Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 11:11:32 (6490)

1998-05-12 11:11:32# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, GGuðbj
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[11:11]

Guðný Guðbjörnsdóttir:

Herra forseti. Hér er rætt þriðja vers frumvarpsþrennu ríkisstjórnarinnar um hálendið, nú um eignarhald á auðlindum og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það er mjög fróðlegt, herra forseti, að skoða þessa þrennu og bera hana saman við lögin um stjórn fiskveiða eins og þegar kom fram í máli mínu við 1. umr. Jú, almenningur eða ríkið á að eiga þjóðlendur en samkvæmt 3. gr. þessa frv. er sagt að í þjóðlendum séu auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Þá segir í sömu grein að eignarlandi fylgi eignarréttur að auðlindum í jörðu.

Þessi 3. gr. frv. sýnir þá hugsun sem einkennir þessi frumvörp. Það er yfirlýst markmið að á eignarlandi eigi eigandinn allt, jafnvel mörg hundruð metra undir yfirborðinu, en í þjóðlendum er öðrum gefið færi á að sanna að þeir eigi tilkall til auðlindanna. Ríkið er sem sagt ekki sjálfkrafa eigandi auðlindanna þar.

Þetta er, herra forseti, sami tvískinnungurinn og er í lögum um stjórn fiskveiða. Fiskstofnarnir eru sameign þjóðarinnar en nýtingarrétturinn er að færast á æ færri hendur. Það er mjög mikilvægt að þingheimur og þjóðin átti sig á að sú lagasetning sem hér er til umræðu er lagasetning í anda séreignarstefnu en ekki í anda allsherjarstefnu, svo vitnað sé til hugtaka sem fossanefndin notaði snemma á þessari öld áður en vatnalögin voru sett árið 1923. Þá aðhylltust menn eins og Jón Þorláksson allsherjarstefnu því þá var sá hugsunarháttur mjög ríkjandi að almenningur ætti sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar. Einnig var þetta ríkjandi hugsunarháttur meðal sjálfstæðismanna að því er virðist.

Því miður hefur orðið kúvending á þessu og framsóknarmenn leggjast nú á eitt með sjálfstæðismönnum til að rúa almenning eigum sínum með því að flytja þetta frv. sem er reyndar skiljanlegt í ljósi þess að eigendur viðkomandi landa eru gjarnan framsóknarmenn, úr öllum flokkum kannski, en það eru kannski þeir sem koma til með að geta gert tilkall til eignar á löndum í þjóðlendum, nýtingar í þjóðlendum eða auðlinda í þjóðlendum samkvæmt þeirri grein sem ég nefndi áðan.

[11:15]

Ég gerði að umtalsefni í umfjöllun minni um þjóðlendufrv. að athyglisvert væri að skoða hvernig viðhorfin hafa breyst hér á landi frá aldamótum og hvers vegna. Annars vegar tel ég skýringuna vera þá að það var skoðun minni hluta fossanefndar sem varð ofan á við setningu vatnalaganna 1923 og hins vegar hve lengi hefur dregist að setja löggjöf um miðhálendið og eignarhald þar og nýtingu þeirra svæða, bæði með tilliti til auðlinda á við vatnsréttindi og námur og með tilliti til nýtingar og til beitar og fyrir ferðamenn. Þó að réttur á almenningum sé vissulega til samkvæmt íslenskum lögum er ljóst að samkvæmt þeim er þessi réttur ekki eins miðlægur og eins gildandi og 72. gr. stjórnarskrárinnar um verndun eignarréttarins. Því er hætta á að þar sem vilji löggjafans er ekki ljós styðjist dómstólar fyrst og fremst við eignarréttarákvæðin og það sýnist mér hafa orðið reyndin hér á landi. Ef löggjafinn hefði fyrst eða fyrr á öldinni sett fram skýran vilja sinn í þessum efnum er ég sannfærð um að ýmsir þeir dómar sem hafa fallið um þessi mál á þessari öld hefðu ekki verið á þann veg sem þeir urðu enda hafa dómstólar beinlínis bent á það að af því að það væru ekki til lög sem löggjafanum væri að sjálfsögðu heimilt að setja verði þeir að styðjst við eldri lög eða eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Í Noregi er talið fullkomlega samræmanlegt eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar að setja frv. eða lög sem eru í líkingu við þau frv. sem hafa verið flutt af Sighvati Björgvinssyni eða jafnaðarmönnum og kvennalistakonum en hér er því gjarnan slegið fram að þau frv. standist varla stjórnarskrárákvæðið um eignarréttinn.

