Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 12:00:47 (6491)

1998-05-12 12:00:47# 122. lþ. 125.2 fundur 359. mál: #A rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu# frv. 57/1998, SJS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[12:00]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Varðandi þetta ágæta frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu tel ég dálítið sláandi þá brtt. sem mér sýnist að meiri hlutinn hafi ákveðið að flytja við frv. hvað varðar fyrirsögn þess. Ef ég hef tekið rétt eftir eru hér á ferðinni hugmyndir um það, herra forseti, að beyta heiti laganna til þess að fela í raun og veru innihaldið. Eins og fyrirsögnin er á upphaflega frv. og það liggur hér fyrir þá er hún mjög lýsandi fyrir innihald málsins. Þetta er nefnilega frv. um eignarhald og út af fyrir sig nýtingu, eftir því sem hún kann að koma til, á auðlindum í jörðu. Þetta er frv. um algert eignarhald, algert einkaeignarhald landeigenda á öllum auðlindum í jörðu, á og undir því landi sem þeir geta sannað eignarrétt sinn á.

Ég held, herra forseti, að það hafi farið stórlega fram hjá mönnum hversu mikið grundvallarmál hér er á ferðinni þangað til að það er kannski að byrja að dragast fram í þessari umræðu. Ég held t.d. og er þeirrar skoðunar að það mál sem var hér mikið til umræðu fyrir nokkrum dögum síðan og gengur manna á meðal undir nafninu hálendismálið, en var reyndar frv. til sveitarstjórnarlaga, þar sem tvö ákvæði, fyrst og fremst 1. gr. og síðan ákvæði til bráðabirgða vörðuðu skipulagsmörk á hálendinu, sé hreint smámál borið saman við það sem hér er á ferðinni ósköp einfaldlega vegna þess að það var misskilningur að í því frv. í sjálfu sér fælust stórfelldar breytingar frá því sem áður hafði verið ákveðið eða reikna hefði mátt með, þ.e. að það yrði fest í sessi og staðfest að skipulagsmál væru á verksviði sveitarfélaga og síðan yrði eftir atvikum sérstaklega um það búið hvað varðaði miðhálendið og fyrir því eru auðvitað ærin rök. Það frv. snerist ekki um eignarhald eins og því miður þó margir ranglega halda eftir umræðuna þar sem hún kannski var ekki alltaf nógu skýr á köflum.

Þjóðlendufrv. var vissulega stórt. Það snýst um að festa í sessi, staðfesta eignarhald almennings, eign almennings eða rétt ríkisvaldsins fyrir hans hönd á því landi sem ekki er í einkaeigu. Þetta frv. er hins vegar gríðarstórt að mínu mati vegna þess að til framtíðar litið er algerlega ófyrirséð hvaða stórfelldu réttindi er verið að færa hér einkaaðilum, kannski tiltölulega fámennum hópi landeigenda. Það geta verið einstaklingar. Það geta verið sveitarfélög eða fyrirtæki eða aðrir slíkir aðilar og það ótrúlega þegar farið er betur yfir forsendur þessa máls er að það er í raun algerlega ófyrirsjáanlegt hversu stórfellt réttindaafsalið, að ég tel vera, er sem hér er á ferðinni frá því sem vera ætti að sjálfsögðu eign ríkisins og almannaeign í landinu yfir til einkaaðilanna.

Ég hafði, herra forseti, ekki lesið þetta mál vandlega í aðdraganda 1. umr. og í raun og veru var það ekki fyrr en málið kom aftur til umfjöllunar frá nefnd að ég tók mér það fyrir hendur að lesa það nokkuð vandlega eins og ég treysti að þingmenn geri yfirleitt áður en þeir fara endanlega að mynda sér afstöðu. Ég varð þeim mun meira undrandi sem ég las meira og velti þessu meira fyrir mér. Að lokum er ég alveg gáttaður á því að menn skuli láta sér detta í hug að ganga frá málinu á þennan hátt, algerlega gáttaður á því vegna þess að ég sé enga ástæðu til þess. Þó að menn vildu skýra réttinn, sem út af fyrir sig er ekki vanþörf á, þó menn vildu ganga tryggilega frá því að einkaeignarrétturinn innan eðlilegra og hófsamlega marka væri tryggður hvað varðar eignarrétt á landi, þó menn vildu ganga mjög skýrt frá því að eigendum lands væri í öllum tilvikum bætt það ef þeir yrðu fyrir ónæði eða tjóni eða rask yrði á þeirra högum vegna einhverrar nýtingar og mundu ganga frá því og þó menn jafnvel vildu ganga frá því að menn ættu sanngjarnan og hófsamlegan nýtingarrétt sjálfir, a.m.k. í eigin þágu, til eigin þarfa, á auðlindum sem kynnu að felast á eða undir landi þeirra, þá er engin ástæða til þess að flytja frv. eða ganga frá löggjöf með þeim ósköpum sem hér eru á ferðinni því þetta gengur svo mikið lengra.

Herra forseti. Við þingmenn Alþb. og óháðra höfum viljað ganga frá málinu algerlega frá öndverðri hlið og höfum lagt fram ekki færri en þrjú frv. á þinginu sem varða öll þetta mál, þ.e. frv. til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins, sem staðfesti í stjórnarskránni sameign þjóðarinnar á helstu auðlindum, frv. til laga um jarðhitaréttindi og frv. til laga um orku fallvatna. Gott og vel. Vera kann að ekki sé nú, því miður, frekar en verið hefur undanfarin þing nægjanlegur vilji til þess að ganga frá málinu á þennan hátt en þó er svo óralangur vegur frá því yfir í hitt sem þetta stjfrv. felur í sér að himinn og haf er þar á milli. Ég hallast að því að ef ekki er vilji til þess að staðfesta eignarráð ríkisins eða þjóðarinnar á helstu og stærstu auðlindunum eins og orkunni í fallvötnunum og orkunni í háhitanum, þá væri nær að nálgast málið frá þeim sjónarhóli að tryggja á eðlilegan hátt rétt einstaklinganna og láta þar við sitja.

