta mál í samfélaginu ef það verður keyrt í gegnum þingið núna, herra forseti. Ég vil hvetja hæstv. iðnrh. til að fresta afgreiðslu þessa máls, a.m.k. þar til tryggt er að áætlanir okkar um umhverfismál og alþjóðlegar skuldbindingar séu virtar. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa.

Áður hefur verið vitnað til umsagnar Alþýðusambands Íslands. Þar er m.a. lögð áhersla á að einkaeignarrétti eða afnotarétti, hvort heldur er að landi eða landsnytjum eða náttúruauðlindum, séu sett eðlileg mörk. Þar er bent á að óeðlilegt sé að slíkum rétti fylgi ótakmarkaðar heimildir til nýtingar eða afnota.

Alþýðusambandið andmælir þeirri afstöðu til umfangs eignarhalds einstaklinga sem frv. byggir á og telur að hún sé ekki í samræmi við þá stefnu sem frv. ríkisstjórnarinnar um þjóðlendur byggir á og er vissulega rétt. ,,ASÍ gerir ekki athugasemdir við einstakar greinar en hvetur til þess að frumvarpið verði endurskoðað þannig að um lagasetningu um eignarhald og nýtingu landsins gæða geti orðið sátt sem þjóðin getur búið við til frambúðar. ASÍ telur að þetta frumvarp bjóði ekki upp á slíka sátt. Óheppilegt væri ef málið yrði pólitískt bitbein þannig að líkur væru til þess að innan skamms tíma yrðu gerðar breytingar á lagaumhverfinu. Slíkt er ekki til þess fallið að skapa þá kyrrð og staðfestu sem þjóðin og atvinnulífið þarf á halda að ríki um málið.``

Kveðið er á um svipaða hluti í umsögn frá Náttúruvernd ríkisins. Þar er segir:

,,Skynsamleg nýting náttúruauðlinda í nútíð og framtíð er eitt höfuðmarkmiða náttúruverndar. Núgildandi lög um nýtingu auðlinda í jörðu eru að stofni til frá 1967 og 1973 og því löngu orðið tímabært að endurskoða þau. Um leið má gera ráð fyrir því ný lög taki mið af aðstæðum og viðhorfum nútímans, þar með talið varðandi sjálfbæra þróun, skynsamlega nýtingu og náttúruvernd. Náttúruvernd ríkisins telur að ofangreint frumvarp uppfylli þessi atriði. Frumvarpið stangast einnig á við veigamikil og mörg atriði í framkvæmdaáætlun umhverfisráðuneytisins, Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi, sem samþykkt var af ríkisstjórninni í febrúar 1997.``

Þetta er það sama og bent er á í umsögn Náttúrufræðistofnunar ríkisins og sýnir okkur að það er eins og önnur hönd ríkisstjórnarinnar viti ekki hvað hin er að gera.

,,Náttúruvernd ríkisins bendir á að hvergi í frumvarpinu né í greinargerð er minnst á náttúruvernd eða skilgreind atriði sem lúta að verndun umhverfis og náttúru, eingöngu eru lögð fyrir óljós ummæli um einhvers konar umhverfisvernd. Veitingu leyfa og eftirlit með vinnslusvæðum er eingöngu beint að nýtingu auðlindanna.``

Þá er ekki kveðinn fagur tónn um þetta frv. í umsögn Félags íslenskra náttúrufræðinga. Þar segir t.d., með leyfi forseta:

,,Eðli máls samkvæmt þá er nýting auðlinda í jörðu nátengd umhverfi og náttúru. Umhverfisnefnd FÍN hefði því talið að í slíku frumvarpi og hér um ræðir væri að finna mun sterkari skírskotanir til þeirra málaflokka og jafnframt tilvísanir til gildandi laga og reglna sem þar gilda. Svo er ekki og hlýtur það að sæta furðu. Ekki er hægt að skilja lagatextann á annan hátt en þann að gildandi t.d. náttúruverndarlög og lög um mat á umhverfisáhrifum séu sniðgengin, ásamt reglugerðum á þeim byggðum. Þó slíkt hafi ekki verið ætlun höfunda frumvarpsins, þá er ekki hægt að vísa til slíks síðar nái lagatextinn fram að ganga eins og hann er nú, sérstaklega þar sem skýrari túlkanir hvað þetta varðar er heldur ekki að finna í greinargerð.