Í því frv. sem liggur fyrir er alveg ljóst að alls staðar þar sem óvissa ríkir um réttarstöðu er frv. túlkað landeigendum í vil. Þeir hafa stjórnarskrárákvæðið sér til verndar en almannaréttur virðist vera annars flokks enda hefur hann ekki verið nægilega styrktur með íslenskum lögum eins og vonandi er verið að gera núna með þjóðlendufrv.

Um rétt á almenningum segir m.a. í grein Þorgeirs Örlygssonar prófessors um eignarhald á landi og náttúruauðlindum í afmælisriti Gauks Jörundssonar 1994, með leyfi forseta. Ég ætla að koma fyrst inn á hugtakið almenning en þar segir:

,,Þegar til lengri tíma er litið, hefur orðið almenningur haft ýmsar merkingar hér á landi, bæði í daglegu tali og í lagamáli. Stundum er átt við tiltekið landsvæði en í öðrum tilvikum var átt við svæði hafs. Þá var orðið í lögbókunum notað um tiltækar heimildir almennings til veiða. Eins eru dæmi um að það hafi verið notað um beitarrétt og rekarétt.

Í Grágás voru ákvæði um almenninga. Það voru almenningar sem fjórðungsmenn áttu saman. Þar máttu menn fiskja og fygla. Ýmsar kenningar eru til um það með hvaða hætti tiltekin landsvæði urðu að almenningum, t.d. af sektarfé eða vegna þess að tiltekin landsvæði urðu eftir þegar farið var að setja merki milli býla. Við lögtöku Jónsbókar varð ekki breyting á meginreglunni um almenninga, sbr. þau ákvæði 52. kapítula Landsleigubálks að svo skyldu vera almenningar sem að fornu hefðu verið, bæði hið efra og hið ytra. Er ákvæði þetta enn tekið upp í íslenska lagasafnið.

Menn hefur greint á um það hvar almenningar eru hér á landi og hvernig eignarrétti að þeim er háttað en í sjálfu sér er ekki ágreiningur um að þeir geti verið til enda gerir löggjöf ótvírætt ráð fyrir tilvist þeirra og hefur lengi gert.

Í síðari tíma löggjöf og fræðiviðhorfum er helst við það miðað, að almenningar séu landsvæði sem enginn aðili getur talið til einstaklingseignarréttinda yfir. Þó hefur verið talið að ekki sé útilokað að um ákveðin einstök réttindi geti verið að ræða í almenningum.`` --- Samanber líka lagagreinina.

Síðan eru almenningar flokkaðir mjög ítarlega í landalmenninga, hafalmenninga og almenninga á stöðuvötnum og þetta skiptir máli í samhengi þessa frv. en fær ekki þá umfjöllun sem mér finnst tilheyra.