Hvernig væri hægt að gera það? Það væri hægt að gera það með einfaldri löggjöf sem fæli í sér að landeigendum væri tryggður í fyrsta lagi auðvitað skýlaus bótaréttur vegna alls ónæðis, röskunar og óhagræðis sem þeir kynnu að verða fyrir vegna auðlindanýtingar á landi þeirra. Í öðru lagi jafnvel eðlilegur eigin afnotaréttur og nýtingarréttur innan hófsamlegra og skilgreindra marka og í þriðja lagi hugsanlega eitthvert afgjald, en eignarhaldinu sjálfu væri ekki slegið föstu því það er engin ástæða til þess. Það er engin ástæða til þess að útkljá þau mál svona. Ég spyr hæstv. iðnrh.: Hvaða knýjandi nauðsyn er á því t.d. að ganga frá eignarhaldi landeigenda að hafsbotninum innan netlaga? Hvaða ástæða er til þess?

Nýlega var samþykkt mjög merk löggjöf á þinginu, mjög merkt þingmál, að frumkvæði hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar sem gekk frá réttinum þjóðareign á hafsbotninum. Það var ekki sjálfgefið mál. Maður getur velt því fyrir sér ef það hefði dregist um einhvern tíma, hefðu ekki einkaeignarréttarsjónarmiðin farið að teygja sig til hafs og endað úti á 200 mílum eða úti á landgrunnskantinum? En þetta var samt gert og þess vegna er eðlilegt að spurt sé: Af hverju að ganga þá frá þessu svona? Ég segi, herra forseti, að ég á erfitt með að trúa því satt best að segja enn þá að það sé virkilega ætlunin að afgreiða þetta frv. vegna þess að mér finnst það svo stórt og þeim mun meir sem ég skoða það og les það, þeim mun meira undrandi verð ég á því að menn láti sér detta í hug að ganga svona frá þessu. Menn telja ef til vill réttaróvissu einhvers staðar uppi í þessum efnum sem sé ástæða til að eyða svo sem eins og gagnvart því að tryggja betur í einhverjum skilgreindum tilvikum stöðu landeigandans. En ég veit reyndar ekki til að það hafi skapað nein stórfelld vandamál, ekki einu sinni við nýtingu jarðhitans og ég mun fara yfir það betur á eftir hvernig það hefur gengið fyrir sig, t.d. í tilviki Hitaveitu Reykjavíkur þegar hún hefur samið við landeigendur. Vissulega voru þar að skapast fordæmi t.d. þegar samið var við eigendur Reykja. En það gekk líka tiltölulega átakalaust og vel fyrir sig.

Ég tel að löggjöf sem tengist þessu viðfangsefni hefði þá ekki átt að byggja á þeim grundvelli að útkljá og setja niður í eitt skipti fyrir öll eignarhaldið heldur hinu að tryggja á eðlilegan hátt réttarstöðu eigendanna eða umráðaaðilanna. Ég er alveg sannfærður um að það hefði mátt ganga á tiltölulega einfaldan og skýran hátt frá grundvallarreglum í þeim efnum sem hefðu verið fullnægjandi. Þá hefðu menn eftir atvikum getað látið það óútkljáð í bili þangað til að menn voru komnir að farsælli niðurstöðu í þeim efnum en nú blasir við, hvernig færi með sjálft eignarhaldið því það er ekkert smáræði sem verið er að slá hér föstu.

Ég ætla, herra forseti, að byrja aðeins á því að renna yfir og bera saman 1., 2. og 3. gr. frv. því að þær eru auðvitað alveg lykilgreinar í þessu sambandi. Við skulum líta aðeins á 1. gr., með leyfi forseta:

,,Lög þessi taka til auðlinda í jörðu í landi, í botni vatnsfalla og stöðuvatna og í sjávarbotni innan netlaga.``

Svo kemur skilgreining á því hvað átt er við með auðlind, hvað átt er við með þessu hugtaki í þessu samhengi, auðlind. Það er ekkert smáræði. Það er nefnilega átt við, herra forseti, með leyfi þínu:

,,Með auðlindum er í lögum þessum átt við hvers konar frumefni, ...`` Í fyrsta lagi eru það öll frumefni jarðarinnar eða sólkerfisins sem falla þarna undir. Það er ekkert undan skilið og heimurinn er nú einu sinni gerður úr frumefnunum. Þau eru netverkið í þessu.

Í öðru lagi eru það efnasambönd, þ.e. þegar búið er að raða frumefnunum eitthvað saman, öll efnasambönd, og orka sem vinna má úr jörðu. Það eru frumefni, efnasambönd og orka. Ekkert er undan skilið og hvort heldur orkan, efnasamböndin og frumefnin eru í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi. Ég þekki nú ekki fleiri form nema þegar þetta er að skríða yfir mörkin. Það er alveg sama í hvaða formi þetta er og án tillits til hitastigs sem þau kunna að finnast við. Það er allt frá hæstu hitum sem menn þekkja --- það finnast nokkur þúsund gráður í iðrum sólarinnar og það er sjálfsagt farið að volgna talsvert á vissum svæðum inni í jörðinni --- og niður í alkul, -273 komma eitthvað gráður á Celsíus ef ég man rétt. (KÁ : Fer það þá ekki að nálgast þann vonda?) (Gripið fram í: Þar hitnar.) Ja, það er bæði farið að hitna og kólna í þessum efnum.

Nei, herra forseti, það þarf ekki djúpstæða þekkingu á þessum málum til að átta sig á því að hér hefur tekist að hnoða saman í eina stutta lagagrein skilgreiningu á því hvað sé auðlind sem er svo víð að mig brestur algerlega hugmyndaflug til að sjá að nokkuð geti verið undan skilið, nokkuð nema einhver algerlega huglæg óefnisleg verðmæti, ef þau væru til, sem teljist þá ekki auðlind. Það er t.d. ekki víst að það tækist að flokka hugsanir manna sem stæðu á jörðinni sem einhver á sem auðlind í þessu samhengi því þær eru svona frekar óefnislegt og illmælanlegt fyrirbæri. Þó að þar fari einhver rafboð um o.s.frv. og einhver orka sé notuð, þá er kannski erfitt að ná utan um það. En í raun og veru er þetta þannig að erfitt er að hugsa sér að nokkur efnisleg fyrirbæri eða fyrirbæri orkulegs eðlis gætu sloppið þarna undan þannig að þá er það á hreinu að lögin taka til auðlinda og þá væntanlega allra auðlinda. Og auðlind er síðan skilgreind þannig að það tekur til alls sem hugsast getur, frumefna, efnasambanda, orku, í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi og án tillits til hitastigs.

