Þjóðlendur

Þriðjudaginn 12. maí 1998, kl. 13:36:54 (6495)

1998-05-12 13:36:54# 122. lþ. 125.1 fundur 367. mál: #A þjóðlendur# frv. 58/1998, HG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 122. lþ.

[13:36]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Við alþýðubandalagsmenn og óháðir styðjum meginefni þessa frv. Hér er verið að setja í lögbundinn farveg mál sem Alþb. hefur lengi borið fyrir brjósti og flutt tillögur um á Alþingi að fá skorið úr um eignarráð yfir hálendissvæðum þar sem óvissa hefur ríkt og dómstólar vísað málum til löggjafans.

Um leið og ég segi þetta vil ég taka fram að við höfum vissar efasemdir um ákvæði sem verið er að setja varðandi meðferð máls, eins og það kemur fyrir í 3. gr. frv. Við hefðum talið skynsamlegra að hafa breiðari grunn í sambandi við málsmeðferð en að leggja málin til forsrh. eins, eins og þarna eru gerðar tillögur um. Eins eru samskipti ríkisvaldsins og sveitarstjórna sett hér fram með þeim hætti að nokkur óvissa er um hvernig með skuli fara. Að öðru leyti fögnum við frv. og styðjum brtt. nefndarinnar og brtt. á þskj. 1291.