Grein Þorgeirs Örlygssonar er mjög ítarleg um eignarhald á náttúruauðlindum og þar er heill kafli um nýtingu auðlinda á almenningum. Þetta finnst mér dálítið athyglisvert vegna þess að í yfirliti sem var dreift á sameiginlegum fundi allshn., félmn. og umhvn. 2. mars 1998 er samantekt á helstu réttarreglum. Þetta er frá Tryggva Gunnarssyni hæstaréttarlögmanni en hann er einn af fjórum höfundum þessa frv. en hinir tveir eru fulltrúar stjórnarflokkanna, alþingismennirnir Stefán Guðmundsson, hv. þm. Framsfl., og Sturla Böðvarsson, hv. þm. Sjálfstfl. ásamt einum sérfræðingi til viðbótar. Í þessu plaggi fer mun minna fyrir umræðunni um almennan rétt eða almenninga og um nýtingu auðlinda á þeim þó að vissulega sé vitnað til nokkurra ákvæða í plagginu, þ.e. vitnað er í lög sem taka til réttar á almenningum sem styðjast við það eins og t.d. vatnalögin frá 1923, námulögin frá 1973 og lögin um eignarrétt íslenska ríkisins á auðlindum hafsbotnsins árið 1990.

Tilvitnanir í þessu plaggi, sem dreift var frá þeim sem sömdu frv., er gert í köflum um auðlindir í jörðu innan eignarlanda en í yfirlitinu um eignarhald á hálendinu er sérstaklega lítið komið inn á þessi atriði. Þegar spurt var út í þetta í allshn. var ekki mikið um svör en gefið til kynna að almannaréttur sé ekki eins sterkur og t.d. eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar sem er auðvitað alveg rétt. Ég dreg þetta fram hér, herra forseti, vegna þess að þetta er ekkert sérstakt vandamál hér, þau átök á milli almannaréttar sem hefur mun óskilgreindari stöðu almennt í lögum og svo aftur eignarréttarins er núna mjög víða miðpunktur lagalegrar umræðu og átaka um auðlindir, bæði vegna auðlinda á borð við þær sem við erum hér að ræða um og einnig ekki síður vegna ágreinings um fiskimiðin. Það virðist vera að samkvæmt bæði íslenskum réttarheimildum og einnig erlendum megi komast að þessu en grundvöllinn að almenningum má rekja til Rómarréttar þar sem segir að fyrirbæri eins og loft, rennandi vatn, sjórinn og strendur sjávar séu almenningseign.

Breskur fræðimaður frá miðöldum, Bratton að nafni, orðaði það svo að þetta væri samkvæmt náttúrurétti en það er gjarnan vitnað í Magna Carta þegar rætt er um almannarétt:

,,Samkvæmt náttúrurétti eru vatn, loft, sjórinn og strendur sjávar sameign allra, svo og réttur til fiskveiða við strendur og í ám. Þar af leiðandi`` sagði Bratton ,,er ekki hægt að selja eða gefa þessi réttindi eða aðskilja þau frá krúnunni`` sem var þá fulltrúi breska ríkisins.

Því miður var mjög lítið rætt um stöðu þessara mála í öðrum löndum í nefndum þingsins, en ég ræddi um þjóðlendufrv. í allshn. og þetta frv. í iðnn. En athygli vekur að almannarétturinn virðist vera mun sterkari í Noregi, t.d. aðgangur að ströndum og fiskveiðar í ám, en t.d. í Danmörku þar sem land er mun meira í einkaeign og vissulega sækjum við mikið af lagahefð okkar til Danmerkur. Þetta er enn eitt dæmið um hve mikilvægt er að ferskir vindar blási um lagadeild Háskóla Íslands til að tryggja að dómapraxís hér á landi verði ekki eins einsleitur og raun ber vitni og byggi oft á mjög einhliða sjónarmiðum. Nú eru t.d. gífurleg átök af þessum toga í Bandaríkjunum, bæði vegna fiskimiðanna en þar er almannarétturinn ótrúlega sterkur miðað við að það er land einkakapítalismans en það er vegna þess að framsæknir menn settu mjög snemma löggjöf sem vernduðu þennan rétt. Þetta á bæði við um fiskimiðin og um aðgang að vatni, að ám og atriðum sem við erum að ræða um hér og rétt til nýtingar á slíkum auðlindum.