[12:15]

Í öðru lagi, herra forseti, kemur í 2. gr. annað lykilhugtak málsins, fyrir utan orðið auðlind, og það er orðið eignarland. Það er skilgreint svo í 2. gr.:

,,Eignarland merkir í lögum þessum landsvæði, þar með talið innan netlaga í stöðuvötnum og sjó, sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma.``

Þetta er annað lykilhugtak málsins. Þarna er gert skýrt að þetta taki til allra landsvæða og líka netlaganna og færir slíkt land sem er í einkaeignarrétti undir.

Upphafsorð 3. gr. eru svo það sem á vantar til að hnýta þennan pakka saman, auðlindirnar, eignarlandið og eignarréttinn. 3. gr. er svohljóðandi:

,,Eignarlandi fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu, en í þjóðlendum eru auðlindir í jörðu eign íslenska ríkisins, nema aðrir geti sannað eignarrétt sinn til þeirra.``

Þá er þetta komið. Auðlindin er skilgreind þannig að ekkert getur verið undan skilið. Eignarlandið færir þetta undir einkaeignarréttinn og eignarlandinu fylgir eignarréttur á auðlindunum.

Það er kannski ástæða til þess að staldra aðeins við orðskýringar eins og í tilvikunum ,,jarðefni`` og ,,jarðhiti``. Það er kannski tvennt af því sem skiptir hér miklu máli. Jarðefni eru þannig skilgreind að undan því sleppur heldur ekki margt:

,,Jarðefni merkir í lögum þessum öll gosefni og önnur steinefni, málma, málmblendinga og málmsteindir, kol, jarðolíu, jarðgas og önnur nýtanleg efni sem finnast kunna í jörðu.`` Það er erfitt að ímynda sér að mikið sé undan skilið þarna.

Þó held ég, herra forseti, að snilld höfunda frv. rísi hæst þegar þeir skilgreina orðið jarðhiti. Hvað skal teljast ,,jarðhiti`` í merkingu þessara laga?

,,Jarðhiti merkir í lögum þessum annars vegar jarðvarmaforða í bergi í jarðskorpunni og hins vegar stöðugan straum varma úr iðrum jarðar sem ekki telst grunnvatn.``

Hvað er verið að segja með þessu? Það er verið að segja að allt hitastreymi úr möttli jarðarinnar, á leiðinni til yfirborðsins, skuli teljast jarðhiti í þeim skilningi sem mönnum er tamt að nota það orð, að það sé jarðhitinn við yfirborðið og það sem auðvelt sé að ná upp úr yfirborðinu. Það er ekki látið sitja við það. Nei, undir jarðhita fellur hitauppstreymið, alveg niður í iður jarðar í skilningi þessara laga.

Ísland er það sem á jarðfræðimáli er kallað heitur reitur eða ,,hot spot`` og hér er einmitt slíkt hitauppstreymi langt úr iðrum jarðar, neðan úr möttli af 1.000 km dýpi, það mælist í þúsundum km, og höfundar frv. telja allt þetta uppstreymi jarðhita og þar með munu þeir sem fá afhent jarðhitaréttindin eða eignarhaldið eiga þetta líka. Þetta er mikil snilld, herra forseti, það verð ég að segja. (Gripið fram í: Einhver sagði snilld.) Já, það er mikil snilld í þessu. Ég verð að segja að þó ég hefði vandað mig og legið yfir því, þá á ég erfitt með að sjá að það hefði verið hægt að gera þetta betur ef markmiðið hefur verið að tryggja með algerlega óyggjandi hætti að óhugsandi væri nokkur skapaður hlutur mundi nokkurn tíma finnast undir yfirborði jarðarinnar sem landeigandinn ætti ekki. Þá held ég að það hafi tekist vel. Ég óska höfundum frv. til hamingju með það afreksverk að hafa náð að róa svoleiðis fyrir hverja einustu vík í þessu að ég á erfitt með að ímynda mér að nokkurn tíma finnist nokkur skapaður hlutur nýtilegs eðlis, af einum eða öðrum toga, efnislegur eða óefnislegur, sem landeigendur eigi ekki, ef þessi lagasetning verður að veruleika. Það er ekki látið nægja, herra forseti, að taka yfir hinn þekkta heim. Það er ekki látið nægja. Það er sett undir þann leka að eitthvað kunni að uppgötvast í framtíðinni, ný frumefni finnist, efnasambönd eða eitthvað annað sem gætu orðið einhvers virði. Það er t.d. gert með þeirri skilgreiningu á hugtakinu ,,jarðefni`` að það taki, fyrir utan allt sem þar er upp talið úr hinum þekkta heimi, einnig til annarra nýtanlegra efna sem finnast kunna í jörðu.

Sjálfsagt er það þannig að þetta er ábyggilega ekki óviljaverk. Þetta er væntanlega vegna þess að höfundar frv. telja sig þess umkomna, og stuðningsmenn þess hér, að ganga frá þessu máli í eitt skipti fyrir öll, fyrir gervalla siðmenninguna á Íslandi svo lengi sem hún kann að standa. Núverandi landeigendur eiga samkvæmt þessu að eignast þetta ad infinitum, um aldur og ævi, og þá er ekki verið að ganga frá neitt litlu.

Þetta er gert þrátt fyrir að það hafi verið leitt fram, herra forseti, í umræðunum með óhrekjandi hætti í margvíslegum gögnum, af fólki sem er vel að sér um þá hluti, þ.e. hina lögfræðilegu hlið, að það er engin ástæða til þess. Það þarf ekki að afsala þessum réttindum til einkaaðilanna, til eigenda landsins. Það þarf ekki. Ég tel það t.d. vera þannig, eftir ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds hér í gær, að borðleggjandi sé að ekkert kalli á það að afhenda landeigendum netalagnirnar með þeim hætti sem hér er verið að gera. Að sjálfsögðu er hægt að tryggja þennan rétt eins og hann hefur að fornu verið, ganga frá honum þannig að hann út af fyrir sig standi. Það eru engin áform uppi um það að fella niður ákvæði Grágásar, Jónsbókar o.s.frv. sem enn er í gildi. Það er á sínum stað. Það er á hinn bóginn engin ástæða til þess, engin sérstök rök fyrir því að ganga lengra önnur en þau að flutningsmenn frv., aðstandendur frv., vilja afsala þessum réttindum, sem hafa verið almannaeign, til landeigenda.

