Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Mánudaginn 11. maí 1998, kl. 23:42:41 (6465)

1998-05-11 23:42:41# 122. lþ. 124.3 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 122. lþ.

[23:42]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Forseti vill taka fram, vegna þessara orða hv. þm., að það er útlátalaust fyrir hann að óska þess að fundurinn í fyrramálið í félmn. verði felldur niður. Hann var ekki boðaður í samráði við forseta.

Forseti vill geta þess í leiðinni að þess er auðvitað gætt af skrifstofu þingsins að starfsfólk Alþingis fái lögboðinn hvíldartíma. Varðandi hvíldartíma þingmannanna þá heldur forseti því fram að þar verði hv. þm. að gæta þess sjálfir að þeir fái nægilega hvíld. Það getur ekki verið í verkahring forseta að gæta þess.

Forseti ítrekar, til þess að taka af öll tvímæli og undirstrika það, að hann hefur ekki áhuga á að brjóta sett lagafyrirmæli. Hann mun beita sér fyrir því að nefndarfundurinn í fyrramálið verði felldur niður eða að honum verði frestað þar til síðar á morgun.