[11:30]

Ég tel mjög tímabært að sett séu lög í líkingu við þjóðlendufrv. en þó mætti vera kveðið ákveðnar að orði heldur en þar er gert, sérstaklega hvernig kveðið er á hér um nýtingu á auðlindum í eign ríkisins. Ég held að nær væri að gera það en að gera það sem þessi frumvarpaþrenna gerir, þ.e. að færa séreignaraðilum mun meiri réttindi en fyrir eru í íslenskum lögum þar sem einkaaðilar njóta alls staðar vafans sem fyrir er í íslenskum lögum. Dæmi um þetta voru rakin í ræðum ýmissa þingmanna í gær og vil ég þar sérstaklega minna á ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds. Skilgreiningin á netlögum í þessu frv. er sögð hefðbundin og er þar m.a. vitnað í Þorgeir Örlygsson og grein hans sem ég nefndi áðan, þó að það sé alveg ljóst að þar er ekki um einhliða skilgreiningu að ræða.

Ragnar benti á að skilgreiningin á netlögum í frv., 115 metrar út í stöðuvatn eða út í sjó, ætti bara við um veiðar á fuglum en ekki við t.d. nýtingu á botninum í sjó eða í viðkomandi vatni þar sem sú fjarlægð sem á að miða við er 60 faðmar og dýptin sem á að miða við er 2,9--3 metrar en alls ekki alveg niður í árbotninn eða sjávarbotninn að honum meðtöldum. Í grein Þorgeirs er stuðst við þá skilgreiningu á netlögum sem þetta byggir á en sú grein er frá 1994 áður en mjög mikilvægur hæstaréttardómur féll og hv. þm. Ragnar Arnalds sagði einnig frá í ræðu sinni, svo og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir. Ég tel því að athuga þurfi mjög vel skilgreiningu á því hvað átt er við með því að landeigandi eigi nýtingarrétt innan netlaga. En svo við skoðum aðeins betur hvað segir í grein Þorgeirs Örlygssonar um netlög, þá segir á bls. 555 í áðurnefndri grein hans, með leyfi forseta:

,,Netlög eru talin ná 60 faðma frá stórstraumsfjörumáli, sbr. 3. gr. tilskipunar um veiði á Íslandi frá 20. júní 1849 og 2. gr. laga nr. 39/1914, um beitutekju, eða 115 metra, sbr. og áður 4. gr. laga nr. 33/1966, um fuglaveiðar og fuglafriðun.

Í 1. gr. veiðilaga, nr. 64/1994, eru netlög skilgreind með sama hætti og áður var gert í lögum nr. 33/1966, þ.e. hafsvæði 115 metrar út frá stórstraumsfjörumáli landareignar, og netlög fylgja einnig eyjum, hólmum og skerjum út í sjó.``

Þarna bendir Þorgeir á grunnheimildir en síðan er þetta tekið upp að viðmiðunin sé 115 metrar. Þeir hv. þm. sem ég nefndi áðan, Ragnar Arnalds og Bryndís Hlöðversdóttir, röktu í umræðunum í gær ítarlegan hæstaréttardóm frá 1996 um grásleppuveiðar í Breiðafirði sem staðfesti að þessi skilningur sem þau benda á sé réttur en ekki sú skilgreining sem hér er stuðst við og færir út réttarheimildir landeiganda. Þetta er aðeins eitt dæmi um það að þar sem einhver vafi er, þá er hann túlkaður landeigendum í vil. En þess skal geta að viðkomandi grásleppuveiðimaður hafði verið dæmdur sekur í undirrétti en sýknaður í Hæstarétti. (Gripið fram í: En þetta frv. er ekki um grásleppu.) Nei, nei. En þetta er spurning um skilgreiningu á netlögum og það er skilgreiningin á netlögum sem hér er miðað við (Gripið fram í.) Jú, það er grundvallaratriðið sem gengið er út frá, að landeigandi eigi rétt á nýtingu í auðlindum sem eru innan netlaga.