Herra forseti. Frv. er að þessu leyti með ólíkindum. Það er í raun og veru með ólíkindum. Ég var að velta því fyrir mér hversu mönnum hafi farið aftur á Íslandi, hversu skammarlega léleg vinnubrögðin skuli vera orðin hér. Gengið skal frá þessu gríðarlega stóra máli hér, pína það í gegnum Alþingi með næturfundum og hörku og skjalið sem byggt er á er ómerkilegur snepill, það er snifsi. Hafa menn farið yfir gögnin sem lágu t.d. til grundvallar fossamálunum á sínum tíma? Hafa menn skoðað þá vinnu? Fyrir hartnær öld síðan unnu menn þykkar greinargerðir, rækileg lögfræðiálit og skýrslur. Vinnan sem maður stendur þar frammi fyrir er til fyrirmyndar. Það er ekki hægt að segja annað, herra forseti, en að það er hörmuleg afturför bæði í lýðræði og vinnubrögðum að sjá þá forsmán sem hér er á ferðinni.

Það voru ekki aðstandendur frv. í framsöguræðum eða greinargerðin sem gert hefur grein fyrir lagalegri stöðu málsins eins og hér hefur verið gert í umræðunni. Nei, það voru vinnusamir stjórnarandstæðingar sem tóku sig til og fóru yfir þá hluti. Ég vona að einhver skammist sín, t.d. eftir ræðu hv. þm. Ragnars Arnalds í gær. Þau gögn hefðu átt að fylgja frv. og koma fram í greinargerð eða a.m.k. í framsöguræðu fyrir áliti nefndar. Þannig hefði þingmönnum verið gerð grein fyrir réttarstöðunni í málinu og hverju væri verið að breyta frá þeim rétti sem verið hefur í gegnum tíðina og að svo miklu leyti sem hann hefur þá verið skýr. Nei, það var ekki gert. Aðstandendur málsins telja sér ekki skylt að standa fyrir því. Nei, þeir ætla bara að gera þetta svona, afhenda þetta si svona.

Þeir ætla að afhenda háhitann og netlögin án frekari rökstuðnings. Þó liggur hitt fyrir, hvort tveggja með mjög skýrum hætti, að hvað netlögin snertir er engin ástæða til þess. Það er augljóst mál að rétturinn getur staðið eins og hann hefur staðið og alveg glænýir dómar staðfesta það. Hvað háhitann varðar er það ljóst mál og hefur ekki verið hrakið. Þvert á móti hefur hið gagnstæða verið mjög vel rökstutt af lögfræðingum á undanförnum árum að ríkið getur sett þær takmarkanir á þann eignarrétt sem það telur eðlilegt að gera í þágu almannaheilla, innan þeirra marka að eðlilega og hófsamlega sé tekið mið af einkaeignarréttinum á landi og stöðu manna gagnvart því.

Það er algjörlega óhrekjanlegt að mínu mati, herra forseti, að það er engin ástæða til þess t.d. að slá einkaeignarrétti á jarðhitann, háhitann niður á margra km eða mörg þúsund km dýpi eins og þetta frv. gerir, svo ótrúlegt sem það er. Það má að vísu deila um hvort það sé alveg inn að kjarna jarðarinnar. Ég efast um að það. A.m.k. er ekki sannað, svo að ég viti til, að hitastraumarnir nái niður í möttulinn eða neðri möttulinn og tæplega kannski inn í kjarnann, alla vega ekki fasta kjarnann. En langleiðina, langt inn undir jarðarmiðjuna er verið að staðfesta einkaeignarréttinn eins og frá þessu er gengið hér í frv. Hvaða knýjandi þörf er á því, herra forseti? Er það ekki dálítið stærilæti af hv. stjórnarliðum að ætla sér að ljúka því snotteríi á nokkrum dögum hér á Alþingi og láta sig engu skipta þau rök og sjónarmið sem fram koma í málinu og hitt að um þetta er djúpstæður ágreiningur.

Herra forseti. Ég ætla aðallega að leggja út af því hversu fráleitur þessi frágangur málsins er með hliðsjón af jarðhitanum. Ég held að hv. þm. Ragnar Arnalds, Bryndís Hlöðversdóttir og Sighvatur Björgvinsson og fleira fólk hafi farið svo rækilega yfir hina lögformlegu og lagalegu stöðu málsins að þar sé ekki miklu við bætandi, alla vega ekki af minni hálfu. Ég hef ekki farið svo vel ofan í saumana á því máli að ég treysti mér til að bæta þar um betur. Kannski get ég þó eitthvað lagt af mörkum hvað varðar hina efnislegu hlið, þ.e. eðli og eiginleika þeirra auðlinda sem hér eiga við. Það sem stjórnarliðar og flutningsmenn frv. hafa ekki haft manndóm í sér til að gera, reynum við stjórnarandstæðingar að bæta með málflutningi okkar. Ég vísa til þess sem ég áður sagði um hraksmánarlega lélegan undirbúning þessa máls hvað varðar réttarhliðina. Ég mun hér á eftir einnig fara yfir auðlindahliðina og þá falleinkunn sem menn gefa sér sjálfir með því, t.d. ef tekið er mið af samanburði við undirbúning mála fyrr á öldinni, þegar fossamálin voru uppi og eins má taka þau frv. sem flutt voru á 6. áratugnum. Þá er gjarnan nefndur til sögunnar fyrrv. hæstv. forsrh., Bjarni Benediktsson, og sú vinna sem hann þá vann. Sömuleiðis er vitnað í Ólaf heitinn Jóhannesson, fyrrv. forsrh. og Einar Arnórsson fyrr á öldinni. Allt voru þetta merkir menn sem á sínum tíma höfðu mikil áhrif á réttinn.

