Ákvæði um hvíldartíma og fundur í félagsmálanefnd

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 10:43:09 (6475)

1998-05-12 10:43:09# 122. lþ. 125.92 fundur 376#B ákvæði um hvíldartíma og fundur í félagsmálanefnd# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[10:43]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil staðfesta að það er rétt sem hér hefur komið fram að við stóðum í þessari trú sem hér sinntum þingskyldum okkar um miðnættið í gær þegar hv. þm. Sighvatur Björgvinsson vakti athygli á því að fundarhald væri að færast yfir á nýjan sólarhring en samt væri boðaður fundur í hv. þingnefnd í fyrramálið, þ.e. í morgun. Þá lýsti forseti því yfir af forsetastóli að þeim fundi yrði aflýst. Og það er stórmerkilegt ef ekki er mark á slíku takandi en fundurinn er engu að síður haldinn (Gripið fram í.) Eða fundinum frestað. En það er ekki hægt að segja að fundi sem átti að hefjast kl. 8.15 hafi verið frestað mikið ef hann hefst kl. 8.15. Jafnvel þó það hafi dregist um fimm mínútur, þá held ég að menn hafi ekki skilið það svo að það væri þannig frestun sem forseti talaði um.

Að öðru leyti, herra forseti, verð ég að segja að ástandið í þinghaldinu er auðvitað skelfilegt. Það er með ólíkindum hvernig þessi mál hafa þróast. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Pétur Blöndal að koma hér upp og þenja sig um vitlaus þingsköp og langar ræður og annað slíkt. Það er svo augljóst mál hver sökudólgurinn er í þessum efnum. Það er hæstv. ríkisstjórn. Það liggur algjörlega á borðinu. Og af því að hv. þm. var svo óheppinn að nefna þingsköpin þá liggur líka fyrir og þjóðin veit það, hver það er sem kemur í veg fyrir að þingsköpunum verði breytt. Það er hæstv. forsrh. Hann fór í fýlu af því að stjórnarandstaðan leyfði sér að nýta rétt sinn hér til þess að koma í veg fyrir afbrigði í nauðungarmáli. Þá fór hæstv. forsrh. í fýlu og blés á allar hugmyndir um að lagfæra þingsköpin.

Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin tróð hér inn 50--60 málum á síðustu vikum þinghaldsins og ætlast síðan til þess að þetta fari allt saman í gegn. Í raun og veru er búið að leggja niður þingræðið, a.m.k. þessar vikurnar. Menn tala hér á göngum um þingviljann í eintölu. Það er þingviljinn í eintölu og með ákveðnum greini og það vita allir við hvað er átt.

Auðvitað er alveg ömurlegt að forusta þingsins skuli ekki hafa bein í nefinu til þess að setja hnefann í borðið fyrir hönd þingsins og þingræðisins og segja við hæstv. ríkisstjórn: Veljið tvö til þrjú mikilvægustu málin (Forseti hringir.) plús þau samkomulagsmál sem allir eru sáttir við að séu afgreidd og þá er hægt að ljúka þinghaldinu (Forseti hringir.) á eðlilegan hátt, en annars ekki. Það er auðvitað héðan sem forustan um þessi mál á að koma (Forseti hringir.) en ekki annars staðar frá, alveg sama hvernig hæstv. forseti lemur í bjölluna.

(Forseti (StB): Forseti vill biðja hv. þingmenn um að gæta þess að fara ekki fram yfir þann tíma sem þeir hafa til ræðuhalda.)