Í frv. er einkaaðilum færð öll mikilvæg réttindi á eignarlöndum þeirra, t.d. vegna virkjana, og þá verða fullar greiðslur að koma til, ekki bara að viðkomandi þurfi að sýna fram á hvaða tjón hafi orðið, heldur geti hann í raun og veru selt þessi réttindi því verði sem hæstbjóðandi vill kaupa, þ.e. nýtingin á landi landeiganda verður ekki í anda svokallaðrar allsherjarstefnu samanber frv. jafnaðarmanna og kvennalistakvenna sem hér liggja fyrir, og einnig frv. alþýðubandalagsmanna sem hér liggja fyrir. Þau eru öll í anda svokallaðrar allsherjarstefnu. Hér er verið að styrkja séreignarréttinn. Þau stjórnmálaátök sem birtast í þessum frv. eru að mínu mati grundvallarátök í stjórnmálum sem þjóðin verður að átta sig á. Hér er verið að færa verulega réttindi yfir til eignaraðila sem einnig mætti færa yfir til almennings. Það ríkir réttaróvissa á hálendinu vegna þess að Alþingi Íslendinga hefur ekki borið gæfu til að setja um þetta lög fyrr þrátt fyrir margar tilraunir og nú á ákveðið að fara sömu leið og farin var 1923 þegar vatnalögin voru sett, en þá var fylgt minnihlutaáliti fossanefndarinnar þar sem séreignarstefnan varð ofan á en allsherjarstefnan varð undir. Hér á sem sagt að halda áfram á sömu braut, enda kannski ekki skrýtið miðað við hvaða flokkar sitja hér við völd.

Herra forseti. Ég tel að sjálfsögðu að við verðum að virða réttarkerfi okkar og 72. gr. stjórnarskrárinnar, en það skiptir mjög miklu máli hvers konar löggjöf er sett, t.d. hvers konar greiðslur eða bætur koma til landeigenda ef land þeirra verður notað til virkjanaframkvæmda, fyrir miðlunarlón eða ef þarf að nýta ár eða vötn í almenningsþágu, t.d. vegna hitaveitu fyrir sveitarfélög. Þetta hefur verið gert í Noregi, þ.e. þar er gildandi löggjöf sem er mun líkari því sem kemur fram í frv. Alþfl. og okkar kvennalistakvenna og þar er ekki kvartað undan því að þar þurfi að koma til bætur eða þetta stríði gegn eignarréttarákvæðum stjórnarskrárinnar. Því tel ég mjög mikilvægt, herra forseti, að fresta þessum frv. nú til þess að almenningur átti sig á því sem hér er að gerast.

Það hefur verið mjög mikil deila um sveitarstjórnarfrv. og almenningur tók allhressilega við sér í tengslum við það sem var mjög mikilvægt. Þetta frv. hér er ekkert skárra. Samkvæmt því er verið að færa auðlindirnar til einkaaðila í meira mæli en núverandi lög gera ráð fyrir. Ég vil því að við frestum þessum frv., helst öllum þremur, en það væri helst þjóðlendufrv. sem mætti fara í gegn. Síðan væri rétt að kosið yrði um þessi mál í næstu kosningum, hvor stefnan eigi að verða ofan á. Á að heimila landeigendum að gera sér þörf landsmanna fyrir rafmagn eða heitt vatn að féþúfu eða eiga þessi gæði að tilheyra öllum, almannavaldinu og ríkinu?