[12:30]

Hvar eru spekingar ríkisstjórnarinnar nú af sambærilegum kalíber og þessir menn voru? Hvar eru lögfræðiálitin, greinargerðirnar og skýrslurnar sem jafnast á við þær bækur sem til urðu í kringum störf fossanefndarinnar eða hina þykku og efnismiklu greinargerð frv. frá 1957? Nei, það er þessi hörmung, það er þetta snifsi. Ég held að greinargerðin sjálf, ef greinargerð skal kalla, sé í aðalatriðum tvær og hálf blaðsíða. Það þarf ekki meira til þegar Framsókn ætlar um aldur og ævi að afhenda til einkaeignar þessi gífurlegu réttindi og verðmæti sem hér eiga undir sem ég held að þjóðin upplifi þannig að hún eigi ekkert síður en þjóðinni finnst eðlilega að henni komi allri við hvernig farið er með miðhálendið og náttúruperlurnar o.s.frv.

Herra forseti. Við skulum aðeins byrja á að staldra við jarðefnin hvað auðlindirnar snertir. Ísland er land mjög ríkt af margvíslegum jarðefnum en þau eru að mestu leyti sérstakrar gerðar af því að Ísland er ungt land, eitt af yngstu löndum á hnettinum, elsta berg á þurru landi nær tæpast 20 milljón ára aldri og það er lítið. Að stórum hluta til er landið eða a.m.k. yfirborð þess kornungt. Það er rétt að draga andann í jarðfræðilegum skilningi þess orðs. Stór hluti af miðbiki landsins og eiginlega allt yfirborð í gosbeltinu er frá jökultíma eða eftir jökultíma. En það þýðir ekki að þarna geti ekki verið margvísleg og dýrmæt jarðefni. Það eru það. Þau eru bæði á yfirborði en þau eru líka í bergi. Það er t.d. ljóst að Ísland er land sem er óvenjuríkt af lausum jarðefnum og þau jarðefni hafa nú þegar á síðustu árum og áratugum verið að taka á sig vaxandi verðmæti og nægir þar að nefna vikurinn. En enginn vafi er á því að margvísleg önnur laus jarðefni á yfirborðinu gætu með tíð og tíma orðið undirstaða að mikilvægri verðmætasköpun, iðnaðarframleiðslu o.s.frv. Það gætu t.d. ýmis gosefni orðið sem hafa sérstaka efnasamsetningu. Við erum með óvenjumikið af basískum jarðefnum, bæði lausum og föstum. Við erum með gosefni sem hafa snöggkælst vegna eldgosa undir vatni eða jöklum og þannig verða til ýmis undur eins og hrafntinnan og fleira þegar hraunkvika og gosefni kælast svo snögglega niður að þau ná ekki að kristallast eðlilega og verða glerkennd. Menn hafa horft lengi á möguleika þess að vinna úr slíkum hlutum eins og hrafntinnu, perlusteini og vikrinum.

Það hefur síður en svo verið afskrifað að sjaldgæfari verðmæt jarðefni kunni að finnast á Íslandi. Það stendur til að mynda yfir gullleit á Íslandi og alls ekki er óhugsandi að tækni og þekking færi menn þannig fram á veginn að t.d. í rótum gamalla megineldstöðva eigi menn eftir að finna sjaldgæf og verðmæt jarðefni í vinnanlegu magni. Það er alls ekki óhugsandi. Margt bendir til þess að við þær aðstæður sem þar skapast geti á mun skemmri tíma en annars gerist yfirleitt í náttúrunni orðið til mjög verðmæt sjaldgæf jarðefni, steindir eða frumefni einhver sem sjaldgæf og eftirsóknarverð eru.

Við skulum bara hugsa okkur að það finnist gull eða einhver önnur sjaldgæf og eftirsóknarverð efni í rótum einhverra gamalla megineldstöðva þar sem líklegast er að þau hefðu orðið til og þar sem þær eru orðnar veðraðar og orðið er aðgengilegt að komast að þeim er alls ekki fráleitt að einhver vinnsla gæti gengið. Að sjálfsögðu er augljóst mál að þetta frv. þrælneglir það niður að svo miklu leyti sem það hefur þá ekki þegar verið í námalögum og á grundvelli einkaeignarréttarins að öll slík föst efni í bergi undir einkalandi tilheyra landeigandanum. Það er alveg ljóst og það skiptir ekki máli af hvaða tagi þau efni eru eða í hvaða formi þau eru og hvort þau eru þekkt eða eiga síðar eftir að uppgötvast. Þau skulu síðar tilheyra landeigendunum.

Margir trúa því að olía eigi eftir að finnast á Íslandi og ég hef aldrei útilokað það þó að ég hafi að vísu oft mælt varnaðarorð og hvatt menn til þess að trúa ekki á það, a.m.k. ekki alveg eins og ljós lífsins fyrr en einhverjar sterkari vísbendingar væru þá komnar fram um það að olía fyndist í einhverju vinnanlegu magni a.m.k. á eða undir landinu sjálfu hvað sem vera kynni í setlögum þegar kemur út á landgrunnið, t.d. norðaustur af eða norður af landinu. En það er samt ekkert óhugsandi að ný tækni, sem alltaf fleygir fram, gæti leitt það af sér að olía í vinnanlegu magni eða gas næðist úr jarðlögum í seti, t.d. á Skjálfandaflóa. Það er þá jarðfræðilegt framhald af hinum frægu Tjörneslögum. Þar eru eins og menn þekkja þykk lífræn setlög, brúnkol eða surtarbrandur sem var unninn fyrr á öldinni. Hvar er líklegt að menn mundu reyna að bera niður ef þeir færu að reyna að bora til að vinna olíu úr setlögum á Skjálfandaflóa? Jú, það er einn borpallur á Skjálfandaflóa sem er þegar búið að byggja fyrir allnokkru og hann heitir Flatey, smáhraunkollur sem þar situr ofan á setlögum, fínasti borpallur. Það er mjög líklegt að menn mundi bera þar niður og byrja af borpallinum og bora þar. Menn þurfa ekki endilega að bora beint niður, menn geta borað í ýmsar áttir. Segjum að þar kæmust menn niður í jarðlög sem hefðu þá eiginleika að það væri hægt að draga úr þeim vökvann og olía leyndist annaðhvort jafndreifð í jarðvegslinsum þar eða hugsanlega í einhverjum geymum sem hægt er að draga úr. Það þyrfti ekkert að vera undir Flatey. Það gæti verið á ská 2--3 km, 4--5 km til hliðar. En sá sem ætti blettinn í Flatey þar sem borinn yrði reistur upp mundi sennilega eiga olíuna miðað við skilgreiningu hæstv. iðnrh. og hann fengi af henni allar tekjur. Ekki ríkið, ekki aðrir landeigendur á svæðinu, ekki sveitarfélagið. Nei, heldur er verið að afhenda einkaaðilanum, eigandanum þessa aðstöðu með þessari ævintýralegu skilgreiningu frv. eins þröng og hún er.