Þá má einnig á það benda að lögunum er ætlað að verða ótrúlega víðtæk. Eins og kemur fram í I. kafla þeirra, þá taka þau til hvers konar frumefna, efnasambanda og orku sem vinna má úr jörðu, hvort heldur í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs sem þau kunna að finnast við. Allt það sem í jörðu finnst er annaðhvort frumefni eða efnasamband. Þar með má segja að sé engin undantekning sé á gildi laganna. Þegar það er síðan einnig haft í huga að frumvarpið gerir ráð fyrir að iðnaðarráðherra geti látið rannsaka auðlindir hvar sem er á landinu með nýtingu í huga, þá verður nefndin að lýsa því yfir að henni finnst fyrirhugað gildissvið og vald iðnaðarráðherra með ólíkindum. Um ýmsar jarðmyndanir gilda sérstakar verndarreglur og er ekkert tillit til þeirra hér tekið, ekki einu sinni í greinargerð.``

Síðan er bent á að sérstakar reglur gilda um jarðvegsnámur og frágang þeirra og að slíkar námur kunni einnig að vera háðar lögum um mat á umhverfisáhrifum, en þar fer að vísu eftir stærð þeirra. Í niðurlagi umsagnar sinnar segir Félag íslenskra náttúrufræðinga:

,,Eins og sjá má af þeim atriðum sem tínd hafa verið til, þá telur nefndin þessu frumvarpi mjög áfátt í þeim atriðum sem lúta að náttúruvernd og umhverfismálum. Slíka hugsun vantar nærri algerlega í þetta frumvarp og það er ábyrgðarhluti þegar verið er að setja löggjöf sem getur haft jafnafdrifarík áhrif á umhverfið og hér um ræðir.

Umhverfisnefnd Félags íslenskra náttúrufræðinga hvetur háttvirta iðnaðarnefnd til að endurskoða frumvarpið í ljósi þessara athugasemda.``

Þetta frv., fyrir utan að vera bara ótrúlega hreint vitlaust pólitískt séð, er gölluð lagasmíð líka, eins og hér hefur verið bent á í umræðunum. Það tekur ekki mið af sjálfsögðum hlutum eins og umhverfisvernd og verndun náttúrunnar. Það er kannski ekkert skrýtið þegar skoðað er hvernig staðið var að þessu frv., að undirbúningi þessa stóra máls sem við erum ræða hér og er eitt stórpólitískasta málið á þessu þingi. Hverjir eru það sem valdir eru til starfa að frv., undirbúa það og skrifa, ef við skoðum nefndarskipunina?

Með bréfi iðnrh. 24. nóv. 1995 voru eftirtaldir skipaðir í vinnuhópinn: Stefán Guðmundsson alþm., formaður, Sturla Böðvarsson alþm., Páll Gunnar Pálsson lögfræðingur og Tryggvi Gunnarsson hrl.

Svo mörg voru þau orð. Einn framsóknarmaður, einn sjálfstæðismaður, tveir sérfræðingar, en afgangur þjóðarinnar skiptir bara engu máli. Hún má kvarta og kveina en þeir sem valdið hafa tala hér í þessu frv. og þeir ráða. Eins og áður hefur verið haft eftir mönnum í þessari ríkisstjórn má einfaldlega segja: Þetta er pólitísk ákvörðun og henni verður ekki breytt.

Og það er sorglegt að það skuli vera niðurstaðan um svona stórt mál. Hún á eftir að skapa mikinn ófrið í framtíðinni, ef að lögum verður.