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, er réttur á almenningum því miður oft frekar óljós. Þess vegna er mjög mikilvægt að sá réttur sé styrktur af löggjafanum. Ég ætla að leyfa mér, herra forseti, að vitna aðeins í nýja bók sem ég var að kynna mér eftir Bonnie J. McCay og heitir Oyster Wars and the Public Trust og er um þróun þessara átaka í Bandaríkjunum frá því á síðustu öld og þar til nú. Titillinn höfðar til þess sem kallað er ostrustríðið og fjallar um hverjir mega rækta ostrur við strendur Bandaríkjanna. En þar segir m.a. í þessari bók þar sem er rætt um almannarétt:

,,Réttur á almenningum er víða tekinn sem andstaðan eða vörnin gegn því að allir skapaðir hlutir komist í einkaeign. Til að vernda þá sem eru hlutfallslega eignalitlir eða valdalitlir, til að vernda þá á uppgangstímum kapítalismans. Þetta er óvanaleg regla í lögum sem styður almannahagsmuni og réttindi sem eru oft óljós, illa skilgreind og í andstöðu við eignarréttinn sem er mun betur skilgreindur og nákvæmari lagalega séð. Þegar þessi sjónarmið takast á fyrir dómstólum er algengt að einkaréttarsjónarmiðið verði ofan á ef hinn rétturinn er ekki þeim mun betur tryggður í lögum.``

Ég held að það sé einmitt þetta sem hér er að gerast. Hér hefur ekki ríkt sá vilji sem hefur þurft til að tryggja þennan almannarétt og þess vegna er mögulegt að koma fram með frv. eins og það sem hér um ræðir.

Virðulegi forseti. Eitt gott dæmi um dóma þar sem almenningssjónarmiðin urðu undir er dómur Hæstaréttar frá árinu 1981 um eignarréttarkröfur ríkissjóðs að Landmannaafrétti, en frá þessu er sagt nokkuð ítarlega í grg. frv. sem nú er til umræðu, og ég ætla að leyfa mér að vitna örstutt í grg. á bls. 10, með leyfi forseta. Þar segir:

[11:45]

,,Í dómi Hæstaréttar frá árinu 1981 um eignarréttarkröfu ríkissjóðs að Landmannaafrétti er tekið á þessu atriði. Dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á eignarrétt ríkisins með fullnægjandi rökum, en hreppum þeim, sem töldu sig hafa rétt til afréttarins, hafði í dómsmáli á sjötta áratugnum mistekist að sýna fram á fullan eignarrétt yfir afréttinum. Þá segir í dóminum: ,,Hins vegar verður að telja, að handhafa ríkisvalds, sem til þess eru bærir, geti í skjóli valdheimilda sinna sett reglur um meðferð og nýtingu landsvæðis þess, sem hér er um að ræða ...`` Hæstiréttur undirstrikar enn fremur þörfina á að setja lagaákvæði um þetta atriði og segir að ,,Alþingi hafi ekki sett lög um þetta efni, þó það hefði verið eðlileg leið til að fá ákvörðun handhafa ríkisvaldsins um málefnið``.``

Það er auðvitað verið að reyna að gera þetta núna í þjóðlendufrv. Það er mjög athyglisvert að dómstólar hafa bent á að ríkið hafi ekki getað sannað eignarrétt sinn vegna þess að það hafi ekki verið sýnt fram á að land hafi verið numið. Landnám gerðist aðallega á þjóðveldisöld, samanber Landnámabók. Mig minnir að því hafi verið hætt 1787, eins og kemur fram í grein Þorgeirs Örlygssonar. En þetta skýrir m.a. niðurlag 3. gr. frv., þ.e. í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra. Það er því alls ekki tryggt þrátt fyrir þjóðlendufrv. að auðlindir á þjóðlendum verði eign íslenska ríkisins.

Bæði í þessu frv. og í þjóðlendufrv. kemur sjónarmið allsherjarreglunnar alls ekki nægilega sterkt fram, það er meira sagt þannig að ef séreignarákvæðisreglurnar duga ekki alveg þá getur ríkið átt þetta. Það mun vera hugsunin en ekki að setja rétt allsherjarreglunnar sterkan fram fyrst á móti hinum. Hugsunin er séreignarreglan. Þau tæki til að ná þeim rétti fram eru fyrir. Ef viðkomandi getur ekki sýnt fram á afsal, nám eða eitthvað slíkt, þá er nýtingarrétturinn ríkisins.