Herra forseti. Ég tel að út af fyrir sig séu viss efnisleg rök fyrir því að gera greinarmun á föstum jarðefnum og lausum eða fljótandi í þessu sambandi. Það er þá í öllu falli þannig að auðveldara er að afmarka það hvar er verið að vinna ef um föst efni, stöðug efni og staðbundin er að ræða en þegar um er að ræða fljótandi efni sem hreyfast til eða orku sem streymir. Að því leyti til má segja að það sé ekki algjörlega sjálfgefið að meðhöndla námur þar sem unnin eru föst efni eins og t.d. og jarðhita og olíu, þó að ég sé reyndar þeirrar skoðunar að það sama ætti að gilda um hvort tveggja og þetta allt, að slíkar auðlindir í jörðu eigi a.m.k. þegar komið er niður fyrir yfirborðið og ekki er lengur um laus eða föst jarðefni á yfirborði að ræða að vera sameign landsmanna, eign ríkisins. Mér finnst algjörlega skorta rök fyrir því að færa einkaeignarréttinn niður fyrir yfirborð jarðarinnar og ég segi alveg eins og er, herra forseti, mér finnst alveg nóg og rúmlega það að einhverjir tilteknir einstaklingar skuli geta slegið eign sinni á hluta af yfirborði jarðarinnar. Það er einu sinni þannig að nokkrir milljarðar búa á jörðinni og þurrlendið er ekki nema um 30% eða liðlega það af yfirborði jarðarinnar og fer jafnvel minnkandi ef svo heldur sem horfir með gróðurhúsaáhrifin og hækkandi hitastig á jörðinni og bráðnun jökla. Ætli veiti þá af að mannkynið reyni að koma þeirri skipan á að menn setji undir sameiginlega stjórn og nýtingu innan landamæra hvers ríkis fyrir sig þetta þurrlendi jarðarinnar? Auðvitað er út í hött að einn einstakur aðili eða ein fjölskylda geti slegið eign sinni á stórar spildur af þurrlendi jarðarinnar og ráðið algjörlega nýtingu þeirra og útilokað aðra ef út í það er farið. Það er alveg fáránlegt.

Ég er í grundvallaratriðum þeirrar skoðunar, herra forseti, að eðlilegasta fyrirkomulagið væri að enginn ætti land, ekkert væri til sem héti einkaeignarréttur á landi. Það væri aðeins til afnotaréttur. Það væri aðeins til nýtingarréttur og ráðstöfunarréttur í þeim skilningi að menn gætu fengið tiltekið land til þess að nýta það, búa á því, reisa hús, rækta garð sinn og í raun væri það þá nýting í þágu almannahagsmuna, þágu mannkynsins sem væri grundvöllurinn fyrir slíkri leyfisveitingu. Að öðru leyti held ég að þurrlendi jarðarinnar eigi að tilheyra mannkyninu öllu eins og það gerði í árdaga og gerir víða enn í þroskuðum menningarsamfélögum eins og meðal frumbyggjanna í Ástralíu sem byggja á 30--40 þúsund ára gamalli menningu sem stendur auðvitað mun sterkari fótum en okkar sem er ung og að mörgu leyti vanþroskuð. Þar hafa menn náð ótrúlegu jafnvægi í sambúð sinni við náttúruna og í raun og veru líka í samfélagsþróuninni sem er aðlöguð að aðstæðunum og jafnvæginu sem mannlífið verður að vera í við náttúruna á þeim slóðum. Þar dettur engum manni í hug einkaeignarréttur á landi. Það hugtak er ekki þekkt. Einn af mörgum menningarárekstrum t.d. búskmanna í Kalahari-eyðimörkinni og frumbyggja í áströlsku eyðimörkinni við vestræna menn þegar fundum þessara laust fyrst saman, það var þessir menn skildu ekki einkaeignarréttinn, þeir skildu ekki það hugtak. Þeir notuðu hlutina hver frá öðrum og á víxl og þeir nýttu landið saman og þeir skiptust á gæðum á fullkomlega ósjálfselskan hátt enda byggði tilvera þeirra á því að þannig væri. Þegar síðan hvíti maðurinn kom með græðgi sína og sinn blessaða einkaeignarrétt og fór að slá eign sinni á þetta og hitt og reka heimamenn burtu urðu auðvitað úr því árekstrar. En það var fljótafgreitt mál í þá daga því þetta voru villimenn og gott ef ekki réttdræpir, þá a.m.k. langleiðina það.

[12:45]

Nærtækt væri að líta t.d. til vina okkar á Grænlandi. Þar er líka merkilegt samfélag sem að vísu er búið að fara illa með. Það hefur þó þróast um a.m.k. 1--2 árþúsund í mjög merkilegu jafnvægi við náttúruna, veiðimannasamfélag, kannski nokkuð þróaðra en safnarasamfélag. Þar er nákvæmlega sama fyrirkomulag, þar dettur engum einkaeignarréttur í hug. Það hefði þótt fráleitt t.d. að slá einkaeignarrétti á veiðistöð í hinu forna grænlenska samfélagi. Ég hygg að engum manni hafi dottið það í hug. Það kann að vera að það hafi hins vegar fylgt hvíta manninum þangað eins og víðar, þegar frændur vorir og vinir, Eiríkur rauði og hans menn, fluttu þarna yfir. Það kann að hafa valdið árekstrum sem síðar urðu með hvítum mönnum og inúítum í Grænlandi og eiga e.t.v. þátt í því að búseta hvítra manna leið þar undir lok. Að grundvalla nýtingu náttúruauðlindanna á einkaeignarrétti hvarflaði ekki að neinum í þessum samfélögum. Þessi hugsun náði einungis fótfestu þar sem hin vestræna menning hélt innreið sína.