Þetta eru ekki áherslur að mínu skapi, herra forseti, og því get ég alls ekki stutt hugsun þessa frv. Ég sit sem áheyrnarfulltrúi í hv. iðnn. og er samþykk áliti minni hlutans sem kemur fram á þskj. 1284 og hv. þm. Gísli Einarsson gerði grein fyrir í gær.

Ég vil vekja athygli á því sem fram kemur í því nefndaráliti að fjölmargt vantar nauðsynlega í þetta frv., auk þess sem það er í grundvallaratriðum á skjön við mína lífssýn eins og ég hef getið um hér að framan. M.a. vantar í þetta frv. --- eða eins og segir í nefndarálitinu:

,,að ekki er fjallað nægilega um eignar- og hagnýtingarrétt ríkisins á auðlindum í jörðu utan afmarkaðra eignarlanda,

að ekki er kveðið á um eignarrétt ríkisins að jarðefnum sem ekki hafa verið hagnýtt hér á landi þar sem þau hafa ekki fundist í nýtanlegu magni, þvert á móti eru þessi auðæfi afhent landeigendum,

að óljóst er kveðið á um eignarrétt ríkisins á orku háhitasvæða,

að ekki eru settar skýrar reglur um hvernig bætur skuli metnar fyrir tjón sem landeigendur telja sig verða fyrir vegna leyfisveitinga eða eignarnáms,

að í frumvarpið vantar skýrar reglur um leyfisveitingar til leitar, rannsókna og nýtingar á þeim auðlindum sem frumvarpið tekur til, svo og ákvæði um gjaldtöku fyrir réttindi til þess að leita að, rannsaka og nýta þær auðlindir,

að ekki eru í frumvarpinu nægjanleg ákvæði um umhverfismat umfram þau sem eru í gildandi lögum.``

Líka er rætt um brtt. sem kom fram seint í meðferð málsins um erfðaefni og mér skilst að þeirri brtt. hafi verið skotið inn í frv. í tengslum við fyrirhugað gagnagrunnsfrv. En í gær kom m.a. fram hjá hæstv. umhvrh. að þessi grein, sem nú er sett fram sem brtt. við þetta frv., þyrfti endurskoðunar við. Þetta sýnir mjög vel að mínu mati, herra forseti, hve þetta frv. er illa samið og eru enn ein rökin fyrir þeirri niðurstöðu minni og meiri hluta iðnn. að það beri að vísa frv. frá og vísa því til ríkisstjórnarinnar. Frv. er gallað eins og það er. Bæði eru skilgreiningar vafasamar og sumar greinar þurfa þegar endurskoðunar við jafnvel frá sjónarmiðum þeirra sem sætta sig við þessa stefnu sem frv. byggir á, séreignarstefnuna. Fyrir mig og fyrir okkur öll hin sem aðhyllumst allsherjarstefnu og sterkari rétt almannahagsmuna gegn sérhagsmunum, þá er frv. stórhættulegt og ber að hafna því í grundvallaratriðum.

Um þetta frv. bárust fjölmargar gagnlegar umsagnir. Mér sýnist miðað við ræður fyrri manna að flestum þeirra hafi verið gerð nokkuð góð skil. Þó er rétt að benda enn einu sinni á að aðili eins og Náttúruvernd ríkisins telur að frv. fullnægi alls ekki þeim skilyrðum sem beri að gera varðandi umhverfisvernd og það eru ótrúlegustu aðilar í þjóðfélaginu sem gera miklar athugasemdir við frv. Mér sýnist því ástæða til, herra forseti, að landsmenn rísi nú upp enn einu sinni og átti sig á hvað hér er á ferðinni. Þetta er partur af hálendisþrennunni en hér er beinlínis verið að flytja verulega peningalega hagsmuni til landeigenda, til einkaaðila en ekki til almennings, þ.e. hagsmuni sem nú ríkir óvissa um hver ráði yfir. Það er auðvitað pólitísk ákvörðun hvora leiðina við viljum fara. Auðvitað ber fyllilega að virða eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar en það skiptir verulegu máli hvort bætur eru í anda allsherjarstefnu þannig að fólk fái bætt fyrir það tjón sem það verður fyrir eða hvort það er bætt þannig að viðkomandi geti selt hæstbjóðanda, t.d. viðkomandi virkjunarrétt eða hvað það er sem um ræðir á tilteknu svæði, þ.e. eignarlandi.

Það er sorglegt að svo skuli vera komið að frv. sé af þessu tagi þó að það sé skiljanlegt í ljósi þess hverjir það eru sem hér fara með völd og setja þetta frv. fram, þ.e. Sjálfstfl. og Framsfl., sem passa það að landeigendur séu ávallt látnir njóta vafans.

Enn eitt dæmi um það, herra forseti, á sér stað þegar litið er á að eignarráðin eru skilgreind ofan í jörðina eða allt niður að miðju jarðarinnar. Um þetta atriði segir Þorgeir Örlygsson --- og það er reyndar einnig vitnað í það í áðurnefndri álitsgerð frá Tryggva Gunnarssyni og fleiri höfundum þessa frv. --- í grein frá 1994 úr afmælisriti Gauks Jörundssonar, með leyfi forseta:

,,Þótt það sé ekki talið vafa bundið samkvæmt framansögðu að réttur landeiganda nái jafnframt til umráða og nota undir yfirborði jarðar sem yfir því, er meira vafamál hver mörk verði að setja þessum eignarráðum landeiganda. Markalínan hefur ekki verið dregin við ákveðna dýpt, heldur hefur verið lagt til grundvallar, að miða verði við þær kröfur, sem eðlilegt sé að viðurkenna af tilliti til hagsmuna landeigenda. Verður í því sambandi að hafa í huga, að nútímatækni, t.d. við jarðhitaboranir og námuvinnslu, gerir hverjum og einum landeiganda auðveldara en áður var að nýta gögn og gæði fasteignar sinnar.``

Með öðrum orðum: Vegna nútímatækni er mögulegt að einkaaðili bori niður eftir vatni þó að það sé dýrt eða stofni til verulegs tilkostnaðar sem kannski áður fyrr var ekki hægt við annað tæknistig, og þá sé rétt, fyrst einkaaðilanum er hugsanlega mögulegt að gera þetta, að hann fái öll þessi gæði í sínar hendur. Þarna er sem sagt vafamál. Í staðinn fyrir eins og er í sumum frv. frá stjórnarandstöðunni, sem liggja hér fyrir, að miða við ákveðin dýptarmörk, þá er bara sagt: ,,Það er tæknilega mögulegt að eigandinn geti þetta núna og þá skulum við bara láta þetta allt verða hans.`` Þetta er enn eitt dæmið um hvernig vafasamar skilgreiningar eru túlkaðar landeigendum í hag.

Það skiptir mjög miklu máli fyrir alla framtíð hvernig þessi lagasetning tekst, t.d. þegar farið verður að ákveða hvernig á að bæta fyrir virkjanir, hver fær arðinn af þessum auðlindum. Verða það nokkrir einstaklingar eins og þetta frv. stefnir að eða almenningur sem að sjálfsögðu á að eiga hálendið og auðlindir þess. Það á að vera sameign þjóðarinnar en ekki einkaeign fárra.

Það er skoðun mín, herra forseti, og því legg ég eindregið til að þessu frv. verði vísað frá. Ég ætla ekki að elta ólar við einstakar greinar þess en við kvennalistakonur munum að sjálfsögðu greiða atkvæði gegn ýmsum greinum en styðja hugsanlega það sem til bóta horfir.