Herra forseti. Ég ætla þá að víkja aðeins betur að þessum auðlindum og taka þá fyrir jarðhitann. Ég held að hann sé kannski að mörgu leyti, ásamt orku fallvatnanna en jarðhitinn alveg sérstaklega, ágætlega til þess fallinn að maður átti sig á þeim ósköpum sem í raun og veru á að gera með þessu frv., þeirri fráleitu ráðstöfun að færa hitann í iðrum jarðarinnar undir einkaeignarrétt.

Ég vísa í því sambandi aftur til þess frv. sem við þingmenn Alþb. og óháðra höfum flutt, á mörgum þingum undir forustu hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar, um þá skoðun okkar að fyrirkomulagið eigi að vera þannig að ríkið eigi jarðhita neðan við 100 metra dýpi en landareign, sem er háð einkaeignarrétti, fylgi réttur til umráða og nýtingar jarðhita á og undir yfirborði hennar, á allt að 100 metra dýpi. Af því leiðir að sjálfsögðu að landeiganda er þá rétt og skylt að bora eftir og hagnýta sér jarðhita innan þessara marka. Ég held að með því sé ágætlega séð fyrir því sem hægt er að heimfæra undir eðlilegan afnotarétt í þágu landeigandans. Þetta felur í sér að eigandinn getur hagnýtt sér allan sjálfrennandi hita á yfirborði og orku sem auðunninn er úr efstu lögum jarðskorpunnar. Því eru hins vegar sett þau mörk að sá réttur hann er ekki ótakmarkaður og nær ekki endalaust niður í jörðina. Hann felur ekki í sér möguleika til að draga t.d. orku upp úr hitageymi, sem getur sótt sér orku víða að. Á því er auðvitað mikið minni hætta ef nýtingin er takmörkuð við efsta yfirborð landsins.

Þetta er tillaga okkar, herra forseti, og er mjög sambærileg við það sem hefur verið flutt af þingmönnum Alþfl. hér í gegnum tíðina. Samkynja er svo frv. um orku fallvatna og nýtingu þeirra, að orka fallvatna skuli vera eign íslenska ríkisins með þeim sambærilegu frávikum eða undanþágum að tiltekin framleiðsla innan hóflegra marka í eigin þágu, í frv. er talað um 200 kw., sé til ráðstöfunar fyrir þá sem vilja virkja fyrir sig.

Þriðja frv. í þessum pakka er eins og áður sagði, stjórnarskrárfrv., sem almennt staðfestir þessa sameign á verðmætum í sjó og á sjávarbotni, almenningum, afréttum, námum í jörðu, orku í rennandi vatni og jarðhita neðan við 200 metra dýpi.

Þetta, herra forseti, er sem sagt okkar nálgun við jarðhitann. Af hverju ættu menn nú að hafa sérstaklega áhyggjur af honum eða vera sérstaklega að tala um hann? Er ekki nóg af jarðhita, er ekki nóg af orku og er nokkur ástæða til þess að gera sér rellu út af þessu? Ja, það er nú það, herra forseti. Staðreyndin er sú að menn vita í sjálfu sér ekki svo mikið, alla veganna ekki svo tæmandi sé, hversu stór orkuforðinn er, geymirinn sem felur í sér jarðhitann. Menn vita að það er mikil orka á mörgum háhitasvæðum og víða á hinum heitari svæðum. Menn vita að það hefur tekist ágætlega að beisla þessa orku til upphitunar og raforkuframleiðslu. Menn vita að um nokkurra áratuga skeið hefur svo verið gert en þar með er það líka upp talið.

Þá er mörgum spurningum samt ósvarað, spurningum um það hvaða áhrif þessi nýting hafi, hversu varanlegur geymirinn er, að hve miklu leyti um endurnýjanlega auðlind er að ræða eða að hve miklu leyti hún tæmist. Hvaða afleiðingar mun það hafa, hve hratt gerist það, hvaða áhrif hefur það á umhverfið o.s.frv.? Staðreyndin er nefnilega sú að þó að Íslendingar séu býsna framarlega, og sjálfsagt má segja mjög framarlega í þekkingu á jarðhita og nýtingu hans og beislun og óumdeilanlega í forustu í heiminum að mörgu leyti í þeim efnum, þá er það samt gífurlega mikið sem við vitum ekki. Hlutirnir eru sífellt að þróast í þeim efnum.

Ég var síðast í morgun, þegar ég var að undirbúa mig undir þessa umræðu og naut við það aðstoðar góðra félaga minna og lærifeðra fornra, að komast að því hversu gjörsamlega úreltar sumar upplýsingar eða kenningar sem ég þóttist búa yfir frá fyrri tíð, voru orðnar í ákveðnum tilvikum. Þá þróast þetta svo, á ekki lengri tíma en kannski 15 árum, að menn hafa gjörsamlega endurskoðað ýmsar eldri kenningar sem þá þóttu býsna góð vísindi. T.d. eru nú úreltar kenningar um hvaða áhrif nýtingin hefur og hversu mikill og varanlegur orkuforðinn er.

Menn hafa, herra forseti, í daglegri umfjöllun um hitann í gegnum tíðina skipt þessu upp í lághita og háhita. Menn tala um yfirborðshita og hita sem liggur dýpra niður. Þegar upp er staðið eru auðvitað ýmis vandamál við alla þessa skilgreiningu. Kannski er best að tala bara um jarðvarmann eða jarðhitann sem eitt samfellt fyrirbæri þar sem engin glögg mörk séu, hvorki út frá hitastigi, dýpi eða öðru slíku. Það breytir þó ekki því að það væri enginn vandi að skilgreina það sem menn teldu t.d. tilheyra yfirborðinu og vera í raun og veru yfirflöturinn á jarðhitageyminum og þá nýtingu sem eingöngu beindist að þessu yfirborði.

Það má segja að 100 metra reglan, sem stundum áður var nú á reikinu kannski 50--100 metrar, hún sé ákveðin tilraun til þess að búa til viðmiðunarmörk. Hún er að mínu mati ágætlega brúkleg. Það er líka hægt að hugsa sér hitastigsaðgreiningu og miða þá við suðumarkið. En það er líka auðvitað ósköp einfaldlega hægt að hugsa sér að mæla þetta í orkueiningum og skilgreina eins og menn ætla að gera gagnvart virkjunarstærðunum í fallvötnunum, hvort sem það eru nokkur hundruð kílóvött eða eitt, tvö megavött, þá er auðvitað ekkert vandamál að nota í þessu tilviki bara orkueiningu til skilgreiningar á því hvað sé hóflegt, eðlilegt eða sanngjarnt orkumagn sem t.d. landeigandi út frá sínum yfirborðseignarrétti geti nýtt sér. Það er ekki stórfellt vandamál í mínum huga að leysa.

Hitt ætla ég að segja, herra forseti, að það að láta sér detta í hug að það skapi ekki vandamál að slá einkaeignarrétti landeigenda á alla jarðhitageyma undir þeirra landi er alveg ótrúlegur barnaskapur. Ég vildi gjarnan, herra forseti, að hæstv. iðnrh. hlustaði á þetta. Ég trúi þó enn það á skynsemi mannsins að ég trúi ekki öðru, ef hæstv. iðnrh. færi yfir þetta með góðum mönnum sem hann getur kallað til og hafa vit á þessum hlutum, en að þá sjái hann að hér eru menn að fara út í algera ófæru. Að mínu mati er hvorki tæknileg og þaðan af síður jarðfræðileg eða jarðeðlisfræðileg forsenda til þess að afgreiða málið eins og hér á að gera. Ég fór yfir það, hvað varðaði olíuna, að menn gætu átt eftir að reka sig á ef fyndist nú vinnanlega olía eða jarðgas, og þau vandamál eru vel þekkt frá olíuvinnslusvæðum. Einhverjir muna kannski eftir deilum Dana og Norðmanna um það hver væri að stela af hverjum á mörkum olíusvæðanna í Norðursjó þar sem lögsögumörk Noregs og Danmerkur mætast á svæðum þar sem olíu eða gas er að finna. Þá hófst upp þræta um að hvor væri þar að stela af öðrum.

Hvernig var sú deila? Hún var ósköp einfaldlega vegna þess að olíulindir eða gegndræp berglög í jörðu sem geyma olíu eru ekki fast efni, þau eru ekki stöðug. Þau bregðast við vinnslu. Efnið sem verið er að vinna það streymir. Það þarf ekki flókin fræði til að átta sig á því að það geta skapast vandamál. Þessar ósýnilegu línur sem menn draga á kort á yfirborði jarðar og þess vegna á hafflötinn eða sjávarbotninn, framlengjast ekki niður í jörðina og verða enn síður að veggjum þar sem hólfa þetta sundur.

Staðreyndin er auðvitað sú, hæstv. iðnrh., að það er algjörlega ómögulegt að ganga frá málinu með þessum hætti. Ég fullyrði það, hæstv. iðnrh., að enginn sómakær jarðfræðingur fæst til þess að skrifa upp á að nokkurt vit sé í þessu. Ég skal fara mjög rækilega yfir það fyrir hæstv. iðnrh. hver vandamálin verða sem skapast af því að ætla að fara að hólfa niður með einkaeignarrétti jarðhitageyma langt, langt, langt niður í iður jarðar. Það er algjör þvæla. Það er erfitt að eiga við olíuna og gasið, vegna þess hvernig það getur þrátt fyrir allt streymt. Það er þó held ég skárra að leysa úr þeim málum heldur en það væri að ætla sér að hólfa svona niður jarðhitageymana.

Herra forseti. Þessi auðlind, orkulindin, er ekki stöðug, hún er ekki passíf. Þetta er ekki fast jarðefni, þetta er ekki náma sem hægt er að setja hnit á og með leysitækni átta sig á því djúpt niðri í göngum eða í iðrum jarðar hvar þú ert staddur. Það dugar ekki. Jafnvel þó þú vitir hvert borholurnar þínar liggja þá veist þú ekki hvaðan efnið sem þú ert að draga inn í borholurnar kemur. Þó þú vitir hvaðan það kemur þá er það lítið gagn ef það sannanlega er að streyma frá öðrum svæðum. Fyrir utan auðvitað, herra forseti, hugsunina í þessu. Kannski er rétt að byrja á að átta sig á því hvort þessi nálgun málsins er einhver hemja. Er einhver sanngirni eða skynsemi af einu eða öðru tagi, fólgin í henni? Ég held ekki. Ég held það bara skorti algjörlega rökin fyrir því. Það er þá ekkert annað en pólitískur geðþótti, pólitískt gerræði, að ganga svona frá málinu þegar öll efnisleg rök skortir.

[13:00]

Ég veit ekki hvort hæstv. iðnrh. er kunnugt um hve bortækni við nýtingu jarðhita hefur fleygt fram og hversu margt er orðið hægt í þeim efnum sem enginn lét sér detta í hug að gera fyrir ekki mjög löngu síðan. Það er t.d. ekkert óskaplega langt síðan skáborun varð yfirleitt þekkt eða viðráðanlegt fyrirbæri sem menn fóru að ná almennilegum tökum á. Það var fyrst og fremst nýtingin í olíu.

Herra forseti. Ég sé að klukkan er orðin eitt.

(Forseti (ÓE): Já, forseti vill spyrja hv. þm. hvort hann ... )

Formaður minn er orðinn órólegur og hann vill væntanlega fá mig á fund.

(Forseti (ÓE): Það er einmitt. Forseti vill spyrja hvort hv. þm. getur áætlað hversu langt hann á eftir af ... ?)

Það er, held ég, alveg óhugsandi að það klárist á einhverjum fáeinum mínútum, herra forseti, því miður.

(Forseti (ÓE): Nei. Vill hv. þm. þá ekki fresta ræðu sinni?)

Ég er alveg til í það. Ég mun þá að vísu aðeins þurfa að rifja upp aftur innganginn að þessu með jarðhitann.

(Forseti (ÓE): Það er mjög skiljanlegt.)

Ég mun þá bara gera það.

(Forseti (ÓE): Þá er fundinum frestað til kl. hálftvö.)